Helgarpósturinn - 20.12.1984, Blaðsíða 16
BÓKMENNTIR
Heimur í hnotskurn
eftir Árna Öskarsson, Gunnlaug Ástgeirsson og Heimi Pálsson
Göran Tunström:
Jólaóratórían.
Þórarinn Eldjárn þýddi.
Skáldsaga (358 bls.).
Mál og menning 1984.
Nú er komin út í íslenskri þýðingu sú bók
sem hlaut bókmenntaverðlaun Norður-
landaráðs fyrr á þessu ári. Höfundurinn,
Göran Tunström, er enginn nýgræðingur á
ritvellinum því að rithöfundarferill hans
spannar rúmlega tvo áratugi. Fyrsta bók
hans kom út árið 1958, en bækur hans eru
nú orðnar hátt í annan tug, bæði ljóð og
sagnaskáldskapur.
Aðalsögusvið þessarar bókar er bærinn
Sunne í Vermalandi í Svíþjóð, bernskustöðv-
ar höfundarins. í upphafi sögunnar segir frá
því er Viktor Udde snýr aftur til heimabæjar
síns til þess að stjórna flutningi á Jólaóra-
tóríu Bachs. Sá atburður reynist eiga langan
aðdraganda í fortíð fjölskyldu hans. Amma
hans, Sólveig, hafði átt sér þann draum að
kirkjukórinn í Sunne tækist það stórvirki á
hendur að flytja Jólaóratóríuna. Sá draumur
er nú að rætast mörgum áratugum eftir
dauða hennar. En það er einmitt Sólveig og
sviplegur dauðdagi hennar snemma á fjórða
áratugnum sem verður upphafið og undir-
rótin að þeirri sögu sem hefst í II. hluta bók-
arinnar og nær til bókarloka þegar Viktor er
fimmtán ára gamall.
Aðalsöguhetjur bókarinnar eru Aron, eig-
inmaður Sólveigar, og Sidner sonur hans,
faðir Viktors. Dauði Sólveigar markar djúp
spor í sálarlíf þeirra beggja og verður til þess
að báðir taka þeir að hrærast í sínum eigin,
tilbúna heimi ímyndunaraflsins sem er utan
og ofan við þann heim sænsks smábæjarlífs
sem þeir tilheyra. í hugarheimi þeirra feðga
er Sólveig upphafin vera, tákn ástar og hlýju
og þeirrar æðri veraldar tónlistarinnar sem
er handan við fangelsi orðanna. Báðir verða
utangátta í þröngu og þrúgandi lífi Sunne-
bæjar og hin huglæga útlegð leiðir til tor-
tímingar. Faðirinn sviptir sig lífi á leið til
Nýja-Sjálands þar sem hann ætlaði að hitta
pennavinkonu sína, Tessu, sem samkvæmt
hugarórum hans átti að vera Sólveig endur-
heimt úr ríki hinna dauðu. Fyrir Tessu, sem
býr í kveljandi einangrun sveitalífsins með
sadistískum bróður sínum, boðuðu bréfa-
skriftirnar við Aron upphaf nýs lífs. Þegar
hann skilar sér ekki til hennar og drauma-
veröld hennar hrynur til grunna verður hún
geðveik. Fyrsta kynferðisreynsla sonarins
Sidners, sem er einrænn sveimhugi, verður
til þess að hann eignast son með sér mun
eldri konu í bænum. Stuttu síðar lendir hann
á geðveikrahæli.
Hér er staðnæmst við innra líf helstu per-
sóna, lesandinn er leiddur um goðsagna-
kenndan ímyndunarheim þeirra Arons,
Sidners, Tessu, Viktors og Fannýjar sem
„nærðust á því sem var fjarlægt, því sem
ekki var hægt að henda reiður á“ (334). Til
þess beitir höfundur ýmsum aðferðum. Sag-
an hefur að geyma gríðarlegt víðfeðmi
radda sem hljóma gegnum 3. persónu rrá-
sögn sem er meginhluti bókarinnar, 1. per-
sónu frásögn Viktors í upphafi og lok sögunn-
ar, bréfum Tessu, tilvitnunum í Odysseifs-
kviðu og Gleðileikinn guðdómlega eftir
Dante, ritsmíð Sidners „Um atlot“ o.fl. Rit-
smíð Sidners hefst t.d. á heimspekilegum og
hátíðlegum hugleiðingum um ást og atlot,
en smátt og smátt færist textinn úr skorðum
eftir því sem geðveikin nær tökum á honum
og fjötruð öfl dulvitundarinnar losna úr læð-
ingi og brjóta niður reglufestu málsins. Þýð-
andanum hefur tekist sérlega vel að koma
þessum margbreytileika textans til skila, en
þar reynir á fundvísi á málfarsleg blæbrigði.
