Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Side 43

Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Side 43
fljótt að breytast. Hvað er maður oft búinn að fá sjokk vegna hækkunar á veiðileyfum. Maður hefur jafnvel búist við að hætta að veiða en alltaf fylgir maður þessari þróun. Veiðileyfi hafa hækkað en veiðimönnum hefur einnig fjölgað. Markaðurinn lagar sig að þessum hækkunum. Veiðimaðurinn Stefán Stefán er uppalinn af harðsvíruðu og afar öflugu gengi silungsveiðimanna á Norðurlandi. Pabbi hans er Sigurður Gestsson vaxtarræktarmaður og mikill veiðimaður. Af veiðifélögum Sigurðar og Stefáns má nefna Akureyringana Hermann Brynjarsson, Einar Guðmann og þá drengi, gífurlega öfluga silungsveiðimenn. Sjálfur segist Stefán fara í nokkrar veiðiferðir á ári. Hans vinna yfir sumarið tengist hins vegar undantekningarlaust veiði, hvort sem það er leiðsögn eða sala á veiðileyfum. En hvert fer hann sjálfur að veiða? ”Ég fer í Blöndu í júní og sennilega tvisvar þetta árið. Undanfarin ár hef ég veitt í opnuninni í Mývatnssveit en komst því miður ekki í sumar. Ég fer alltaf í Miðfjarðará einu sinni til tvisvar á sumri. Þá fer ég með konunni minni og við erum saman með stöng. Hún er mjög góður veiðimaður.” Harpa Hlín og Stefán (eða H&S Island) kynntust á skrifstofu Lax-á. Stefán hlær þegar hann rifjar upp þeirra fyrstu kynni. "Hún var ekkert farin að veiða að ráði þegar hún byrjaði en talaði samt eins og hún þekkti allt sem sneri að veiði vegna sölu og samskipta við veiðimenn á skrifstofu Lax- á. Hún þekkti allar flugurnar, línurnar, veiðisvæðin og allt sem kom þessu við. Það var ofurlítið erfitt að sjá í gegnum þetta. Hún kom með alveg meitlaðar spurningar eins og; "Já, ætlarðu að setja undir Blue Charm númer 12? Ætlarðu að prófa gáruhnútinn núna?” En svo vissi hún ekkert um hvað hún var að tala í raun og veru. Það var mjög hlægilegt þegar maður uppgötvaði að hjá henni voru þetta bara orð og setningar sem hún hafði lært en vissi ekki alveg hvað þýddu. En það er nú breytt í dag enda kýs hún að hafa mig sem lengst í burtu þegar hún er að veiða." Stefán hlær mjög innilega og það er auðvelt að sjá fyrir sér spaugilegar uppákomur í þessari stöðu. Hvernig líst þér á sumarið í þessum ám sem þú ætlar að veiða í? "Ég býst við stórkostlegu ári fyrir norðan. Ég er alveg rosalega spenntur fyrir Blöndu í júní. Sama má segja um Miðfjaðrará. Ég er með hnút í maganum af tillhlökkun." Hvort er það sölustjórinn eða veiðimaðurinn sem talar svona? "Ég er að tala sem veiðimaður. í fyrrasumar í júní veiddum við svolítið af stórlaxi en ekki sérlega mikið. Við veiddum hins vegar mjög vel af smálaxi. Eftir tveggja daga veiði fékk hollið sem ég var í rúmlega fimmtíu laxa og af þeim voru bara 15 stórlaxar. Ég býst við miklu af stórlaxi eða tveggja ára fiski í sumar. Ég er alveg viss um það. Sama má segja með Miðfjarðará. Síðasta sumar kom smálaxinn frekar snemma og ég man að 21. júní var kominn smálax um alla á. Það var alveg rosaleg smálaxaveiði þar í fyrra eins og í ánum í kring og því býst ég við góðu hlutfalli af tveggja ára laxi úr sjó núna." Hvað með Suðurlandið? "Já, það er mjög spennandi. Heimtur í Rangánum voru mjög góðar í fyrra, í raun alveg feykilega góðar. Ég hlakka til að sjá hvort stórlaxinn mætir þarna í júní í miklum mæli. Rangárnar skipa stóran sess hjá mér, ég var eitt sinn yfirleiðsögumaður þar. Ég hef lent í mjög góðri og óvæntri veiði í júní í Rangánum. Og það er svo merkilegt að það eru helst júnífiskarnir sem maður man eftir þegar sumarið er búið. Stórir og sterkir. Árið 2001 var metveiði í Ytri-Rangá. Seiðasleppingar það árið mistókust hins vegar og sumarið eftir, 2002, varð lélegt. Þá komu ekki nema um 800 laxar á land. En merkilegast var að ríflega 80% af þeim fiskum sem veiddust voru tveggja ára eða úr sleppingunni 2001. Það bjargaði miklu. Menn fengu stóra laxa og urðu því mjög ánægðir. Sleppingar hafa gengið vel síðustu ár og ég á því von á mjög spennandi sumri fyrir austan. Veiða/sleppa! "Ég hvet veiðimenn til að veiða og sleppa. Það verða fleiri laxar í ánni og fleiri veiðimenn fá að njóta þeirra. Þegar menn kaupa veiðileyfi gera þeir kröfu um að lax sé í ánni og þegar þeir hafa sannfærst um það er hálfur sigur unninn. Svo kemur í ljós hvort hann tekur. Þetta er mjög einfalt. Ár sem geyma mikið af fiski eru góð söluvara. Hinar eru það ekki." Stefán hefur séð allt í þessu. Hann nefnir til sögunnar Hallá. Litla á sem hefur bæði lax og silung. Stefán fór þangað í eitt skipti með fjölskyldunni í afslöppun með veiðiívafi. Við vitum svo sem öll hvað það þýðir. Nema hvað, þegar Stefán mætir á svæðið og ætlar að hefja afslöppunina ákveður hann að fara með stöngina bara rétt sem snöggvast og renna í einn hyl. Hann kemur að litlu hvítfyssi skammt fyrir neðan veiðihúsið. Þetta var lítill hylur, í mesta lagi metri á lengd og breidd. Eiginlega smáflúð. Maðkinum var rennt varlega og með það sama var þrifið í. Lax á og honum landað. Stefán varð steinhissa. Aftur var settur maðkur á og sama sagan endurtók sig. Ekki bara einu sinni heldur fjórum sinnum í röð. Alls lágu fimm laxar á bakkanum eftir örfáar mínútur. Þeir höfðu staðnæmst í smáholu í göngu upp ána. Flottir smálaxar. Þegar þessi mikla veiði var komin í hús ákváðu allir að veiða smávegis áður en farið væri að slappa af. Raunar varð lítið um afslöppun í þessari ferð en mikið um veiði. En hver slappar ekki best af þegar hann er að veiða? Kannski gekk þetta einmitt nákvæmlega upp eins og til var ætlast. Stefán er rokinn og talar tungum í síma, um ísland, laxa og dagsetningar. Vonandi er tilfinning Stefáns fyrir stórlaxasumrinu 2005 rétt. Ef ekki þá kemur það örugglega næsta sumar. Júní 2005 Veiðimaðurinn 43

x

Veiðimaðurinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Veiðimaðurinn
https://timarit.is/publication/1774

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.