Skessuhorn - 29.05.2024, Síða 50
MIÐVIKUDAGUR 29. MAÍ 202450
Guðmundur Jón Amlin er giftur
Silju Sigurjónsdóttur og eiga þau
tvo unga og spræka stráka; Alex-
ander og Ísak en þau eru búsett í
Stykkishólmi. Guðmundur hefur
verið viðloðandi sjóinn alla sína
ævi en til að fylgjast vel með
umferð hafnarinnar í Stykkishólmi
ákvað Guðmundur að gera upp og
endurbæta hús sem stendur við
höfnina. „Ég sé allt með mínum
eigin augum, hvað er að gerast
þarna úti á höfninni. Þarf engan
annan til að segja mér tíðindi, þar
sem ég sé allt út um eldhúsglugg-
ann minn. Ég er reyndar með kíki
hérna en það er nú bara til að
athuga með þau Önnu Maríu og
Dabba Sveins uppi á Mylluhöfða,“
segir Guðmundur og hlær dátt.
Kokkur án klæða
Guðmundur fór fyrst á sjó þegar
hann var 18 ára gamall, um borð
í Þórsnes SH en lengst var hann
um borð á bátnum Sóleyju SH en
þar var hann í 17 ár. „Ég er búinn
að vera á vertíðum víða. Þrjár ver-
tíðir á bátnum Ársæli, eina vertíð á
Gretti, fór svo tvær vertíðir að gera
upp Hótel Borgarnes, nokkrar ver-
tíðir var ég í Vestmannaeyjum en
eftir það fór ég á Farsæl SH og hef
verið kokkur án klæða þar síðustu
ár,“ segir Guðmundur, en hvaða
réttur er vinsælastur um borð?
„Það er pulsurétturinn minn. Hann
slær ávallt í gegn hjá strákunum um
borð en ég verð að passa upp á að
hafa þennan fræga rétt minn ekki
of oft því ef maður réttir þeim litla
putta, þá gleypa þeir alla höndina,
eins og sagt er. Annars eru pizzur
á föstudögum vinsælar en ég hef
gaman af því að stríða strákunum
og hef stundum pizzur á sunnu-
dögum en þá verða menn áttavilltir
yfir hvaða dagur er! Það er mikil-
vægt að hafa gaman um borð,“
segir Guðmundur og hlær.
Sóley SH
Eins og fyrr segir var Guðmundur
í 17 ár að róa á bátnum Sóleyju SH
frá Grundarfirði og var sá tími ein-
hver sá skemmtilegasti á hans sjó-
mannsferli. „Þessi tími var hreint
út sagt frábær. Mikið fiskerí og
ávallt einhver ævintýri. Á sumrin
var oft ákveðið að brjóta upp túr-
inn, sérstaklega þegar vel veiddist
og þegar veðrið var yndislegt. Þá til
dæmis sigldum við inn til Þingeyrar
til að kíkja í sund en þá var þetta
mitt fyrsta skipti þangað. Við fórum
í sund og svo fórum við í gömlu
vélsmiðjuna hjá honum langafa
mínum, honum Guðmundi Jóni
Sigurðssyni. Ég er einmitt skírður
í höfuðið á honum en tók Amlín
nafnið í fermingu því ég var ávallt
kallaður það þegar ég var yngri. En
mannskapurinn um borð í bátnum
Sóleyju var mjög samstilltur og það
voru ekki miklar mannabreytingar
á þessum 17 árum. Við þekktum
lyktina af hver öðrum alltof vel og
alltof mikið,“ segir Guðmundur og
skellir upp úr.
Veiðimaður
Guðmundur er þekktur fyrir fras-
ann; „ég kom að tólf manna rjúpna
hóp,“ en sjálfur er hann duglegur að
veiða. „Ég og Maggi Kiddós förum
á rjúpuveiðar saman á veturna en
það er svo gott af hafa Magga því
hann er svo hávaxinn og sér því vel
yfir birkið eða kjarrið á meðan ég er
eins og einhver hobbiti og sé ekki
neitt. En svo borðar konan mín
ekki rjúpur. Fyrst vildi hún hafa
hamborgarhrygg og ekkert mál, þá
útbjó ég rjúpur og svaðalega sósu
með. Ég spurði hana hvort að hún
ætli ekki að smakka rjúpuna en hún
neitaði því. Ég segi við hana að
ég sé búinn að harka af mér upp á
fjöllum, í allskonar veðrum, til að
ná í þennan mat og hún lét verða af
því að smakka. Rjúpan stóð eitthvað
í henni, hún hljóp að vaskinum og
hrækti úr sér en um leið kúgaðist
hún og ég kallaði eftir henni; „hvað
er þetta manneskja, það er ekki einu
sinni fiður á þessu!“
Guðmundur hefur einnig farið
síðustu ár út í Drangey í Skaga-
firði og nær sér þar í lunda. „Það
var svaðalegt þegar LeBron James
mætti þarna á bryggjuna á Hofsósi.
