Víkurfréttir


Víkurfréttir - 12.10.2022, Blaðsíða 12

Víkurfréttir - 12.10.2022, Blaðsíða 12
MYND- OG HANDMENNT OG HEIMILISFRÆÐI Í reglugerð fyrir skólann 1872 er m.a. kveðið á um kennslu handavinnu stúlkna. Meðal annara kenndi Svan­ borg Grímsdóttir handavinnu stúlkna fyrstu árin, aðallega börnunum sem bjuggu í skólahúsinu. Aðsókn var ekki mikil, eins og segir grein Stefáns Thorarensen um skólahald 1876–1877: „„Handvinnukennsla“ (fyrir fermdar og ófermdar stúlkur) var enn sem fyr boðin, af kennarakonunni, orðlagðri hannyrðakonu og leikinni í að kenna handavinnu; en engin gaf sig fram. Sagði hún því einungis þeim Thorc­ hilliisjóðsbörnum til í handvinnu, er þá tilsögn gátu þegið.“ Síðar í sömu grein leggur hann til að öllum tilraunum til handavinnukennslu verði hætt. Á þessum árum hafa sumir kenn­ arar skólans eflaust kennt einhverja handavinnu. Friðrikka Hallgríms­ dóttir frá Austurkoti var sérmennt­ aður handavinnukennari og kenndi veturinn 1926–1927. Ingibjörg Erlends­ dóttir kenndi í Vatnsleysuskóla 1934– 1936 konum og stúlkum handavinnu að þeirra ósk, einu sinni í viku eftir að kennsludegi barnanna lauk. Haustið 1938 barst bréf frá sam­ tökum barnakennara um að efnt verði til sýninga í barnaskólum landsins á komandi vori á skólavinnu barna. Viktoría skólastjóri leitaði álits skóla­ nefndar hvort taka skyldi upp handa­ vinnukennslu í skólum hreppsins á þeim vetri. Var það samþykkt og kennurunum falið að koma kennslunni í framkvæmd. Bjarni M., námstjóri, kynnti skóla­ nefnd 1942 hugmynd um umferðar­ kennslu í handavinnu, leikfimi og söng, þannig að kennari fari á milli fámennra skóla sýslunnar og haldi námskeið í þeim greinum. Eitthvað mun þetta hafa verið reynt, t.d. var umferðar­ kennari í íþróttum 1945, en erfitt var að fá slíkan kennara í handavinnu drengja vegna mikillar eftirspurnar eftir smiðum. Haustið 1951 fær Sigrún Þórðar­ dóttir á Vatnsleysu leigða skólastofu til að vera með námskeið í saumaskap kl. 15:30–22, í fjórar til fimm vikur. Skyldi hún gjarna greiða húsaleigu með því að kenna skólabörnum líka. Sigrún er frábær listmálari. Skólastjórafrúrnar Jóhanna Snorradóttir og Rúna Gísla­ dóttir kenndu handavinnu stúlkna 1964–1970. Helga S. Árnadóttir kenndi oft handavinnu á sínum langa kennslu­ ferli, eins og hvaðeina sem þurfti, m.a. bast og leðurvinnu um tíma. Sesselja Sigurðardóttir (Lella) Hellum kenndi handavinnu 1976–1989, m.a. í gryfj­ unni. Þá var aðeins til ein saumavél. Á hennar tímabili varð sú breyting að bæði kynin skyldu eiga völ á bæði hannyrðum og smíði. Um tíma var bara 3. bekk breytt þannig að súlkum var kennd smíði og drengjum hannyrðar en óbreytt í öðrum bekkjum. Aðstaða til handavinnu drengja (smíða) hefur komið seint til. Árið 1949 lagði skólanefnd til að komið yrði upp húsnæði fyrir kennslu íþrótta og smíða, en það varð ekki fyrr en löngu síðar. Um það leyti kenndi Jón H. Krist­ jánsson í einhverjum mæli smíðar í al­ mennri kennslustofu. Árið 1958 fékk kvenfélagið Fjóla bréf frá skólanefnd­ inni, þar sem falast var eftir Kirkju­ hvoli undir handavinnu drengja. Var það samþykkt, en gekk þó ekki eftir. Þá fór Hannes í Sætúni (skammt frá skólanum) að kenna drengjum í eldri bekkjunum smíði heima hjá