Ársrit um starfsendurhæfingu - 2023, Page 30

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2023, Page 30
AÐSEND GREIN VINNA OG VERKIR ÞORVALDUR SKÚLI PÁLSSON STEFFAN WITTRUP MCPHEE CHRISTENSEN MORTEN HØGH Starfstengdir stoðkerfisverkir teljast til verkjaástands sem rekja má til, eða leiðir af sér, skerta starfsgetu til skemmri eða lengri tíma. Hversu mikið starfsgetan skerðist fer eftir ýmsu, meðal annars hversu slæmir verkirnir eru, eðli þeirra og öðrum tengdum einkennum. Fyrir utan það að þeir takmarka starfsgetu, er einnig mikilvægt að taka tillit til þeirrar skerðingar á lífsgæðum sem langvinnir stoðkerfisverkir valda1. Tölur frá Evrópu sýna að 40% vinnufærra einstaklinga upplifa verki a.m.k. einu sinni á ári og að 20% allra vinnufærra karla og kvenna þjást af viðvarandi verkjum2. Langalgengast er að fólk á vinnumarkaði upplifi og kvarti yfir þrálátum verkjum í og frá hálsi og baki3. Starfstengdir stoðkerfisverkir eru flókið fyrirbæri þar sem fjölmargir samverkandi þættir liggja oft að baki (tafla 1). Þetta torveldar greiningu á hver undirliggjandi ástæða verkjanna er í raun, einkum og sér í lagi vegna þess að erfitt er að sýna fram á orsakasamhengi milli þessara þátta (eða annarra) og verkja. Sem dæmi má nefna síendurteknar lyftur í vinnu sem geta mögu- lega aukið bakverki. En lyftivinna með litla eða létta hluti minnkar ekki endilega líkurnar á að fá verk í bakið. Þess vegna má segja, að þó að mikilvægt sé að reyna að finna alla þá þætti sem geta aukið líkur á vinnutengdum stoðkerfisverkjum, er ekki öruggt að sú leit geti fækkað eða stytt veikindaleyfi eða ótímabært brotthvarf af vinnumarkaði. Það er hægt að hafa áhrif á marga af fyrr- nefndum þáttum (t.d. líkamlega þætti, streituvalda og svefngæði) á meðan erfitt getur verið að fást við þætti eins og menntunarstig og tekjur. Engu að síður er mikilvægt að undirstrika, að það getur verið erfitt að koma auga á hvað það er sem veldur verkjum hjá tilteknum starfsmanni. Burtséð frá orsök verkja er mikilvægt að meðhöndlun slíkra einkenna taki mið af öllum þeim þáttum sem geta stuðlað að verkjum. Það er ekki nóg að heilbrigðisstarfsmenn geri sér grein fyrir þessu flækjustigi þar sem rannsóknir sýna að starfsmenn og vinnuveitendur þurfa einnig að gera sér grein fyrir því5. Af ofangreindu má sjá, að margir sam- verkandi þættir geta hamlað starfsgetu, en sálfræðilegir þættir geta í sumum tilvikum verið meginástæður vandans. Kulnun í starfi er gott dæmi um þetta. Í þessari grein er athyglinni hinsvegar beint að fjarveru frá vinnu þar sem undirliggjandi ástæður eru stoðkerfisverkir. Í greininni fjöllum við um, hvernig mikilvægt er að vinna með slíka verki frá mismunandi sjónarhornum, þ.e. við munum ræða æskilegar áherslur heil- brigðisstarfsfólks, hvað einstaklingur með verki getur sjálfur gert til að flýta batanum og hvernig vinnustaðurinn getur nýst sem mikilvægur þáttur í bataferlinu. Vinna og verkir – sjónarhorn heil- brigðisstarfsmannsins Það getur verið freistandi að halda því fram að mikil og krefjandi erfiðisvinna, sérstaklega þar sem um er að ræða síendurteknar lyftur í óæskilegri líkamsstöðu, geti með tímanum haft skaðleg áhrif. Ef skoðuð eru lífafl- fræðileg áhrif slíkrar vinnu, þá virðist það að nokkru leyti rétt. Til dæmis vitum við að það að beygja sig fram, sitja með krosslagða fætur eða sitja með bogið bak í hangandi stöðu, eykur töluvert álag á hryggjarliði og hryggþófa, álagið er langt umfram það sem mælist þegar setið er eða lyft með beinu baki.6 Þetta þýðir þó ekki endilega að áverki hljótist af, heldur einfaldlega að álagið sé mismunandi eftir því hvaða líkamsstöðu maður er í. Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að þó að ákveðið orsakasamhengi virðist vera til staðar milli hreyfingar, álags og slits, þá upplifa ekki allir verki þrátt fyrir að þessir þættir séu til staðar. Reyndar er það svo, að hjá sumum virðist skortur á hreyfingu og breytileika í hreyfimynstri vera hluti af vandamálinu. Þetta sést til dæmis hjá einstaklingum með bakverki, sem hafa tilhneigingu til að hreyfa sig, að miklu leyti, alltaf eins og eiga erfiðara Líkamlegir þættir Einstaklingsbundnir þættir Umhverfisþættir Þættir tengdir þjóðfélagsgerð • Lyfta og bera • Vinna í óþægilegum líkamsstöðum • Endurteknar athafnir • Að vinna á miklum hraða • Streita • Hugsanir tengdar heilsu • Hugsanir tengdar verkjum • Gæði svefns • Félagslegur stuðningur • Menntunarstig • Aldur • Kyn •Tekjur • Hönnun vinnustaðar • Skipulagning vinnustaðar Tafla 1 Yfirlit yfir ýmsa þætti sem geta tengst vinnutengdum stoðkerfisverkjum. Unnið út frá Isusi et al4 með að slaka á bolvöðvunum (kvið og bakvöðvar) samanborið við einkennalausa einstaklinga7-9. Með öðrum orðum þá hreyfa þessir einstaklingar sig oft á þann hátt að álagið á bakið eykst frekar en hitt. Álag er ekki einungis bundið við það að lyfta þungum hlutum síendurtekið, heldur getur það líka byggst upp yfir lengri tíma. Gott dæmi um þetta eru langvarandi setur, sem oft eru settar í samhengi við eymsli/verki í baki, hálsi og herðum, sérstaklega ef bakið er ekki beint/setið er með beint bak. Ef litið er til rannsókna sést þó að sáralítil fylgni virðist vera milli setstöðu og verkja10. Engu að síður er það almennur skilningur meðal heilbrigðisstarfsmanna11,12 og almennings13 að það að vera beinn í baki (sitjandi og standandi) sé betra og „réttara” heldur en að sitja, standa og lyfta t.d. með bogið bak. Í þessu tilliti er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki endilega líkamsstaðan sem er rétt eða röng, heldur frekar hversu lengi eða oft við höldum sömu líkamsstöðu. Það er nefnilega svo, að flestir þeirra sem eru einkennalausir eða einkennalitlir, skipta reglulega um líkamsstöðu og þar gildir einu hvort um er að ræða setstöðu, standandi eða liggjandi stöðu. Þeir skipta gjarnan reglulega um stöðu án þess að hugsa sig um. Með þetta í huga, gæti það orkað tvímælis að segja að ef/þegar maður finnur fyrir verkjum, eigi maður allt í einu að byrja framkvæma hreyfingar á ákveðinn hátt. Flest okkar þekkja það að upplifa óþægindi eftir að hafa setið lengi eða lyft einhverju þungu endurtekið14 en það er ef til vill þar sem vandamálið liggur, þ.e.a.s. ekki í því að eymslin séu afleiðing síendurtekins áreitis, heldur frekar að einkennunum sé haldið við af t.d. löngum setum eða þungum lyftum. Í Lykilatriðið hér er því oft að sýna starfsmanninum (og í mörgum tilvikum vinnuveitandanum einnig) hvernig hægt sé að framkvæma athafnir daglegs lífs og vinnu á mismunandi hátt. 58 59virk.is virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.