Helgarpósturinn - 24.10.1985, Síða 6
INNLEND YFIRSÝN
Hann greip inn í kjara-
deilu flugfreyja og Flug-
leiða á akkurat röngum
tíma á rangan hátt
Mistök Matthíasar...
Ríkisstjórnarfundur í hádeginu í gær, mið-
vikudag, var um það bil fimm mínútna lang-
ur. Eitt mál var á dagskrá: Matthías Bjarna-
son samgöngumálaráðherra lagði fram
frumvarpsdrög sín um að leggja kjaradeilu
flugfreyja hjá Flugleiðum fyrir sérstakan
kjaradóm, skipaðan af hæstarétti.
Samþykkt var að leggja frumvarpið fram
síðdegis og freista þess að koma því í gegn í
snarhasti. Það hefur líkast til ekki tekist, svo
framarlega sem marka má ummæli stjórnar-
andstöðuþingmanna í gærdag, en margir
þeirra lýstu því yfir við HP að þeir myndu
vilja ræða þetta mál vel og lengi, enda væri
brýn ástæða til þess. Hér væri alvarlegra mál
á ferðinni en svo, að því væri „djöflað í gegn
í einum grænum".
Meira að segja forráðamenn Flugleiða
trúðu því ekki að þetta frumvarp Matthíasar
næðist fram í hvelli, en einn þeirra sagði
reyndar þetta: „Ef ég á að segja alveg eins og
er, þá fyndist mér það nú vera frekar hallær-
islegt ef alþingi samþykkti frumvarp þess
efnis að ganga freklega á samningsrétt stétt-
ar sem er skipuð konum að 98%, daginn fyr-
ir kvennafrídag í tilefni af lokum kvennaára-
tugarins. ..!
Aður en til þess kom að samgönguráð-
herra ákvað að leggja fram frumvarp til
varnar frekara verkfalli en orðið er, hafði
hann, að samróma áliti fjölmargra viðmæl-
enda blaðsins, klúðrað því að sættir næðust
milli deiluaðila fyrir boðað verkfall. Hann
hafi orðið þess valdandi að gríðarleg harka
hljóp í málið eftirmiðdaginn á mánudag, en
þá voru viðræðurnar á mjög viðkvæmu stigi,
enda bara örfáar stundir til stefnu.. .
Hann setti öðrum málsaðila skilyrði, stillti
flugfreyjum upp við vegg, hótaði þeim að
deilan færi fyrir kjaradóm féllust þær ekki á
að fresta boðuðu verkfalli sínu fram til fyrsta
desember. Sjáifstæðísmaður, mjög kunnugur
þessum málavöxtum, orðaði þetta á þennan
hátt: „Þetta var mjög klaufalegt hjá Matta,
segjum klúðurslegt. Hann hleypti öllu upp í
háaloft með þessari hótun. Hann greip inn í
málið á akkurat röngum tíma á rangan hátt.“
Og hleypti sem sagt illu blóði í samninga-
nefnd flugfreyja. Það sést reyndar vel á
næstu viðbrögðum nefndarinnar eftir þetta
innlegg samgönguráðherra á mánudagseft-
irmiðdegi. í bræði sinni ákváðu þær einum
rómi og með samráði við stöllur sínar sem
voru í loftinu um þetta ieyti, að flugvélar á
vegum Flugleiða sem væru staddar erlendis
á miðnætti, færu ekki heim með þeirra þjón-
ustu, en venja hefur verið í verkföllum sem
þessum að starfsmenn hæfu verkfall sitt
heim komnir.
Jafnframt stífnuðu þær frekar en hitt í
þeirri afstöðu sinni að slá hvergi af kröfum
sínum, en forráðamenn Flugleiða höfðu áð-
ur sagt og segja enn að þær séu fáránlegar og
yrðu þess valdandi að kippa fótunum undan
rekstri fyrirtækisins, væru þær samþykktar.
Ríkissáttasemjari, Gudlaugur Þorualdsson
segist vera kominn með hausverk af þessu
máli, svo mjög hafi það reynt á taugarnar í
sér. Hann segir HP fleira: „Það var ljóst á
mánudagskvöld að tilgangslaust var að
reyna að bera klæði á vopnin, allar tilraunir
í þá átt hefðu bara gert illt verra, hugsa ég.“
Síðan þá hefur Guðlaugur ekki kallað á
fund, málið reyndar komið í meðferð alþing-
is. En víkjum að deilunni sjálfri. Hún snýst
fyrst og fremst um þá kröfu flugfreyja að þær
fái greitt 33% vaktaálag í framtíðinni. Flug-
leiðamenn benda hinsvegar á að flugfreyjur
vinni svo fáa tíma fyrir þá í mánuði, að
vaktaálag kæmi ekki til greina. Þær vinni að
jafnaði innan við 100 tíma á mánuði. Það
finnst flugfreyjum svo undarlegur útreikn-
ingur; flugtíminn sé lítill hluti af starfinu sem
slíku, þær séu að jafnaði 400 tíma að heiman
í þágu félagsins í hverjum mánuði.
