Víkurfréttir


Víkurfréttir - 18.05.2022, Blaðsíða 9

Víkurfréttir - 18.05.2022, Blaðsíða 9
vaxtarskeið og allt lék í lyndi en frá falli Tito árið 1980 fór að síga á ógæfuhliðina ... og til að gera langa sögu stutta þá braust stríðið út á fyrri hluta ársins 1992. Jankó fékk óvænt tilboð stuttu áður: „Það var mjög skrítið að vera í Júgóslavíu á þessum tíma, maður fann að eitthvað lá í loftinu en við í liðinu vorum ekki mikið að hugsa um það, við litum allir á okkur sem Júgóslava, ekki Serba, Króata eða eitthvað annað. Hægt og býtandi þyngdist andrúmsloftið og maður fann að eitthvað var ekki gott. Í leikjum fórum við að heyra meira frá aðdáendum, þarna voru farin að heyrast öðruvísi köll á milli Serba og Króata t.d. og eins og ég segi, eitt- hvað slæmt lá í loftinu. Fyrir mig var þetta skrítið, ég þurfti í raun að spyrja mig hverjum ég tilheyrði! Ég er Serbi frá Bosníu – fæddur í Króatíu en ég hef alltaf litið á mig sem JÚGÓ- SLAVA. Þegar ég er spurður hvaðan ég er þá segist ég bara vera frá Júgó- slavíu. Ég hef alltaf litið á alla sem Júgóslava, ekki sem Serba, Króata eða eitthvað annað.“ „Eftir tímabilið 1991 en þá var ég búinn að jafna mig nánast að fullu og hafði spilað síðustu leikina á tímabilinu, fór ég heim til Bihac í Bosníu í sumarfrí eftir mótið. Við fjölskyldan ætluðum bara að heim- sækja foreldra okkar og stoppa stutt, tókum þess vegna bara tvær ferða- töskur með okkur. Við ætluðum auðvitað að snúa til baka til Osjek en það varð aldrei, því stríðið var að byrja í Króatíu. Ég opnaði bar í Bihac og hann gekk mjög vel en fékk þá óvænt tilboð – frá Íslandi. Fyrrum liðsfélagi hjá Osjek, Luka Kostic (Kóli), var í símanum og spurði mig hvort ég myndi vilja spila á Íslandi með Grindavík. Ég bað Kóla um að bíða smá, ég vildi hugsa málið því barinn var farinn að ganga vel. Ég ræddi málið við Dijönu og pabba, við ákváðum að ég myndi fara í einn mánuð og sjá til, ef mér myndi ekki lítast á þá myndi ég koma til baka. Ég kom til Íslands 24. janúar 1992.“ Athyglisvert en þegar Grindavík var að reyna semja við Jankó, þá setti Bjarni Jóhannsson, þjálfari liðsins, sig í samband við Eyjólf Sverrisson, fyrrum lærisvein sinn hjá Tindastóli frá Sauðárkróki, en hann lék þá með Stuttgart í Þýskalandi. Í liði Stuttgart var fyrrum liðsfélagi Jankó frá Júgóslavíu. Viðkomandi sagði Eyjólfi að þetta hlyti að vera einhver misskilningur, það gæti ekki verið að Milan Jankovic væri að fara spila með liði á Íslandi ... Servíetta með sítrónubragði Jankó talaði eingöngu sitt móðurmál á þessum tíma og lenti í skondnu at- viki í fluginu frá Kaupmannahöfn til Íslands með Icelandair. Forsvars- menn Grindavík vildu auðvitað heilla sinn mann og smelltu honum á Saga Class en Jankó hafði ekki hug- mynd um það, vissi ekkert hvað Saga Class var: „Ég var búinn að fljúga frá Júgó- slavíu til Kaupmannahafnar, þurfti að bíða eftir fluginu til Íslands og var orðinn mjög svangur þegar loksins kom að fluginu til Íslands. Ég sofnaði strax og var hálf rúglaður þegar flug- freyjan var alltaf að koma til mín og bjóða mér eitthvað að borða en ég skildi ekki neitt, hélt ég þyrfti að borga fyrir matinn og var ekki með neinn pening á mér. Þarna var flug- freyjan auðvitað að spyrja mig hvað ég vildi fá af matseðlinum. Aftur og aftur kom