sér. Síðan var kennd smíði í íbúðarhúsinu Barmi í Vogum í 4 ár og síðar í Laufási. Mun Jón skólastjóri hafa kennt þar, líka Magnús Skúlason smiður, og um 1962– 1964 var það Ellert skólastjóri. Valberg Helgason smiður kenndi drengjum 1966–1969 smíði í bílskúr sínum Hafn­ argötu 22. Stormur Þorvarðarson tók við af honum og kenndi í Hábæ og hjálpaði til dæmis þrem drengjum að smíða sér kajaka sem þeir reru á sjónum. Hörður Rafnsson kenndi um tíma, einnig Guðlaugur Guðmundsson Hann leysti Jón Inga einnig af. Jón Ingi Baldvinsson kenndi smíðar að kvöldlagi í fyrrum húsnæði verslun­ arinnar Hábæjar árin 1978–1980. Þegar skólinn flutti í Voga 1979, fékk Jón Ingi rúmgóða aðstöðu í Brunnastaða­ skólahúsinu og upp frá því nutu allir bekkir smíðakennslu nema þau allra yngstu. Það hús var gert að íbúðar­ húsi 1988. Sett var upp laus smíða­ stofa við skólann í Vogum og þar eru drengirnr á myndinni að smíða það ár. Jón Ingi kenndi þar flest árin, en Helga Ragnarsdóttir, nýútskrifaður kennari, 1995–1997. Þegar ný álma Stóru­Vogaskóla var byggð 1997 var vinnuaðstöðu kenn­ ara breytt í vandaða smíðastofu sem enn er í notkun. Helgi Már Eggertsson kom frá Akureyri og var smíðakennari 1998–2008. Hann var líka með nám­ skeið fyrir eldri borgara í stofunni. Þegar skólahúsið var enn tvöfaldað að stærð 2005 varð loks til vel tækjum búin hannyrða/textílstofa. Stofan var búin mörgum saumavélum sem kven­ félagið Fjóla gaf. Þar hafa kennt Guð­ rún Viðars, Diljá Jónsdóttir, Rakel Rut og lengst Oktavía J. Ragnarsdóttir. Við stækkunina 2005 kom einnig til sérstofa í myndlist. Valgerður Guð­ laugsdóttir, myndlistarkona, kenndi þar myndlist frá 2006 þar til hún lést í ársbyrjun 2021. Helgi Hjaltalín Eyj­ ólfsson, myndlistarmaður og maður Valgerðar, leysti hana af í barnsburðar­ leyfi 2010 og var síðan smíðakennari 2012–2020. Hann tók svo við mynd­ listinni 2022. Valgerður hannaði merki skólans, sjá mynd. Fyrstu öld skólans var heimilishald kennt í kvenna­ og húsmæðraskólum um land allt. Heimilisfræði varð til á 8. áratugnum sem verkleg og bókleg námsgrein í grunnskólum, jafnt fyrir drengi sem stúlkur. Farið er að kenna heimilisfræði í Stóru­Vogaskóla 1990 í vel útbúinni stofu. Helga Sigríður Árnadóttir tók veturinn 1988–1989 launað ársleyfi og tók þrjá bekki við Hússtjórnarskólann í Reykjavík og endaði sinn langa kennsluferil sem heimilisfræðikennari. Nemendur á öllum aldri sýna greininni mikinn áhuga. Hún er kennd í öllum árgöngum, nema valgrein í efstu bekkjum. Heimildir, m.a. munnlegar frásagnir 1922: Reynir Brynjólfsson, Helgi Guðmundsson, Jón Ingi Baldvinssona Sesselja Sigurðardóttir, Helgi Már Eggertsson, Helgi Hjaltalín, Oktavía J. Ragnardóttir og Særún Jónsdóttir. Gjörðabók skólanefndar. Grein Stefáns Thorarensen í Ísa- fold 1879. Óbirt grein Sesselju Guðmundsdóttur. Grein Bergsveins Auðunssonar í Faxa 1990. Settu þína heilsu í forgang Sigríður Rósa Kristjánsdóttir. Höfundur er einkaþjálfari. Núna þegar kórónaveirufaraldurinn er nánast að baki hefur komið í ljós að hann er ein mesta lýðheilsufræði­ lega áskorun samtímans. Faraldurinn hefur einnig sýnt okkur hversu mikil­ væg hreyfing er fyrir bæði líkama og sál en margir hafa átt erfitt með að koma sér í gang eftir