Jökull


Jökull - 01.01.2017, Page 84

Jökull - 01.01.2017, Page 84
Eldgos sunnan Gjástykkisbungu í mars 1980 Skyndilega kom biksvartur mökkur upp í kjölfar gufu bólstrans og þá gerðum við okkur ljóst að eldgos var að brjótast upp á yfirborðið fyrir augum okkar. Við ákváðum nú í hvelli að láta fleiri mælingar lönd og leið en halda þegar í stað að eldstöðvunum því ekki var það á hverjum degi sem menn yrðu vitni að slík- um atburði. En nú kom babb í bátinn, sleðinn sem ég var með neitaði að fara í gang. Eftir að hafa kíkt á kerti og kannað hvort um bensínstíflu væri að ræða og komist að raun um að svo var ekki, mundi ég eftir að lögg af ísvara var í brúsa undir sæti sleðans. Ég dreypti nú dálitlu af miðinum í bensíntankinn og viti menn, sleðinn rauk í gang. Orsök bilunarinnar var því þéttivatn í bensíntanki. Á meðan þessu fór fram hafði Eysteinn haldið áfram á sínum sleða í átt til eldgossins en stoppað öðru hvoru til að taka myndir. Ég náði Eysteini er við vor- um rétt komnir fram hjá vesturenda Gjástykkisbungu, þar hafði hann stoppað til myndatöku og var nýbú- inn að uppgötva að engin filma var í myndavélinni!!! Sem betur fór hafði Eysteinn filmur í farteskinu og dokaði ég við meðan hann setti filmu í myndavél- ina. Við sáum nú að gossprungan hafði lengst að rót- um Gjástykkisbungu og var komin norður á móts við þann stað sem við höfðum stoppað. Háir kvikustrók- ar stóðu upp úr nyrsta hluta sprungunnar um 300 m. austan okkar og var það tignarleg sjón að sjá eldvegg- inn svona nálægt sér. Á leiðinni til Eysteins urðu gangtruflanir að nýju í sleða mínum svo ég ákvað að setja afganginn af ísvaranum á bensíntankinn áður en við legðum af stað aftur. Rétt í þann mund þegar ég hafði lokið við að hella ísvaranum á tankinn, sáum við hvar þunnfljótandi hrauntunga kom æðandi niður dá- litla brekku og stefndi beint á okkur. Án þess að segja eitt einasta orð gáfum við sleðunum inn fullt bensín og keyrðum eins hratt og þeir drógu sinn í hvora áttina frá beljandi hrauninu. Feginn varð ég að nú var ekkert hik á vélsleðanum mínum. Ég keyrði til suðurs upp í hlíð- ar gamals gígs þar sem ég taldi mig óhultan og fór að svipast um eftir Eysteini, en sá hann hvergi. Staður- inn þar sem við höfðum skilið var nú þakinn glóandi hrauni með miklum gufusprengingum. Það setti að mér kvíðahroll, hvar í ósköpunum var Eysteinn eig- inlega, hafði hann ekki verið nógu fljótur að forða sér? En um það bil sem ég fór að örvænta um afdrif Eysteins sá ég hann koma keyrandi út undan stórum hraunhól og fara svo fyrir norðurenda gossprungunn- ar upp á Gjástykkisbungu vestan Sandmúla. Og mik- ið létti mér við þá sjón því þarna mátti svo sannarlega ekki miklu muna að illa færi. Eftir að hafa myndað gosið að vild ók ég vest- ur fyrir hrauntunguna, sem hafði næstum því drepið okkur, og upp á Gjástykkisbungu til Eysteins. Þegar við hittumst varð okkur tíðrætt um það sem við höfð- um orðið vitni að sérstaklega þann hraða sem var á hrauninu þegar það rann eins og stórfljót í vexti yf- ir þykka hjarnbreiðuna án þess að bræða hana fyrr en eftir á. Eftir að hafa borið saman bækur okkar varð að ráði að ég færi til byggða, segði frá tíðindum og gæfi munnlega skýrslu til yfirmanna okkar í Reykjavík, en Eysteinn yrði eftir og fylgdist áfram með framvindu gossins. Þessum kafla Kröfluelda lauk fyrir miðnætti en dagana á eftir endurmældum við Eysteinn allt netið umhverfis gossprunguna og sinntum öðrum rannsókn- um ásamt félögum okkar sem komu til Mývatnssveitar um kvöldið. JÖKULL No. 67, 2017 79

x

Jökull

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Jökull
https://timarit.is/publication/1155

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.