Skessuhorn - 29.05.2024, Side 34
MIÐVIKUDAGUR 29. MAÍ 202434
Skagamaðurinn Ingi Már Ingvars-
son hóf störf hjá fyrirtækinu HB
& Co um miðjan níunda ára-
tuginn og var það fyrsti vinnu-
staður hans. Árið 1989 fór hann
í nám í Fiskvinnsluskólann og
útskrifaðist eftir tveggja ára nám
sem fiskiðnaðarmaður. Þá fór
hann að starfa hjá Krossvík, áður
Haförninn, fyrst sem gæðastjóri
og síðan sem verkstjóri í alls um
tvö ár. Á þessum tíma fór Ingi
Már á trillu ásamt Herði heitnum
Strandamanni sem var tengdafaðir
hans á þeim tíma og þar smitaðist
hann af sjómannsbakteríunni.
Síðan fór hann í smá tíma á Eyr-
ina hjá HB & Co og fékk síðan
starf á frystitogaranum Höfr-
ungi III AK 250 árið 1997. Ingi
Már starfaði á Höfrungi til ársins
2021 eða í 24 ár en þá var togar-
inn seldur til Rússlands. Þá færði
hann sig yfir á frystitogarann Sól-
borgu RE 27 sem Útgerðarfé-
lag Reykjavíkur gerði út, en síðan
var öllum skipverjum sagt upp
og Brim hf. keypti skipið ásamt
veiðiheimildum í september 2022.
Í millitíðinni starfaði Ingi Már
í álverinu á Grundartanga í sex
mánuði en fékk síðan aftur starf
á Sólborgu þar sem hann starfar í
dag. Ingi Már kíkti við á skrifstofu
Skessuhorns í síðustu viku í smá
spjall um sjómennskuna sem hefur
verið hans fylgifiskur í tæp 40 ár.
Skipin nýtast betur í dag
Blaðamaður var að vinna með
Inga Má í HB & Co seint á níunda
áratugnum og fékk þá að kynn-
ast honum og hans uppátækjum.
Þó Ingi Már beri það kannski
ekki utan á sér þá er hann mik-
ill stuðbolti og sprellikarl og afar
skemmtilegur vinnufélagi. Það
þekkja þeir sem hafa unnið með
honum í gegnum tíðina. Ingi Már
segir að vinnan í HB & Co hafi
vakið áhuga hans á sjómennsku en
þar kynntist hann flestum störf-
unum í frystihúsinu. Hann var í
móttökunni, á flökunarvélum, í
tækjunum og ýmsu öðru. Þegar
hann fékk vinnuna á Höfrungi þá
fór hann úr venjulegri dagvinnu
yfir í vaktavinnu. Á þessum tíma
fóru skipverjar þrjá túra mánuð
í senn út á sjó, síðan fengu þeir
einn mánuð í frí og svo voru aftur
teknir þrír túrar. Seinna breyttist
það í tvo mánuði og einn frí og í
dag er einn mánuður á sjó og svo
einn í frí. Ingi Már segir að skipin
nýtist betur í dag en áður fyrr.
„Núna kemur skipið um morg-
uninn í höfn og er farið aftur út
um kvöldið með nýrri áhöfn. En
áður fyrr var það í höfn í 4-5 daga
fyrir næsta túr þannig að það eru
fleiri dagar á sjó sem er gott fyrir
útgerðina.“
Ingi Már á þrjú börn með
fyrrum eiginkonu sinni, Hörpu
Harðardóttur, en þau skildu fyrir
nokkrum árum síðan. Anton Elí
fæddist árið 1999, Valdís Eva
2002 og örverpið Orri Freyr árið
2014. Ingi Már býr með Elísabetu
Rut Heimisdóttur í dag. Hvernig
var þetta á þessum tíma, að vera
kannski á sjó í átta til níu mánuði
á ári og hvaða áhrif hafði þetta á
fjölskyldulífið? „Þetta er ekkert
rosalega fjölskylduvæn vinna,
maður hefur misst af ansi miklu
og mörgum afmælisdögum hjá
börnunum. Þetta er allt annað í
dag og hefði kannski mátt breytast
fyrr upp á þetta að gera. En svona
er þetta bara, maður vissi svo sem
að hverju maður gekk og þarf að
lifa með því.“
Góður
félagsskapur á sjó
Ingi Már byrjaði á Höfrungi sem
háseti en varð síðan fljótt vinnslu-
stjóri og starfaði við það nánast
öll 24 árin. En hvað felst í starfi
vinnslustjóra? „Þetta er svipað
og að vera verkstjóri, maður
stjórnar í vinnslunni og sér um
að allt gangi smurt fyrir sig. Tek
svo nýtingar og gæðaprufur á hrá-
efninu. Ég var aðallega í pökkun
og vigtun og svo einnig að fylgj-
ast með vinnslunni, að allt væri í
gúddí. Það var einn vinnslustjóri
á hverri vakt og það gekk bara
vel allan þennan tíma. Í dag eru
átta tíma vaktir en voru áður fyrr
sex tímar og það er mikill munur
þar á. Maður hvílist aðeins betur
því það var oft erfitt að ná sér
niður fyrir næstu vakt þegar hún
var sex tímar. Maður reynir alltaf
að leggja sig á hverri frívakt því
annars ertu vakandi í heilan sól-
arhring og það gengur ekki upp.