I sögunni er sjónum beint að sambandi
móður og sonar, bæði framhaldslífi Sólveig-
ar í hugarheimi Sidners og lokaðri stáss-
stofuveröld Viktors og Fannýjar. Viktor elst
einn upp með móður sinni og lifir sig inn í
hugarheim hennar. Hann frelsast ekki úr
móðurfaðminum fyrr en faðir hans birtist að
nýju eftir margra ára fjarveru. Þá loks sér
Viktor í gegnum goðsagnavef móður sinnar,
hættir að leika Telemakkus sem bíður heim-
komu Odysseifs föður síns. í fyrsta sinn
skynjar hann nú föður sinn sem mannveru:
„Hann hjólaði við hlið mér eftir malarvegin-
um. Goðsagnahjúpurinn var flagnaður af
honum, hann hafði skroppið saman og var
orðinn að manni. En það gerði mér ekkert
til; sjálfur hækkaði ég úr búrfugli í mann.“
(355—6) Um leið skilur hann að rætur hans
sjálfs ná til atburðar sem gerðist löngu áður
en hann fæddist:
„Lífið hafði staðið yfir, ekki aðeins í þessi
fimmtán ár sem ég hafði þá lifað sjálfur,
heldur tuttugu, þrjátíu ár, allt aftur að dauða
Sólveigar við bugðuna á veginum, á öðru
sumri, í öðru rými. Þar fæddist ég. Þar hafði
ferð mín hafist. Sá kraftur sem dauðinn hafði
skapað hafði þeytt mér hingað inn á milli
trjánna. Ég hafði átt von á því að lífið væri
einhvers staðar annars staðar." (356)
Viktor hefur svipt hulunni af og tekið lífið
í sátt. Hinni þunglyndislegu, huglægu útlegð
er lokið og sögunni lýkur á bjartsýnni tóni.
Viktor hefur náð sambandi við sinn innri
mann og þann mannheim sem hann hrærist
í. Þannig verður Sunne-bær sögusvið þessar-
ar stórbrotnu skáldsögu, eins konar heimur
í hnotskurn þar sem átök mannlegs lífs eru
sýnd í sérkennilegu ljósi og togstreitan milli
veruleika og hugsýnar, lífs og listar, er leidd
til lykta.
*
Njósnari á Islandi
Þorgeir Þorgeirsson
Ja — þessi heimur
Veraldarsaga og reisubók Péturs Karls-
sonar Kidson.
(206 bls.)
Idunn 1984.
Alltaf eru öðru hverju að berast fréttir af
meintri njósnastarfsemi hér á landi. Reyndar
eru þær fréttir yfirleitt á sömu bókina lærð-
ar. Fjalla um dularfullan fjölda starfsmanna
rússneska sendiráðsins, einhver flúinn KGB-
maður nefnir tiltekna njósnara í sendiráðinu
hér eða þá að Rússar hefja einhverjar dular-
fullar framkvæmdir. Af og til eru fréttirnar
þó bitastæðari eins og um árið þegar einn
eða tveir njósnarar voru gómaðir.
Alltaf hafa mér þótt þessar njósnafréttir
hálf fáránlegar og þá fyrst og fremst vegna
þess að það getur varla verið margt merki-
legt til að njósna um hér á landi. En þessi
njósnaleikur tilheyrir víst sjónarspili stór-
veldanna og hvers vegna skyldu þau þá ekki
leika hann hér eins og annarstaðar, en eitt-
hvað hlýtur fréttaflutningur af njósnastarf-
semi að vera einhliða, því ég man ekki eftir
að í fréttum fjölmiðla hafi að ráði verið
minnst á njósnir annarra hér en Rússa.
En nú höfum við allt í einu fréttir af öðrum
njósnurum. Vill nú svo til að það er ekki mót-
partur Rússa í leiknum sem á hlut að máli,
Kaninn, heldur stígur fram einn fyrrverandi
njósnari breska heimsveldisins.
Það sem sérstaklega sætir tíðindum við
sögu Péturs Karlssonar Kidson er það sem
segir af dvöl hans hér á landi sem njósnara
bresku leyniþjónustunnar á árunum 1956—
1960. Auðvitað er starf njósnara að afla upp-
lýsinga og það er alls ekki að furða þó leyni-
þjónusta hennar hátignar Bretadrottningar
skuli afla hér upplýsinga meðan dregur að
þorskastríði og meðan það stendur yfir, en
menn skulu elrki gleyma því að það er einnig
hlutverk leyniþjónustu að hafa áhrif á at-
burði og framvindu þeirra.
