Morgunblaðið - 07.11.2004, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 07.11.2004, Blaðsíða 30
30 SUNNUDAGUR 7. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ – Hefur þetta klikkað? „Maður hefur oft blotnað. Oftast er eitthvað sem betra hefði verið að gera öðruvísi.“ – Er þetta óttinn við að gleyma texta? „Ja, hann er hluti af þessu núorðið. Samt hef ég aldrei gleymt texta big time og aldrei haft ástæðu til að ótt- ast slíkt. Ég læri texta með því að reyna að skilja hann, skilja undirtext- ann og innra muldur persónunnar; mér hefur fundist það affarasælla en að læra texta utanað eins og hæna. Svona verður textinn rökrétt fram- hald af leirkarlinum sem maður hef- ur búið til innra með sér.“ Um útþurrkun kynjamunar – Aftur að Geitinni. Þetta er á margan hátt mögnuð og vekjandi sýning og gagnrýnandi Morgun- blaðsins skrifaði að þú túlkaðir þessa persónu „á lágstemmdum nótum, harmur undir örfínni kaldhæðni.“ Ánægður með það? „Ég hef ekkert um það að segja.“ – En gagnrýnandinn taldi einnig að sýningin hefði verið unnin of hratt og hún skautaði á yfirborðinu á verki Albees. Er eitthvað til í því, finnst þér? „Ég hef heldur ekkert um það að segja.“ – En þá blasir gamla spurningin við: Lestu gagnrýni yfirleitt? Tek- urðu mark á henni – eða bara því já- kvæða? „Ég skauta yfir gagnrýni og tek mikið mark á henni þegar hún er já- kvæð!“ – Þá hlýturðu að hafa tekið mikið mark á því sem gagnrýnandi Morg- unblaðsins skrifaði um Belgíska Kongó: „…þó verður á engan hallað þó Eggerti Þorleifssyni sé eignaður stærstur heiðurinn. Umbreyting Eggerts í gamla konu er hreinrækt- aður galdur. Gervið er óaðfinnanlegt og Eggert fyllir það lífi sem er trú- verðugt í heild sinni og niður í smæstu smáatriði í hreyfingum, af- stöðu, textameðferð og rytma. Alger- lega sannfærandi og eitt og sér ástæða til að sjá sýninguna. Þegar við þetta bætist svo fínpúss- uð tímasetning hins fædda (og þraut- þjálfaða) gamanleikara þá þarf svo sem ekkert að undra þó nánast hver einasta setning Rósalindar vekti hlátur í salnum.“ Hér er engu logið? „Nei. Þetta hlýtur að vera satt. Svona eiga leikdómar að vera.“ Er hlutverk Rósalindar með þeim skemmtilegri sem þú hefur leikið? „Já, a.m.k. er það mjög skemmti- legt.“ – Hvernig varð þér við þegar þú varst beðinn um að leika gamla kell- ingu? „Ég varð auðvitað hálfklumsa. Og átti mínar efasemdastundir. Var kominn hálfa leið inn til leikhússtjóra til að afsegja þetta. Velti fyrir mér hvort hér væri ekki illa farið með Braga, höfundinn.“ – Þannig að hlutverkið skrifaði hann ekki fyrir karlleikara? „Neinei. Það var einhver fabúla úr Stefáni Jónssyni leikstjóra, og eigin- lega þráhyggja líka því þetta er í ann- að skiptið sem hann hefur beðið mig að leika kellingu; ég komst ekki til þess þá. En þegar fólk er komið á þennan aldur er ekki alltaf auðvelt að sjá af hvoru kyninu það er. Hefurðu ekki tekið eftir því? Hvernig kelling- in kemur í gegnum gamla skræka kalla? Eða þegar gömlum konum fer að vaxa hýjungur? Mörkin milli kynjanna þurrkast stundum út í kringum áttatíu ár plús eitthvað.“ – Og þú slóst til? „Já, þessi efi leið hjá.“ – Hvernig fannstu svo þessa kell- ingu? Þurftirðu að grafa djúpt eftir henni? „Ja, þú getur ekki grafið eftir ein- hverju sem þú hefur aldrei upplifað. Ég gat því hvorki leitað í reynslu mína af því að vera kvenkyns né af því að vera níræð.