Helgarpósturinn - 24.10.1985, Blaðsíða 14

Helgarpósturinn - 24.10.1985, Blaðsíða 14
HEF VERIÐ HALLDÓRA ELDJÁRN í HP-VIÐTAI Halldóra Eldjárn minnist engra sérstakra framtídardrauma frá uppvaxt- arárunum vestur á ísafirdi. Nema hvaö henni, eins og öðrum ungum stúlk- um þess tíma, var einkum ætlað að giftast og eignast börn. Það átti líka fyrir henni að liggja, þó svo engan gœti þá rennt grun í að heimilishaldið yrði í Þjóðminjasafni eða á Bessastöðum. Sjálf segist hún fyrst og fremst hafa verið húsmóðir og móðir um ævina, hvar sem var. Aðstæður breyttust þegar maki hennar, Krist- ján Eldjárn forseti um tólf ára bil, féll frá árið 1982. Börnin þeirra fjögur; Ólöf, Þórarinn, Sig- rún og Ingólfur voru uppkomin, og þegar frá leið þótti Halldóru ástæða til að svipast um eftir einhverju að fást við. í dag á hún að baki eitt og hálft ár í starfi tölvuritara hjá Orðabók Háskól- ans. Fyrir skömmu seldi fjölskyldan húseign sína við Sóleyjargötu númer eitt, og Halldóra festi kaup á vistlegri íbúð við Tómasarhaga. Þar sitj- um við saman einn morgun, með sólskin og dumbung til skiptist fyrir utan, og ég spyr fyrst hvort það hafi ekki verið erfitt að fara út á vinnu- markaðinn. „Maður getur ekki setið heima og horft i gaupnir sér, er það?“ spyr hún brosandi á móti. Eh bætir síðan við: „Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað, úr því ég nennti ekki að stofna barnaheimili fyrir barnabörnin. Ég er búin að vélrita mikið um ævina, og datt í hug að það gæti verið spenn- andi að sjá hvað væri að gerast í tölvuritvinnslu, sem virðist vera að leggja allt undir sig, og fór á námskeið. Um það bil sem því var að Ijúka sá ég hvar auglýst var eftir ritara í hálft starf hjá Orða- bók Háskólans. Ég sendi umsókn, og hef verið þar síðan.“ — Og fœst við? „Það er verið að flytja orðabókina af seðlum yfir á tölvu. Þegar ég byrjaði voru þau í d-unum, en nú erum við í s-unum!“ — Mig langar að spyrja hvort það sé litið á þig sem fyrrverandi forsetafrú á vinnumarkaðnum, eöa einfaldlega Halldóru? „Ég hef aldrei verið kölluð annað en Hall- dóra," svarar hún og þykir aftur ástæða til að brosa út af spurningu. „Nei, nei,“ ítrekar hún svo. „Það er ekkert hugsað um mig sem fyrrverandi forsetafrú, sem betur fer. Ég hef alltaf viljað vera ég sjálf, enda get ég ekki verið neitt annað.“ Feiirtin og gersneydd áhuga á félagsstarfi Hún fæddist á ísafirði 24. nóvember 1923, elst fjögurra barna Ólafar Jónasdóttur og Ingólfs Arnasonar, sem síðustu árin fyrir vestan var framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Norður- tanga, en þau fluttu suður 1961. Halldóra hleypti heimdraganum 16 ára, þegar hún sigldi suður til Reykjavíkur í þriðja skipti á ævinni. Að þessu sinni til að setjast á skólabekk í Verslunarskóla íslands. Hún segist hafa alist upp við sparsemi og nægjusemi eins og svo margir aðrir af kreppu- kynslóðinni. Kveðst sjálf hafa verið mjög feimin og gersneydd öllum áhuga á félagsstarfi, hvort tveggja einkenni sig enn í dag, þó í minna mæli sé. Eftir þrjá vetur fyrir sunnan lauk hún prófi með hæstu einkunn, en frábiður sér