Morgunblaðið - 17.11.2022, Qupperneq 52
MENNING52
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. NÓVEMBER 2022
Aldrei eins
gaman
að taka inn
VÍTAMÍN
D3000 munnúða vítamín
Sniðgengur
meltingarveginn
Fer beint í
blóðrásina
Náttúrulegt
piparmyntubragð
Þegar sólarljósið
fer minnkandi
Hinn fjölhæfi auglýsingamaður,
skáld, grínisti og fjölmiðlamaður
Bragi Valdimar Skúlason hlaut
í gær, á degi íslenskrar tungu,
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.
Verðlaunin eru veitt árlega einstak-
lingi sem þykir hafa með sérstökum
hætti unnið íslenskri tungu gagn
í ræðu eða riti, með skáldskap,
fræðistörfum eða kennslu og stuðl-
að að eflingu hennar, framgangi eða
miðlun til nýrrar kynslóðar. Hafa
þau verið veitt á degi íslenskrar
tungu allt frá árinu 1996. Segir í til-
kynningu um verðlaunin að textar
Braga séu „sungnir við brúðkaup,
jarðarfarir og skírnir, kyrjaðir í
tjaldútilegum og eru jafn ómissandi
hluti af jólahaldi Íslendinga og
ítölsk dægurlög“.
Bragi hafi unnið markvisst að
því að vekja áhuga fólks á íslenskri
tungu og ræktað hana á óvenju-
mörgum sviðum þar sem hann sé
ekki aðeins skáld, textahöfundur
og þýðandi heldur hafi hann einnig
gert vinsæla sjónvarpsþætti þar
sem viðfangsefnið er íslenska.
Einnig hafi hann lagt til efni á vef
Baggalúts og unnið að auglýsinga-
gerð en þess má geta að Baggalútur
hefur hlotið sérstaka viðurkenningu
á þessum degi fyrir stuðning sinn
við íslenska tungu.
Örvuð til að nota íslensku
Í ár hlaut hina sérstöku viður-
kenningu sumarnámskeið fyrir
börn á aldrinum 5 til 11 ára á
Ísafirði sem nefnist Tungumálatöfr-
ar og er ætlað íslenskum börnum
sem hafa fæðst erlendis eða flutt
til annarra landa og börnum af
erlendum uppruna sem hafa sest
að hér á landi. Börnin eiga það
sameiginlegt að vera fjöltyngd og
eru þau örvuð til að nota íslensku
og bent á þann styrk sem felst í
því að kunna fleiri tungumál en
eitt, eins og segir i tilkynningu,
en námskeiðinu lýkur með tungu-
málaskrúðgöngu í bænum. Einnig
hafa skipuleggjendur námskeiðsins
staðið fyrir málþingum og vonast
eftir því að Tungumálatöfrar verði
uppspretta þekkingar sem geti
nýst við þróun námsefnis víðar á
landinu. Hina sérstöku viðurkenn-
ingu hljóta Tungumálatöfrar fyrir
stuðning við íslenska tungu vegna
frumkvöðlastarfs á sviði íslensku-
kennslu og er viðurkenningin einnig
sögð hvatning til frekari rannsókna
og uppbyggingarstarfs.
Stórkostlegt
Auglýsingamaðurinn Bragi er
auðvitað önnum kafinn á sinni
auglýsingastofu þegar blaðamaður
slær á þráðinn til hans um miðjan
dag en gefur sér þó tíma til að svara
nokkrum laufléttum spurningum.
Sú fyrsta er svohljóðandi: Hvernig
er að vera kominn í virðulegan hóp
þeirra sem hlotið hafa verðlaunin
hingað til?
„Þetta er bara stórkostlegt,
maður verður bara litill í sér,“
svarar Bragi. „Ég hélt maður fengi
þetta bara þegar maður væri orðinn
gamall en svo fattaði ég að ég er
að nálgast fimmtugt þannig að ég
endaði eiginlega á því að verða svo-
lítið fúll yfir því að hafa ekki fengið
þetta fyrr. En þetta er bara ótrúlega
gaman.“
Bragi bætir því glettinn við að
verðlaunin séu eiginlega það eina
sem íslenskufræðingar geti stefnt
að á ferlinum en hann er einn slíkur.
Blaðamaður viðurkennir að næsta
spurning sé frekar leiðinleg en
ekki verði komist hjá því að spyrja:
Hefur Bragi áhyggjur af stöðu
íslenskunnar?
„Auðvitað er ekkert auðvelt að
vera örtungumál í þessum heimi
þar sem allt er í boði og stóru
tungumálin flæða yfir allt og alla,“
svarar Bragi. Textað og talsett
sjónvarpsefni verði, til dæmis,
dálítið útundan í öllu flóðinu af
slíku efni. „En í öllu þessu brasi
mínu hef ég alveg séð að fólk hefur
ótrúlega sterkar taugar til tungu-
málsins og bara út um allt. Þetta
er náttúrlega tæki sem við notum
öll á hverjum einasta degi. Ég held
að við séum alveg góð í bili, fólk vill
halda í tungumálið og hefur sterkar
skoðanir á því hvar það birtist og
hvernig. Allir eru prófarkalesarar
á netinu og brjálaðir í flugstöðinni
ef það er enska uppi á vegg. Á
meðan við viljum halda í íslenskuna
verðum við að halda með henni og
hjálpa henni.“ Bragi bætir við að
eðlilegt sé að tungumálið breytist
og þróist því um leið og búið sé að
ákveða hvernig íslenskan eigi að
vera sé hún steindauð.
