Litli Bergþór - 01.06.2021, Blaðsíða 3
Litli-Bergþór 3
Formannspistill
Ég vil byrja á að þakka öllum, sem koma að starfi Ungmennafélagsins með
einum eða öðrum hætti, kærlega fyrir vel unnin störf. Það eru ekki margir
sem koma að þessu starfi og flestir hafa meira en eitt hlutverk innan félagsins.
Þannig að hver og einn hefur nóg af verkefnum. Erum við í stjórn félagsins rosalega
þakklát ykkur fyrir alla þessa vinnu, sem er öll unnin í sjálfboðavinnu.
Nú hljóta allir að vera sammála um að Ungmennafélagið eigi að vera virkt, það eigi að bjóða uppá íþrótta
æfing ar sem henti flestum iðkendum ásamt öllu öðru starfi sem félagið býður uppá. En öll þessi vinna liggur á
herðum fárra.
Mæting á aðalfundi félagins síðustu ár hefur verið afar dræm og í raun ekki aðrir mætt en þeir sem starfa fyrir
félagið.
Ég ætla að leyfa mér að segja að með þessu er öllum þeim sem vinna í sjálfboðavinnu fyrir félagið ekki sýnt
mikið þakklæti fyrir þeirra störf. Aðalfundur er fullkominn vettvangur til þess að koma fram með hugmyndir,
ræða hvað er gott og hvað mætti betur fara.
Við í stjórn aðaldeildar skoðum allar leiðir til þess að létta undir með þeim sem starfa fyrir félagið og lögðum
við nú fyrir aðalfund tillögu um að útvista bókfærslu og ársreikningum allra deilda innan félagsins. Mun aðaldeild
standa straum af kostnaði sem af því hlýst. Var tillagan samþykkt.
Nú er það svo að ég bý og starfa á höfuðborgarsvæðinu og hef því átt erfitt með því að sinna þessu starfi eins
vel og ég myndi vilja, en reyni mitt besta á meðan enginn annar fæst til að gegna formannsembættinu.
En ef ég tala nú á jákvæðari nótunum þá hefur það í töluverðan tíma verið draumur hjá okkur í félaginu, og
þá sérstaklega mér, að stofna rafíþróttadeild.
Í vetur hefur Bláskógaskóli í Reykholti haft rafíþróttir í vali undir dyggri leiðsögn Öglu Snorradóttur. Hefur
hún stýrt þessu starfi mjög vel, ásamt því að fara með hópinn á sitt fyrsta rafíþróttamót í vetur. Þá hjálpaði hún
nemendunum að stofna sína eigin rafíþróttadeild, sem heitir Biskuparnir, og er með eigin
stjórn og samþykktir. Sótti þessi deild um aðild að Ungmennafélaginu og er nú orðin að deild
innan félagsins.
Á döfinni hjá deildinni er að óska eftir inngöngu í Rafíþróttasamband Íslands og keppa á
öðru rafíþróttamóti í sumar. Svo í framhaldinu verður fundinn aðili til þess að sinna þjálfun
og fræðslu.
Íþróttadeild hefur á haustönn boðið uppá fótbolta, frjálsar, fimleika, Þrek og Yoga svo flestir
ættu að hafa fundið sér eitthvað við hæfi. Áfram hafa iðkendur svo keppt undir merkjum ÍBU
– Uppsveitir á hinum ýmsu fótboltamótum.
Við vonum öll að nú á haustönn hafi Covid-19 og samkomutakmarkanir í síðasta sinn haft
áhrif á starf Ungmennafélagsins.
Kristinn Bjarnason lét af störfum sem gjaldkeri leikdeildar og í hans stað kom inn Sigurjón
Sæland. Þökkum við Kristni fyrir sín störf á sama tíma og við bjóðum Sigurjón Sæland
velkominn til starfa. Leikdeildin hefur ákveðið að gera tilraun með að setja upp leiksýningu
að hausti til, þar sem veður hefur oft haft áhrif á mætingu eftir áramót. Er það spennandi
tilbreyting og vonandi að það gangi vel.
Nú er ritnefnd að ljúka við fyrra blað Litla-Bergþórs á þessu ári. Veit ég að blaðið verður
hlaðið skemmtilegu og fræðandi efni og hlakka til þess að fá það í hendurnar. Ritnefnd má svo
sannarlega vera stolt af flottu blaði.
Að lokum vil ég minna á fésbókarsíður félagsins þar sem hægt er að finna hinar ýmsu upplýsingar um starf
félagsins:
Íþróttadeild Umf-Bisk,
Litli-Bergþór. Blað ungmennafélags Biskupstungna og
Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna.
Með kærri kveðju og ósk um gleðilegt sumar,
Oddur Bjarni Bjarnason, formaður.
Af hverju
spurði enginn
mig?
Ég væri til í að
vera formaður