Hann bjóst við einhverri snekkju
til að ferja sig út í eyjuna en þarna
var bara mættur þessi hefðbundni
sómabátur og hann var ávallt að
spyrja hvar báturinn væri. Ég gerði
grín að honum en eingöngu í
hljóði,“ segir Guðmundur.
En hvað er það, sem dregur
Guðmund á veiðar? „Ég næ að
núllstilla mig. Þá er ég bara að
fylgjast með náttúrunni, ekkert að
spá í hver verður forseti eða slíkt.
Ég veiði nú ekki mikinn lunda en
finnst veiðin gera mér gott, tala
nú ekki um þegar ég er búinn að
útbúa dýrindissósu með matnum,“
segir hann.
Lalli Jóns
Guðmundur og Atli Rúnar Sigur-
þórsson áttu litla útgerð, að nafni
Lalli Jóns. Lítill zodiak bátur
með stórri vél sem nú er farinn til
annarra eigenda. „Við náðum að
nýta þennan bát mjög vel. Náðum
okkur í rituegg hér úti í Þóris-
hólma, ferjuðum fólk út í eyjar eða
sigldum út í Flatey til að, aftur, ná
í þessa núllstillingu. Úti í Flatey er
ekkert stress. Ég var þar yngri á grá-
sleppu með einum þekktum manni
úr Flatey og þar var bara vaknað,
unnið, borðað og sofið. Tíminn var
bara tímalaus eins og maður segir.
Ég kynntist Flatey fyrst um 1993
en síðan þá hefur hún breyst til hins
betra. Grettistaki hefur verið lyft á
þessum húsum sem hafa verið gerð
upp en fólkið sem er þarna er ávallt
sama góða fólkið. Enginn æsingur
eða stress, nema þegar helvítis
ferjan er að fara og manni langar
ekki til að fara úr eyjunni,“ segir
Guðmundur.
En hvaða ferð á Lalla Jóns var
eftirminnilegust? „Það var ferðin
sem við fórum út frá Stykkishólmi
og inn að Brjánslæk. Við ákváðum
þessa ferð með litlum fyrirvara,
fengum fréttir um að við gætum
gist í Flatey og náðum að koma
okkur saman, þessi hópur. Hópur
fyrirliðanna segja sumir. Kristján
Lár, Björn Ásgeir, Böðvar Sturlu-
son, ég og Atli. Það var helvítis
bræla þegar við ætluðum út og við
fylgdum bara í kjölfarið á Baldri
þennan föstudag, alveg þangað
til að komið var að Bjarneyjum
en þá tókum við innri leiðina.
Stoppuðum aðeins í Bjarneyjum
og sigldum um eyjarnar á Breiða-
firði. Enduðum svo föstudaginn
inn í höfninni í Flatey og gistum
hjá vinafólki okkar. Sigldum svo
að Drápskeri, Oddbjarnaskeri og
fleiri eyjum á laugardeginum en
enduðum í Brjánslæk. Okkur dauð-
langaði í sund og datt okkur í hug
að redda fari í Flókalund en þar er
náttúrulaug alveg við sjávarmálið.
Við hentum okkur úr fötunum,
spenntir að komast í pottinn, en
tókum þá ekki eftir að það var
ferðamaður í pottinum. Eldri þýsk
kona sem við tókum ekkert eftir
þegar við vorum þarna að skipta
yfir í sundskýlurnar, þarna rétt hjá.
Hún bölvaði eitthvað á okkur á
þýsku blessuð konan og hljóp upp
úr pottinum en svo sigldum við til
baka frá Brjánslæk og yfir í Flatey.
Þetta var ein sú eftirminnilegasta
ferð sem farin hefur verið í manna
minnum hef ég heyrt,“ rifjar
Guðmundur upp og hlær.
Skrokkurinn
Að endingu spjöllum við um feril-
inn hans á sjónum og hversu erf-
itt það er að vera fjarri viðburðum
heima fyrir þegar hann er á sjó.
„Þetta er ekki auðvelt, en maður
vill auðvitað vera viðstaddur hina
ýmsu viðburði hjá drengjunum
mínum. En þetta er það sem ég vil
gera og finnst mér ávallt gaman
að komast út á sjó. Ég verð 52
ára nú í sumar og ég verð að leyfa
skrokknum mínum að ráða þessu.
Ég þarf bráðum að fara í slipp, það
þarf að fara að skvera kallinn, eins
og sagt er. Ég er byrjaður að fara
að fá verki í hnén og það er bara
eins og gengur í svona vinnu,“ segir
Guðmundur Jón í lokin.
hig
Kynntist grásleppuveiðum ungur
Rætt við Guðmund Jón Amlín, fyrrverandi útgerðarmann
og nú yfirkokk um borð í Farsæli SH
Guðmundur við landganginn á bátnum Farsæli SH.
Guðmundur og Atli á bátnum Lalla Jóns. Ljósm: Björn Ásgeir Sumarliðason.
Guðmundur að sigla á bátnum Lalla Jóns. Ljósm úr einkasafni.