FLE blaðið - 01.01.2019, Blaðsíða 8
8 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2019
um fjórðu iðnbyltinguna með mjög svo myndrænum og áhuga-
verðum hætti.
Heildarmætingin á þær fjórar ráðstefnur sem félagið stendur
vanalega fyrir var nánast sú sama og árið áður eða um 630
gestir. Að vanda voru mörg áhugaverð og fræðandi efni tekin
til meðferðar sem ekki er ástæða til að telja upp hér og nú, en
ef ég ætti að nefna eitt eða tvö atriði þá var vinnustofan um
Erfðamál á síðustu Haustráðstefnu mjög vinsæl og einnig var
erindi um „Smart Government“ eða snjallstjórnsýslu flutt á
Skattadeginum mjög áhugavert. Fjölmennasti atburðurinn
á liðnu starfsári var Skattadagurinn þar sem mættu um 190
manns til að hlýða á boðskapinn og má gera ráð fyrir að nærvera
nýs Fjármálaráðherra og ekki síst erindi Ríkisskattstjóra sem
reyndar er í dag fyrrverandi hafi haft sitt að segja um þátttöku.
Gleðistund FLE var haldin í fimmta sinn haustið 2018.
Fyrirkomulag þetta í upphafi starfsárs félagsins hefur mælst vel
fyrir þar sem félagsmenn hafa gert sér glaðan dag með léttum
veitingum í boði félagsins. Ungliðanefnd félagsins sem sett var
á laggirnar af þessu tilefni á sínum tíma á miklar þakkir og hrós
skilið fyrir alla sína vinnu og skipulag í kringum Gleðistundina.
NEFNDARSTÖRF
Að venju eru fastanefndir félagsins mikilvægur hlekkur í starf-
seminni og bera oft hitann og þungann af ákveðnum málefn-
um. Fyrir utan hefðbundin störf Reikningsskilanefndarinnar þá
átti nefndin samtöl og fundi með Reikningsskilaráði sem tók
til starfa á síðast liðnu ári eftir að hafa legið í dvala um árabil.
Samkvæmt lögum um ársreikninga ber ráðinu að eiga sam-
ráð við félagið um þau ýmsu mál er lúta að reikningsskilum og
hafa verið lagðar línur í þeim efnum. Í því sambandi má nefna
að nefndin tók upp við Reikningsskilaráð áhersluatriði eftirlits
Ársreikningaskrár og þær athugasemdir sem félagsmenn
höfðu við þau. Óskað var eftir því að ráðið fylgdi þeim atrið-
um eftir og þeirri skoðun komið á framfæri að í framtíðinni ætti
Reikningsskilaráð að gera sig meira gildandi og koma á framfæri
sinni skoðun á hinum ýmsu álitamálum reikningsskila frekar en
að túlkun Ársreikningaskrár réði ferðinni.
Störf Endurskoðunarnefndarinnar voru með hefðbundnum hætti
á liðnu starfsári. Einna helst má þó nefna að nefndin fylgdist
með framvindu mála við innleiðingu Evróputilskipunarinnar hér á
landi enda var leitast við að upplýsa nefndarmenn eftir því sem
málin tóku á sig mynd hjá vinnuhóp ráðuneytisins.
Fyrir utan hefðbundin störf Skattanefndarinnar þá má segja
að frestir lögaðila og áherslubreytingar Ríkisskattstjóra í þeim
efnum hafi tekið mestan tíma nefndarinnar. Fundað var með full-
trúum Ríkisskattstjóra og þeim gerð grein fyrir að það væri farið
að fjúka í flest skjól hvað varðar verulega skerðingu á skilafresti
lögaðila. Gera má ráð fyrir að skilafrestir verði eitt aðalmálið á
borði nefndarinnar á komandi starfsári sem og stjórnarinnar.
Störf Gæðanefndar hafa verið í föstum skorðum undan farin
ár og hafa aðallega tengst yfirferð Gæðaeftirlitsskýrslna, en
lögbundið gæðaeftirlit með störfum okkar er undir yfirstjórn
Endurskoðendaráðs. Í ljósi fyrirliggjandi frumvarps má aftur á
móti gera ráð fyrir að eftirlitshlutverki nefndarinnar ljúki á árinu
2019.
Eins og komið hefur fram áður og jafnframt er getið í Ársskýrslu
FLE starfsárið 2017-2018 þá hefur Menntunarnefndin mótað
sér ákveðna stefnu sem markast af þremur megin áherslum:
skólaumhverfinu; löggildingarferlinu og endurmenntun félags-
manna. Í því samhengi má nefna að nefndin átti fund með
forsvarsmönnum Háskólans í Reykjavík vegna fyrirhugaðs
meistaranáms í reikningsskilum og endurskoðun. Áfram verður
unnið út frá þessum þremur megin áherslum og í þeim efnum
verður m.a. horft til þeirra breytinga sem væntanlegar eru í
nýjum lögum um störf endurskoðenda.
Endurskoðunardagur.