Litli Bergþór - 01.06.2021, Side 29
Litli-Bergþór 29
Jafnlaunavottun. „Bláskógabyggð hlaut í
febrúar jafnlaunavottun, sem er staðfesting á því að
jafnlaunakerfi sveitarfélagsins samræmist kröfum
jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Meginmarkmið
jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum
launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á
vinnumarkaði“.
Nýir eigendur að lögbýlum í Skálholtssókn.
Breyting hefur átt sér stað á eignarhaldi og ábúð
nokkurra lögbýla í Laugarási og nágrenni og
viljum við nota þetta tækifæri og kynna nokkra
þessara nýju íbúa sveitarfélagsins um leið og við
óskum þeim velfarnaðar.
Fyrst er að telja að þann 1. júní 2020 keyptu Anna
Margrét Elíasdóttir, bókari og frístundabóndi, og
Árni Ingason, sem vinnur hjá Keracis, Kvistholt
(áður í eign Drafnar Þorvaldsdóttur og Páls M.
Skúlasonar) og búa þau þar.
Síðastliðið sumar fluttu Ólöf Kristjánsdóttir og
Ólafur Gunnarsson, ásamt Gabríel syni þeirra, að
Helgastöðum 1 (áður í eigu Jóns Sigurbjörnssonar).
Þau höfðu búið í Bandaríkjunum í um tuttugu ár
en njóta nú sveitasælunnar á Helgastöðum.
Þá fluttu Anna Svava Sverrisdóttir og Úlfar
Örn Valdimarsson í íbúðarhúsið að Laugargerði
(áður í eigu Fríðar Pétursdóttur), í ágúst 2020.
Þau starfa að myndlist og hafa verið að koma upp
vinnustofu í aðstöðuhúsi sínu. Þar er ætlunin að
taka á móti gestum og gangandi.
Geysisbúðirnar loka. Geysisbúðunum, 6 að
tölu, þ.m.t. Geysir shop í Haukadal, var lokað 2.
febrúar 2021 og öllum starfsmönnum sagt upp.
Hótel Geysir hefur nú keypt allar vörubirgðirnar
af þrotabúinu og hyggst reka áfram verslunina á
Geysi auk þess að þróa nýja bað og snyrtivörulínu.
Sköpum saman. Undanfarin ár hefur hópur
kvenna hist reglulega og unnið að margvíslegri
sköpun, meðal annars má nefna leirgerð og
ýmiskonar prentlist. Covid19 veiran hefur sett
sitt strik í reikninginn hvað samveru varðar en
nú eru þær byrjaðar að hittast á ný og margt
skemmtilegt verður gert á næstu vikum og
mánuðum. Gestakennarar hafa komið og munu
halda því áfram. Áherslan er lögð á samveru,
sköpun og fræðslu af ýmsum toga. Stefnt er að
samverustundum tvisvar sinnum í mánuði og að
meðlimir hópsins skiptist á að bjóða heim til sín
þar sem aðstæður leyfa.
Vatnsmál í Laugarási. Að morgni 10.
febrúar áttuðu nokkrir íbúar Laugaráss sig á
kaldavatnsleysi í húsum sínum. Kom í ljós að
lögn hafði farið í sundur og fljótlega var hafin
viðgerð á henni. Eftir því sem leið á daginn urðu
garðyrkjubændur smeykir því fljótt tók að minnka
í vatnstönkum býlanna og fór svo að óska þurfti
eftir tankbíl frá sveitarfélaginu með vatn og var
vel tekið í það. Kom Bjarni Daníelsson á bíl
slökkviliðsins og fyllti á tanka hjá þeim bændum
sem þess óskuðu. Viðgerð lauk um kvöldið og allt
fór vel.
Leitað að heitu vatni fyrir Reykholt og
Laugarvatn. Eftir mikla uppbyggingu gróður
húsa í Reykholti á síðustu misserum, hefur á
álagstímum borið á heitavatnsskorti þar þrátt
fyrir bætta nýtingu vatnsins í gróðrarstöðvum. Á
Laugarvatni eru einnig vandræði með heita vatnið
vegna útfellinga. Samkvæmt Helga Kjartanssyni
oddvita hefur sveitarstjórn því fengið Íslenskar
Orkurannsóknir (ÍSOR) til að skoða álitlega staði
í nágrenni þorpanna til að bora eftir meiru af heitu
vatni.
Hagsmunafélag Laugaráss. Þann 3. febrúar
síðastliðinn var efnt til íbúafundar í Slakka í
Laugarási, jafnframt var íbúum gefinn kostur á að
sækja fundinn á netinu. Á fundinum var ákveðið
að stofna hagsmunafélag á formlegum fundi og
var skipaður hópur til undirbúnings stofnunar
þess. Búið er að semja drög að samþykktum
Hagsmunafélags Laugaráss og framundan er
boðun stofnfundar þess.
Björgunarsveit Biskupstungna. Samkvæmt
Sigurjóni Pétri Guðmundssyni hefur lítið verið
um að vera hjá Björgunarsveitinni í vetur, enda
snjólétt og góðviðrasamt. Þó fóru nokkrir félagar
til gæslu við eldstöðvarnar á Reykjanesi á fyrstu
dögum gossins í lok mars og voru eina nótt, en
annað félagsstarf hefur verið í lágmarki vegna
Covid 19.
Umhverfisvænt varmaver á Efri-Reykjum.
Við borholuna á EfriReykjum hefur nýlega
risið myndarlegt hús, nokkru stærra en gamla
dæluhúsið sem reist var af Hitaveitu Hlíðamanna
Pétur, Ási og Krissi á vakt við eldstöðvarnar á Reykjanesi í mars.