Morgunblaðið - 05.03.1983, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 05.03.1983, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 5. MARZ 1983 Arthur Koestler látinn: Rithöfundur er sagði skilið við byltinguna Rithörundurinn Arthur Koestler og eiginkona hans Cynthia fundust sem kunnugt er látin á heimili sínu í fyrradag. Álitið er að þau hafi svipt sig lífi, en við hlið þeirra fundust tóm lyfjaglös og miði til þjónustustúlku á heimiii þeirra. Koestler hafði þjáðst af Park- inson-veiki og hvítblæði undan- farin ár, en hann var 77 ára gamall nú þegar hann lést. Cynthia, eiginkona hans, var á sextugsaldri. Ekki er vitað ann- að en hún hafi verið heil heilsu. Arthur Koestler fæddist í Búdapest í Ungverjalandi 5. september 1905 og var af gyð- ingaættum. Hann bjó síðan ásamt fjölskyldu sinni á sam- yrkjubúi í Palestínu, en stundaði háskólanám í heimspeki í Vín- arborg. Hann gekk ungur að ár- um í flokk kommúnista, en hóf síðan störf sem blaðamaður og starfaði fyrir þýska blaðakeðju frá 1926 til 1931 í Miðaustur- löndum, París og Berlín. Hann skrifaði um borgara- styrjöldina á Spáni fyrir Lundúnablaðið „News Chron- icle“, en hóf síðan útgáfu blaðs í Prakklandi árið 1938, þar sem hann beindi spjótum sínum að nasistum og sovésku samfélagi. Hann var síðan handtekinn af nasistum árið 1939, en var látinn laus fyrir tilstilli Breta og flúði til Englands, þar sem hann gekk síðar í breska herinn. Frægasta ritverk Koestlers, „Myrkur um miðjan dag“, fjallar um hin miklu réttarhöld Stalíns á árunum fyrir síðari heims- styrjöldina. Meginþema bókar- innar er úrkynjun byltingarinn- ar vegna spillandi áhrifa valds- ins. Eðli Stalín-einræðisins gerði það að verkum, að hann tók svip- aða afstöðu og svartsýnn íhalds- maður í bókinni, þótt áður hefði hann verið mjög róttækur. Þrjár af fyrstu bókum hans gerast að mestu leyti innan veggja fang- elsis og einkennist andrúmsloft- ið í þeim öllum af martröð. Koestler var, sem fyrr segir, fréttaritari Lundúnablaðsins „News Chronicle" á fyrstu mán- uðum borgarastyrjaldarinnar á Spáni og var handtekinn þar snemma árs 1937, þegar stuðn- ingsmenn Francos tóku Malaga. Hann var fangi í virki í nokkra mánuði og heyrði skothríð á hverju kvöldi þegar hópar lýð- veldissinna voru líflátnir. Bók hans „Spænska erfðaskráin" segir frá þessari, reynslu og er lituð áróðri lýðveldissinna sem hann fylgdi að málum. Hann var þá enn félagi í kommúnista- flokknum, en eins og næsta bók hans, „Skylmingaþrælarnir", ber með sér var trú hans á málstað- inn farin að bila. „Myrkur um miðjan dag“ er meistaraverk Koestlers. Þrátt fyrir að stjórnmál komi þar mik- ið við sögu er bókin fyrst og fremst áhugaverð vegna sál- rænna lýsinga hennar á ein- staklingum. Bókin lýsir fangels- un gamals bolsévíka, Rubashov, sem neitar í fyrstu að hafa drýgt glæpi, sem hann veit að hann hefur ekki framið, en játar þá síðan á sig. í bókinni er reynt að leita svara við því hvers vegna Rubashov játaði. Koestler var aftur handtekinn þegar hann var staddur í Frakklandi er heimsstyrjöldin braust út. Hann var þar