Víkurfréttir


Víkurfréttir - 17.08.2022, Blaðsíða 13

Víkurfréttir - 17.08.2022, Blaðsíða 13
Vertu klár fyrir framtíðina Framtíðin liggur í tækni og þekkingu Eins og flestum er kunnugt þá er Fisktækniskóli Íslands í Grindavík framhaldsskóli hér á Suðurnesjum sem hefur m.a. það hlutverk að mennta fólk í haftengdum greinum að loknum grunnskóla og að bjóða fólki á Suðurnesjum nám á framhaldskólastigi á sviði veiða, vinnslu og fisk- eldis. Námið er byggt upp sem tveggja ára nám í fisk- tækni sem getur staðið sjálfstætt en einnig er hægt að bæta við sig þriðja árinu og sérhæfa sig í fiskeldistækni, gæðastjórnun, og vinnslutækni eða haftengdri nýsköpun. Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki sem hefur sérhæft sig í þessum greinum sjávarútvegsins og hafa nemendur átt greiða lið í góð störf að námi loknu. Þróunin og nýsköp- unin sem átt hefur sér stað innan atvinnugreinarinnar verið ótrúleg á síðustu árum og áratugum. Mikilvægi Bláa hagkerfisins Það þarf ekkert að fara í grafgötur um það hversu mikil- vægur sjávarútvegurinn, fiskeldið og fiskvinnslan er fyrir íslenskan efnahag og framtíð landsins? Bláa hagkerfið er lífæð þessarar þjóðar og mun vera um ókomna tíð, þrátt fyrir óáran og hrun standa þessar atvinnugreinar alltaf upp úr rústunum og koma okkur á lappirnar aftur. Sjávarútvegur og tengdar greinar hafa verið og munu vera áfram hornsteinn íslensks atvinnulífs. Við flytjum út hágæða fiskafurðir til allra heimshorna og á bak við þennan útflutning liggur ótrúleg vinna við markaðs- setningu og gríðarmikil þekking sem byggst hefur upp á undanförnum árum og áratugum. Þekking á sviði laga, tækni, flutninga, samskipta og þjónustu hefur gert það að verkum að íslenskar fiskafurðir eru taldar til þeirra bestu og eru gífurlega eftirsóttar á diska neytenda út um allan heim. Í fremstu röð Við Íslendingar erum í fremstu röð hvað varðar um- hverfisvænar veiðar, sjálfbærni veiða og meðferð á afla og athygli umheimsins á þessum þáttum í veiðum og vinnslu hefur aukist mjög á síðustu misserum. Það gerir það að verkum að störf innan bláa hagkerfisins bjóða upp á marga spennandi starfsmöguleika. Atvinnu- greinin hefur þróast frá því að vera verksmiðjuvinnsla yfir í það að vera hátæknileg matvælavinnsla sem krefst fagmenntaðs starfsfólks. Hér á Suðurnesjum hafa fyrir- tæki verið leiðandi í því að auka verðmæti fiskafurða og fjölga leiðum til fullvinnslu. Má þar t.d. nefna framleiðslu á kollagenvörum og þann mikla vöxt sem hefur átt sér stað í vinnslu ferskra fiskafurða sem fluttar eru daglega flugleiðis austur og vestur um haf frá Keflavíkurflugvelli. Fiskeldi Síðast en ekki síst má nefna fiskeldið sem er atvinnu- grein í mjög mikilli sókn um allan heim og óvíða eru skil- yrði til þess betri en einmitt hér á Suðurnesjum. Það er gríðarmikil uppbygging fyrirsjáanleg í þeirri atvinnu- grein hér á svæðinu á komandi árum með tilheyrandi tækifærum. Nægir að nefna í því samhengi að Samherji fiskeldi áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi í þremur áföngum á næstu ellefu árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Það er stór- kostleg viðbót við þær fiskeldisstöðvar sem fyrir eru á svæðinu sem skapað hafa mikla og góða vinnu, fyrirtæki eins og Stolt Seafarm, Matorka og Benchmark Genetics. Eins er vert að geta þess að mikil uppbygging í fiskeldi á sér stað hjá okkar góðu nágrönnum hinum megin við Suðurstrandaveginn í Ölfusinu og ljóst að mikil vöntun verður á fagmenntuðu starfsfólki til þess að manna þessar stöðvar á næstu árum. Menntun er lykilatriði Fisktækniskólinn tekur við nemendum allan ársins hring og hvetur þá sem standa á krossgötum og eru að velta fyrir sér atvinnumöguleikum framtíðarinnar hér á suðvesturhorninu að skoða hvað skólinn hefur upp á að bjóða. Nám í Fisktækniskólanum hefur einnig gefið nemendum greiða leið í áframhaldandi náms á háskóla- stigi liggi hugurinn til hærra menntunarstigs. Menntun