Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1955, Page 11
9
um alköst þeirra en langt mál, en undanfarin 5 ár hefur
það verið þetta:
1950 gróðursettu félögin alls 181.100 plöntur
1951 — — — 283.000 —
1952 — — — 388.800 —
1953 — — — 450.600 —
1954 — — — 560.000 —
I sambandi við þetta er vert að geta þess, að meiri hluti
þeirra plantna, sem félögin setja niður, er gróðursettur
af sjálfboðaliðum innan félaganna. Auk þessa hafa félög-
in reist fjölda girðinga til þess að gróðursetja í á starfs-
svæðum sínum. Alls eru girðingarnar 130 talsins, og sam-
anlögð lengd þeirra um 112 kílómetrar. Margar þeirra
eru auðvitað litlar, en nú orðið reyna félögin að koma upp
a. m. k. einni sæmilega stórri girðingu í hverju byggðar-
lagi til þess að koma upp vísi að héraðsskógum. Girðing-
ar félaganna taka nú yfir um 2500 hektara lands, og enn
er hvergi nærri fullsett í þær.
Til fróðleiks má líta á störf félaganna í fyrra. Þá námu
heildartekjur þeirra um kr. 1.100.000,00. Tekjur og útgjöld
stóðust hér um bil á. Auk teknanna var mikil vinna leyst
af hendi ókeypis. Öll vinna félaganna er metin í dagsverk-
um, og þannig er gróðursetning 250 trjáplantna talin eitt
dagsverk, en önnur vinna, svo sem uppsetning girðinga og
uppeldi trjáplantna er líka metin. Árið 1954 leystu félögin
3431 dagsverk af hendi. Meira en helmingur var vinna
áhugasamra sjálfboðaliða, og ef þetta er metið til fjár,
má a. m. k. bæta kr. 200.000,00 ofan á tekjur félaganna,
og verður þá heildartillag þeirra til skógræktar alls um
kr. 1.300.000,00 árið sem leið.
Á því ári nam ríkisstyrkurinn til félaganna kr.
325.000,00 en sú fjárhæð er ekki nema fjórði hluti af því,
sem félögin inna af hendi, og reyndar tæpur fjórði hluti,
ef allt væri tíundað rétt. Félögin leggja því fram þriggja
krónu verðmæti fyrir hverja eina, sem þau hljóta af opin-
beru fé, og er það vel.