FLE blaðið - 01.01.2019, Blaðsíða 29
29FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2019
1. INNGANGUR
Með auknum fjármagnsflutningum milli ríkja og aukinni tækni
hafa skattyfirvöld, bæði erlendis og hérlendis, óttast frekari
skattflótta frá einu ríki til annars með þeim afleiðingum að rýrn-
un eða eyðing skattstofna á sér stað í einu ríki á meðan hagn-
aður er færður til annars (e. BEPS, Base Erosion and Profit
Shifting). Vegna þessa tóku m.a. OECD og G20 ríkin höndum
saman á haustmánuðum árið 2013 til að berjast gegn alþjóð-
legri skattasniðgöngu með sameiginlegri aðgerðaráætlun (e.
OECD BEPS Action plan) í fimmtán liðum. Alþjóðleg samvinna
var þannig talin nauðsynlegt til að stemma stigu við skattflótta
milli ríkja, o.þ.a.l. sporna við alþjóðlegri skattasniðgöngu, en
um er að ræða eina umfangsmestu aðgerð á sviði alþjóðlegs
skattaréttar í um 30 ár. Með aðgerðaráætluninni er sjónum sér-
staklega beint að fjölþjóðafyrirtækjum þar sem sett eru fram
samhæfð viðmið með það markmið að koma í veg fyrir að
skattaðilar nýti sér misræmi í löggjöf milli ríkja. Þrjár áætlanir
af BEPS aðgerðaráætluninni snúa beint að milliverðlagningu en
reglur um milliverðlagningu hafa verið í gildi hér á landi frá árinu
2014. Þrátt fyrir hertar reglur hérlendis er engu síður talið að
tekjutap ríkissjóðs geti numið umtalsverðum fjárhæðum vegna
rangrar verðlagningar milli tengdra aðila en áætlað hefur verið
að tekjutap ríkisins sé á bilinu 1 ma.kr. til 6 ma.kr. á ársgrund-
velli.1 Með vísan til þessa og þeirrar þróunar sem orðið hefur
á alþjóðavettvangi setti ríkisskattstjóri á legg í árslok 2017
sérstakan starfshóp sem hefur eingöngu það hlutverk að hafa
eftirlit með því að reglum um milliverðlagningu sé framfylgt.
2. ÁKVÆÐI UM MILLIVERÐLAGNINGU
Hið íslenska milliverðlagningarákvæði, 3.-6. mgr. 57. gr. laga
nr. 90/2003, um tekjuskatt (tsl.), sbr. einnig reglugerð nr.
1180/2014, um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum
tengdra lögaðila, byggir í megindráttum á leiðbeiningarreglum
OECD um milliverðlagningu.2 Meginreglu ákvæðisins er að
finna í 3. mgr. 57. gr. þar sem kveðið er á um armslengdar-
reglu, þ.e. að viðskipti milli tengdra aðila skuli verðlögð líkt
og um ótengda aðila ræðir. Í reglunni felst að ef verðlagning
og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila (eða milli
íslensks lögaðila og lögaðila í lágskattaríki) er ekki sambæri-
leg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila
þá skulu skattyfirvöld meta og eftir atvikum leiðrétta verðlagn-
inguna og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því
hvort verð reynist of- eða vanmetið. Viðskiptahugtak ákvæðis-
ins er rúmt en með því er t.a.m. átt við almenn kaup og sölu
á vörum og þjónustu, efnislegum og óefnislegum eignum og
hvers kyns fjármálagerninga.
REGLUR UM MILLIVERÐLAGNINGU
HVAÐ ÞARF AÐ HAFA Í HUGA?
Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur hjá PwC
Þrátt fyrir hertar reglur hérlendis
er engu síður talið að tekjutap
ríkissjóðs geti numið umtalsverðum
fjárhæðum vegna rangrar
verðlagningar milli tengdra aðila
1. Skýrsla starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um milliverðlagningu og faktúrufölsun, júní 2017.
2. Leiðbeiningarreglur OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og skattyfirvöld sem samþykkar voru af OECD árið 1995, með síðari breytingum
(e. OECD Transfer Pricing Guidelines for Multinational Enterprises and Tax Administrations).