Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.2002, Blaðsíða 44

Heima er bezt - 01.03.2002, Blaðsíða 44
Af dulrænum slóðum En líkið, sem ég fann á reki, var af ungum manni og var lítt skadd- að. Fann ég sjóvelkt bréf í vasa þess, sem sýndi að eigandinn var franskur, því það var skrifað á frönsku, sem ég skildi lítilsháttar í. Kom ég likinu til lands og var það síðan greftrað í kirkjugarði. Gleymdi ég þessum atburði brátt en nótt nokkra mörgum árum síðar, dreymdi mig þann látna. Virtist mér hann mæla á íslensku, því ég skildi hvert orð sem hann sagði. Sagðist hann vera mér þakklátur fyrir umhyggjuna og vilja gjarnan launa, þó í litlu væri. Visaði hann mér á ný mið, sem ég vissi ekki til að fyrr hefðu verið sótt. Sagði hann að þar myndu hrognkelsin meiri, en þar sem ég nú legði. Reyndi ég ráð hans og voru þau mið hin bestu sem ég hefi þekkt. Upp frá þessu varð ég mjög afla- sæll og tel ég það ekki síst sjó- manninum franska að þakka. Fyrra líf Fáum mun það gefið að geta munað sín fyrri líf, en þó hef ég kynnst einum manni, sem kvaðst muna sitt fyrra líf eins vel og það, sem hann nú lifði. Maður þessi var verkamaður við höfnina í Reykja- vík, og var hægur í framkomu en meinlegur í tilsvörum, þætti hon- um þess þurfa. Arið 1941 vann ég sumarlangt með manni þessum. Urðum við kunningjar og sagðist verkamann- inum svo frá eitt sinn, er við sátum í kaffihléi niðri í lest bresks flutn- ingaskips: „Allt, sem hendir mig í þessu lífi, finnst mér næsta ómerkilegt miðað við það sem ég hefi áður reynt. Þá var ég stórbóndi fyrir norðan, átti yfir þúsund ijár og var kvæntur ágætri konu. Við höfðum margt vinnufólk og bjuggum við góð efni. Börn áttum við nokkur og hefi ég síðan í þessu lífi gert mér far um að vita hvað af þeim varð, en það hefur reynst erfitt, þar sem meira en hálf önnur öld er lið- in. Hef ég þó hitt ýmsa afkomend- ur, en forðast að blanda geði við þá, enda óheppilegt, því að þeir myndu álíta mig truflaðan meir en lítið.“ Eg leit á þennan óbreytta verka- mann stórum augum, og gat síst skilið hvernig hann gæti munað svo langt aftur í tímann. Ekki barst þetta aftur í tal en var þetta alvara eða sjálfshafning fá- tæks manns, sem vildi hafa lifað betri ævi en hann átti. Góðir vinir Bændur tveir, sem bjuggu sinn í hvorri sýslunni, voru vanir að heimsækja hvorn annan ekki sjaldnar en einu sinni á ári, því að vinátta var með þeim, auk þess sem þeir voru svilar. Voru þeir vanir því að annar kom um nýárið en hinn á sumarmálum. Hafði þetta gengið svo, uns eitt sinn að nýársmaðurinn kom ekki. Furðaði fólkið sig á þessu en þrem- ur dögum seinna en venja hans var að koma, var barið að dyrum. Fór bóndi til dyra og sá svila sinn standa úti fyrir. Ætlaði bóndi að bjóða hann velkominn, en þá hvarf gesturinn. Gekk svo þrem sinnum, en þá varð heimabónda skapbrátt í síð- asta sinnið og sagði um leið og hann sá svila sinn: „Hver andskotinn er þetta maður, ertu dauður eða vitlaus?“ Gistivinurinn svaraði: „Dauður er ég, dauður er ég, og dauður ert þú að ári.“ Hvarf að því mæltu og sást ekki oftar. Nokkru síðar bárust fréttir um lát hans, en hann hafði andast á hádegi þess dags, sem hann birtist að kveldi. Heimabóndi dó að ári liðnu, eins og gistivinur hans hafði sagt til um. Gjöfin Mann, sem misst hafði systur sína unga, dreymdi nokkru eftir jarðarfor hennar, að hún kæmi til hans og segði að sig langaði til að gefa honum gjöf í stað allra þeirra gjafa, sem hann hefði gefið henni. En þar sem hún ætti ekki ráð á fé, gæti hún í þess stað aðeins gefið góð ráð, sem hún vildi að hann færi eftir. Bað hún að hann færi næsta dag til frænku þeirra, sem hún nafngreindi, en þar myndi hann hitta stúlku, sem væri hans rétta konuefni. Ekki var maðurinn trúaður á drauminn, en vildi þó gera eins og systirin bað og fór í heimsóknina. Þar hitti hann fyrir ókunna stúlku, sem honum leist stórvel á og tókst með þeim kunningsskap- ur, sem leiddi til farsæls hjúskapar. Þannig varð framliðna stúlkan til að gera bróður sínum lifandi, lífið hamingjuríkt. Heimild: Þjóðsögur og sagnir/Ingólfur Jónsson. 136 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.