Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1955, Qupperneq 57
55
allra girðinga verði sökum þess, að ábótavant hefur verið
um eftirfarandi atriði:
1. Val á girðingarstæði.
2. Frágang á horn-, hlið- og aflstólpum.
3. Efnisval.
Á þessu öllu er auðvelt að ráða bót með nokkurri verk-
hyggni og kunnáttu.
Auk þessa skal minnst á eitt atriði enn, sem mjög er
áríðandi, að vel sé gætt, en það er að láta aldrei dragast
að gera við bilanir jafnóðum og þeirra verður vart og
endurbæta það, sem skemmst hefur.
Sé farið að þessum ráðum, er áreiðanlegt, að girðingar
munu endast áratugum lengur en nú tíðkast.
Skógræktarfélög landsins verja árlega stórum fjár-
hæðum til girðinga. Þessar girðingar verða að vera örugg-
ar gegn ágangi búfjár allan ársins hring. Þess vegna ber
að vanda til efnis og frágangs þeirra, svo sem frekast er
kostur. Enda er það vítaverð sóun á verðmætum að tildra
upp girðingum, sem svo eru illa gerðar, að þær endast
ekki áratuginn án gagngerðra endurbóta.
Allt ber því að sama brunni í þessu efni. Því betur sem
vandað er til girðingar í upphafi, þeim mun öruggari er
varslan og minni viðgerðarkostnaður um langt árabil,
og þó framar öllu margtöld ending. Það færi vel á því, að
skógræktarfélögin um land allt yrðu öðrum til fyrirmynd-
ar á þessu sviði.
Leiðbeiningar þær um girðingar sem hér fara á eftir,
eru gerðar að ósk aðalfundar Skógræktarfélags Islands
1953.
GIRÐINGARSTÆÐI VALIÐ.
Fyrsta verk við girðingu er að velja stæðið. Kemur þá
margt til athugunar, t. d. snjóalög, skriðuhætta, jarðföll,
gjár, flóðahætta úr ám, vötnum og sjó, uppblástur, hætta
á svellbólstrum að vetri til og ótal margt annað, sem gjalda