Bændablaðið - 06.10.2022, Blaðsíða 5

Bændablaðið - 06.10.2022, Blaðsíða 5
M jó lk ur sa m sa la n Íslenskir bændur hafa ávallt borið gæfu til að standa sjálfir að mjólkurvöruvinnslu og sölu í gegnum samvinnufélög sín og er Mjólkursamsalan sprottin úr þeim jarðvegi. Elsta fyrirtækið í sameinuðu félagi Mjólkursamsölunnar er Mjólkursamlag KEA, sem var stofnað 4. september 1927, sem telst vera stofndagur MS. Þannig spannar saga Mjólkursamsölunnar nú heil 95 ár. Á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á mjólkuriðnaði á Íslandi og sérstaklega undanfarna þrjá áratugi. Fjöldi félaga í mjólkuriðnaði hafa sameinast undir nafni Mjólkursamsölunnar og hefur MS starfað í núverandi mynd frá árinu 2007. Mjólkursamsalan skipar mikilvægan sess í matvælaframleiðslu landsins og er eitt þeirra fyrirtækja sem skilgreint er sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki af Stjórnarráði Íslands. „Helsta hlutverk MS er að tryggja landsmönnum öllum reglulegan og öruggan aðgang að heilnæmum, ferskum og fjölbreyttum mjólkurvörum hvar sem er á landinu. Það sem ég held að færri átti sig á er að fyrirtækið er jafnframt eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins þar sem við flytjum mjólk frá bændum til framleiðslustöðva og dreifum svo tilbúnum vörum til viðskiptavina og verslana um land allt,“ segir Margrét Gísladóttir, sérfræðingur á hagsýslu- og samskiptasviði MS. Fullnýting hráefna og framleiðsla á kaseini Á undanförnum árum hefur Mjólkur- samsalan lagt aukna áherslu á sjálfbærni, með því að draga úr kolefnisspori og hámarka nýtingu hráefna. Fyrir fimm árum var tekið risaskref í umhverfismálum tengdum matvælaframleiðslu hér á landi þegar opnuð var ný verksmiðja á Sauðárkróki, Íslenskar mysuafurðir, sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga. „Þá hófum við framleiðslu á próteindufti úr um 50 milljón lítrum af mysu árlega sem áður var ónýtt. Fljótlega mun svo hefjast þar etanólframleiðsla úr mjólkursykri og þá erum við í raun farin að fullnýta hráefnið og það eina sem verður eftir við framleiðsluna er vatn,“ segir Margrét. Mjólkursamsalan er einnig að undirbúa framleiðslu á kaseini úr undanrennu á Sauðárkróki, sem mun leysa af hólmi framleiðslu á undanrennuosti og draga úr þörf fyrir framleiðslu á undanrennudufti. Kasein er notað í matvælaiðnaði, meðal annars við framleiðslu á morgunkorni og brauði, en einnig í efnaiðnaði, til að mynda í málningu, plast og glanspappír. „Með því að framleiða kasein erum við að skapa meiri verðmæti úr mjólkurpróteini sem er framleitt umfram sölu á innanlandsmarkaði og þarf því að flytja úr landi. Auk þess er minni orkukostnaður við kaseinframleiðsluna og með staðsetningu framleiðslunnar á Sauðárkróki drögum við úr kolefnisspori flutninga, þar sem annars væri undanrennan flutt á Selfoss til þurrkunar.“ Samfélagsleg ábyrgð Mjólkursamsalan hefur sterkar rætur í íslensku samfélagi og menningu og þá ekki einungis matarmenningu. „Við höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og mál sem standa okkur næst snúa m.a. að hollustu mjólkurvara, umhverfisvernd, lýðheilsu og málrækt,“ segir Margrét. Frá árinu 1994 hefur Mjólkursamsalan verið í samstarfi við Íslenska málnefnd og beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins. Sýnilegasta verkefnið eru sérstök íslenskuátök sem birst hafa landsmönnum á mjólkurfernum MS í gegnum árin en frá upphafi hefur markmið verkefnisins verið að hvetja til umræðu um íslenskt mál og verðmæti þess. MS hefur vakið athygli á degi íslenskrar tungu ár hvert og enn þann dag í dag lifir Íslenskuljóðið, sem Þórarinn Eldjárn samdi sérstaklega fyrir MS og flutt var af Alexöndru Gunnarsdóttur í sérstakri sjónvarpsauglýsingu árið 1994, góðu lífi í hugum fólks. „Það er gott að finna að stuðningur Mjólkursamsölunnar við málrækt skiptir fólk máli og kveikir jafnan líflegar umræður, hvort sem það eru gátur, orðatiltæki eða örnefni sem hafa birst á mjólkurfernunum eða efni á öðrum miðlum. Í fyrra gáfum við út skemmtilegt myndband með styttu Jónasar Hallgrímssonar sem lifnaði við og gekk um höfuðborgarsvæðið og velti fyrir sér þróun og þroska tungumálsins, nýyrðum og breytingum í þjóðfélaginu frá hans tíma.“ MS hefur einnig mikla tengingu við íþróttahreyfinguna um land allt. „Á hverju ári styður MS við málefni tengd íþróttastarfi um land allt. Fyrir fjórum árum endurnýjuðum við samstarf MS og KSÍ og Mjólkurbikarinn sneri aftur. Bikarkeppni KSÍ hafði borið yfirskriftina Mjólkurbikarinn á árum áður og var afar ánægjulegt að endurvekja það samstarf og taka aftur þátt í að krýna bikarmeistara í karla- og kvennaflokki fótboltans,“ segir Margrét. Auk þessa hefur Mjólkursamsalan stutt við Slysavarnafélagið Landsbjörg um árabil í formi vörugjafa þegar sjálfboðaliðar björgunarsveita um land allt hafa sinnt tímafrekum útköllum, hálendisvöktum og fjáröflunum. „Í fyrra réðumst við svo í sérstakt átak til að kynna mikilvægi björgunarsveitanna á mjólkurfernunum okkar þar sem við hvöttum fólk til að kynna sér starfsemi þeirra og til að gerast Bakverðir.