í fanga- búðum fyrstu níu mánuði stríðs- ins, en flúði síðan til Englands eftir ýmsum krókaleiðum. Þar var honum enn varpað í fangelsi, þar sem hann var þegn óvinarík- is, en var hins vegar fljótlega látinn laus í það skiptið. Um þessa reynslu fjallar bókin „Scum of the Earth" (Úrþvætti mannfélagsins), sem ekki átti upp á pallborðið eins og á stóð. A efri árum beindist áhugi Koestlers að austrænni dul- hyggju, skuggahliðum sem fylgdu tækniþróun Vesturlanda, leyndardómum tilviljana og einnig leyndardómum hins reglubundna. Hann einbeitti sér einnig að óskýrðri starfsemi heilans og raunar hinum marg- víslegustu málum sem áttu það sammerkt að vera með því flókn- asta sem mannshugurinn gat glímt við. Hann hafði yndi af því að skýra frá ötrúlegum stað- reyndum og varpa fram um- deildum tilgátum. Eins og fram kom í Mbl. fyrir rúmum sex árum hefur Koestler sett fram þá kenningu, að ástæð- an fyrir óhæfni mannsins til að leysa vandamál sín sé sú, að hann sé, fyrir víxlspor þróunar- Rithöfundurinn Arthur Koestler í ágúst 1976. sögunnar, skapaður með þremur — illa samhæfðum — heilum, einum skriðdýrs-, einum spen- dýrs- og einum mannlegum heila. Þessari kenningu veltir hann vandlega fyrir sér í leit sinni að skýringu á hinni óbil- andi sjálfstortímingarhvöt manneskjunnar og rökstyður ít- arlega í bók sinni „The Brain Explosion". Svartsýni Koestlers jókst með árunum, einkum eftir að hann setti fram þessa kenningu og tók að velta fyrir sér hinum duldu og frumstæðu þáttum sem móta mannlega hegðun eða stjórna henni. Vantrú hans á mannlegt eðli jókst, en hann vildi að mað- urinn fengi að vera sjálfs sín herra og reyna að stjórna hegð- un sinni af kaldri skynsemi. Hann vildi m.a. að menn fengju að ráða því sjálfir hvort þeir vildu svipta sig lífi og gekk hann í breska líknarmorðafélagið. Um þetta félag stóð mikill styrr fyrir nokkru, þegar það stóð fyrir því að dreifa kennslubæklingum um sjálfsmorð til fólks sem vildi slíka fræðslu. Arthur Koestler kom til Is- lands um miðjan júlí 1972 til að fylgjast með skákeinvíginu fyrir breskt blað, en hafði hér skamma viðdvöl. Sigurður Magnússon, þáverandi blaða- fulltrúi Loftleiða, hitti Koestler að máli og fór Mbl. þess á leit við hann að hann segði frá þeim kynnum sínum. „Þegar ég frétti að Arthur Koestler væri væntanlegur hingað á skákmótið sumarið 1972 ákvað ég að reyna að þakka honum þann fróðleik og þá skemmtun sem lestur bóka hans hafði veitt mér. Þess vegna tók ég á móti honum á flugvellinum og bauðst til að veita honum að- stoð. Hann var feginn því boði. Eitthvað greiddi ég götu hans í sambandi við einvígið, en til þess varði hann, að því er mér virtist, einungis lágmarks tíma, til þess að ná sér í efni í eina eða tvær blaðagreinar og raunar stóð hann stutt við hér á landi. En hann var mjög forvitinn um sögu okkar og samtíð. Ég ók honum í kynnisferð um Reykja- vík og nágrenni og átti þá með honum mjög eftirminnilegan dag því bæði spurði hann mikils og var ósínkur á að segja mér frá fjölbreytilegri ævi sinni. Koestl- er var, eins og raunar nær allir afburðamenn