Víkurfréttir


Víkurfréttir - 18.05.2022, Blaðsíða 8

Víkurfréttir - 18.05.2022, Blaðsíða 8
Milan Stefán Jankovic flúði yfirvofandi stríð í Júgóslavíu og kom til Grindavíkur fyrir 30 árum síðan. „Það var mjög skrítið að vera í Júgóslavíu á þessum tíma, í liðinu mínu voru Serbar, Króatar, Slóvenar o.fl. en okkur leið öllum eins og Júgóslövum – en allt í einu breyttist allt.“ „Hva’ er í gangi í rúglinu?“ (við- komandi þarf að hafa talað við Jankó eða heyrt hann í viðtali en ís- lenska hans er skemmtilega bjöguð ... hann virðist ekki geta sagt U, allt með U-i breytist í Ú og því ákvað greinarhöfundur að skrifa t.d. orðið rugl sem rÚgl í þessari grein, til að reyna ná mállýsku Jankós.) Milan Jankovic þarf ekki að kynna fyrir knattspyrnuáhugafólki, hið minnsta þeim sem hafa fylgst með íslenskri knattspyrnu síðan 1992 en þá kom þessi geðþekki Júgóslavi til Grindavíkur til að leika með liði knattspyrnudeildar Grindavíkur sem þá var í næstefstu deild. Á þessum tíma var heldur betur byrjað að krauma undir niðri í Júgóslavíu eins og landið hét þá og stuttu síðar hófst borgarastyrjöld og braut Júgóslavíu upp í nokkrar þjóðir. Sökum ástandsins í gamla heima- landinu þá tóku Milan og Dijana, konan hans, ásamt börnunum Marko og Jovana, ákvörðun um að setjast að á Íslandi og gerast íslenskir ríkis- borgarar. Þá var reglan sú að taka þurfti upp íslenskt nafn og bættust þessi nöfn við fjölskylduna; Milan Stefán, Dijana Una, Jovana Lilja og Marko Valdimar. Jovana, sem er fædd árið 1985, býr í Þýskalandi ásamt unnusta sínum, Arnóri Þór Gunnarssyni, og eiga þau tvö börn. Arnór fór til Þýskalands til að leika handbolta og er ennþá að spila í Þýskalandi. Marko, sem er fæddur árið 1990, býr í Noregi í dag ásamt barnsmóður sinni, Berglindi Ýr Hrafnsdóttur, og eiga þau tvö börn. Marko fór til Noregs til að leika knattspyrnu og er að þjálfa þar í dag. Frá því að Milan, þessi goðsagn- arkenndi knattspyrnumaður og þjálfari, kom til Íslands hefur hann alltaf verið kallaður Jankó en í dag gegnir hann starfi aðstoðarþjálfara fyrstu deildarliðs Grindvíkinga auk þess sem hann sér um alla afreks- þjálfun. Fróðir menn segja að vand- fundinn sé betri þjálfari á grasinu. Víkurfréttir settust niður með Jankó og röktu úr honum garnirnar. Ungur og upprennandi leikmaður „Ég er fæddur 1960 í Júgóslavíu, n.t.t. í Zagreb í Króatíu, en er Serbi frá Bosníu. Ástæða þess að móðir mín fæddi mig í Zagreb er að eldri systir mín dó í fæðingu í Bihac í Bosníu en þar var ekki eins gott sjúkrahús eins og í Zagreb og mamma vildi ekki taka neina áhættu. Við bjuggum alltaf í Bihac og þar byrjaði ég að spila fótbolta.“ Jankó gekk vel og var fljótlega orðinn fyrirliði liðsins þrátt fyrir ungan aldur. Hann vakti mikla eftir- tekt og stórliðið Rauða stjarnan frá Belgrad keypti hann þegar hann var einungis tuttugu ára gamall. Á þessum árum var Rauða stjarnan stórt lið á evrópskan mælikvarða og t.d. varð liðið Evrópumeistari meistaraliða árið 1991 (í dag er þetta Meistaradeildin, Champions League). Erfitt var að komast í aðal- liðið á þessum tíma og Jankó spilaði með varaliðinu. Rauða stjarnan vildi gera samning við hann til fjögurra ára og lána hann á meðan hann öðl- aðist reynslu en Jankó vildi leita á önnur mið og gekk aftur til liðs við gamla liðið í heimabænum, Bihac. Fljótlega var hann búinn að taka við fyrirliðabandinu, átti þrjú mjög góð ár og vakti athygli annarra liða – gat valið úr nokkrum tilboðum og tók að lokum ákvörðun um að ganga til liðs við