hún með girnilegan mat til hinna farþeganna á Saga Class og mig langaði svo í, var orðinn mjög svangur! Eftir tvo tíma kom hún svo með servíettu sem var búið að rúlla upp, hún var með svona sí- trónubragð og var hugsuð til að þvo sér í framan. Servíettan leit út eins og pönnukaka, ég horfði lúmskur í kringum mig og þegar enginn sá þá stakk ég servíettunni upp í mig og reyndi að borða! Ég fór beint á æfingu þegar ég kom heim, Kóli fylgdi mér og eftir æfinguna fórum við með stjórn Grindavík á Hard Rock Café og ég sagði Kóla hvað skeði í vélinni en hann mætti alls ekki segja stjórnar- mönnunum! Kóla fannst þetta svo fyndið að hann sagði auðvitað öllum strax frá og skilaði frá mér að næst þyrfti ég ekki Saga Class-sæti, bara venjulegt því þar fengu farþegar bara sinn bakka með mat á!“ Eðli málsins samkvæmt eru veð- urguðirnir Íslendingum ekki beint hliðhollir í lok janúar en veðrin sem Jankó fékk að upplifa á fyrstu dögum Íslandsdvalarinnar voru skrautleg oft og tíðum! Jankó bjó fyrst á verbúð Fiskaness en hann var einn fyrstu mánuðinn, Dijana og börnin komu ekki strax og Jankó var eflaust á báðum áttum fyrstu vikurnar. Hann lenti í fyndnu atviki fljótlega eftir að hann var kominn og svo í öðru þegar fjölskyldan var komin: „Það var mjög vont veður fyrstu dagana, ég talaði ekki tungumálið svo mér leist ekki mikið á þetta til að byrja með. Krilli (Kristinn Jó- hannsson) var aðstoðarþjálfari og hann sótti mig alltaf á æfingar þegar við æfðum á Haukavellinum á Ás- völlum. Ég átti að vera tilbúinn á ákveðnum tíma og var mættur út og það var algert rúglveður, snjór og rok og ég beið og beið – og beið! Ég var alveg að frjósa og hugsaði með mér að stjórnarmenn væru að „testa mig“, athuga hvort ég myndi gefast upp en þá kom í ljós að Krilli hafði gleymt að sækja mig! Það voru engir farsímar þarna, þeir gátu hringt í einhvern í Grindavík og einhver kona kom til að segja mér, já eða reyna segja mér að þeir hefðu gleymt að sækja mig! Hún talaði ekki júgóslavnesku og ekki skyldi ég íslensku! Hún hreyfði hendurnar og einhvern veginn náði ég því að ég yrði ekki sóttur! Þegar Dijana og börnin komu í lok febrúar þá bjuggum við fyrst í Gula húsinu (félagsheimili Grindavík) en þar var eldhús og við gátum eldað okkur mat. Í fyrsta skipti sem Dijana ætlaði að elda, þá fann hún ham- borgara en vantaði matarolíu. Lýsi hf. var aðalstyrktaraðili Grindavík á þessum tíma og alltaf nóg til af lýsi í Gula húsinu og Dijana hélt að þetta væri matarolía í flöskunni. Það var skrítið bragð af þessum hamborg- urum ...“ Það verður seint sagt að Jankó hafi heillað alla með spilamennsku sinni á þessu fyrsta tímabili og segir sagan að efasemdir hafi verið með að fá hann aftur næsta tímabil. Á lokahófi Grindavík í Festi haustið 1992 var Þorsteinn Bjarnason valinn besti leikmaður liðsins og á þessum tíma var Jankó farinn að geta bjargað sér aðeins í íslenskunni, hann sagði orðrétt við Þorstein á sinni bjöguðu íslensku: „Ég skal vera sá besti leik- maðurinn tharna eftir næsta tíma- bilið tharna!