Heima er bezt - 01.04.2007, Blaðsíða 42
- Hvað heldur þú, að stelpan hún Anna kunni til
húsverka.
Ragnhildur lítur á Agnesi, og þung alvara færist yfir
svip hennar. Hún segir: — Anna kann áreiðanlega vel
til allra algengra verka, bæði úti og inni. Þau hafa vanist
við að vinna, börnin á Gili.
- Hún skal aldrei vinna þau störf, sem mér eru ætluð,
ég gæti ekki liðið hana með mér í húsverkunum.
Björg segir: — Það er bezt, að við Agnes eigumst við
um eldhússtörfin, við erum gamalkunnar.
- Það er áreiðanlegt, að stelpudruslan hún Anna skal
ekki koma þar nálægt, hún er...
Agnes endar ekki setninguna. Haukur læknir er óvænt
orðinn áheyrandi að samtalinu, hann heyrir síðustu orð
Agnesar, og svipur hans myrkvast skyndilega, hann horfir
hvasst á Agnesi en segir ekkert. Hún lítur brátt undan
tilliti hans. Það snertir hana óþægilega. Ragnhildur snýr
sér að Hauki og segir:
- Eg er að hugsa um að taka mér ferð á hendur núna
næstu daga suður til Reykjavíkur.
- Hefur eitthvað óvænt komið fyrir?
- Ég var að fá tilkynningu um lát eins stórfrænda míns
þar syðra, sem mig langar til að fylgja síðasta spölinn.
- Ég votta yður innilega samúð mína frú Ragnhildur.
- Ég þakka yður fyrir, Haukur læknir. Agnes og Björg
ætla að sjá um heimilisstörfin á meðan ég er í burtu, svo
þeim er borgið. Ég vona bara, að ekkert óvænt komi fyrir,
sem hjúkrunarkona þurfi að aðstoða við þessa daga, sem
ég verð íjarverandi. Það þætti mér öllu verra að bregðast
skyldu minni.
- Við skulum vona, að slíkt komi ekki til, Ragnhildur,
— en tekur Agnes ekki að sér hjúkrunarstarfíð, ef með
þarf?
Ragnhildur hikar við að svara, en Agnes segir:
- Það verða sjálfsagt engin vandræði með það, ef til
kemur, þú getur farið suður þess vegna, mamma.
- Ég vona það, góða mín, að þú gerir allt, sem í þínu
valdi stendur, ef á reynir.
Agnes lítur glettin og brosandi til Hauks. — Þú skalt
ekki kvíða því, að okkur Hauki búnist ekki vel á meðan
þú ert fjarverandi, mamma.
- Ég treysti ykkur öllum hér heima til hins besta, segir
Ragnhildur alúðlega.
Ungi læknirinn svarar ekki glettni Agnesar, hann gengur
einn út í sumarblíðuna og nýtur hennar.
Björg hefur lokið erindi sínu inni að þessu sinni. Hún
hraðar sér aftur út á túnið til Önnu og byrjar að raka.
Anna keppist við vinnuna og spyr einskis. Björg leiðist
þögnin. Hún segir:
- Nú get ég sagt þér miklar fréttir, Anna mín.
- Jæja, hverjar eru þær?
- Það eru að verða húsmóðurskipti hérna á Sólvangi.
- Húsmóðurskipti?
Anna lítur með óttablandinni undrun á Björgu. — Hvað
hefur komið fyrir Ragnhildi?
- Ekkert annað en það, að hún er á förum suður í Reykjavík
til þess að fylgja einhverjum frænda sínum þar til grafar,
og Agnes á að verða húsmóðir þín á meðan.
Anna skiptir ósjálfrátt litum, og lamandi tilfinning læðist
inn í sál hennar. Hún segir: — Veistu, hvað Ragnhildur
verður lengi að heiman?
- Ég tel víst, að hún verði minnst ijóra til fimm daga.
Ég held, að Agnes hafi bara gott af því að spreyta sig við
heimilisstörfín dálítinn tíma. Hún var að gleðja móður sína
á því áðan, að þeim myndi búnast nógu vel, lækninum og
henni, á meðan Ragnhildur væri að heiman. Þetta verður
tilvalin æfrng fyrir þau.
- Það er víst engin hætta á því, að heimilisstörfm fari
ekki nógu vel úr hendi hjá þeim.
- Mér fannst sá lukkulegi ekkert verða glaður á svipinn
áðan við þessi orð Agnesar um búskapinn þeirra,
verst ef hann er strax farinn að missa álit á kærustunni.
Björg hlær.
- Það er engin hætta á slíku, Björg mín. Þú mátt ekki
vera svona svartsýn.
- Jæja, en Ragnhildur treystir dóttur sinni ekki of vel, hún
var að biðja mig að vera henni til aðstoðar við eldhúsverkin
fram að hádegi þennan tíma, sem hún verður í burtu, ég
ætla að reyna það, hvernig sem samkomulagið kann að
verða hjá okkur Agnesi, báðar eru stórlyndar, en það er
bót í máli, að hún verður tæplega hrædd um kærastann
fyrir mér, því ég er orðin svo gömul. Það hefði verið öðru
máli að gegna með þig, Anna mín.
- Kemur þú með þá fjarstæðu enn. Það er víst um það,
að ég skal ekki spilla hamingju þeirra. Anna færir sig frá
Björgu, til þess að fella niður frekari samræður um þetta
málefni. Tal Bjargar um Agnesi og lækninn vekur ætíð
óþægilega tilfinningu í brjósti litlu kaupakonunnar, hún
ræður ekki við það, og fréttin um fyrirhugað ferðalag
Ragnhildar skapar óljósan kvíða í sál Önnu, henni finnst
við burtför húsmóður sinnar hún verða eitthvað svo smá og
varnarlaus gagnvart einhverju, sem hún sjálf gerir sér ekki
fulla grein fyrir hvað er. Anna herðir á vinnuafköstunum
til þess að deyfa kvíðann í sál sinni. Hún færir sig aftur
til Bjargar, og rakstrarkonurnar mynda stóra, haganlega
gerða töðuflekki. Hinir heitu sólargeislar leika í þýðum
sunnanblænum og þurrka brátt að fullu hinn kjarnmikla
angandi jarðargróður. Dagurinn líður, og friður kvöldsins
faðmar allt.
Ragnhildur er farin suður. Hádegissólin stafar geislum
sínum inn um borðstofugluggann á læknissetrinu.
Heimilisfólkið situr saman að hádegisverði. Kyrrðin úti
er skyndilega rofín. Bíll rennur í hlað, og Haukur læknir
er kallaður út að honum. í bílnum er slasaður maður, og
nú sér ungi læknirinn alvöruna í starfinu í fyrsta sinn.
Hér þarf skjótrar aðgerðar við, og hann hjálpar til að bera
sjúklinginn inn á lækningastofuna. Nú þarf hann á aðstoð
hjúkrunarkonu að halda í fyrsta skipti á sumrinu, og þá er
hún ekki heima. Haukur gengur sviphreinn og festulegur
fram úr lækningastofunni inn í borðstofuna. Máltíð er enn
ekki lokið. Haukur snýr sér að Agnesi og segir:
234 Heima er bezt