Tímarit lögfræðinga - 01.08.2024, Síða 74
220
Aðildarhæfi deilda eða eininga innan félaga
Á hinn bóginn er til þess að líta, hvað sem framangreindum ályktunum
líður, að ekki verður hjá því komist að meta allt að einu hvert og eitt
tilvik með atviksbundnum hætti enda setur 1. mgr. 16. gr. laga nr.
91/1991 aðildarhæfi þær takmarkanir einar að viðkomandi aðili geti
átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Þannig kunna þau tilvik
að finnast þar sem skipulag, starfsemi og sjálfstæði deilda eða eininga
innan félaga, stofnana eða fyrirtækja er með þeim hætti að þær teljist
njóta aðildarhæfis í dómsmáli.82
Samkvæmt þessum rökstuðningi geta deildir, þrátt fyrir að
vera hluti af félagi fremur en að vera sjálfar rétthæft félag,83 allt að
einu notið aðildarhæfis ef „skipulag, starfsemi og sjálfstæði“ þeirra
er með ákveðnum hætti. Aðildarhæfið verður þó að byggja á
íslenskum réttarreglum, sbr. tilvísun Hæstaréttar til landslaga84.
Fyrir Hæstarétti lá þannig að leggja mat á það hvort og þá
hvaða reglur landslaga gætu leyst úr því hvort deild innan félags
gæti, allt að einu, verið rétthæf vegna atriða sem varða skipulag,
starfsemi og sjálfstæði. Hæstiréttur fann þessar reglur í fyrsta
lagi í lögum (samþykktum) Íþróttafélags Reykjavíkur. Landslögin
sem Hæstiréttur styðst við eru þannig reglur félagaréttar,
nánar tiltekið samþykktir almenns félags sem íslenskur réttur
viðurkennir sem sjálfstæðan lögaðila.
Við nánara mat á því hvort skipulag, starfsemi og sjálfstæði
körfuknattleiksdeildarinnar væri með þeim hætti að deildin
teldist aðildarhæf lagði Hæstiréttur til grundvallar þau atriði
sem vísað var til í H 1997:862 (Handknattleiksdeild Fylkis) og H
2001:891 (50/2001) (Knattspyrnudeild FH), nánar tiltekið að deild
(i) lúti ekki boðvaldi æðri stjórnareiningar innan þess félags sem
hún er hluti af og (ii) hafi sjálfstæðan fjárhag.
82 Ibid., mgr. 31.
83 Hér er átt við að þrátt fyrir að deild teljist til félags þá er ekki útilokað
að deildin sé sjálf rétthæft félag, t.a.m. í því tilviki þegar almennt félag
(á borð við ÍR) stofnar einkahlutafélag og rekur tiltekinn hluta starfsemi
sinnar innan þess félagaforms.
84 Í kafla 2.4 var rakið að tilvísun 1. mgr. 16. gr. eml. til landslaga felur
í sér að aðildarhæfi ræðst ekki af 1. mgr. 16. gr. eml. heldur af öðrum
efnisreglum íslensks réttar, t.a.m. reglum félagaréttar í tilviki félaga.