“ Um dauðans vissa tíma – En hún er nú manneskja líka? „Svo sannarlega. Og ég get gripið til þess sem leikarar gera mikið: Að horfa á fólk sem fagmaður. Fylgjast með hreyfingum, röddum, öndun. Ég fór því að herma eftir gamalli konu.“ – Fórstu á elliheimili til að stúd- era? „Já, ég gerði það í eitt skipti. En ekki þar fyrir, ég átti aldraða móður og hafði séð og kynnst gömlum kell- ingum í gegnum tíðina. Á elliheim- ilinu var kona sem var fædd fyrir aldamótin 1900 og var því þriggja alda kona. Hún sat þarna uppi í föndrinu og var helvíti ern. Og hún spurði mig, mann á sextugsaldri: Í hvaða skóla ert þú? Ég svaraði að ég væri ekki í skóla; ég væri að búa mig undir að leika hlutverk. Jahá, sagði hún, þú ætlar þér að verða leikari þegar þú ert orðinn stór! “ – Og þú svaraðir játandi? „Ég sagði: Já, ég er alveg staðráð- inn í því. Svona getur nú tíminn og gangur hans þurrkast út. Þessi gamla kona leit á mig sem barn! Ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir þess- ari gömlu kynslóð, þessum reynslu- skúlptúrum. Í mínum augum er þetta heilagt fólk. Það hefur verið lengi að og er nú að fara og veit það. Sú vitn- eskja er svo áhrifamikil – að vita að tími manns er liðinn. Ég hef alltaf haft tilfinningu fyrir forgengileika lífsins.“ – Fórstu þá að hugsa mikið um ell- ina, tímann og dauðann? „Ég hafði einmitt verið að því áður en þetta hlutverk kom til. Að því leyti var eins og hreinsun að setja sig í þessi spor sem maður veit að eru ein- hvers staðar framundan. Það var ágætlega hollt.“ – Af hverju varstu farinn að hugsa um eilífðarmálin? „Ja, það var bara eins og fólk ger- ir.“ – Miðaldrakreppa? „Já, ætli það sé ekki kallað það? Þegar fólk fer að sjá fyrir horn. Ef- laust eru svona hugsanir með öllu ónauðsynlegar. En kannski eru þær nú samt það sem gerir þetta starf einhvers virði, hvað mig snertir. Eins og listina yfirleitt. Hún getur vakið hugrenningar um eitthvað sem að öðru jöfnu er ekki ofarlega í huga manns. Sjálfsagt gæti maður komist í gegnum hlutverk eins og Rósalind án þess að verða sér úti um andlega beinþynningu, en það er gaman og gefandi. Ef maður leyfir listinni að streyma í gegnum sig hrífur hún mann með sér á staði sem ella væri enginn aðgangur að.“ – Við eigum að leyfa henni að ganga nærri okkur? „Já. Annars kemur hún manni ekki við nema sem afþreying.“ Um að sættast við hégómann – Þú fékkst Grímuverðlaunin í sumar fyrir leik þinn í hlutverki Rósalindar. Var það óþægilegt? „Ég er í sjálfu sér ekkert mjög hrifinn af svona hrútasýningum. Og þegar ég frétti af því að ég væri til- nefndur bæði fyrir aðal- og aukahlut- verk fannst mér óþægilegt að fylgj- ast með viðbrögðum sjálfs mín. Prinsippmaðurinn ég, sem var á móti hégóma og tilstandi, varð alveg hel- tekinn af hvoru tveggja.“ Eggert hlær við tilhugsunina. „Og því varð ég að koma mér upp einhvers konar sátt við þetta. Í rauninni tók ég mér leyfi til að vera fullur af hégóma- girnd. En ég hjó á allar væntingar og sló fullt af varnöglum. Fimm voru til- nefndir og því voru sigurlíkur 20%. Til þess að vera við öllu búinn dró ég frá 5% í viðbót af þeirri ástæðu að gamanleikarar eru aldrei verðlaun- aðir. Ég var því kominn niður í 15% líkur.