Flugfreyjur sjá heldur enga launahækkun
fólgna í því 19,2% boði sem Flugleiðamenn
hafa lagt fram sem kauphækkun þeim til
handa. Fólk verði að átta sig á að flugfreyjur
hafi ekki fengið ASÍ/VSÍ-hækkunina frá því
í sumar eins og aðrir launþegar, þessvegna
séu Flugleiðamenn að bjóða þeim með þess-
um rúmu nítján prósentum nákvæmlega það
sama og almenningur hafi þegar fengið í
sinn vasa.
Um fleira er deilt, en ofanskráð eru megin-
atriði deilunnar. Hækkun bifreiðastyrks og
dagpeninga koma líka við sögu. . . „Og tal-
andi um dagpeningana", segir Erla Hatle-
mark formaður samninganefndar flugfreyja
„þá hefur okkur fundist það verulega miður
hvernig Flugleiðamenn hafa haldið þeim
atriðum deilunnar frammi í fjölmiðlum. Þeir
hafa alltaf reiknað þá saman við launin, en
auðvitað eru dagpeningar útlagður kostnað-
ur. Þeir eru líka að vekja athygli á því að þess-
ir dagpeningar séu skattfrjálsir, en hvað með
eftir Sigmund Erni Rúnarsson
það, svo er einnig um dagpeninga allra ann-
arra stétta í landinu."
Erla Hatlemark fullyrðir að Flugleiða-
menn hafi skipulega unnið að því í fjölmiðl-
um að gera flugfreyjur tortryggilegar: „Flug-
leiðamenn sögðu við okkur, þegar þessi
deila við okkur var í sjónmáli, að þeir myndu
alls ekki reka málið í fjölmiðlum. Við lofuð-
um að gera það ekki heldur, gætt yrði að því
að deilan yrði rekin heiðarlega. En svo sann-
arlega hafa þessir menn komið aftan að okk-
ur. Þeir hafa lagt meginþungann á að sverta
okkur úti í bæ í staðinn fyrir að beita sér við
samningaborðið." Þessari fullyrðingu vísa
Flugleiðamenn frá sér „eins og hverju öðru
bulli. Við höfum sýnt ótrúlega þolinmæði
miðað við það að flugfreyjur hafa verið óvið-
ræðuhæfar um að slá nokkuð af kröfum sín-
um, en þær eru sem fyrr segir fáránlegar."
Almennt segir Erla Hatlemark og aðrar
flugfreyjur að fréttaflutningur af þessari
deilu hafi verið „afskaplega óheiðarlegur."
Lítið hafi verið leitað eftir þeirra hlið á mál-
unum og til dæmis Mogginn alltaf slegið upp
hlið Flugleiða í fyrirsögnum af deilunni. En
það sé skiljanlegt, hitt ekki, að jafnvel útvarp
og sjónvarp hafi gefið frekar neikvæða mynd
af málflutningi flugfreyja.
Þessi deila er um margt merkileg. Og
kannski ekki síst fyrir þær sakir að hún er
fyrsta meiriháttar kreppan sem Sigurður
Helgason kemst í sem forstjóri Flugleiða.
Menn eru sammála um að hann hafi komist
ágætlega frá henni, sýnt nokkra hörku, pass-
að sig á stórum yfirlýsingum og reyndar
haldið sig lítt frammi opinberlega. En það er
ljóst að maðurinn á klókindi til, heldur fleiri
en einn maður fram. Dæmi: „Hann notar þá
taktík að hamra á einföldum atriðum máls-
ins við fjölmiðla, þannig að allur almenning-
ur skilur hann nákvæmlega. Með þessu móti
hefur hann pent og hægt gert flugfreyjurnar
að skúrkunum í deilunni, rænt þær samúð-
inni í málinu."
Flugfreyjur taka undir þessa skýringu.
ERLEND YFIRSYN
,JJ§' Barry Goldwater og aðrir
eindregnustu talsmenn
* ^ ,3e|éJ^’HhL herstyrks eru fremstir í
flokki.
