Tímarit lögfræðinga - 01.08.2024, Síða 24
170
Innherjasvik og opinber birting innherjaupplýsinga
þær teljist opinberar í skilningi 7. gr. MAR og því ekki lengur
innherjaupplýsingar.46
Í stuttu máli er viðmiðið um það hvenær innherjaupplýsingar
hafa raunverulega verið gerðar opinberar þegar upplýsingarnar
hafa verið gerðar aðgengilegar almenningi með lögmætum
hætti.47 Það á við jafnvel þótt reglum um opinbera
birtingu innherjaupplýsinga hafi ekki verið fylgt eftir eða
innherjaupplýsingarnar hafi ekki fallið undir upplýsingaskyldu
útgefanda.48
En hvenær verða upplýsingar aðgengilegar almenningi með
lögmætum hætti? Ekki er einfalt svar við þeirri spurningu þar sem
löggjöfin er hljóð um þetta atriði. Mikilvægt er því að meta hvert
mál fyrir sig út frá þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi hverju
sinni.49 Af helstu fræðiskrifum um MAD og MAR eru aðallega
tvö sjónarmið nefnd í tengslum við þetta álitaefni, annars vegar
að dreifing innherjaupplýsinga til afmarkaðs hóps markaðsaðila sé
fullnægjandi, stundum nefnt á ensku „slipstream argument“
eða „sectoral disclosure“50 og hins vegar að innherjaupplýsingar
þurfi að vera aðgengilegar öllum á markaði, þ.m.t. stofnanafjárfestum
og almennum fjárfestum, svo þær séu raunverulega opinberar.51
Vikið er að báðum þessum sjónarmiðum hér í þessum kafla og
í kjölfarið rökstutt að seinna sjónarmiðið um aðgengileika allra
á markaði gildi hér á landi.
46 Sjá t.d. umfjöllun hjá Jesper Lau Hansen: Værdipapirhandelsloven med
kommentarer. Bind II. Kaupmannahöfn: Jurist og Økonomforbundet 11.
útg. 2015, 388.
47 Á ensku: „publicly available“.
48 Sjá CESR/06-562b, op. cit., 5. Sjá einnig umfjöllun hjá Marco Vetoruzzo
og Chiara Picciau: „Article 7: Inside information“ í Market Abuse Regulation:
Commentary and Annotated Guide (ritstj. Marco Ventoruzzo og Sebastian
Mock), Oxford 2017, 175207 (196197) og Jesper Lau Hansen: „Issuers’
duty to disclose inside information“. ERA Forum 2017, 2139 (26).
49 Sjá t.d. umfjöllun hjá Panagiotis K. Staikouras, op.cit., 783.
50 Sjá Mario HösslNeumann og Ulrich Torggler: „Article 7: Inside Inform
ation“ í EU Market Regulation. A Commentary on Regulation (EU) No 596/2014
(ritstj. Susanne Kalss o.fl.), Edward Elgar Publishing 2021, 5580 (63).
51 Sjá umfjöllun um helstu fræðiskrifin hjá Carsten GernerBeuerle,
op.cit., 685.