að tala nokkuð um það. Atvinnurekendur sátu um þá nemendur sem stóðu sig vel; um miðjan síðasta veturinn hafði hún þegar verið ráðin til starfa í heildverslun Magnúsar Kjaran. Og seint á árinu 1945 kynntist hún Kristjáni Eldjárn, væntanlegu mannsefni sínu. Rúmu ári síðar gengu þau í hjónaband vestur á ísafirði. — Minnist hún þess að þau hafi œtlað sér eitt- hvað sérstakt í framtíðinni? „Ég ætlaði mér aldrei annað en að verða hús- móðir og vonaðist til þess að eignast börn. En Kristján hafði sérmenntun í fornleifafræði og ís- lenskum fræðum og langaði að stunda rann- sóknir í sinni fræðigrein auk starfsins í Þjóð- minjasafninu. Hann varð þjóðminjavörður 1. desember 1947, nokkru eftir að við giftum okk- ur.“ — Höfðuð þiö sömu áhugamál? „Hann hafði áhuga á bókmenntum og ég líka. Ég hef alltaf haft gaman af að lesa góðar skáld- sögur." — Áhugamál þín að öðru leyti? „Ég hef alltaf haft áhuga á að hlusta á tónlist. Mín kynslóð á útvarpinu eiginlega allt að þakka í þeim efnum. Smekkurinn mótaðist með árun- um, og í seinni tíð hef ég einna mest gaman af þýskum ljóðasöng. Ég hlusta á útvarp og á heil- mikið af plötum sjálf, en geri minna en skyldi af því að fara á tónleika, — það er skortur á fram- takssemi." — Auk þess sem þú sinntir húsmóður- og móð- urhlutverki, vannstu þá ekki töluvert fyrir Krist- ján? „Ég vélritaði alltaf fyrir hann. Það fólst nú aðallega í því. Ég hélt vélritunarkunnáttunni við með því móti.“ Reyndi ekki að gera lukku — Forsetakosningar — tímamót í lífi ykkar. Hvenœr skaut hugmyndinni að hugsanlegu framboði Kristjáns upp kollinum? ,,í ársbyrjun 1968 var farið að minnast á þettá við Kristján, en hann tók hugmyndinni víðs fjarri í byrjun. Hann gaf afsvar og var mjög tregur til þessa, en það endaði þó með því að hann lét tilleiðast að gefa kost á sér.“ — Hvaða augum leist þú á þetta? „Stundum var ég_ dauðhrædd, en herti svo upp hugann á milli. Ég skelfdist tilhugsunina um framboð og kosningar, en þegar á reynir stælist maður, og gerir það sem til er ætlast. Stundum tekst það, stundum ekki.“ — 77/ hvers er œtlast? „Það hefur sjálfsagt breyst. Ég hugsa að kröf- urnar séu miklu meiri nú en þá. Ég gerði aldrei annað en að fara með Kristjáni á fundi og sýna mig. Ég hélt engar ræður. Ég hefði sjálfsagt mátt gera það, en ég hafði aldrei á ævi minni flutt ræðu. Svo ég hlyðraði mér hjá því, og geri enn í dag.“ — A þessum tíma varst þú óþekkt kona, sem sviðsljósinu var snögglega beint að. Hvernig þótti þér það? „Ég hef sjálfsagt hugsað um það eitt að halda áfram að vera ég sjálf. Ég reyndi ekki að gera neina sérstaka lukku. Ég hugsaði ekkert út í það, og ég hélt áfram að vera húsmóðir." — Undir þessum kringumstœðum er fólk oft óvægið í dómum sínum. Manstu eftir einhverju slíku sem þér þótti óþœgilegt? „Nei, ekki sem ég man núna að minnsta kosti. Það getur vel verið að mér hafi mislíkað eitt- hvað þá, en ég hef ekkert sérstaklega gott minni! Ekki einu sinni á það sem ég á að muna.