Litli Bergþór - 01.06.2021, Page 21
Við afi
Fyrst komu sögurnar svo kom fólkið til að segja
þær. Á tveggja tíma göngu að úthallanda nóttu lifi
ég í heimi sagna, mannheimur sefur eða er horfinn
að eilífu.
Hann afi minn þótti góður bóndi en bjó með
sögum – við lifðum samtímis fáein ár – hann
lést þegar ég var nýorðinn átta ára. Við sátum í
myrkrinu – hann var búinn að leysa fjósheyið í
hlöðunni og láta í meisana, moka flórinn. Pabbi
og mamma voru að mjólka og oftast amma líka
– við systkinin inni í bæ hjá afa. Afi minn kunni
ekki að mjólka því að hann var alinn upp á þeirri
tíð er ekki þótti við hæfi að karlmenn settust undir
kú.
Fjósluktin að sjálfsögðu úti í fjósi á mjöltum en
kom inn með fólkinu og var hengd á krókinn yfir
eldhúsborðinu – okkur afa þótti ekki taka því að
kveikja á tíulínalampanum í baðstofunni. Nú-nú,
sagði hann, á þeim orðum hóf hann hverja sögu
– nú-nú, hóf hann mál sitt eftir hverja málhvíld.
Ég hélt í höndina á honum hnýtta og hnúskótta
eftir erfiði ævinnar, neglurnar kúptar. Og
sögurnar – þær voru rímnaflokkar, ýmist fluttar
í bundnu máli eða endursagðar, þær voru sögur
af eftirminnilegu fólki, þær voru sögur af
góðum hestum og vitrum sauðkindum, sögur af
fjárgeymslu og smalamennskum austur á Síðu
á þeim miklu útbeitarjörðum sem setnar voru
austur þar.
Austur á Síðu var afi minn fæddur og uppalinn og
þar hafði hann átt sín fyrstu manndómsár, kvænst
og stofnað fjölskyldu – flutti tæplega þrítugur út
í Tungur. Engin leið var til baka og eins og hjá
Vesturförum þá lifði gamla sveitin hans afa með
honum allt til efsta dags. Hann dó í baðstofunni
heima úr krabbameini eftir ólýsanlegar þjáningar
– ég man höfuðið hans á koddanum daginn áður
en hann skildi við, grátt skeggið og þunnt, hvítt
hárið og ég hugsaði um allar ósögðu sögurnar
sem þar byggju.
Yst á nesjum í einveru nætur teygja gamlar sögur
sig upp í meðvitundina og segja – segðu okkur,
gerðu það fyrir okkur, segðu okkur – þótt þú sért
ekki sögumaður eins og hann afi þinn þá getur þú
að minnsta kosti reynt.
Galtalækjarbærinn
Þetta er Galtalækjarbærinn en í honum fæddist
ég og ólst upp fram á tólfta ár. Íbúðarhúsið eða
bærinn eins og kallað var eru burstirnar tvær til
vinstri, breiða burstin til hægri er fjóshlaðan.
Pabbi minn – Hermann Egilsson (1906-1992)
byggði öll þessi hús árin 19281930 og Jóhannes,
Nói, bróðir hans (1904-1991) að einhverju leyti
með honum. Pabbi var þá 2224 ára gamall.
Timburhús í burstabæjarstíl voru byggð á næstum
því hverjum bæ í Árnessýslu um þær mundir en
hvergi annars staðar á landinu eða það held ég, Ég
hef látið mér detta í hug að fyrirmyndin gæti hafa
verið Laugarvatnsskólinn sem byggður var þau
sömu ár eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.
Bærinn var úr timbri og forskalaður stafn með
skeljasandsífyllingu – ljómandi fallegur var sá
bær – hlaðan aftur steinsteypt, fjós að bæjarbaki.
Þegar þeir bræður negldu kjölinn á hlöðuna á
miðju sumri 1930, þá leit Nói niður um rifuna
í mæninum og sagði – skyldum við nokkurn
tímann fylla þetta gímald? Þeir bræður voru
afburðasláttumenn en vélar enn bara draumur.
Við afi. Egill Egilsson (1870-1954) bóndi á Galtalæk og Jónatan
Hermannsson sonarsonur hans fæddur 1946.
Galtalækjarbærinn, byggður 1928-1930, með trjágarði og hlöðu.
Mynd Guðmundur Egilsson.
Litli-Bergþór 21