“ – En hvað er þetta með gamanleik- arana? „Ég veit það ekki. Í Þjóðleikhúsinu í eina tíð voru sumir leikarar á svo- kölluðum B-samningi, þar á meðal gamanleikararnir. Fólki virðist finn- ast að það hljóti að vera mun erfiðara að leika í dramatík en kómík.“ – Ekki sér maður nú rökin fyrir því? „Nei. Það er eins og menn gefi sér að gamanleikur sé B-hliðin á leiklist- inni. Viðhorfið hefur gilt jafnt um for- ráðamenn leikhúsanna, gagnrýnend- ur og þær nefndir sem veita einhvers konar listamannalaun; á slík laun fara gamanleikarar aldrei.“ – Það er auðvitað hneyksli að t.d. Bessi Bjarnason og Árni Tryggvason skuli ekki njóta þeirra? „Já. Fyrst það er verið að heiðra alla hina. Ég varð því ákaflega ánægður þegar Bessi fékk heiðurs- verðlaun DV um daginn.“ Um grunntón lífsins – Sjálfur ertu nánast alltaf stimpl- aður gamanleikari. Er það ekki óþarfi? Er ekki nóg að vera leikari? „Jú, er það ekki? En mér er alveg sama um svona stimpla. Jafnvel gæti ég verið ánægður með að vera kall- aður gamanleikari því ég veit af reynslu að oft er erfiðara að leika kómík en dramatík.“ – Í hverju felst það? „Það er ekki öllum gefið að sjá það kómíska í þessu drama sem lífið er; Þórbergur Þórðarson hafði eftir ein- hverjum austurlenskum vitringi að saklaust grín væri einfaldlega grunn- tónn lífsins og ég ætla að hafa það fyrir satt. Í gamanleik er nákvæm tímasetning það sem skiptir sköpum. Slíka tímasetningu hafa ekki allir, þótt þeir séu öldungis frábærir leik- arar að öðru leyti. Og það er algeng- ara að sjá gamanleikara standa sig vel í dramanu heldur en öfugt.“ – Og menn geta ekki lært tíma- setningu? „Ég efast um það. Ég fékk hins vegar ábyggilega þjálfun í henni þeg- ar ég var í tónlistarnámi; þar er allt rígbundið tímanum. Ef menn hafa ekki tímasetningu í tónlist fara þeir út af laginu.“ – Gefur það þér meira að leika gamanleik en drama? Vegna þessara sterku viðbragða sem hláturinn er? „Ekki vil ég orða það þannig. Í grafarþögninni geta líka falist ákaf- lega sterk viðbrögð. Þegar maður finnur hvernig andrúmsloftið dirrar. Það er ekki síður gefandi eða örvandi að finna slíkt samband. Eins og á miðilsfundi.“ – Það kemur einhver í gegn? „Og við erum í sambandi, áhorf- andinn og leikarinn.“ – Leikarinn er þá miðillinn? „Jájá. Útvarpstæki. Við útvörpum leikritum. Sambandið er misgott og það þarf að fínstilla. Og ekki er síður gaman að heyra saumnálina detta en hlátrasköllin bylja.“ – En í sambandi við Grímuverð- launin: Varstu með þakkarræðuna tilbúna? „Jájá. Til vonar og vara. Hafði velt henni mikið fyrir mér. En svo las ég grein í DV samdægurs og greip upp úr henni nokkrar setningar sem ég lagði út af. Um hégómann, auðvitað.“ – En þú varst glaður og þakklátur fyrir að fá þennan hégóma? „Já. Innilega. Þetta var voða gam- an.“ – Þú ert mjög á varðbergi gagn- vart hégóma, snakki, snobbi, yfir- borðsmennsku, tildri og þess háttar? „Já. Þá hlýt ég að vera veikur fyrir því öllu saman. Innst inni. Er það ekki?