Osjek í Króatíu. Þetta var árið 1984 og hann lék í sjö ár með liðinu, til ársins 1991. Athyglisvert að þegar hann samdi við Osjek fékk hann íbúð sem hluta af laununum og einhvern pening líka en þetta var fyrir tíma „Bosman-samningsins“ (eftir að belgíski knattspyrnumað- urinn Jean-Marc Bosman fór í mál við liðið sem hann var runninn út af samningi hjá, þá breyttist landslag knattspyrnufólks gríðarlega og þeir voru ekki lengur „eign“ liðsins eftir að samningur rann út) og þegar lið í Júgóslavíu báru víurnar í Jankó sagði Osjek að Jankó þyrfti að skila íbúð- inni ef hann myndi yfirgefa liðið! Þar sem Dijana konan hans var komin í góða vinnu í banka ákváðu þau að búa áfram í Osjek. Á þessum tíma var ungur og ansi upprennandi leikmaður að koma upp hjá Osjek, Davor Suker, en hann átti eftir að verða einn besti, ef ekki sá besti sóknarmaður heims, lék m.a. með Real Madrid á Spáni. Jankó hefur haldið góðum kynnum við hann allar götur síðan og þegar Suker, sem er Króati og gegndi stöðu formanns króatíska knatt- spyrnusambandsins um tíma, kom til Íslands þegar þjóðirnar mættust þá hittust gömlu liðsfélagarnir að sjálfsögðu. Jankó lék það vel á þessum tíma að hann var á leiðinni með lands- liði Júgóslavíu í lokakeppni HM ‘90 á Ítalíu en á þessum tíma voru Júgóslavar á meðal bestu knatt- spyrnuþjóða heims og voru taldir líklegir til afreka á HM ‘90. Sumir myndu segja að það sé hreinlega magnað að Jankó skyldi vera í þeim hópi, og sýni hversu frábær knatt- spyrnumaður hann var, fyrst hann var á leiðinni með liði Júgóslavíu á HM en í liðinu voru t.d. Dejan Savicevic og Zvonimir Boban sem voru lykilleikmenn ítalska stórliðsins AC Milan. Jankó var sem sagt á leið- inni á stærsta íþróttamót heims en nokkrum mínútum fyrir leikslok í síðasta leik tímabilsins 1989, reið ógæfan yfir: „Ég var búinn að spila mjög vel þetta tímabil, var valinn besti varn- armaðurinn í júgóslavnesku deild- inni og nokkur lið í Evrópu voru að skoða mig, m.a. frá Frakklandi og Grikklandi. Ég var kominn í 24 manna HM-hópinn og allt leit vel út en í síðasta leiknum, þegar nokkrar mínútur voru eftir, þá áttum við horn og ég hoppaði upp í skallabolta en sneri hnéið á mér þegar ég lenti og sleit krossbönd. Á þessum tíma þýddi það níu til tólf mánuði frá fót- bolta og því fór HM-draumurinn. Ég var frá allt næsta tímabil (‘90 tímabilið) en ‘91 gat ég byrjað aftur að spila.“ Um þetta leyti, í kringum 1990, fann Jankó, ásamt öðrum Júgóslövum, að eitthvað slæmt lá í loftinu. Júgóslavía var stofnað sem sambandsríki í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og saman- stóð af sex lýðveldum; Bosníu- Hersegóvínu, Króatíu, Makedóníu, Svartfjallalandi, Serbíu og Slóveníu. Landið gekk í gegnum mikið hag- Ég var búinn að spila mjög vel þetta tímabil, var valinn besti varnarmaðurinn í júgóslavnesku deildinni og nokkur lið í Evrópu voru að skoða mig, m.a. frá Frakklandi og Grikklandi. Ég var kominn í 24 manna HM-hópinn og allt leit vel út ... Sigurbjörn Daði Dagðbjartsson sigurbjornd@gmail.com Jankó á fyrsta ári sínu með Grindavíkingum. Jankó vakti mikla eftirtekt og stórliðið Rauða stjarnan frá Belgrad keypti hann þegar hann var einungis tuttugu ára gamall. Á þessum árum var Rauða stjarnan stórt lið á evrópskan mælikvarða og t.d. varð liðið Evrópumeistari meistaraliða árið 1991. 8 // víkurFrÉttir á SuðurNESJuM „Ég er Serbi frá Bosníu – fæddur í Króatíu en ég hef alltaf litið á mig sem Júgóslava“

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.