og aftur menntun og vel menntað starfsfólk er lykilat- riði til að halda okkar sterku stöðu í samkeppni þjóða í matvælaframleiðslu og til að viðhalda okkar frábæra orðspori sem greinin hefur byggt upp á síðustu áratugum. Fisktækniskóli Íslands í Grindavík býður upp á þessa menntun og leggur með því sín lóð á vogarskálarnar. Vertu klár, Fisktækniskóli Íslands. Midnight Librarian heldur stórtónleika í Hljómahöll Hljómsveitin Midnight Librarian heldur sína árlegu tónleika í tónleikasalnum Bergi í Hljómahöll föstudaginn 26. ágúst næst- komandi. Með sveitinni koma fram nærri tuttugu aðrir hljóð- færaleikarar svo það má sannarlega búast við stórtónleikum. Midnight Librarian hélt tónleikana í Fjörleikhúsinu á síðasta ári en nú verða þeir haldnir í Bergi. „Við teljum að sá salur henti betur þar sem hann er sérstaklega hannaður fyrir tónlistarflutning,“ segja þau en öðru máli gegni um leikhúsið. „Þar er hljómburður þannig að fólk geti greint mælt mál af sviðinu, tónlistin verður því svolítið yfir- þyrmandi – að maður tali ekki um þegar nærri þrjátíu söngvarar og hljóðfæraleikarar eru saman á sviðinu.“ Víkurfréttir settust niður með nokkrum meðlimum Midnight Librarian og ræddu við þá um hvernig síðasta ár hafi gengið hjá þeim en auk þess að gefa út sína fyrstu breiðskífu á síðast ári, plötuna From Birth Till Break- fast sem inniheldur ellefu lög, hafa orðið mannabreytingar á sveitinni og þau eru búin að vera dugleg að spila opinberlega. Meðlimir hljómsveitarinnar eru nú orðnir átta talsins, nýr trommu- leikari, Þórarinn Þeyr Rúnarsson, leysti Val Ingólfsson af hólmi en auk þess hefur söngkonan Diljá Pétursdóttir bæst í hópinn og hefur hún ekki síður kraftmikla söngrödd en Þorsteinn Helgi Kristjánsson sem þenur radd- böndin með henni. Þau smellpassa hvort við annað eins og mátti sjá og heyra í laginu In my Lane sem var einmitt tekið upp „læf“ í Bergi í byrjun árs. Hvað er framundan hjá ykkur, fyrir utan þessa tónleika í Hljóma- höllinni? „Við erum að fara að gefa út nýtt lag núna í lok þessarar viku, þann 19. ágúst, sem ber heitið 70 mph,“ segja þau. „Í stað þess að gefa út aðra breiðskífu þá ætlum við frekar að gefa út eitt og eitt lag í einu,“ bætir Steini söngvari við. „Það lifir lengur.“ „Framundan eru þessir árlegu tónleikar en við ætlum að hafa það að reglu að halda þá hér í okkar heimabyggð,“ segir Jón Böðvarsson, saxófónleikari sveit- arinnar. „Svo verðum við að spila á Ljósanótt, ég held alla dagana,“ bætir hann við. „Svo verðum við líka á Airwaves en það er ekki komið á hreint á hvaða venues við verðum þar – það er allt í vinnslu.“ Tónleikarnir í Bergi, verða þeir á svipuðum nótum og þeir sem þið hélduð í Fjörleikhúsinu á síðasta ári? Steini verður fyrir svörum og segir að uppbyggingin verði svipuð. „En við munum einnig spila nýtt efni og með okkur verða enn fleiri hljóðfæraleikarar en í fyrra. Það eru sennilega átján eða nítján manns fyrir utan okkur – við munum flytja nýjar og stærri útsetningar af lögunum, strengja- sveit, brass og bakraddir til stuðn- ings og fleira.“ Hafa orðið einhverjar áherslu- breytingar á tónlistinni ykkar með tilkomu nýrra meðlima? „Við höfum ekki verið að festa okkur í neinu sérstöku formi, við spilum bara það sem við höfum gaman af – ég myndi kannski segja að margt af þessu nýja væri kannski aðeins poppaðra en fyrra efni,“ segir Arnór, sem leikur á hljómborð, og gítarleikarinn Arnar tekur undir það. „Við erum samt enn einhverskonar blanda af poppi, R&B, fönki og djassi.“ Miðasala á tónleikana er hafin á tix.is en Midnight Librarian hélt tvenna tónleika í fyrra og seldist á þá báða auk þess sem lagið Funky Fresh komst á A-lista Rásar 2. Frá tónleikum Midnight Librarian í Fjörleikhúsinu á síðasta ári. VF-mynd: JPK Lagið In my Lane var tekið upp í Bergi. Skjáskot af YouTube Jóhann Páll Kristbjörnsson johann@vf.is vÍkurFrÉttir á suðurNEsJuM // 13

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.