Golf á Íslandi - 01.06.2016, Síða 18
Karl og dregur fram merkilega bók með
fundargerðum frá árunum 1942-1950
þar sem árangur félagsmanna var skráður
samviskusamlega niður í hinum ýmsum
íþróttagreinum.
Keppnisskapið hefur alltaf verið til staðar
hjá Karli og hann náði að komast í landslið
öldunga sem er merkilega góður árangur hjá
kylfingi sem hóf ekki að leika golf fyrr en á
sextugsaldri.
„Ég var eiginlega bestur þegar ég var
sjötugur. Þá var ég með 10 í forgjöf en í dag
er ég með 15,6. Þegar ég hafði rétt til þess
að keppa til landsliðs 70 ára og eldri var ég
fyrstur til þess að tryggja mig inn í liðið. Ég
er ekki mikið að spá í forgjöfina núna en ég
vil leika undir aldri og það tekst nú oftast en
högglengdin hefur minnkað mikið, ekki síst
eftir lærbrotið í fyrra. Ég er vongóður um að
þetta lagist á næsta ári.“
Karl er ekki í vafa að kunnátta hans frá því
hann var ungur hafi nýst vel í golfinu og þar
koma sveitastörfin við sögu. „Ég var mikið
í því að slá með orfi og ljá og það þurfti að
beita bolvindu við þá iðju. Golfsveiflan
er ekkert ólík því sem maður beitti þegar
þýfð tún voru slegin með orfi og ljá. Við
þurftum að stýra ljánum og ég er viss um að
þessi kunnátta nýttist mér þegar ég byrjaði í
golfi,“ segir Karl.
Þrívegis hefur Karl farið í landsliðsverkefni
með öldungalandsliðinu og einu sinni
endaði liðið í þriðja sæti.
„Landsliðsferðirnar eru eftirminnilegar og
gaman að fá að kynnast slíkum mótum og
leika með kylfingum frá öðrum þjóðum.
Ég hef notið þess að fá að fara til Spánar,
Portúgals og Frakklands að keppa, það var
ógleymanlegt. Ég hef gríðarlega gaman af
því að keppa og Íslandsmót eldri kylfinga
hafa verið fastir liðir hjá mér. Að vera í
síðasta ráshóp á Urriðavelli á Íslandsmóti 70
ára og eldri var skemmtilegt.“
Karl segir það nánast ómögulegt að taka
eina golfholu á Íslandi út fyrir sviga og
útnefna hana sem eftirminnilegustu holu
landsins eftir ferðalagið um Ísland. „Ég verð
samt að nefna Bergvíkina á Hólmsvelli
í Leiru, mér finnst gríðarlega gaman að
standa á þeim teig og slá. Sömu sögu er að
segja af 17. brautinni í Vestmannaeyjum.“
Fer daglega í golf með
félögunum
Karl fer nánast daglega í golf með
þeim Helga Guðmundssyni, Pétri
Skarphéðinssyni og Jónasi Ragnarssyni.
„Það koma dagar hér á Selsvelli þar sem við
heimamenn komumst varla að. Ég reyni að
fara flesta daga með strákunum og veðrið
skiptir engu máli. Við klæðum veðrið bara
af okkur.“
Besti árangur Karls í höggleik er 75 högg
á Strandarvelli á Hellu eða +5 á rauðum
teigum.
„Núna er ég hundfúll ef ég spila yfir aldri.
Ég lék á 85 höggum um daginn og fékk
eina sprengju, átta högg á 8. braut og missti
tvö smápútt, það kostaði það að ég fór
yfir aldurinn. Það verður alltaf erfiðara og
erfiðara, höggin eru styttri en áður,“ segir
Karl og er rokinn af 1. teig með golffélögum
sínu á Selsvelli á Flúðum.
SagaPro
– minna mál með
18 holur
www.sagamedica.isFæst í apótekum, heilsu- og matvöruverslunum
Leikfélagarnir: Jónas Ragnarsson, Karl, Helgi Guðmundsson og Pétur Skarphéðinsson.
Selsvöllur er skemmtilegur 18 holu völlur
þar sem gróður og tré eru helstu einkenni
vallarins. Stuðlabergið setur svip sinn á
völlinn.
18 GOLF.IS - Golf á Íslandi
„Keppnisskapið er enn til staðar“