Reynir að hafa góð áhrif
Sem fyrr segir er Bragi í nokkuð
sérstakri stöðu þegar kemur að því
að dreifa efni á íslensku því hann
semur texta við dægurlög, auglýs-
ingar, grínefni og hefur fjallað um
íslenskt mál í tveimur þáttum á
RÚV, Orðbragði og Kappsmáli. Fáir
Íslendingar eru í slíkri kjörstöðu
og segir Bragi vissulega magnað
að hann hafi komið sér í hana.
„Og auðvitað reyni ég að hafa góð
áhrif og er með ágætistengslanet,“
segir hann og að mikilvægt sé að
vanda sig og nýta sín störf til góðs.
Íslendingar beri enda mjög sterkar
taugar til tungumálsins sem sé fal-
legt að sjá og heyra. „Það nær upp
og niður og út í alla kima,“ segir
Bragi um hið ástkæra ylhýra.
Lognið gott en ekki frábært
Lokaspurningin sem Bragi fær er
nokkurn veginn sú sama og þátttak-
endur í sjónvarpsþættinum Kapps-
máli fá: Hvert er hans eftirlætisorð
í íslensku? Bragi segir orðin mörg
sem séu í uppáhaldi en segir svo,
hægt og rólega, „logn“.
Já, vissulega er það notalegt orð.
En eru þá einhver orð sem hann
þolir ekki?
„Þau eru ansi mörg, ég þoli þau
alveg en það má kannski hvíla þau
stundum. Ég hugsa að „frábært“ sé
þar efst á lista. Það er samt gott orð
en þarf að fara sparlega með það,“
segir Bragi.
Blaðamaður nefnir orðið „orð-
ræða“ í framhaldi af þessum vanga-
veltum, leiðindaorð það en Bragi
trompar orðræðuna með hinni
margnotuðu „vegferð“. „Orðræður
og vegferðir og allt þetta, maður
getur nú ekkert sagt þegar einhver
orð komast í tísku. Maður óskar
þeim bara til hamingju með það og
svo detta þau út, eins og gengur,“
segir Bragi að lokum kíminn og
skundar á fund.
l BragiValdimarSkúlason hlautVerðlaunJónasarHallgrímssonar í gær, á degi íslenskrar tungu
lSumarnámskeið fyrir börn á Ísafirði, Tungumálatöfrar, hlaut sérstaka viðurkenningu
„Maður verður bara lítill í sér“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Verðlaunahafi Bragi Valdimar Skúlason tók á degi íslenskrar tungu við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar.
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Þjóðin les eða hlustar að meðaltali
á 2,4 bækur á mánuði, samanborið
við 2,3 bækur í fyrra. Þeim fjölgar
sem lesa enga bók en þeim fjölgar
einnig sem lesa fimm eða fleiri bæk-
ur á mánuði. Konur lesa meira en
karlar og eldra fólk meira en yngra,
en ekki er marktækur munur á milli
höfuðborgarsvæðis og landsbyggð-
ar þegar kemur að lestri. Þetta
er meðal þess sem fram kemur í
nýrri lestrarkönnun sem Miðstöð
íslenskra bókmennta stóð fyrir í
haust í samstarfi við fimm aðila.
Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá
um framkvæmd könnunarinnar,
sem fram fór dagana 14. október
til 8. nóvember 2022. Úrtakið var
2.800 einstaklingar 18 ára og eldri
og var svarhlutfallið 50%. Sambæri-
leg rannsókn hefur verið fram-
kvæmd árlega síðan árið 2017.
Þegar spurt var um lestur/hlust-
un síðasta mánuð fyrir könnun
sögðust rúm 40% enga bók hafa
lesið/hlustað á, sem er hæsta
hlutfallið á þeim sex árum sem
könnunin hefur verið framkvæmd,
en var rúm 32% í fyrra. Þegar spurt
var um lestur/hlustun síðustu viku
fyrir könnun kom í ljós að rúm 32%
svarenda lásu einu sinni eða oftar
á dag, þar af rúm 6% fimm sinnum
eða oftar á dag, en tæp 47% höfðu
ekkert lesið/hlustað á bækur. Um
65% landsmanna lesa einungis eða
oftast á íslensku fremur en öðru
tungumáli og 77% eru sammála því
að það sé mikilvægt að þýða nýjar
erlendar bækur á íslensku. 59%
svarenda segjast helst lesa skáld-
sögur og 52% velja helst glæpa-
sögur þegar spurt er hverskonar
tegund bóka fólk les/hlustar helst
á. 55% svarenda fá hugmyndir að
lesefni frá vinum og ættingjum, um
35% í umfjöllun í fjölmiðlum og um
31% í umfjöllun á samfélagsmiðl-
um. Færri gefa bók/bækur í ár en í
fyrra eða 59% samanborið við 68%.
74% svarenda telja mikilvægt að ís-
lenskar bókmenntir hafi aðgang að
opinberum stuðningi. Könnunina
má lesa í heild sinni á islit.is.
l 46,7%höfðu ekkert lesið/hlustað á
bækur síðustu sjö daga fyrir könnun
32% lesa daglega
Morgunblaðið/Stymir Kári
Safn 34% svarenda höfðu nýtt sér
þjónustu bókasafna síðasta árið.