Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2010, Síða 25
þremur tugum ára, að ég fékk minn fyrsta lax,
sennilega 11 eða 12 ára. Líklega var það í Hölkná.
Þannig vildi til þennan dag að stálpaður
hvolpur af bænum hafði elt okkur niður að ánni.
Ég sinnti hundinum, lék mér við hann, lét hann
sækja spýtu og bjó til hálsfesti úr sóleyjum sem ég
skreytti hann með. Karlarnir voru að veiða í steikj-
andi hitanum en ég hvíldi með hvutta í ofurlítilli
kvos við ána. Þá kom pabbi og sagði að þeir ætl-
uðu að ganga upp að fossi. Ég spurði hvort ég
mætti ekki bara vera eftir hjá hvolpinum og fékk
til þess leyfi: Ég yrði bara að passa mig á ánni, að
fara ekki að vaða út í hana með kaststöngina mína.
Ef ég vildi veiða og festi í botni þá ætti ég bara að
slíta eða leggja stöngina á bakkann og bíða þar til
þeir kæmu til baka en alls ekki reyna að vaða út að
festunni á stígvélunum.
Ég sá að pabbi var dálítið áhyggjufullur þegar
þeir bjuggu sig til fararinnar en ég reyndi að sann-
færa hann um að allt yrði í stakasta lagi.
Hundurinn var skemmtilegur. Hann var kelinn
og við nut-um þess að veltast um í sólskininu og hlusta á ána
hjala niður undan slakkanum.
Ég var hér um bil sofnaður þegar ég heyrði kallað frekjulegri
röddu á snata. Skuggi á að giska 18 ára pilts vofði yfir okkur í
kvosinni. Hann stóð uppi á brúninni með hendur á mjöðmum,
svartur eins og skugginn með sólina að baki sér. Ég kom ekki
upp orði, sagði þó kannski „blessaður“ og vissi ekki fyrr til en
þessi stóri strákur hafði henst ofan til okkar. Hann sparkaði í
kvið stálpaðs hvolpsins og reif hann upp á hnakkadrambinu.
Komumaður gaf mér illt auga, henti litla hundinum upp í
brekku í átt til bæjar og tautaði „hálfviti“. Ég sá hvorki strákinn
né hvolpinn framar en vælið í hundinum bergmálaði í eyrum
mér lengi dags á meðan sólin hélt áfram að skína linnulaust.
Hrifningin mesta
Þar með var hvolpurinn úr sögunni og ég sat einn eftir með
veiðistöngina mína. Ég horfði niður eftir kvosinni sem lá eins
og rennibraut að ánni. Hátt í lofti sá ég stóran fugl hnita hringi
yfir einhverju sem hann hafði fundið og ég reis á fætur til að
sjá betur. Líklega var þetta krummi að skoða afvelta á með
riðuveiki því oftar en einu sinni höfðum við feðgar rekist á
vankaðar kindur á hvolfi milli þúfna og sagt bændum frá því
að loknum veiðidegi. Aldrei uppskárum við annað en illt
augnaráð.
Ég greip litlu veiðistöngina og gekk niður að ánni.
Þarna var stór steinn á að giska tvo metra frá landi og fyrir
neðan hann djúpur pollur. Grynningar með traustum malar-
botni voru frá landi út að ofanverðum steininum og það flæddi
ekki ofan í stígvélin þegar ég óð þangað í þremur skrefum. Ég
lét spóninn dingla ofan í grængolandi dýpið undir steininum,
fann skjótt fyrirstöðu, arkaði aftur í land og togaði silfraðan fisk
upp úr rennandi vatninu. Hann fetti sig og bretti á grænu
grasinu. Ég settist ofan á hann og barði hann í hausinn með
grjóti. Þar með var það búið. Fyrsti lax ævinnar kominn á land
og ekkert eftirminnilegt við það nema ef væru þessi fumlausu
handtök, blóðið sem rann úr tálknunum og undarlegt hreistrið
sem sat eftir á puttunum.
Tveimur tímum síðar komu faðir minn og félagi hans ofan
úr gljúfrunum. Ég lá milli svefns og vöku í kvosinni við ána
með spenntar greipar ofan á brjóstinu og dinglaði krosslögðum
fótum. Það var að verða kalt. Mennirnir störðu í forundran á
hálfsofandi strákinn og fiskinn sem við hlið hans lá. Sjálfir
höfðu þeir veitt ágætlega upp við fossinn en enginn lax á Ís-
landi vakti jafnmikla hrifningu og laxinn minn þennan dag,
þótt hann væri varla meira en 5 eða 6 pund.
Ég sofnaði á bekknum aftur í gamla gula Bronconum á
meðan þeir tóku niður tjaldið og spjölluðu saman lágværum
rómi í næturhúminu. Ég rankaði varla við mér fyrr en daginn
eftir þegar leggja átti laxana inn í Kaupfélagið og mér fannst
sem ég heyrði lágvært ýlfur í umkomulausum hvolpi þegar
hemlað var framan við kjötvinnsluna þar sem aflanum var
skilað.
Tilhlökkunin mesta
Allt hefur breyst síðan þetta var: Það stendur ekki
steinn yfir steini. Tækninni hefur fleygt fram og
tíminn hefur flogið. Núna er ég orðinn miðaldra og
á litla stúlku sem bráðum verður þriggja ára. Ég
tel dagana og mánuðina þar til hún verður aðeins
öruggari á fótunum og ég get farið með hana til
veiða. Við munum ekki fara austur að Hofsá, Hafra-
lónsá, Hölkná, Sandá eða Selá þar sem veiðihallirnar
standa og ég maulaði sjálfur blautar samlokur á
gúmmístígvélum fyrir svo fáum árum. Við höldum til
heiða þar sem er varla að finna vegi og varla stendur
hús. Við munum leiðast yfir kargaþýfið, horfa á fugla
hnita hringi, heyra hrossagaukinn hneggja og stinga
tjaldhælum okkar niður í lítilli kvos við bakkann.
Segið svo að ekkert hafi breyst.
Guðmundur Haukur Jónsson við Höll sumarlandsins. Eiríksjökull í baksýn.
Baldur Sigurðsson og Guðmundur Haukur brosa framan í varginn.
Sjómannablaðið Víkingur – 25