sem ég hef kynnst persónulega, mjög ljúfur í við- móti og laus við þann hroka sem einkennir oft undirmálsfólk. Mér þótti mjög vænt um að fá þetta tækifæri til að kynnast Koestler persónulega og ég held hann hafi verið þakklátur fyrir þá aðstoð sem ég veitti honum hér því hann sendi mér síðar frá Lundúnum áritaða bók sína, „The Roots“,“ sagði Sigurður Magnússon að lokum. Höfundur ..Deild 7“ látinn 99 Valery Tarsis var einn þeirra fáu, sem áttu aftur- kvæmt úr skuggaveröld sovézkra geðveikrahæla Valery Tarsis. Skáldsaga hans „Deild 7“ er átakanleg sjálfsævisaga og lýsir umhverfí og dvöl höfundarins ( einni hinna sovézku „geðveikrast- ofnana", þar sem Sovétstjórnin grefur lifandi þá menn, sem va ndir eru um skort á auðsveipni við stefnu hennar og hugmyndakerfi. Tarsis er einn hinna fáu manna, sem átt hafa afturkvæmt úr þessari miðaldalegu skuggaveröld handan við allan mannlegan rétt og mannlega miskunn- semi. Ilann slapp úr geðveikrahælinu 1963 og nokkru síðar komst hann úr landi. Áður hafði honum tekizt að smygla handritinu að „Deild 7“ til Englands. Höfundur sögunnar „Deild 7“, sovézki rithöfundurinn Valery Tarsis, lézt í Sviss á fimmtudag 76 ára að aldri. Ilann var á meðal þeirra sovézku rithöfunda, sem fyrstir fordæmdu skipulagið í Sov- étríkjunum í verkum sínum og fyrir það létu sovézk stjórnvöld loka hann inni á geðveikrahæli í átta mánuði. Sagan „Deild 7“ varð til eftir þessa dvöl á geðveikrahæl- inu og lýsir skáldið þar vist sinni. „Deild 7“ hefur komið út á ís- lenzku. Sjálfur kom Tarsis til ís- lands 1966 og flutti hér fyrirlestra. Vakti koma hans hingað verð- skuldaða athygli. Um árabil var Tarsis meinað að fara til útlanda og þiggja boð um að flytja þar fyrirlestra. Á árinu 1966 fékk hann þó vega- bréfsáritun og fór úr landi. Ákvað hann síðan að snúa ekki aftur heim til Sovétríkjanna. Tarsis dvaldi um skeið í Bret- landi, og á meðan hann var þar, var hann sviptur ríkisborgara- réttindum í Sovétríkjunum. Ástæðan fyrir því, að hann fékk að fara úr landi, var sennilega sú, að þar tóku sovézk yfirvöld þann kostinn, sem þeim þótti hættuminnstur. Hinir kostirnir hefðu verið þeir að láta hann dúsa áfram á geðveikrahæli eða leyfa honum að fara frjáls ferða sinna i Moskvu sem „opinber geðsjúklingur", en þá hefði hann getað verið enn hættulegri Sov- étskipulaginu en þó hann færi utan. Tarsis sagði sjálfur, að Shelepin, einn af valdamönnum Sovétríkjanna, hefði sagt: „Tars- is er hætta númer eitt. Og af hverju? Jú, hann hefur hættuleg áhrif á ungu kynslóðina." Tarsis var fæddur í Kiev. Hann byrjaði að skrifa í skóla og ritaði m.a. um nútímahöfunda í Vestur-Evrópu. Sú ritgerð var gefin út, einnig ritgerð um skáld endurreisnarstefnunnar á Italíu, á meðan hún var í bernsku. Af skáldskap hans var fyrst gefið út smásagnasafn 1931 og síðan skrifaði hann margt, m.a. „Bláu fluguna" og „Rautt og svart“, hvort tveggja smásögur. Sú fyrri fjallar um prófessor, sem lætur angrast af flugu nokkurri, en herðir upp hugann og drepur hana. Eftir það finnst honum allt réttdræpt, sem angrar hann, meira að segja