faraldur. Ekki má heldur gera lítið úr þeirri vanlíðan sem Covid getur valdið og margir hafa verið lengi að jafna sig bæði líkam­ lega og ekki síst andlega. Það hefur verið afar fróðlegt að þjálfa fólk sem þjáist að eftirköstum Covid og það er mjög persónubundið hvar fólk er statt í ferlinu þegar það byrjar aftur að hreyfa sig. Hafa sumir þurft að bíða ansi lengi eftir því að geta byrjað þótt hugurinn segði jafnvel annað. Einkennandi hjá mjög mörgum voru mæðin og þreytan. Hugurinn vildi fara á fulla ferð en skrokkurinn var bara alls ekki á sama máli. Mikilvægt er að hlusta vel á líkamann og vinna út frá honum. Alls ekki reyna að fara þetta bara á hörkunni og ætlast til þess að líkaminn sé fljótur að jafna sig og gamla úthaldið sé ennþá til staðar. Margir hafa upplifað þetta og hrein­ lega bara gefist upp. Það besta í þess­ ari stöðu er að gefa sér góðan tíma í bataferlið og taka einn dag í einu því dagarnir geta verið misjafnir, góður í gær en slæmur í dag. Við verðum að hlusta á eigin líkama því enginn nema þú sjálf(ur) getur fundið hvernig þér líður. Það eru ýmsar leiðir í boði fyrir fólk og ekki bara þá sem hafa fengið Covid og eftirköstin heldur bara alla þá sem þurfa einhverra hluta vegna að ná sér aftur á strik eftir ýmiss konar veikindi. Mikilvægt er að þiggja leiðsögn fagaðila eins og t.d. þjálfara, sálfræðinga og gefa sér þann tíma sem þarf til þess að koma heilsunni í sama farveg og hún var fyrir veikindi. Góðir hlutir gerast hægt og við fáum bara einn líkama á þessari lífsleið og því mikilvægt að hlúa vel að honum. Sjálf hef ég pælt gríðarlega í þessum hlutum og var með heilsuferð á Tenerife núna fyrr í haust þar sem farið var vel í þessar um­ ræður og t.d. um kulnun, skjaldkirt­ ilsvandamál og fjölbreyttar leiðir að bættri heilsu. Einblínt á markvissan hátt að hlúa vel af þeim þeim þáttum sem við höfum stjórn á eins og hreyf­ ingu, mataræði og jákvætt hugarfar. Einnig var boðið upp á fjölbreytta einkaþjálfun, Yoga, styrktaræfingar, verkefni sem tengdust sjálfskoðun og heilsu uppbyggingu hvers og eins. Verð með aðra svona heilsuferð í byrjun næsta árs og áhugasamir geta aflað sér nánari upplýsinga á www. siggakr.is. Fólk á svo ekki að hika við að leita til stéttarfélaga sinna sem styrkja flest við allt það sem tengist bættri heilsu. Það er nefnilega aldrei of seint að taka fyrsta skrefið. 1.400 kílómetrar! Fyrir hönd þingmanna kjördæmisins, Guðrún Hafsteinsdóttir. Kjördæmavika Alþingis er að baki. Þá starfar þingið ekki heldur gefst al­ þingismönnum færi á að fara um kjör­ dæmin sín og heilsa upp á fólk á heima­ slóðum sínum. Allir þingmenn Suðurkjördæmis ferðuðust saman í kjördæmavikunni og hittu sveitarstjórnarfólk í síðustu viku. Að baki eru nær 1.400 kílómetra akstur og það segir sína sögu. Þingmenn funduðu með sveitar­ stjórnum og við áttum þar uppbyggi­ leg og góð samtöl um það sem helst brennur á þeim sem eru í forystu á hverjum stað. Sömu eða svipuð megináhersluat­ riði eru í sveitarfélögunum en auðvitað eru líka sérhæfðari mál sem áhersla er lögð á hér og þar. Á góma bar heilbrigð­ ismál, samgöngur og orkumál en einnig skólamál og menntun, landbúnaðar­ mál, fæðuöryggi og fjölbreytileiki at­ vinnulífs. Einnig funduðu