“ Fjölskyldan flutti skömmu áður ens stríðið braust út Þegar Jankó og fjölskylda tóku ákvörðun um að prófa Ísland, þá var ekki á stefnuskránni að setjast hér að en stríðið í Bosníu braust endanlega út stuttu eftir að Dijana var komin til Íslands með börnin. Kannski munaði hreinlega litlu að þau hefðu ekki komist en venjulega var hægt að fara með rútu til alþjóðaflugvallarins í Belgrad í Serbíu, Dijana og börnin þurftu hins vegar að fljúga með her- flugvél frá Bihac í Bosníu. Stuttu síðar lokaði landið og enginn komst út úr því og stríðið hófst. 1993 tók Þorsteinn Bjarnason við þjálfun Grindavíkurliðsins og Jankó stóð við stóru orðin frá lokahófinu tímabilið á undan, var besti og í raun langbesti leikmaður liðsins. Hann vissi að hann hefði ekki staðið sig nógu vel fyrsta tímabilið og fyrst Grindavík vildi aftur gera samning við hann, sem gaf Jankó tækifæri á að sanna sig, þá skrifaði hann glaður undir samninginn og næstu ár skrifaði hann alltaf undir eins samning, þ.e. hann fór ekki fram á hækkun eins og hann hefði auðveld- lega getað gert því hann var orðinn einn besti leikmaðurinn á öllu Ís- landi. Jankó vildi einfaldlega þakka traustið, að fá að sanna sig aftur eftir lélegt fyrsta tímabil. Þvílíkur heið- ursmaður en þarna, og í raun mjög fljótlega eftir að hann kom til Grinda- víkur, var hann búinn að heilla alla upp úr skónum með persónuleika sínum. Það var bara knattspyrnuleg geta eftir fyrsta tímabilið sem bjó til efasemdir en þær efasemdir voru mjöööööög fljótar að fjúka út í hið íslenska veður og vind! Þess má til gamans geta að þegar COVID skall á fyrir tveimur árum þá bauðst Jankó til að þjálfa kauplaust til að byrja með. Eins og áður sagði, þvílíkur heiðursmaður! Gamli liðsfélagi Jankó, Kóli, tók svo við þjálfun liðsins árið 1994 og má segja að þá hafi ákveðið gull- aldartímabil hafist því ekki nóg með að Grindavík hafi unnið næstefstu deildina auðveldlega, heldur fór liðið alla leið í úrslit bikarkeppninnar en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir KR- ingum. Oft er stutt á milli í íþróttum en í stöðunni 0:0 átti bakvörður Grindavíkurliðsins fyrirgjöf sem rataði alla leið í stöng KR-marksins! Ef þessi fyrirgjöf hefði endað í markinu og Grindavík komist 1:0 yfir, hvernig hefði leikurinn þá þróast? Farsæll ferill Jankó lék með Grindavík til 38 ára aldurs og átti svo sannarlega sinn þátt í að liðið hélt sér uppi en tæpt stóð það ‘96 og ‘98 en þá bjargaði liðið sér í síðustu umferð með sigri og seinna skiptið skoraði Jankó m.a. eitt af mörkunum. Hann tók svo við þjálfun Grinda- víkurliðsins árið 1999 og áfram voru heilladísirnar á bandi Grindvíkinga en í hreinum úrslitaleik um að halda sæti sínu í deildinni vann Grindavík Val og varð þar með eina liðið á Ís- landi sem hafði aldrei fallið um deild. Eftir það var bara horft til ljóssins eins og flugurnar – og þangað var stefnt! „Við rétt björguðum okkur frá falli á fyrsta tímabilinu mínu sem þjálfari en svo fór okkur að ganga betur, unnum Lengjubikarinn [minni bikarkeppni sem þá var leikin samhliða Íslandsmótinu og bikarkeppninni. Innsk. blaðamanns] og enduðum í þriðja sæti Íslands- mótsins, sem tryggði þátttökurétt í Intertoto Evrópukeppninni árið eftir. Þá unnum við Baku frá Azerbajan í fyrstu umferð en rétt töpuðum fyrir Basel í annarri umferð. Ég þjálfaði liðið næsta tímabil en þá enduðum við í fjórða sæti og eftir það tók ég við Keflavík sem þá var í næstefstu deild. Við fórum beint upp og urðum bikarmeistarar árið eftir.