Þessvegna vekur það furðu að fá staðfest
það sem ég hef lengi haft fyrir prívatskoðun,
að Islendingar séu og hafi alla tíð verið eins
og saklausir og fáfróðir sveitamenn í sam-
skiptum sínum við erlend stórveldi. Það er
nánast hlægilegt að lesa um yfirmenn land-
helgisgæslunnar í boði hjá breskum njósnara
í miðju þorskastríði. En gamanið fer að
kárna við að sjá þennan sama njósnara inni
á gafli hjá ýmsum af áhrifamestu stjórnmála-
mönnum þjóðai innar á þessum sama tíma.
Þetta styrkir mig mjög í þeirri trú að íslenskir
stjórnmálamenn séu upp til hópa auðtrúa og
fáfróðir sakleysingjar þegar útlendingar eru
annarsvegar.
En þessi þorskastríðsþáttur er ekki nema
lítið brot af ævintýralegum lífsferli þessa
manns sem Þorgeir Þorgeirsson hefur sett á
bók af mikilli íþrótt.
Pétur er fæddur í Englandi og alinn þar
upp við erfiðan kost á árunum milli stríða.
Hann dvelst við nám í Þýskalandi árið fyrir
seinni heimsstyrjöld og vegna þýskukunn-
áttu sinnar er hann settur í leyniþjónustu
hersins þegar stríðið skellur á. Reyndar þjón-
ar hann fyrst á íslandi og er hér á þriðja ár.
Frásagnir hans af dvölinni hér eru fróðleg-
ar og sagðar frá allt öðru sjónarhorni en
maður á að venjast með frásagnir af stríðsár-
unum hér á landi.
Héðan fer hann til Egyptalands og er þar
um stund, en fylgir síðan herjum banda-
manna norður eftir Ítalíu og fæst við að yfir-
heyra Þjóðverja sem teknir eru höndum. í
stríðslok fer hann til Osló og vinnur þar við
að yfirheyra Þjóðverja sem þar dagaði uppi.
Þaðan fer hann í utanríkisþjónustuna og
vinnur um hríð í Helsinki, en hættir þar og
ræður sig til bresku eftirlitsnefndarinnar í
Þýskalandi, en er síðan sendur á vegum
leyniþjónustunnar til Moskvu. Þar er hann á
annað ár eða rúmlega það. Síðan er hann í
London um tíma en starfar svo í París, Hong
Kong og síðan aftur í London og er þaðan
sendur til fslands árið 1956.
Eftir dvölina hér segir hann starfi sínu
lausu og flyst til íslands og gerist brátt ís-
lenskur ríkisborgari og fæst við hin fjöl-
breyttustu störf. Síðasta áratug eða svo hefur
Pétur búið á Spáni og á Kanaríeyjum og
kennt Spánverjum eitthvað af þeim mörgu
tungumálum sem hann hefur lært á lífsleið-
inni.
Af þessari rakningu má ráða að lífshlaup
þessa manns hefur verið einstaklega fjöl-
breytilegt enda hefur hann frá mörgu að
segja sem hvort tveggja í senn er fróðlegt og
skemmtilegt. Úr svo safaríkum efnivið hefur
Þorgeiri Þorgeirssyni tekist að vinna bragð-
mikla og fjörefnaríka frásögn, sem veitir les-
anda óvænta innsýn í veröld sem hjúpuð er
dulúð og goðsögnum.
G.Ást.
Stílvopnaviöskipti á margri tíö
Halldór Laxness: Og árin líða
Helgafell, Rvík. 1984. 241 tölusett blaðsíða.
í þessari bók Halldórs Laxness birtist fátt
eitt sem ekki hefur komið á prenti áður. Hér
er safnað saman ritgerðum frá löngum tíma,
hin elsta virðist vera „Kaþólsk viðhorf"
(1925), hinar yngstu eru frá síðasta ári. Allt er
það þó af því tagi að fengur er að og gott að
hafa á einni bók. Vitaskuld verður gildið mis-
jafnt, stundum er skrifað um heldur smá
atriði, í annan tíma um grundvallarspurning-
ar. Þannig má segja að skipti heldur litlu að
fjargviðrast út af hugtakinu Norðurlönd mið-
að við grundvallaratriði trúarbragðanna. En
hinu er ekki að leyna: Það er svosem sama
hve umræðuefnið er smálegt, alltaf verður
manni skemmtun af málskrúðsfræði og
þrætubókarlist Halldórs Laxness.
