Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Síða 6
Ljósmynd Einar Falnr
Frá ritstjóra
Gífurlegar verðhækkanir á laxveiðileyfum eru framundan. Svimandi háar upphæðir voru boðnar
í Víðidalsá og í framhaldi af því hækkar leiga fyrir Miðfjarðará um tugi milljóna króna. Ef horft er
til þessara tveggja laxveiðidrottninga á Norðurlandi er gaman að velta fyrir sér tölum. Samtals er
leigan fyrir þessar tvær ár næsta sumar 105 milljónir króna. Þá á eftir að taka tillit til verðbólgu.
Á fimm árum verður leiga fyrir árnar því hátt í 600 milljónir króna. Og vel á minnst, þetta er verð
til bænda sem heildsalinn greiðir. Smásöluverð á þessum fimm árum, raunar með veiðihúsum og
öðru tilheyrandi, er því nálægt einum milljarði króna. Hvar endar þetta? Það er alveg ljóst að meðal
stangaveiðimaðurinn kaupir ekki veiðileyfi í þessum ám. Þær eru ekki lengur á landakorti hins
venjulega launamanns. Þetta verða laxveiðiár forréttindahópa og alþjóðlegra milljarðamæringa.
En það er ekki víst að það verði til góðs fyrir eigendur. Ætla íslensk fyrirtæki að kaupa veiðileyfi
í þessum ám?
Nú er uppsveifla í veiðinni. Árið 2004 var eitt af bestu laxveiðiárum í langan tíma. Spáð er góðu
sumri fram undan. En hvað svo? Við vitum að miklar sveiflur eru í veiði. Það verða mögur ár og
hvernig ætla menn þá að selja þessar ár á ofurverði? Það verður í besta falli mjög erfitt. Og ekki
mun verðið lækka, það hefur ekki gerst á íslandi í hinum stærri ám að leiga lækki. Sennilega hitti
formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, Bjarni Júlíusson, naglann á höfuðið í viðtali í síðasta
tölublaði Veiðimannsins þegar hann talaði um hrunadans og bætti því jafnframt við að félagið
myndi ekki taka þátt í þeim dansi.
Gott litlit
Öllum ber saman um að útlitið sé gott fyrir sumarið. Hvort sem um er að ræða silung eða lax.
Raunar tala menn sig upp í hæstu hæðir á þessum tíma ár eftir ár. En það er allt í lagi. Við viljum
fara bjartsýnir til veiða. Nú lítur út fyrir gott smálaxasumar og miðað við fjölda smálaxa í fyrra
vonast menn til þess að mikið komi af tveggja ára fiski. Ef það fer saman, góðar göngur bæði af
eins og tveggja ára fiski úr sjó, fáum við mjög gott veiðisumar. En við erum að fjalla um náttúruna
og þar eru ýmsir kraftar að verki sem við kunnum ekki full skil á og geta því sett strik í reikninginn.
Á þessari stundu er útlitið gott og það er þægileg tilhugsun að sjá fyrir sér ár fullar af fiski.
Vöxtur í urriðaveiði
í fyrra veiddist meira af urriða en nokkru sinni frá því að skráning hófst. Hér fer væntanlega tvennt
saman, annars vegar betri og markvissari skráning á veiði og hins vegar aukin fiskgengd. Vart
verður verulegrar aukningar í öllum landshlutum og samkvæmt áliti okkar fremstu sérfræðinga
á þessu sviði er búist við áframhaldandi aukningu í sumar. Þessi spá tekur bæði til staðbundins
urriða og sjóbirtings. í Veiðimanninum er einmitt birt tafla frá Veiðimálastofnun yfir valin
veiðisvæði bæði bleikju og urriða. Þar geta menn séð þessa þróun.
30 pundari í sumar?
Eitt aðalefni blaðsins að þessu sinni er tilraun til að taka saman upplýsingar um stærstu fiska sem
veiðst hafa á stöng á íslandi. Þetta hefur ekki verið gert áður með þessum hætti. Vonast ég eftir því
að menn verði duglegir að bæta við þessa lista og fylla inn í þær eyður sem þarna eru. Það vekur
óneitanlega athygli að síðasti 30 punda lax veiddist á íslandi árið 1987 og það sumar voru þeir
reyndar þrír í þessum stærðarflokki. Ef horft er lengra til baka má sjá að með nokkuð reglubundnu
millibili veiðast fiskar í þessum stærðarflokki. Það skyldi þó ekki vera einhver náttúruleg sveifla
sem ræður þessu? Ég yrði ekki hissa þó svo að slíkur fiskur veiddist í sumar, eftir að hafa skoðað
þá tilhneigingu sem kemur fram í samantektinni. En það er rétt að lesandinn myndi sér sjálfur
skoðun á þessu.
Góða skemmtun í sumar.