“ Taug Jankó til Grindavíkur hefur alltaf verið sterk og að loknum tveimur tímabilum í Keflavík sneri hann aftur til heimahaganna og átti fyrst að vera aðstoðarþjálfari Guð- jóns Þórðarsonar – en stuttu eftir að búið var að samþykkja samning við Guðjón var hann floginn á vit ævintýranna í Englandi, staða Jankó breyttist og hann varð aðalþjálfari. Eftir það hefur Jankó einbeitt sér að uppbyggingu ungra og efnilegra leik- manna ásamt því að vera viðkom- andi þjálfara meistaraflokks karla til aðstoðar. Segja má að hann flakki á milli Grindavíkur og Keflavíkur en eftir að hafa verið Óla Stefáni Fló- ventssyni til aðstoðar 2016 til 2018 fór hann aftur til Keflavíkur og var aðstoðarþjálfari Eysteins Húna Haukssonar en sneri svo til baka fyrir stuttu og er núna hægri hönd nýs þjálfara Grindavíkurliðsins, Al- freðs Jóhannssonar. Hvernig líst Jankó á framtíð grindvískrar knatt- spyrnu? „Framtíðin hjá Grindavík er björt, 5. flokkur drengja varð t.d. Íslands- meistari í fyrra og þar eru nokkrir mjög efnilegir leikmenn. Ef við höldum áfram að byggja upp ungu leikmennina þá verðum við komnir með sterkt lið eftir nokkur ár sem getur verið byggt á leikmönnum frá Grindavík. Ég mun sjá um afreks- þjálfun en þar líður mér best, að búa til góða leikmenn. Ég verð líka Alla til aðstoðar en mér líst mjög vel á hann sem þjálfara. Það er góð stemmning í kringum liðið og við munum gera góða hluti í sumar held ég. Það var frábært fyrir fótboltann í Grindavík að fá Jón Óla Daníelsson til að byggju upp kvennaknattspyrnuna, það er bjart framundan í Grindavík.“ Jankó er aðstoðarhúsvörður Grunnskóla Grindavíkur en er með sínar bækistöðvar í nýrri skólanum, Hópsskóla. Þar er hann kannski mest á heimavelli því börnin hreinlega dýrka hann! Hann sýnir þeim alls kyns galdrabrögð og grínast í þeim en hvernig kann hann við það starf og hvernig sér hann framtíðina fyrir sér: „Þetta er mjög gott starf, mér finnst frábært að vinna með börnum og þá get ég líka æft mig betur í ís- lenskunni. Sum börnin halda að ég sé skólastjóri en ég er nú fljótur að segja þeim að það sé ekki rétt. Okkur líður mjög vel á Íslandi en ég reyni að heimsækja Júgóslavíu eins oft og ég get. Mamma mín sem er orðin 84 ára er búin að vera aðeins veik en hún býr rétt hjá Sarajevo. Draumurinn er að búa á báðum stöðum, vera í Júgóslavíu yfir veturinn en á Íslandi á sumrin en þau íslensku eru þau bestu.“ Það var mjög skrítið að vera í Júgóslavíu á þessum tíma, maður fann að eitthvað lá í loftinu en við í liðinu vorum ekki mikið að hugsa um það, við litum allir á okkur sem Júgóslava, ekki Serba, Króata eða eitthvað annað ... Framtíðin hjá Grindavík er björt [...] Ef við höldum áfram að byggja upp ungu leikmennina þá verðum við komnir með sterkt lið eftir nokkur ár sem getur verið byggt á leikmönnum frá Grindavík ... Fyrir leik Grindavíkur og Þróttar í Lengjudeildinni var Milan Stefáni Jankovic og Dijana, eiginkonu hans veittur þakklætisvottur fyrir framlag þeirra til Ungmennafélags Grindavíkur. Það var Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sem afhenti hjónunum blóm og viðurkenningu. VF-mynd: JPK Jankó hefur þjálfað í Grindavík og hjá Keflavík. Hér er hann á grasvellinum í Grindavík. víkurFrÉttir á SuðurNESJuM // 9

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.