“ Morgunblaðið/Eggert Eggert tekur við Grímunni fyrir túlkun sína á kellingunni Rósalind í Belgíska Kongó: Ekki mikið fyrir hrútasýningar… Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og myndlistarmaður, hefur átt langt og náið samstarf við Eggert um leikritaskrif sín. „Hann er sá maður sem hefur vakað mest yfir mínum leiktextaskrifum,“ segir Þorvaldur, „án þess hann hafi alltaf vitað af því þegar ég hef skrifað uppí hann, en það hef ég einatt gert. Eggert er svo stímúlerandi og brothættur, gefur svo mikið með sjálfum sér að mér hefur veist ákaf- lega auðvelt að skrifa sérstaklega með hann í huga, hafa röddina hans í eyranu þegar karakterar verða til. Svo er hann líklega eini leikarinn sem ég sé fyrir mér þegar ég skrifa leikrit; yfirleitt skrifa ég sviðsverk án þess að sjá leikarana fyrir mér, en Eggert er oftast sýnilegur í ferlinu.“ Þorvaldur segir að hann hafi kynnst Eggerti í gegnum eiginkonu hans, Halldóru Thoroddsen, og Megas, en þau þrjú voru saman í námi við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans. „Síðan leigði ég vinnustofu heima hjá þeim hjónum í Hlíðunum þar sem ég vann að bókinni Skilaboðaskjóðan og varð nánast heimagangur. Þá var ég ekki byrjaður að skrifa leikrit, en kynni mín af þessum dularfulla manni, sem mér fannst Eggert vera, höfðu veruleg áhrif á dramatíkerinn í mér. Hann höfðaði strax til mín sem ólíkindatól, eins konar ráðgáta sem mig langaði ekki beinlínis að leysa heldur vinna með. Hann átti til að hrekkja mig með svið- settu önuglyndi og það tók mig smá tíma að átta mig á því að hann var í rauninni að prófa mig. Ég hreifst mjög af þessu.“ Þorvaldur kveðst hafa tileinkað eitt af vasaleikritunum sínum þeim hjónum Eggerti og Halldóru árið 1991 og síð- an skrifað fyrst fyrir hann hlutverk í Jóladagatal Sjónvarpsins. „Ég fann hvað það átti vel við mig að skrifa uppí Eggert. Svo kom Sunnudagsleikrit fyrir Sjónvarpið, Mikið áhvílandi, þar sem hann gerði aðalhlutverkinu ákaflega góð skil. Þá skrifaði ég sviðsverk, Bein útsending, sem reyndist okkur báðum dálítið erfitt. Hann skilaði þar veru- lega fallegri vinnu en verkið tókst ekki nógu vel af minni hálfu. En ég bætti honum það upp með Við feðgarnir í Hafnarfjarðarleikhúsinu 1998; þá sá ég hann fyrir mér allan tímann sem föðurinn. Ég skrifaði líka eina af persón- unum í And Björk Of Course með Eggert í huga þótt ekki hafi orðið af því að hann léki hana. Í Sekt er kennd í fyrravetur lék Eggert persónu sem að sumu leyti er byggð á minningum um hann að gera sig erfiðan heima í Hlíðunum. Og núna er hann í startholunum að leika Harald Haraldsson grunnskólakennara fyrir kvikmynd Ólafs Jóhannessonar leikstjóra, Stóra planið, sem byggð er á bókinni minni, Við fótskör meistarans. Það gerist um leið og Kvikmyndamiðstöð Íslands treystir sér til að veita því verkefni brautargengi en Ólafur er tvímælalaust best varðveitta leyndarmál íslenskrar kvikmyndagerðar. Ég hef stundum leitað til Eggerts meðan ég er að vinna og rætt við hann um karaktera og grunnhugmyndir verka. Hann hefur reynst mér mjög hjálplegur með innsæi sínu og einstöku næmi og lagt margt gott til málanna. Það er einhver snilligáfa í honum sem jafnframt gerir það að verkum að sumum finnst erfitt að höndla hann og njóta samvinnunnar við hann. Eggert er ögrandi, beitir þögninni markvisst og þá stressast menn stundum upp í kringum hann; hann kann mjög vel að leika þögla Íslendinginn í hornsófanum. En þegar hann er með er hann sannarlega með. Það sem stundum getur virkað eins og neikvæðni upplifi ég fyrst og fremst sem heiðarleika og djúpstæða löngun til að eiga erindi.“ 
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.