þingmenn með lög­ reglustjórum og fóru yfir málefni lög­ reglunnar. Brýnt er að fjölga lögreglu­ mönnum til þess að tryggja öryggi borgaranna enda er á hverjum tíma gríðarlegur fjöldi gesta í kjördæminu, bæði ferðamenn og allur sá fjöldi sem á eða er í sumarbústöðum. Suðurkjördæmi er víðfeðmt og fjöl­ breytt. Þar er hliðið að Íslandi, Kefla­ víkurflugvöllur. Um það bil helmingur orku landsmanna verður til í Suður­ kjördæmi og þar eru margar af vin­ sælustu náttúruperlum landsins. Mörg öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki lands­ ins eru í Suðurkjördæmi og síðast en ekki síst er þar að finna ótrúlega mik­ inn mannauður. Svo mætti áfram telja. Það er verkefni okkar allra að efla kjördæmið enn frekar, treysta innviði og skapa umgjörð vaxtar og velsældar. Við þingmenn kjördæmisins erum samhentur hópur og ætlum okkur að standa vel við bakið á íbúum kjör­ dæmisins. Við þökkum góðar móttökur og horfum full tilhlökkunar til starfsins á komandi þingvetri. Hælisleitendum fjölgar um sem nemur íbúum Grindavíkur á ári Ásmundur Friðriksson, alþingismaður. Ég hef heimsótt og kynnt mér þær að­ stæður sem hælisleitendur á Íslandi búa við en kveikjan að þessari grein var heimsókn mín í blokkir á Ásbrú og Hafnarfirði þar sem hælisleitendur búa. Aðstæður þeirra eru óboðlegar en í einu húsinu búa um 140 manns í 50 her­ bergjum. Mér er sagt að aðbúnaður hæl­ isleitenda í Grikklandi sé á pari eða betri en á Íslandi þótt öðru sé haldið fram. Íbúafjöldi Grindavíkur á hverju ári Nú fer sá tími í hönd að reikna megi með hælisleitendum sem koma til landsins fjölgi verulega. Vinnumála­ stofnun hefur tuttugu hótel og íbúða­ blokkir á leigu og til að mæta fjölgun hælisleitenda. Í síðustu viku voru tvö hótel tekin á leigu í Reykjanesbæ til við­ bótar við blokkir á Ásbrú. Til áramóta þarf þrjár, fjórar blokkir til að hýsa þann viðbótarfjölda sem er á leiðinni. Svo kemur nýtt ár með yfir 3.000 hælisleit­ endum, sem er sambærilegur heildar­ fjölda íbúa í Grindavík. Hér er rauðgló­ andi húsnæðismarkaður og fátt eftir af húsnæði nema íþróttahús, safnaðar­ heimili og kirkjur fyrir þetta fólk að búa í. Hugmyndir eru uppi um að flytja inn gámaeiningar og búa til sérstök hverfi fyrir hælisleitendur. Í Svíþjóð hefur reynslan af slíkum hverfum ekki verið góð, svo ekki sé nú meira sagt. Félagsþjónustan og húsnæðismark­ aðurinn sprungin Samkvæmt samningi við ríkið taka Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Reykja­ víkurborg, Akureyri og Árborg á móti hælisleitendum og tvö þau fyrstnefndu bera höfuð og herðar yfir önnur sveit­ arfélög þegar kemur að fjölda hælisleit­ enda í þjónustu. Þar er félagsþjónustan og húsnæðismarkaðurinn sprungin. Grunnskólakerfið og heilsugæslan eru sömuleiðis komin að þolmörkum. Í Hafnarfirði áttu tveir starfsmenn að vinna að málefnum hælisleitenda en þeir eru nú sextán og umfangið allt í samræmi við þessar tölur. Sveitar­ félögin vilja skiljanlega að aukinni þjón­ ustu fylgi aukið fjármagn. Þau eru að kikna undan álaginu. Íslenskt skattfé fjármagnar hryðju­ verk Útlendingastofnun og úrskurðarnefnd útlendingamála hefur veitt hælisleit­ endum frá Venesúela forgangsaf­ greiðslu við landamærin. Í dag er talið að sex