ríkisstjórnin, ef hún kemur við kaunin á honum sem þjóðfélagsborgara. Tarsis gerðist félagi í komm- únistaflokki Sovétríkjanna 1946. Hann hafði verið stríðsfréttarit- ari í heimsstyrjöldinni síðari og var með hersveitum Zhukovs, sem hertóku Berlín. Hann var persónulega kunnur Zhukov og þótti mikið til hans koma. Hvorki Stalin né Krushev þoldu Zhukov vegna þeirra vinsælda, sem hann hafði aflað sér, var haft eftir Tarsis. Þeir voru báðir hræddir við þessar vinsældir. I samtali við Matthías Jo- hannessen ritstjóra árið 1966 kemst Tarsis svo að orði um af- stöðu sína: „Ég er ekki Sovét- rithöfundur. Sovétið er óvinur minn og rússnesku þjóðarinnar. Hvað sem þeir segja, hefur al- menningur það ekki gott. Iðn- búnaðurinn kemur fólki ekki eins að gagni og sumir vilja vera láta. Tunglflaugar koma ekki í stað axlabanda. En samt hafa ráðamenn Sovétríkjanna reynt að láta þær halda upp um sig buxunum." (Félagi orð bls. 443.) I sama samtali segir Tarsis frá fundi, sem haldinn var í Sov- étríkjunum. Meðal viðstaddra var gömul kona, — „mjög hug- rökk, gömul kona,“ segir Tarsis. „Á fundinum var rætt um eld- flaugar, geiminn — allt nema þarfir fólksins. Þá sagði gamla konan: „Við þurfum ekki eld- flaugar — við þurfum brauð og pylsur." Tarsis lagði stund á bók- menntir og málvísindi. Hann sótti m.a. námskeið í norrænum fræðum og kynntist þá fornum íslenzkum bókmenntum. „Og af sögunum kynntist ég íslenzku þjóðinni," segir Tarsis í áður- greindu samtali. „Þetta fólk er hugrakkt og stolt. Það er engir hugleysingjar eins og sovétsinn- ar. Sögurnar eru einhver bezti epos, sem til er. Þær eru í senn frumlegar og póetískar." Tarsis sagðist hafa verið send- ur á geðveikrahæli fyrir orð Krushevs sjálfs. „Þessi bölvaður Tarsis skal á geðveikrahæli — og það strax," hefur Tarsis eftir Krushev. Átta dögum síðar var Tarsis lokaður inni og yfirlýstur „opinber geðsjúklingur". „Þar var ég heppinn," segir Tarsis, „því að eftir það gat ég sagt allt án þess að verða settur í fang- elsi, eins og Daniel og Sinjavsky. Þeir voru í mjög slæmum fanga- búðum. Yfirvöldin gátu ekki þol- að, að þeir notuðu dulnefni. Þeir voru tvöfaldir lygarar, sögðu yfirvöldin — en Tarsis, hann er þó „heiðarlegur" glæpamaður. Þar var gæfan mér hliðholl. Geð- veikrahælin eru kannski beztu staðirnir í Sovétríkjunum — og líklega þeir einu þar sem hægt er að marka orð af því, sem sagt er.“ Tarsis var einum of bjartsýnn á að ástandið í Sovétríkjunum myndi ekki haldast mörg ár í viðbót, sovézka spilaborgin myndi hrynja. „Stjórnendurnir eru sjálfum sér sundurþykkir," segir hann í fyrrgreindu samtali, „og á bak við tjöldin eiga sér stað mikil átök — miklu meiri en Vesturlandabúar vita. Vonandi brenna þeir í vítislogum þessara átaka.“ Halldór Laxness mun hafa átt drjúgan þátt í því að Tarsis fékk að fara frá Sovétríkjunum. Fjöldi rithöfunda skrifaði undir „bænarskrá" til sovézkra yfir- valda þess efnis að þyrma hon- um. Þeirra á meðal voru menn eins og Moravía, Bertrand Russ- el, Aragon, Arthur Miller og Laxness.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.