Maður leggur sig fljótlega eftir
vakt og svo sér maður hvað maður
nær miklum svefni en yfirleitt eru
þetta 3-5 tímar sem maður nær.“
Er þetta ekkert einmanalegt
líf að vera á sjó? „Nei, nei,
maður er í góðum félagsskap og
í gamla daga var það þannig að
öll sjónvarpsdagskráin var tekin
upp á VHS mánuðinn á undan
og síðan horfðum við á hana í
næsta mánuði. Núna er þetta
allt í beinni, enski boltinn og allt
saman. Þannig að við getum alltaf
verið að kýta um boltann sem er
bara skemmtilegt og lífgar upp á
stemninguna.“
Á Höfrungi var áhöfnin 27
manns, tíu á hvorri vakt og auk
þess vélstjórar, kokkur, messi sem
aðstoðaði kokkinn, stýrimaður og
skipstjóri. Þú hlýtur að hafa kynnst
ansi mörgum góðum vinnu-
félögum í gegnum tíðina? „Það er
óhætt að segja það, ég hef unnið
með mörgum ansi skemmtilegum
vinnufélögum enda þurfa menn
held ég að vera smá klikkaðir til
að endast í þessu starfi. Léttleik-
inn þarf að vera í fyrirrúmi því
þarna, eins og annars staðar, þarf
að vera gaman í vinnunni. Ég get
nefnt góða menn eins og Gulla
Einars, Gumma Matt, Steina Pét-
urs, Hadda Jóns, Binna Jóns, Adda
Jónasar, Einar Árna Páls, Ella
Óla, Elvar Elíasson, Kára Dan
og ég er að gleyma alveg helling
af mönnum en vonandi fyrirgefa
þeir mér það. Kristján Pétursson
skipstjóri réði mig á sínum tíma
og ég var með honum á sjó þar
til hann hætti. Síðan voru fleiri
skipstjórar eins og Sturlaugur
Gíslason (Bóbó), Ævar Jóhanns-
son, Þórður Magnússon, Arnar
Ævarsson og Haraldur Árnason,
allt góðir og mætir menn.“
Voru að búa til sketsa
Það var ekki mikil starfsmannavelta
á svona togara eða hvað? „Nei, það
var ekki mikil hreyfing á mann-
skapnum enda reyna menn að halda
í þessi störf. Þó þetta sé auðvitað
erfið vinna þá eru launin góð og
það skiptir auðvitað miklu máli.“
En hvað voru menn að dunda sér
í vaktafríum á Höfrungi? „Ég man
að þegar það var rólegt um borð þá
voru ég og Gulli Einars stundum
að leika okkur að búa til sketsa,
myndir og videó sem var seinna
sýnt kannski á starfsmannagleði
eða árshátíðum. Rólegasti tíminn
um borð var þegar við vorum á grá-
lúðuveiðum og þá var alltaf einhver
tími til að leika sér aðeins. Þegar
ég byrjaði á Höfrungi þá vorum
við mikið að veiða grálúðu en það
hefur minnkað alveg helling og í
dag er þetta aðallega bolfiskur og
karfi sem við erum að veiða.“
24 ár er langur tími á sama vinnu-
stað og alls ekki algengt að menn
starfi svo lengi á sama stað eins og
Ingi Már gerði. Þú varst síðan að
vinna í álverinu í hálft ár, hvernig
var að vera kominn í land að vinna?
„Það var ágætt en það var frekar
rólegt yfir þessu miðað við að vera
á sjónum. Vinnutíminn var fínn en
maður vann í fimm daga og fékk
svo fimm daga frí. Tvær morgun-
vaktir, tvær næturvaktir og svo tvær
kvöldvaktir og á átta tíma vöktum.“
Þú hefur ekki alveg kunnað við
þig í landi og viljað fara aftur út á
sjó? „Mér bauðst það að fara aftur
á Sólborgina og ég greip það bara
fegins hendi. Mér finnst þetta ágætt
líf, þetta sjómannslíf og held mig
bara við það þar til annað kemur í
ljós,“ segir sjóarinn síkáti Ingi Már
Ingvars son að lokum.
vaks / Ljósm. úr einkasafni
Var á frystitogaranum Höfrungi III í 24 ár
Sjómaðurinn Ingi Már Ingvarsson. Ljósm. vaks
Höfrungur III AK 250.
Anton Elí fór einn túr með pabba sínum sem messagutti árið 2014, þá 15 ára.
Ingi Már kann vel við sig á sjónum.
Vinnufélagar á Höfrungi staddir í Englandi árið 2015 í ferð að heimsækja Fish &
Chips staði. Frá vinstri: Andrés Þórarinsson (í bláu), Kristófer Jónsson, Kjartan
Aðalsteinsson, Þorsteinn Pétursson, Hróðmar Sigurðsson, Hinrik Axelsson, Ægir
Jóhannsson, Aðalgeir Jónasson, Ingi Már og Eiríkur Gíslason.