Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Síða 59

Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Síða 59
Veiðisvæði 4 Almennt um veiðisvæðið Veiðisvæði fjögur byrjar við merki ofan við Hrísgerðisbreiðu og nær upp að merki sem er í landi Steinkirkju og eru merktir veiðistaðir nr. 51 - 65. Bestu veiðistaðir 2004 voru nr. 52 - 56 og nr. 59. Sumarið 2004 var fyrsta sumarið sem veiðisvæði fjögur var fellt inn í laxveiðina en áður hafði það verið selt stakt sem silungasvæði með laxavon. Þetta tókst vonum framar og veiddust 93 laxar á svæðinu eða töluvert fleiri en á veiðisvæði eitt. Eitthvað er um rugling á nöfnum veiðistaða og eru nokkrir veiðistaðir nefndir öðrum nöfnum í daglegu tali veiðimanna en þeir raunverulega heita. Einnig eru litlar upplýsingar til um veiðistaðina á efri hlutanum en við nýja fyrirkomulagið ætti þetta að breytast til batnaðar. Veiðimenn skipta svæðinu á milli sín eftir samkomulagi. Sett var upp sleppitjörn efst á svæðinu, í landi Steinkirkju, og í hana sleppt um 4.000 gönguseiðum vorið 2004 svo gaman verður að fylgjast með veiðinni þarna sumarið 2005. Nr. 51 Hálspollur Fyrst og fremst bleikjustaður og veiddur að austanverðu. Þó fæst þarna einstaka lax ef heppnin er með og göngufiskur hefur staldrað þar aðeins við. Veiðistaðurinn er smáflati sem myndast rétt ofan við þar sem Þingmannalækurinn rennur út í Fnjóská og sjálfur lækjarósinn. Gott er að strippa hér silungaflugur og byrja nálægt landi. Nr. 52 Flúðir Mjög góður veiðistaður rétt neðan við brúna yfir Fnjóská. Hægt er að veiða staðinn frá báðum bökkum en flestir kjósa austurlandið. Þar er byrjað aðeins ofan við stóran stein sem er nokkra metra út í á. Best er að vaða aðeins út í og kasta löngum köstum yfir á helluna að vestanverðu. Á þessari hellu og í brún hennar liggja laxarnir. Gott er að veiða sig niður að lítilli sandvík við austurlandið og jafnvel niður fyrir hana. Þegar veitt er að vestanverðu þarf lítið að vaða, þar eru pyttir sem göngufiskur stansar gjarnan í. Nr. 53 Nesbugða (Neslækur) Einnig kallaður Neshylur og dregur nafn sitt af bænum Nesi sem stendur beint ofan við veiðistaðinn. Ekið er að veiðistaðnum rétt sunnan við bæinn. Þessi hylur hefur breyst töluvert og nú er betra að veiða austan megin og er þá vaðið yfir ána 50-100 metrum ofan við veiðistaðinn. Gott er að byrja við stóru grjótin ofarlega í veiðistaðnum og veiða niður. Staðurinn skýrir sig að mestu sjálfur þegar að honum er komið, straumharður strengur með vesturlandinu en rólegra vatn að austanverðu og botninn stórgrýttur. Þar geta laxar legið milli steinanna en einnig mjög nálægt landi alveg frá stórgrýtinu og niður breiðuna. Nr. 54 Ferjustrengur Einnig kallaður Nesbreiða á meðal veiðimanna. Veiddur að vestanverðu og er þá byrjað aðeins ofan við raflínuna er liggur yfir ána og vaðið út í ána. Aðeins neðan við þessa raflínu eru ólgur frá stórum steinum. Breiðan er frekar grunn en í kringum ólgurnar er lúmskt dýpi og þar liggur laxinn. Einnig getur hann verið nálægt landi að austanverðu aðeins neðar. Nr. 55 - 56 Skógargilsbreiða og Búðarbreiða Þessir veiðistaðir eru við gömlu bogabrúna yfir í Vaglaskóg en hún er nú aðeins notuð sem göngubrú eftir að nýja brúin var tekin í gagnið. Ekinn er vegslóði frá þjóðveginum niður að brúnni en einnig er hægt að fara yfir nýju brúna ofar og gegnum skóginn. Hægt er að veiða af báðum bökkum en flestir velja austurlandið og er þá ráðlegt að byrja alveg við brúna og veiða niður eftir. Ofarlega er stórgrýti við bakkann og djúpt og er ráðlegt að reyna vel þar. Aðeins neðar er svo Skógargilsbreiða en segja má að frá brú og töluvert niður eftir sé einn samfelldur veiðistaður. Nr. 59 Systrahvammur (Fellibrú) í daglegu tali er þessi veiðistaður nefndur Fellibrú en hann er við nýju brúna. Fyrir nokkrum árum var byggð ný brú á þessum stað en hún gaf sig undan klakastíflu og féll í ána. Við breytingar og uppsetningu á nýrri brú í kjölfarið myndaðist svo veiðistaðurinn. Hægt er að veiða hér frá báðum bökkum. Gott er að byrja að austanverðu aðeins ofan við brúna og veiða niður að henni og undir henni. Neðan við brúna er mikil breiða, býsna djúp efst. Vaða þarf út í ána og þeim mun meira ef veitt er vestan frá og breiðan veidd niður eftir. Einna besti tökustaðurinn er fyrir miðri breiðu og þar niður af. Ágæt silungsveiði er á þessum veiðistað en bleikjuna er helst að finna á grunnu vatni beggja megin á breiðunni. Nr. 60-65 Dýjabreiða, Merkurbreiða, Skjólbreiða, Hnsárbreiða, Urðarpollur og Mógilsbreiða Nokkrir fallegir staðir eru á þessum kafla sem fáir þekkja vel en eru merktir og var nokkuð af laxi skráð á þeim sumarið 2004. Flestir staðanna eru veiddir að vestanverðu og með tilkomu sleppitjarnarinnar við efsta veiðistað á þetta svæði vafalaust eftir að verða numið af fleiri veiðimönnum og mun væntanlega skila veiði í sumar. Júni 2005 Veiðimaðurinn 59

x

Veiðimaðurinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Veiðimaðurinn
https://timarit.is/publication/1774

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.