Öldungadeildarmenn lýsa
vantrausti á Pentagon
Átta ár og 1.8 milljarðar dollara fóru í
smíði radar- og tölvustýrðrar og sjálfknú-
innar loftvarnabyssu, sem Bandaríkjaher
nefndi York libþjálfa eftir skotgrafahetju úr
fyrri stríði. í haust afskrifaði Weinberbger
landvarnaráðherra byssuna fyrir fullt og allt,
en ekki fyrr en sýnt hafði verið fram á að
smíðaáætlunin var fásinna frá upphafi og
fyrstu tilraunir hefðu átt að kveða upp
dauðadóm yfir byssunni. Radarstýringin
reyndist ekki nákvæmari en svo, að þegar
mannlaus þyrla átti að vera skotmark, hóf
York liöþjálfi skothríð á næsta kamar, þar
sem loftvifta var í gangi.
Ár eftir ár og fjárveitingu eftir fjárveitingu
héldu embættismenn í Pentagon, landvarna-
ráðuneytinu í Washington, og starfsmenn
fyrirtækjanna sem stóðu að byssusmíðinni
áfram að blekkja eftirlitsaðila og þingmenn.
Þegar York lidþjálfi hæfði ekki skotmörk á
flugi, var komið fyrir í mannlausum vélum
sprengihleðslu og hún sprengd með rafboði
í þann mund sem skot hefði átt að hæfa
markið. Þegar talsmenn hersins voru við
rannsókn beðnir að útskýra þetta tiltæki,
báru þeir við að verið væri að tryggja öryggi
á tilraunasvæðinu, sem var mannlaus eyði-
mörk.
Þrátt fyrir þetta væri vafalaust enn verið
að eyða kröftum og fé í York liöþjálfa, hefði
ekki komið til eftirgrennslan eins bandarísks
þingmanns, Denny Smith frá Oregon, sem
sjálfur er fyrrum orustuflugmaður. Hann
knúði á að raunhæfar prófanir yrðu gerðar á
gagnsemi byssunnar, og þá komu fyrri fals-
anir og blekkingar í ljós. Rígur milli tveggja
skrifstofa í Pentagon varð svo til þess að
hneykslissagan varð opinber í einstökum
atriðum.
Sjálfstýrða ioftvarnabyssan, sem herjaði á
kamra en lét flugvélar í friði, er ein af ástæð-
unum til að upp er komin í Öldungadeild
Bandaríkjaþings öflug hreyfing fyrir gagn-
gerðri endurskipulagningu bandarísku yfir-
herstjórnarinnar. Niðurstaðan af rúmlega
600 blaðsíðna skýrslu frá starfsliði herafla-
nefndar Öldungadeildarinnar er að núver-
andi fyrirkomulag valdi stórfelldri sóun fjár-
muna og sé til trafala og háska strax og á
reyni í hernaði.
Úttektin á Pentagon er gerð að frumkvæði
þeirra tveggja öldungadeildarmanna, sem
kunnastir eru að stuðningi við ráðstafanir til
að efla bandarískan hernaðarmátt. Annar er
Barry Goldwater, formaður heraflanefndar-
innar, eitt sinn forsetaframbjóðandi repúblík-
ana og nýbrautskráður úr varaliði flughers-
ins með hershöfðingjatign eftir 37 ára þjón-
ustu. Hinn er Sam Nunn, æðstur þingmanna
demókrata í heraflanefndinni.
Goldwater og Nunn studdu dvggilega
auknar fjárveitingar til vígbúnaðar á fyrra
kjörtímabili Reagans forseta. En síðan Gold-
water tók við formennsku í heraflanefndinni
eftir síðustu kosningar, hefur hann gerst æ
gagnrýnni á, hvernig fjárfúlgunum sem
Pentagon fær í hendur er varið. Samfara birt-
ingu úttektar heraflanefndarinnar hafa þeir
Nunn vakið athygli á niðurstöðunum með
ræðuhöldum.
Goldwater hefur verið sérstaklega harð-
orður um óstjórn, klíkuskap og ringulreið í
yfirherstjórninni og togstreitu milli landhers,
flughers, flota og landgönguliðsins, en æðstu
menn þessara greina mynda herstjórnina.
„Þurfum við að berjast á morgun, verða
þessi vandkvæði til að Bandaríkjamenn láta
lífið að óþörfu," segir Goldwater. „Þar á ofan
geta þau haft það í för með sér, að við bíðum
lægri hlut í átökunum."