Best nýtur hann sín í tveim lengstu þáttum
bókarinnar, annars vegar sem þrætubókar-
maðurinn sem skylmist við Þórberg Þórðar-
son um kaþólskuna, hins vegar sem taóistinn
sem kominn er sem „stórkostlegur friðar-
bardagamaður" til Búkarest. Báðir þessir
kaflar eru óborganlegir, hvor á sinn hátt og
sýna reyndar býsna vel þróun hugmynda-
fræðinnar og vopnaviðskiptanna hjá Hall-
dóri. Hin eldri ritgerðin „Kaþólsk viðhorf" er
smíðuð samkvæmt öllum kúnstarinnar regl-
um og mætti brúka til kennslu í skólum, ef
sýna ætti hvernig má salla niður rök and-
stæðingsins, gera hann tortryggilegan á sem
flestum punktum, en sjálfan sig aftur trú-
verðugastan manna. Því skemmtilegri verð-
ur sú viðureign náttúrlega sem andstæðing-
urinn er snjallari, og það hefur ekki verið
heiglunum hent að svara ásökunum og
áburði Þórbergs í Bréfi til Láru. Þetta gerði
Halldór með stíllegu öryggi og þesskonar
slagferðugheitum sem fáum voru gefin á
þeirri tíð.
Seinni eða nýrri greinin heitir í ritgerða-
safninu „Ferðabæklingur úr Rúmeníu. Til-
raunir í vasabókarstíl" — og er að sögn skrif-
aður „uppúr gleymdri minniskompu frá
1960". Þá er á ferðinni allur annar Halldór;
horfir nú með tvíræðu brosi á allt sem fyrir
ber, svarar með kúnst taóistans sem sér í
gegnum hvaðeina, skilur að „ekkert skiptir
rnáli". Hinu er ekki að leyna að hér er líka
vegið með stílvopninu og það bítur ekki síð-
ur 1960 (eða 1984) en það gerði 1925. Nú er
t.d. hægt að sveifla því vopni svona: „...Eftir
þó nokkurt þvogl, þar sem menn stöguðust
á því sama, án uppljómunar, kom ég loks aft-
ur upp með hugsjón og mælti með henni
sem einna seigustum málstað í þrætu: eingin
upplogin né raunsönn friðarhreyfíng er til
nema menn setjist hver hjá öðrum og fái sér
í nefið. En einginn friðarsinni í Rúmeníu
kunni að taka í nefið; ég ekki heldur. Þeim
fannst ekki einusinni fyndið að taka í nefið.
Aðrar stefnur í friðarátt eru þó síst minni
svindill. Sambúð sem táknar ekki frið milli
tveggja aðilja er stríð..." (159-160)
Ekki eru raunar „Kaþólsk viðhorf" eina
greinin í bókinni sem víkur dálítið að trúar-
brögðum. Slíkt hið sama gera tvær smá-
greinar eða þrjár um „Þjóðsaungsmál“, þar
sem skemmtilega er fjallað um únítarann
Matthías Jochumsson, og greinarnar
„Harmleikur dana á sextándu öld“ og „ís-
lensk bók í Sívalaturni", þar sem í fyrri grein
er fjallað um „siðbótina", hinni síðari um
Maríusögu. í öllum þessum greinum nýtur
stílistinn Halldór Laxness sín vel og tekst að
komast með kátlegum þversögnum og orð-
kringilshætti að bráðsmellnum niðurstöðum
— raunar af því tagi að verður að taka þær
talsvert alvarlega.
Tvennt rýrir heldur gildi þessarar bókar. í
fyrsta lagi það að bókfræði er ónákvæm til
leiðinda. Þannig er ekki tekið fram nema
stundum í framhjáhlaupi hvenær né hvar
einstakar ritgerðir hafi birst. í annan stað er
prófarkalestur ekki eins vandaður og maður
á að venjast á bókum Halldórs. Þannig finnst
undirrituðum heldur leiðinlegt að sjá skrifað
,,eina“ í stað „eyna" á bls. 96, „seitt" í stað
„seytt" á bls. 153 — en gerir svosem minna
til þótt prentað sé „veganesi" í stað „vega-
nesti" á bls. 190. Varðandi prófarkalestur er
á hinn bóginn fróðlegt að lesa stutt tilskrif
Halldórs „Leiðbeiníngar höfundar til próf-
arkalesara samkvæmt beiðni" (bls. 121-3).
Sú mun koma tíð að allt sem Halldór
Laxness hefur ritað verður tekið til grand-
gæfilegrar skoðunar. Þá verður gott að hafa
aðgang að vönduðum útgáfum jafnvel á
smábréfum og snifsum. Rannsakendur
þyrftu þá að vísu að fá upplýsingar um hvort
einhverju hefur verið breytt frá fyrstu prent-
un, jafnvel þótt um einfaldar leiðréttingar sé
að ræða. I þessari bók mun þeim m.a. þykja
merkilegt að lesa bréfið til Gustafs von
Platen, þar sem höfundur upplýsir um hvað
varð af Nóbelsverðlaununum. Það er fróðleg
saga, jafnt fyrir þá sem velta fyrir sér al-
mennum peningamarkaði heimsins og hina
sem rannsaka hvernig rithöfundurinn Hall-
dór Laxness hefur komist af í veraldlegu
vafstri.
-HP.
16 HELGARPÓSTURINN