Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1955, Qupperneq 58
56
verður varhuga við og reyna að sneiða hjá. Einkum verð-
ur að hafa snjóalögin í huga, enda valda þau meiri spjöll-
um á girðingum en flest annað. Sá sem er kunnugur stað-
háttum, getur oftast valið öruggt girðingarstæði, jafn-
vel þó í snjóþungum sveitum sé.
Þess skal gætt vandlega að velja girðingarstæðið eftir
rimum, ásum eða hávöðum, en forðast að fara eftir lægð-
um eða fram af bröttum stöllum. Ætíð skyldi girt upp
og ofan brekku, en aldrei þvert á hallann í brekku eða
fjallshlíð, nema eftir greinilegum stalli, og verður þá að
fara sem tæpast á honum, þar sem snjó rífur helst af.
Girðing, sem lögð er á snjóþungu landi og mishæðóttu,
á því jafnan að hafa stutt höf og mörg horn. Er slíkt jafn
sjálfsagt og hitt að hafa sem lengstar beinar línur og fæst
horn á sléttlendi.
Allan undirbúning og val girðingarstæðis ber að vanda
svo sem frekast er unnt. Skal „stinga út“ allar línur með
stikum og mæla vegalengdir, til þess að auðvelt sé að
ákveða, hve mikið efni skal flutt á hvern stað og með því
spara allan óþarfa burð.
Algengt er að sjá landamerkjagirðingar lagðar nákvæm-
lega eftir merkjum og ekkert skeytt um, þótt girðingar-
stæðið á þeim sé með öllu óhæft. Þegar skógræktargirðing
er lögð á landamerkjum verður besta girðingarstæðið að
ráða legu hennar. Verður þá stundum að hafa spildu af
eigin landi utan girðingar, ef með því fæst öruggt girð-
ingarstæði.
Þar sem girt er að ám eða vötnum og þau látin verja að
einhverju leyti, verður að gæta þess, að girðingin nái út
fyrir lægsta vatnsborð. Sá hluti girðingarinnar, sem nær
frá hæsta flóðborði (þar með talinn jakaburður), skal að-
eins laustengdur við aðalgirðinguna, því honum er hætt í
vorleysingum og stórflóðum. Þessi laustengdi kafli skal
ávallt girtur þannig, ef staðhættir leyfa, að hann myndi
horn út frá aðalgirðingunni og gangi út í ána eða vatnið
30—40 metrum utar heldur en beina línan myndi gera.