Fréttablaðið - 15.12.2022, Síða 26
6 kynningarblað 15. desember 2022 FIMMTUDAGURGJAFABRÉF
Ef einhver kaupir
gjafabréf er sölu
aðilinn kominn með
peninga í hendurnar og
þá á ekki að skipta máli
hvenær bréfið er síðan
notað. Almenna reglan
ætti að vera að gjafabréf
mætti nota hvenær sem
er.
Brynhildur
Björnsdóttir
brynhildur
@frettabladid.is
Gjafabréf eru vinsæl gjöf frá
fyrirtækjum til starfsfólks
sem með því fyrirkomulagi
getur valið sínar gjafir sjálft
úr þeim varningi sem gjafa-
bréfið nær yfir.
Breki Karlsson, formaður Neyt-
endasamtakanna, varar þó við
því að gildistími gjafabréfa sé
stundum óþarflega stuttur og segir
öryggi neytenda best tryggt með
því að leysa gjafabréfið inn sem
fyrst.
„Oftast er kvartað yfir því að
seljandi leyfi viðskiptavininum
ekki að nýta gjafabréf sem er
útrunnið. Slíkir viðskiptahættir
verða að teljast mjög sérstakir
enda hefur seljandi ekki orðið fyrir
neinum skaða, þvert á móti. Búið
er að greiða fyrir ákveðna vöru eða
þjónustu og í raun má því segja
að kaupandinn veiti seljandanum
vaxtalaust lán. Við fáum aðal-
lega spurningar frá neytendum
varðandi gjafabréf en sem betur fer
eru það líka einhverjir verslunar-
eigendur og söluaðilar sem leita til
okkar til að hafa allt klappað og
klárt varðandi gjafabréfin og við
fögnum því,“ segir Breki sem bætir
við að engar reglur eða lög gildi um
gjafabréf.
„Til eru eldgamlar verklagsreglur
sem viðskiptaráðuneytið þáver-
andi gaf út árið 2000 en þær eru
valkvæðar sem þýðir að það þarf
ekki að fylgja þeim. Það eru engin
lög sem gilda um gjafabréfin og
væri mjög erfitt að setja slík lög því
það er samningsfrelsi í landinu og
fólk getur samið eins og það vill.“
Samkvæmt leiðbeinandi reglum
um skilarétt á gildistími gjafabréfa
að vera fjögur ár.
Breki segir að gjafabréf séu í raun
ígildi peninga og því ætti gildistími
þeirra ekki að renna út, frekar en
peningaseðla.
„Ef einhver kaupir gjafabréf er
söluaðilinn kominn með peninga
í hendurnar og þá á ekki að skipta
máli hvenær bréfið er síðan notað.
Almenna reglan ætti að vera að
gjafabréf mætti nota hvenær sem
er.“
Hann segir að oftast sé hægt
að leysa úr ágreiningsmálum
varðandi gildistíma.
„Enda gera flestir seljendur sér
grein fyrir mikilvægi þess að veita
góða þjónustu. Lendi fólk í því að
vera meinað að nota gjafabréf á
þeirri forsendu að það sé útrunnið
vilja Neytendasamtökin gjarnan
vita af því.“
Vanda valið og pappírinn
Breki segir gildistímann ekki vera
það eina sem fólk hefur áhyggjur af
varðandi gjafabréf.
„Fólk er kannski að gefa gjafa-
bréf í fyrirtækjum sem síðan hætta
rekstri og þá er það tapað fé. Þá
er hægt að stofna almenna kröfu
fyrir gjafabréfið en það er ekki
vænlegt til árangurs. Þannig að við
hvetjum fólk til að velja vandlega
frá hverjum það gefur gjafabréf og
þá helst frá fyrirtækjum sem veita
rúman rétt.“
Hann segir fólk oft ekki kanna
smáa letrið þegar gjafabréf eru
keypt sem komi síðan þiggjand-
anum í koll síðar.
„Sum fyrirtæki setja fyrirvara
við að nota gjafabréf á útsölum
sem er skrýtið þegar haft er í huga
að gjafabréf eru í raun bara pen-
ingar sem þegar er búið að festa hjá
fyrirtækinu. Í ár hefur verið ansi
mikið um fyrirspurnir vegna gjafa-
bréfa á gististöðum sem kemur
væntanlega til vegna faraldursins
þegar fólk fékk kannski gjafabréf
sem það síðan gat ekki nýtt. Margir
af þeim stöðum sem kvartað var
yfir voru með alls konar varnagla
þegar síðan átti að fara að bóka um
að bréfið gilti bara á ákveðnum
tímum eða í ákveðnum herbergj-
um svo fólki var gert erfitt fyrir að
nýta það. Ef það eru takmarkanir
fyrir notkun gjafabréfa þarf það
að koma skýrt fram á gjafabréfinu
svo ekki sé hægt að koma með alls
konar skilmála eftir á.“
Þá segir hann form gjafa-
bréfanna líka skipta máli.
„Stundum er kvartað yfir að
gjafabréf eru prentuð á pappír sem
eyðist með bleki sem máist út svo
þá er mjög erfitt að sjá gildistím-
ann. Viðskiptavinir ættu að gera þá
kröfu að gjafabréfin séu prentuð
á vandaðan pappír með bleki sem
ekki eyðist svo allar upplýsingar
um hvernig má verja þeim séu
skýrar.“
Reglur í smíðum
Neytendasamtökin vinna nú
að því að semja reglur varðandi
gjafabréf. „Við getum ekki krafist
þess að farið verði eftir þeim en
þær verða þá allavega til og þeir
sem kaupa gjafabréf geta þá notað
þær til viðmiðunar til hagsbóta
þeim sem bréfin eiga að fá. Og við
mælum með að þeir sem kaupa
gjafabréf hafi hag þess sem á að fá
bréfið í huga við kaupin og í sam-
skiptum sínum við seljendur.“ n
Gæta þarf
vel að smáa
letrinu
Breki Karlsson segir gjafabréf í raun ígildi peninga og því ættu þau ekki að renna út frekar en peningaseðlar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
ð
ð
ð
ð
ð ð