Heima er bezt - 01.09.2007, Page 35
batnaði stöðugt. Varð mjög góður afli í þeim mánuði, svo að
31. marz eru margir bátar komnir með 450—550 smálestir.
Ekki brást apríl fremur venju, því að segja má að allan þann
mánuð hafi verið ágætur afli og allt fram undir lokadag.
Mjög var spjallað um aflakóng Eyjanna á þessari vertíð,
og hver hljóta myndi titilinn. Það er nú orðin sú tignarstaða,
að menn fylgjast vel með því, hver hreppi hana. Ávallt geta
breytingar komið til mála. Búizt var við harðari keppni nú
en nokkru sinni áður. Austtjarðabátarnir höfðu sýnt það
1957, að þeir voru hættulegir keppinautar, þar eð þeir urðu f
jórir næstir Binna á Gnllborgu, þ. e. Víðir frá Eskifirði með
743 smálestir, Snæfugl Su. 711 smálestir, Björg Su. 655
smálestir og Gullfaxi NK 653 smálestir. Margir urðu því
til að spá sigri þeirra á þessari vertíð. Aðrir trúðu á Binna
og enn aðrir á ýmsa Eyjabáta, svo sem Stíganda, Freyju,
Erling 3., Kristbjörgu, Hannes lóðs o. fl.
Formenn í Eyjum lögðu fátt til þessa mikla áhugamáls
almennings og spáðu engu um. Trú mín er hins vegar sú,
að þeir hafi strax í byrjun vertíðar hugsað Binna þegjandi
þörfina, stigið á borðstokkinn og strengt þess heit að sýna
honum í tvo aflaheimana. Væri og ekki ósennilegt að þeím
hafi fundizt tilhlýðilegt að mannaskipti yrðu í hásætinu.
Hvað Binna viðkemur hygg ég hann hafi hugsað sín mál í
kyrrþey, hann er vanur því, og heitið því með sjálfum sér
að gefast ekki upp að óreyndu. Hins vegar þekkti hann
keppinauta sína og var fullkunnugt um að þeir voru engir
veiðiglópar. Nei, það var nú eitthvað annað. Þeir voru á
góðum, nýjum bátum, sem gengu eins og togarar, og höfðu
úrvals skipshafnir innanborðs. En keppnin er skemmtileg,
og þar sem enginn verður óbarinn biskup, var bezt að taka
mannlega á móti.
Þessir veiðigarpar veittu Benóný fljótt harða atlögu, er á
vertíð leið, en hann varðist af mikilli hörku. Veiðisnilldin
brást honum ekki, því þótt fyrir kæmu dagar, sem aðrir voru
aflahærri, jafnaði hann metin næstu daga og hækkaði aflamagn
sitt jafnt og örugglega. Hann fiskaði austur með landinu,
þegar aðrir voru vestan Eyja, en þegar flotinn kom austur
með, þá flutti hann sig vestur, alveg eins og hann fyndi á sér
að fískurinn var að færa sig. Aflinn brást ekki. Um miðjan
apríl hafði hann raunverulega fiskað meginpart vertíóarafla
síns og var þá örugglega hæstur að mun. Harða atlögu gerði
Ófeigur þriðji með mjög mikilli aflahrotu, svo að ekkert
stóðst fyrir honum. Þó náði sú sókn ekki að knésetja Binna á
Gullborgu. Lokasprettinn tók hann svo um mánaðamótin og
sótti þá austur með landinu, fískaði vel og endaði vertíðina
daginn fyrir lokadag með 65 smálesta róðri. Hafði þá aflað
alls 1291 smálestir yfir vertíðina. Hann hafði orðið aflakóngur
Eyjanna í fimmta sinn og slegið öll met; orðið aflahæsti
bátur landsins og konungur allakónganna 1958. Formenn
óskuðu kappanum til hamingju og almenningur hyllti hann,
en hann lofaði að verðleikum keppinauta sína í fengsælli
og drengilegri keppni á vertíðinni.
