Mímir - 01.06.1989, Page 42

Mímir - 01.06.1989, Page 42
sem vonlaust er að þýða beint yfir á íslensku. Orðasmíðin krafðist því algerlega nýrrar hugs- unar. Auk orðsins raunhæfur bjó Jón til mörg önn- ur nýyrði með forliðnum raun- og þar af lifa tvö góðu lífi enn í dag: raunspeki og raunvísindi. Þessi orð svara til positivism og positive science í enska textanum. Það kann því að hafa vakað fyrir Jóni að varðveita tengsl orðanna í íslensku þýðingunni. Hvað forliðinn raun- varðar, má geta þess, að orð eins og raunsær, raunverulegur og raun- veruleiki koma ekki til sögunnar fyrr en snemma á þessari öld. Samkvæmt OH koma orðin fyrst fyrir í ritum Agústs H. Bjarnasonar (1875 — 1952) prófessors um sögu mannsand- ans og má því ætla, að hann sé höfundur þeirra. skilgreina Þessi sögn virðist við fyrstu sýn algerlega óháð erlendum fyrirmyndum. Sé betur að gáð, má þó hugsanlega tengja hana við latnesku sögnina definire (sbr. e. define). Upphafleg merking sagnarinnar var að „afmarka“ (sbr. finisdandamæri, mörk), en síðar fékk sögnin merkinguna að „túlka“ eða „skilgreina“. Fleir- töluorðið skil er einmitt svipaðrar merkingar og finis í latínu og því gæti sama hugsun búið að baki íslensku sögninni og þeirri latnesku. Útskýring Jóns á íslensku sögninni bendir einn- ig í sömu átt (sjá viðauka). Við þetta má raunar bæta, að OH hefur dæmi um nafnorðið skil- grein frá 1865, og þar merkir það „skýring“ eða „greinargerð“. Ekki veit ég, hvernig skilgrein tengist sögninni skilgreina eða definire á latínu, en ekki er fjarri lagi að ímynda sér, að orðið standi þarna mitt á milli: latneska sögnin eða samsvarandi no. definitio sé fyrirmyndin en sögn Jóns afkvæmið. Á þetta skal þó ekki lagð- ur neinn dómur hér, enda engar traustar rök- semdir til að byggja á. 3.0 Hér að framan hefur verið fjallað um nokkur helstu nýyrði Jóns Olafssonar, sem þekkt eru úr íslensku samtímamáli. Enn er þó ógetið allra þeirra nýyrða, sem fallið hafa í gleymsku og dá. Þessi orð eru ekki síður merkileg frá fræðilegu sjónarmiði, því þau geta gefið vísbendingu um, hvaða eiginleikum nýtt orð þarf að búa yfir til að vinna sér þegnrétt í málinu. Nýyrðum af þessu tagi má skipta í þrennt. I fyrsta lagi eru það nýyrði, sem ekki var nein þörf fyrir, þar sem orð sömu merkingar voru þegar til í málinu. Dæmi um slík orð eru ná- grenndarhverfi, líkamseðlilegur og staðvænn, en eldri og kunnuglegri orð um þessa hluti eru nágrenni, líkamlegur og varanlegur. Af þess- um dæmum má ráða, hvers vegna sumum nýyrðum er ekki auðið langra lífdaga. Fyrstu tvö orðin er heldur löng og það síðasta er ekki nógu gagnsætt. Enn eitt orð af þessum toga er staðhöfn, sem er þýðing Jóns á fact í ensku. í orðaskrá Jóns kemur fram, að Arnljótur Ólafsson (1823— 1904) hagfræðingur og prestur hafði þegar búið til orðið staðreynd. Þótt orð Jóns sé fallegt og þjált, hefur orð Arnljóts haft betur, eins og kunnugt er. Ástæða þessa er líklega sú, að reynd hefur mun skýrari merkingu en höfn, eins og sjá má af ýmsum samsetningum (sbr. viðhöfn, athöfn, áhöfn o.s.frv.). I öðru lagi má nefna orð, sem yngri nýyrði hafa leyst af hólmi. Orðin holdsdeyðing, hugs- unarskörungur og miðlungsskapur eru dæmi um þetta. Þessi orð hafa vikið fyrir orðunum meinlæti, hugsuður og meðalmennska. Að vísu er meinlæti gamalt orð í málinu í merkingunni „innanmein", en það kemur fyrst fyrir í nútíma- merkingu í ritum Ágústs H. Bjarnasonar. Elsta dæmi OH um hugsuður er úr Vefaranum mikla frá Kasmír, en elsta dæmið um meðalmennska er úr kvæði Stephans G. Stephanssonar Jafn- ingjarnir frá 1902. I þriðja lagi má nefna nýyrði, sem aldrei hafa náð fótfestu í málinu. Orðið hugsjálegur sem þýðing á e. theoretical eða speculative er dæmi um þetta. Flest nýyrðin í þessum hópi hafa of sértæka merkingu til að verða hluti af almenn- um orðaforða málsins. Heimildaskrá Árni Böðvarsson (ritstj.) 1983. íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík. Fritzner, Johan. 1886—96. Ordbog over Det gamle norske Sprog. 1—3. Kristiania. Halldór Halldórsson. 1964. Nýgervingar í fornmáli. Halldór Halldórsson (ritstj.): Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga, bls. 110— 137. Almenna bókafélagið, Reykjavík. Halldór Halldórsson. 1971. íslenzkt málrækt. Erindi 42

x

Mímir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Mímir
https://timarit.is/publication/1937

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.