milljónir íbúa frá Venesúela séu að flýja bág kjör í heimalandinu. Nú þegar hafa 600 hælisleitendur frá Ve­ nesúela fengið hér hæli en 50 í Noregi. Allt bendir til þess að stór hluti hælis­ leitenda frá Venesúela komi frá Sýr­ landi í gegnum Spán og greiði glæpa­ hringjum þóknun til að komast til Ís­ lands. Þegar hælisleitandinn er kom­ inn til Íslands og fer á framfærslu ríkis­ sjóðs koma krumlur glæpahringjanna á ný og krefjast hærri greiðslu. Glæpa­ hringirnir hafa umboðsmenn hér á landi sem halda áfram að innheimta og beita fólkið harðræði við inn­ heimtuna. Þannig lendir fjármagn frá íslenskum skattgreiðendum í höndum glæpahringja. Glæpahringja sem nota íslenska skattpeninga til að fjármagna mansal og hryðjuverk. Raunveruleikinn á Íslandi er annar en fólk heldur. Umræðan hefur leit­ ast við að kæfa þá sem reynt hafa að sporna við fótum. En þeir sem virða engin landamæri og skilja ekki að hverri krónu verður ekki eytt nema einu sinni telja að Ísland geti tekið á móti t.d. milljónum hælisleitenda frá Venesúela. Þetta fólk vill ekki sjá að hér eru allir innviðir sprungnir, það vantar margar blokkir undir hælis­ leitendur bara til næstu áramóta. Og á næsta ári má reikna með að þúsundir bætist í hópinn að öðru óbreyttu. Á það fólk að búa í gámahverfum þar sem skólar og félagsþjónusta er löngu sprungin? Reynsla annarra þjóða er að slík gettómyndun eru stórhættuleg hverju samfélagi. Fyrir hverja er hælisleitendakerfið? Fólkið sem hælisleitendakerfið var búið til fyrir hefur gleymst. Fólk sem er að flýja stríð og ofsóknir gegn minni­ hlutahópum og er á flótta til að bjarga eigin lífi og limum. Í staðinn tökum við á móti stærstum hluta hælisleitenda sem þegar hafa fengið vernd í öðrum löndum Evrópu. Allt að 50% hælis­ leitenda sem fá hér vernd hafa þegar fengið landvistarleyfi í öðrum löndum Evrópu. Það fólk er ekki að flýja stríð eða bjarga eigin lífi og limum, það er að flýja fjárhagslega afkomu í löndum Evrópu. Hælisleitendakerfið er ekki hugsað fyrir fólk sem er að flýja efna­ hagslega erfiðleika. Hér er framfærsla hælisleitenda betri en víðast annars staðar og straumurinn liggur til betra lífs á Íslandi. Sú staðreynd birtist í því að fjórum til sex sinnum fleiri hælisleit­ endur koma til Íslands en sækja til Sví­ þjóðar miðað við höfðatölu. Í saman­ burði við Norðurlöndin sækja hér hlut­ fallslega flestir um hæli og hlutfallslega langflestir fá hér hæli. Við erum að missa tökin og gröfum þannig skipulega undan möguleikum okkar Íslendinga til að standa sóma­ samlega að móttöku hælisleitenda, sem eiga ekki í önnur hús að venda. Íslensk stjórnvöld þurfa að móta heildstæða stefnu í þessum málaflokki og halda sig við hana. Búa til kerfi sem byggir á því að málsmeðferð og niður­ staða byggist á jafnræði og gagnsæi og innleiða sambærilegar reglur og gilda í nágrannalöndum okkar. Ekki kerfi sem laðar að sér starfsemi glæpahringja og þar sem tafir á málsmeðferð verða að keppikefli. Afmælisþættir skólans í Vogum, birtast vikulega í Víkurfréttum og vf.is á afmælisárinu. Þorvaldur Örn Árnason, áður kennari við skólann, tekur saman með góðra manna hjálp. 38. ÞÁTTUR 12 // vÍkurFrÉttir á SuðurNeSJuM

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.