“ — Haföi umstangið ekki sín áhrif á heimilis- lífið? „Það var strax stefna hjá okkur að halda börn- unum sem mest utan við þetta, og ég held okkur hafi tekist það. En auðvitað tók sinn tíma að venjast breyttum aðstæðum" Sumir eru opnir, aðrir lokaðir — Er ekkert erfitt að líta á forsetabústað sem heimili? „Þetta var okkar eina heimili allan tímann, við áttum ekki annað. Auðvitað litum við á það sem slíkt. Við gerðum okkur heimili á efri hæðinni, og fluttum þangað okkar húsgögn." — Náttúruunnandi mundi sjálfsagt nýta sér umhverfi Bessastaða. Gerðir þú það? „Ég er hrædd um ekki.“ Halldóra er fljót til svars og bætir svolítið sposk við: „Ég er lítið fyrir gönguferðir og íþróttir, og hef verið afskaplega löt við ailt svo- leiðis. Ég fór frekar inn í bæ og gekk á milli þeirra staða sem ég átti erindi á. Tilgangslausar gönguferðir finnst mér leiðinlegar." — Þá hefurðu lýst þér þannig; engin félags- málakona, ekki íþróttamanneskja og feimin að eðlisfari. Þú berð heldur ekki tilfinningar þínar á borð, er það? „Það er rétt. Ég er lítið fyrir það. Og kannski er ég sein að kynnast fólki, eins og ég sé í varn- arstöðu — þó ég hafi verið það meira hér áður. Sumir eru opnir, aðrir lokaðir. Ég tilheyri síðar- nefnda hópnum. — Voruð þið Kristján lík? „Kristján var ekki fyrir það að bera á borð sínar innstu tilfinningar, en hánn átti mjög auð- velt með að umgangast fólk, miklu auðveldara en ég. Hann átti líka gott með að koma orðum að hugsunum sínum, sem ég á ekki. Ég get varla skrifað sendibréf." — Urðu samvistir ykkar minni eftir að hann tók við embætti forseta Islands? „Nei, ég hugsa að við höfum bara verið meira saman, því auðvitað varð ég að reyna að hjálpa honum eins og ég gat, og hann lét mig gjarnan fylgjast með.“ Með hatf eða ekki? — Kveiðstu aldrei fyrir embœttisverkum, svo sem því að hitta hina ýmsu þjóðhöfðingja? „O, jú, það gat komið fyrir að maður fyndi fyrir fiðringi þegar eitthvað alveg sérstakt stóð tii. Svo hverfur slíkt þegar út í hringiðuna er komið, þá kemur einhver ró yfir mann.“ — Af því við tölum um þjóðhöfðingja; heim- sókn Nixons og Pompidou var með stœrri við- burðum í ykkar tíð, ekki rétt? „Jú, og ég man að það var dálítill fiðringur í mér áður! Þeir forsetarnir komu í kvöldverð á Bessastaði, og vegna þess var rnikill viðbúnaður. Löngu áður þurfti að gera alls konar öryggis- ráðstafanir. Ein þeirra var að koma á beinu síma- sambandi milli Bessastaða og Hvíta hússins. Það var óskaplega mikið um að vera, og þegar þeir komu var staðurinn hreinlega umkringdur af amerískum öryggisvörðum og íslensku lögregl- unni. Þetta var sá atburður sem hvað mesta at- hygli vakti, bæði innan lands og utan.“ — Hvernig komu þessir höföingjar þér fyrir sjónir? „Ég sat nú bara í húsmóðursætinu í þessu kvöldverðarboði, og get ekki sagt að ég hafi talað mikið við þá sjálfa. En ég hafði gaman af að hitta þá. Nixon var ósköp broshýr og vin- gjarnlegur, en það var auðséð á Pompidou að hann var ekki heill heilsu."