“ Íslenskar mjólkurvörur á verðlaunapöllum Íslendingar eru afar duglegir að neyta mjólkurvara og er meðalmjólkurneysla á Íslandi 60% meiri en að meðaltali í Evrópusambandslöndunum. Það er því mikilvægt að Mjólkursamsalan sé öllum stundum í takt við tíðarandann og skynji þarfir markaðarins hverju sinni. Í dag framleiðir fyrirtækið um 400 tegundir af fjölbreyttum mjólkurvörum og hefur hið mikla úrval fyrir ekki stærri markað vakið athygli víða um heim. „Þarfir fólks eru mismunandi og leggjum við áherslu á að bjóða fjölbreyttar vörur í samræmi við það. Þar má nefna sem dæmi laktósalausar mjólkurvörur og D-vítamínbættar, Næringu+, sem var sérstaklega hönnuð fyrir eldra fólk, og Hleðslu íþróttadrykk.“ Vörum fyrirtækisins hefur gengið afar vel í alþjóðlegum keppnum og hafa margar hverjar hlotið fyrstu verðlaun í sínum flokkum. Sem dæmi var Kókómjólkin valin Besta mjólkurvaran í flokki neysluvara á International Food Contest árið 2012, Ísey skyr með bökuðum eplum hreppti sama titil árið 2017 og nú síðast landaði osturinn Feykir 24+ úr Goðdalalínunni 8. sæti í Heimsmeistarakeppni osta fyrr á þessu ári. Ostóber tími til að njóta osta MS er sérstaklega stolt af því mikla úrvali osta sem fyrirtækið framleiðir og er óhætt að segja að fjölbreytileiki íslenskra osta hafi aldrei verið meiri. Ostagerð er flókið ferli og aðaláskorunin sú að búa til ost og endurtaka svo leikinn þannig að næsti verði sem líkastur að bragði þeim fyrri en það er mikil áskorun með lifandi afurð eins og ostar eru. Dalaostar eru handgerðir mygluostar framleiddir í Búðardal, Óðalsostar eru sannkallaðir sælkeraostar framleiddir á Akureyri, frá Sauðárkróki koma skagfirsku gæðaostarnir Goðdalir og úr Ostakjallaranum koma spennandi ostar sem ýmist hafa fengið að þroskast lengur en 12 mánuði eða eru í takmörkuðu magni og er skemmst frá því að segja að þar leynist óvænt ánægja í hverjum bita. „Frá árinu 2018 hefur MS haldið októbermánuð hátíðlegan undir yfirskriftinni Ostóber – tími til að njóta osta, en þennan mánuð notum við sérstaklega til að fagna gæðum og fjölbreytileika íslenskra osta með kynningum, uppskriftum og spennandi vörunýjungum. Meðal nýjunga úr Ostakjallaranum þetta árið eru rauðkíttiosturinn Kjartan með kúmeni og Fanney með fennelfræjum og fáfnisgrasi en í báðum tilvikum er um að ræða framandi og forvitnilega osta sem bjóða upp á margslungna bragðupplifun.“ Tökum vel á móti gestum á Landbúnaðarsýningunni Starfsfólk Mjólkursamsölunnar hlakkar til að hitta eigendur sína, aðra bændur, fagfólk og áhugafólk um landbúnað á Landbúnaðarsýningunni í Laugarhaldshöll 14.–16. október næstkomandi. Sýningar sem þessi skipa mikilvægan sess í fræðslu og upplýsingagjöf til almennings um íslenskan landbúnað og framleiðslu matvæla. Mjólkursamsalan verður með stóran sýningarbás þar sem kynntar verða íslenskar mjólkurvörur og ostar. „Það er fátt skemmtilegra en að kynna vörur fyrirtækisins á sýningum eins og þessari. Við hlökkum sannarlega til að hitta gesti sýningarinnar, spjalla og leyfa þeim að bragða á úrvali mjólkurvara. Og hver veit nema gestir fái að taka forskot á sæluna með smakki af óvæntum nýjungum,“ segir Margrét að lokum. Mjólkursamsalan, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík. Sími 450 1100. Sjá nánar á ms.is. Mjólkursamsalan er eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins og annast framleiðslu, vöruþróun, markaðssetningu og dreifingu á mjólkurafurðum til viðskiptavina um land allt. Fyrirtækið hefur frá upphafi verið í eigu kúabænda og fjölskyldna þeirra um land allt og má þannig segja að Mjólkursamsalan sé stærsta fjölskyldufyrirtæki landsins. MS framleiðir vörur úr um 150 milljón lítrum af mjólk á ári sem kemur frá 520 kúabúum sem starfrækt eru víðs vegar um landið. Í dag starfa 415 manns hjá fyrirtækinu sem rekur starfsstöðvar í Reykjavík, Akureyri, Selfossi, Búðardal og Egilsstöðum. Kýr á leið í haga, Glitstaðir í Borgarfirði. Valskonur fagna sigri í Mjólkurbikarnum. Margrét Gísladóttir, sérfræðingur á hagsýslu- og samskiptasviði MS. Við höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og mál sem standa okkur næst snúa m.a. að hollustu mjólkurvara, um hverfisvernd, lýðheilsu og málrækt ...“ KYNNINGAR Frá árinu 2018 hefur MS haldið október- mánuð hátíðlegan undir yfirskriftinni Ostóber – tími til að njóta osta.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.