Benóný Friðriksson er aðeins 54 ára gamall, svo að ástæða
er til þess að halda, að hann eigi langan og merkilegan
starfsferil framundan. Starfsþrek hans er óbilað og hugurinn
til hvers konar veiða mikill. Það munu varla líða margir
dagar frá vertíðarlokum, þar til hann fer að búa bát sinn á
síldveiðar fvrir Norðurlandi. I millitíð væri hann vísastur til
þess að skreppa á trillubáti út á heimamiðin með línustubba
eða handfæri. Hann kann ekki við sig í landi og unir hvergi
nema á sjónum. Þar er hans rétti vettvangur, að róa og físka í
hvers konar veiðarfæri, troll, herpinót, línu, net, handfæri og
flotvörpur. Aflasældin er ávallt sú sama. Ekki veigrar hann
sér heldur við að veiða lunda í háf upp um fjöll og fírnindi.
I þeirri íþrótt er hann enginn meðalmaður en talinn til þeirra
slyngustu, þótt enn hafí hann ekki orðið lundakóngur. En satt
að segja væri honum alveg eins trúandi til þess að hreppa
þann titil. Hann er ótrúlegur aflamaður, mér liggur við að
segja yfímáttúrlegur.
Benóný er fremur lágur vexti, dökkur á brún og brá, móeygur
og augun fúll af fjöri. Hann er þrekinn um herðar og þykkur um
hönd, vel að kröftum búinn og léttur í skapi. Á fyrri árum var
hann lipur knattspvmumaður og vel þjálfaður fimleikamaður,
og býr hann enn vel að þeirri likamsmennt. Allar hreyfingar
hans em léttar, mjúkar og fjaðurmagnaðar, viðbrögðin snörp
og handtökin til allra verka föst og viss. Að þessu leyti
hefur hann verið til fyrirmyndar skipshöfnum sínum sem
og um alla sjómannshæfni. Til hans hafa ávallt valizt góðir
sjómenn, sem hafa kunnað að beita orku og sjómannssnilli
við handtökin. Þeir hafa heldur ekki farið tómhentir frá borði
Benónýs, en notið hins bezta framhaldsskóla og fengið auk
þess betri laun en nokkur skóli greiðir meisturum sínum.
Það er meira en nemendur munu yfirleitt geta státað af.
Benóný Friðriksson er kvæntur Katrínu Sigurðardóttur frá
Þinghól í Hvolhreppi, Sveinssonar frá Moshvoli og konu
hans, Jóhönnu Jónsdóttur frá Götu í sama hreppi. Katrín
er fríðleikskona og mikilhæf og hefur ekki sjaldan orðið
að bíða í fjötrum óvissu og kvíða um afdrif manns síns í
hildarleikjum hans við æst náttúruöflin. Hafa það trúlega
verið þungbærar stundir, er hún þurfti að hugga og hughreysta
átta börn þeirra hjóna.
Bæjarbúar voru hins vegar aldrei hræddir um Binna á
sjónum, þó að veður væru váleg. Oft var það, að allir bátar
voru taldir heim komnir í illviðrum, þó að hann væri ókominn
að landi. Það var eins og fólk tryði á afburðahæfni hans á
sjónum, að hann skilaði sér og skipshöfn sinni heillri í höfn.
„Það eru allir komnir að nema Binni,“ sagði fólkið, sem beðið
hafði á Skansinum heimkomu allra bátanna. „Ja, það er allt
í lagi með hann, hann kemur bráðum.“ Með þá fullvissu fór
hver til sinna heimkynna, fullkomlega rólegur.
Þannig lauk og hverjum hildarleik Binna, að hann bar
hærra hlut og renndi bát sínum, drekkhlöðnum af físki,
farsællega að bryggjunni.
Að endingu: Eg óska Benóný til hamingju með
aflakóngsnafnbótina og óska honum og heimili hans alls
góðs í framtíðinni.
Heb 1959.
Heima er bezt 467