Tímarit lögfræðinga - 01.08.2024, Qupperneq 53
199
Arnljótur Ástvaldsson
um einkamálaréttarfar hefur rökunum að baki þessum kröfum
verið lýst með þeim hætti „[…] að sá einn getur með réttu höfðað
mál sem er rétthafi að þeim hagsmunum sem á að leita úrlausnar
um og að máli verður ekki með réttu beint að öðrum en þeim
sem getur látið hagsmunina af hendi eða verður að þola þá.“31
Ákvæði 1. mgr. 16. gr. eml. tiltekur félög á meðal þeirra aðila sem
notið geta aðildarhæfis en með því er ekki átt við öll félög heldur
einvörðungu þau félög sem njóta rétthæfis, þ.e. þau félög sem geta
átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Það hvort tiltekinn
aðili telst vera rétthæft félag ræðst að meginstefnu ekki af 1. mgr.
16. gr. eml. eða öðrum ákvæðum laga um meðferð einkamála nr.
91/1991 heldur af öðrum réttarreglum íslensks efnisréttar, sbr.
tilvísun ákvæðisins til landslaga.32 Í þessu samhengi er rétt að
skilja á milli almennrar umfjöllunar um rétthæfi, og þar með
aðildarhæfi, félaga og þess að réttarfarslöggjöf kann að geyma
sérreglur sem veita tilteknum félögum aðild að dómsmálum við
ákveðnar aðstæður33.
Í fræðiskrifum um íslenskt einkamálaréttarfar hafa félög
verið flokkuð á meðal ópersónulegra aðila til aðgreiningar frá
einstaklingum (persónulegum aðilum). Til ópersónulegra aðila
teljast þannig ekki einungis þeir aðilar sem uppfylla skilyrði
31 Sjá Sigurður Tómas Magnússon: „Samaðild“. Tímarit lögfræðinga, 3. tbl.
2015, bls. 399463 (409). Til hliðsjónar má nefna að í fræðiskrifum um sænskt
einkamálaréttarfar hafa sömu atriði verið lögð til grundvallar efnislega
sambærilegri kröfu sænskrar réttarfarslöggjafar (s. RÄTTEGÅNGSBALK
(1942:740), 2. gr. 11. kafla), sjá nánar Peter Westberg: Civilrättskipning I
Tvistemål. Stokkhólmur: Norstedts juridik 2021, bls. 206207: „Den
grundläggande tanken är att bara den kan vara part i en rättegång som
juridiskt sätt kan berättigas respektive förpliktas till något.”
32 Sjá hér einnig Markús Sigurbjörnsson og Kristín Benediktsdóttir,
Einkamálaréttarfar, bls. 63, og Sigurður Tómas Magnússon: „Samaðild“,
bls. 409.
33 Sjá t.a.m. sérstaka reglu í 3. mgr. 25. gr. eml., sem mælir fyrir um
aðildarhæfi félaga fyrir dómi í þeim tilgangi að gæta réttinda félagsmanna
sinna. Reglan mælir ekki fyrir um aðildarhæfi félaganna sjálfra (almennt)
heldur um aðildarhæfi þeirra í tilteknum málum, þ.e. í málum til þess að
gæta réttinda félagsmanna, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar í máli
H 2001:3434 (277/2001) (Alþýðusamband Íslands).