- — Af öllum öðrum heimsóknum; er einhver sérstök þér eftirminnilegri en aðrar? „Ég hafði yfirleitt gaman af að hitta þetta fólk. Ég man þó að mér þótti sérstaklega gaman að hitta Kurt Waldheim, hann var mjög viðkunnan- legur maður." — Svo ferðuðust þig eðlilega víða; átti ekki kona í þinni stöðu í síeflldum vandrœðum með fatnað; hverju átti að klœðast hér eða þar? „Það voru sérstök vandræði með hatta," segir Halldóra og hlær við tilhugsunina. „Átti að vera með hatt eða ekki? Sem betur fer voru þó slíkar upplýsingar farnar að fylgja með, sérstaklega í sambandi við opinberar heimsóknir. Þar að auki var þetta allt orðið miklu frjálslegra seinni árin. Það lá að minnsta kosti engin refsing við að brjóta reglur. En auðvitað velti maður þessu heilmikið fyrir sér.“ Uppeldið ekki samkvæmf kenningum — Hver var að þínu mati erfiðasti tíminn á þessum þremur kjörtímabilum? „Ég býst við að það hafi verið erfiðast að komast inn í þetta í byrjun og venja sig við breyttar aðstæður. En þar fyrir utan mætti nefna stjórnarmyndanir sem stundum tóku langan tírna." — Fylgdist þú með slíku? „Já, ég fylgdist talvert með án þess þó ég legði á ráðin. Ég hafði gaman af að fylgjast með póli- tíkim.i, þó ég hafi aldrei verið pólitísk mann- eskja.“ — Ég œúaði einmitt að spyrja þig að því? „Nei, ég hef aldrei verið það. Samt vil ég gjarn- an fylgjast með því sem er að gerast í pólitík- inni, og geri það eftir því sem ég get.“ — En ert ekkert pólitísk? „Nei, nei. Ég hef alltaf verið í vandræðum með hvað ég á að kjósa. Ég slapp alveg við það meðan við vorum á Bessastöðum, þá kusum við aldrei. Okkur fannst það ekki rétt.“ — Er eitthvað sérstakt í þjóðlífinu í dag sem á frekar athygli þína en annað? „Ég neld það sé viðeigandi að nefna réttinda- mál kvenna. Þó miðað hafi í rétta átt hefur launajafnrétti ekki náðst, og baráttan sem háð er fyrir því þykir mér eðlileg. Það er bara verst að það skuli þurfa að heyja baráttu fyrir því sem á að vera sjálfsagður hlutur. En líti maður til baka er von að þetta taki langan tíma. Það þarf að breyta hugsunarhætti margra kynslóða." — Ertu ef til vill hörð jafnréttiskona? „Það mundi ég ekki segja. Það er kannski út af því að ég er ekki félagsmálakona yfirleitt." — Ólstu börnin þín upp í jafnréttisanda? „Það v’it ég ekki. Ég veit ekkert hvernig ég hef alið mín b jrn upp. Eg held þau hafi bara alið sig upp sjálf. Ég hef að minnsta kosti ekki alið þau upp eftir neinum kenningum." — Þú vilt að öllum líkindum sjá fleiri konur í ábyrgðarstöðum? „Já, auðvitað. Ég held það sé æskilegt að þurfa ekki að velta því fyrir sér hvort viðkom- andi persóna er karl eða kona, ef hún eða hann eru hæf til starfsins. Kynferði á ekki að hafa áhrif." — Hefðir þú sjálf getað hugsaö þér að verða forseti? „Nei, alveg áreiðanlega ekki. Enda var ég bú- in að segja þér að ég hef aldrei á ævinni flutt ræðu!“ Reynisf best að vera sem eðíilegastur — Fannst þér þú opinber eign á meðan Krist- ján gegndi embœtti forseta? „Það er kannski of mikið að segja það, en samt er farið að ætlast til einhvers af manni, sem ekki hafði verið gert áður. Eg varð fljótlega vör við að fólk þekkti mig úti á götu, en lét það lítil áhrif hafa á mig.“ — Gœtir þú gefið þeim góð ráö, sem hugsan- lega œtti eftir að feta í þín fótspor?

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.