I skýrslu heraflanefndarinnar er þessi
dómur studdur dæmum um dýrkeypta
árekstra og sambandsleysi milli greina her-
aflans í Víetnam-stríðinu og tilrauninni til að
leysa gíslana í sendiráðinu í Teheran úr prís-
und. Nýjustu tilvikin eru frá bílsprengjuárás-
inni á búðir bandaríska landgönguliðsins í
Beirut og innrásinni á Grenada. Þegar komið
var með særða landgönguliða til Vestur-
Þýskalands frá Beirut, voru þeir ekki fluttir í
næsta sjúkrahús, þótt líf gætu legið við að
koma þeim sem fyrst undir læknishendur,
heldur umskipað úr flugvélunum til frekari
flutnings milli staða. Á Grenada náði foringi
í landhernum engu sambandi við flotann,
vegna ósamrýmanlegs fjarskiptabúnaðar,
fyrr en hann notaði krítarkort sitt til í koma
á milligöngu bandarísks símafélags sem ann-
ast almenna símaþjónustu.
Afleiðing núverandi fyrirkomulags er að
dómi öldungadeildarmannanna, að greinar
heraflans keppast við að koma sér upp flókn-
um og dýrum vopnakerfum, en þjálfun, öfl-
un skotfæra og einfaldur vopnabúnaður sit-
ur á hakanum. Fjarstýring frá Pentagon er
svo ströng og flókin, að yfirmenn í aðgerð-
um á fjarlægum slóðum eru bundnir í báða
skó. Því er lagt til í skýrslunni, að yfirher-
ráðið sé afnumið í núverandi mynd, yfir-
menn hergreina fái að helga sig einvörðungu
yfirstjórn sinnar greinar. Yfirherstjórnin
eftir Magnús Torfa Ólafsson
verði í höndum eins foringja, sem hafi sjálf-
stætt starfslið ótengt einstökum hergreinum,
verði ráðgjafi forsetans í hernaðarmálefnum
og beri skipanir hans til yfirforingja, sem
beri hver um sig sjálfstæða ábyrgð á her-
stjórnarsvæði eða hernaðaraðgerð.
Weinberger landvarnaráðherra og nán-
ustu samstarfsmenn hans í Pentagon eru afar
mótfallnir tillögum á þingi um endurskipu-
lagningu yfirherstjórnarinnar, en reynslan af
ráðsmennsku þeirra er slík að mótbárurnar
eru lítils metnar. Þrátt fyrir þúsund milljarða
dollara fjárveitingu til landvarna það sem af
er stjórnartíma Regans, er því haldið fram að
herafli Bandaríkjanna sé lakar búinn til
átaka en áður en yfirstandandi vígbúnaðar-
skeið hófst. Ástæðan er að dómi gagnrýn-
endanna, að fjársóun og fjármálaspilling í
hergagnaiðnaðinum hefur magnast um all-
an helming.
Sakamálarannsóknir eru hafnar á hendur
45 af umsvifamestu hergagnaframleiðend-
um Bandaríkjanna. Hughes Aircraft hefur
afhent hernum gallaðar eldflaugar.
McDonnell Douglas lét frá sér fara F-18
orustuflugvélar með sprungur í stéli.
General Dynamics og General Electric hafa
þegar fallist á að endurgreiða háar fjárfúlgur
fyrir ranga reikningsgerð.
Undirrót ófremdarástandsins er í Penta-
gon. Embættismenn hafa verið hraktir úr
starfi fyrir að fletta ofan af sameiginlegri fjár-
plógastarfsemi hergagnaframleiðenda og
herforingja sem við þá sömdu. Herforingjar
fara á eftirlaun á miðjum aldri og ganga í há-
launuð störf í fyrirtækjunum sem þeir skiptu
áður við á vegum landvarnaráðuneytisins.
Vopn eins og M-1 skriðdrekinn og Bradley
brynvagninn eru aldrei reynd við raunhæfar
aðstæður.
Almenningur í Bandaríkjunum hefur misst
traust á hergagnaiðnaðinum og herstjórn-
inni, eftir að hvert dæmið öðru fáránlegra
um fjársóun komu upp á yfirborðið. Kaffi-
vélin í C-5A farmflugvélina er reiknuð á
7.622 dollara. Grunman setur upp 659 doll-
ara fyrir hvern öskubakka. Samskonar okur
á skrúfum, skrúflyklum, töngum — já, og
kamarsetum, fyllir mælinn.
6 HELGARPÓSTURINN