Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1955, Side 26
24
segir hann, að flestir þessir skógar séu horfnir. Sé hvergi
blómlegur skógur nema helst á Hallormsstað. Samkvæmt
skoðun séra Sigurðar eru það einkum jarðeldarnir, sem
í fyrstu hafa valdið falli skóganna á Austurlandi. Er
það í raun og veru skoðun gamla fólksins, sem hann
talaði við. En hann telur þó, að til þess hafi verið fleiri
orsakir, og einhver hin helsta hafi verið sú, að fénaður
hafi stýft hann í hörðum vetrum, en þann við, er fénaður
hefur stýft, kræklar jafnan, verður þroskalaus og visnar.
Hann talar einnig um skemmdir á skógi af völdum vor-
harðinda. I lok greinar sinnar lýsir séra Sigurður hinum
mikla uppblæstri og öðrum landskemmdum, er komið hafi
í kjölfar skógareyðingarinnar, en að því hafði hann sjálf-
ur verið sjónarvottur í rúm 40 ár. Hann telur nauðsynlegt
að girða skógarreiti, sem séu að lifna, til þess að vernda
þá gegn ágangi búfjár.
Að því er best verður séð, er þessi blaðagrein séra Sig-
urðar Gunnarssonar ágæt heimild um sögu skóganna á
Austurlandi frá því um miðja 18. öld. Á þeim 42 árum,
sem liðu frá því hann kom fyrst á Austurland, þangað til
hann ritaði greinina í Norðanfara, hafði hann jafnan
skógana fyrir augum og fylgdist með hinum mesta áhuga
með hinum raunalegu örlögum þeirra, uppblæstri og öðr-
um jarðskemmdum, sem af eyðingunni leiddi. Ennfremur
lagði hann sérstaka stund á að kynna sér sögu skóganna
með því að leita upplýsinga hjá réttorðum mönnum, sem
af eigin sýn eða frásögn foreldra sinna vissu greinilega
um örlög skóganna frá því um 1750. Ef til vill er þó mest
um það vert, að hann athugaði sjálfur leifar af gömlum
íslenskum viði, sem enn var í húsum, þegar hann kom
austur. Til þess að ganga úr skugga um það, hvort séra
Sigurður hefur gert sér rétta hugmynd um eyðingu skóg-
anna eftir 1750, má bera rit hans saman við aðrar heim-
ildir og sjá, hve vel þeim ber saman:
Árið 1893 ferðaðist Sæmundur Eyjólfsson um Fljóts-
dalshérað, og hafði Búnaðarfélag Suðurlands veitt hon-