Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 15. janúar 2005 ! Það þarf að búa til fleiri bók- menntaverðlaun á Íslandi. Stundum hefur verið sagt að bókmenntaverðlaun séu and- stæðan við bókmenntir, þau breyti bókmenntum í keppn- isíþrótt þar sem ein textafylli af hugsunum er ekki aðeins sam- bærileg við aðra sem er henni gjörólík heldur getur önnur þeirra borið sigur úr býtum í heiðarlegri keppni. Rithöfundur nokkur á Spáni hafði á orði ekki alls fyrir löngu að nú um stundir skrifuðu spænskir rithöfundar aðeins til þess að fá verðlaun; honum þótti sem sé ekki mikið til kollega sinna koma, tilgang- urinn með skrifum þeirra ómerkilegur og afurðirnar sull- umbull sem setur markið ekki hærra en að vinna til við- urkenningar og verða svo skjótt og örugg- lega að virðulegri fortíð. Önnur markmið fyrir bí, göfugri markmið, til dæmis að benda á siðblindu eða skrifa gegn falskri söguvitund. Vafalaust er eitthvað hæft í verðlauna- sýki spænskra. Í það minnsta eru bók- menntaverðlaun á Spáni svo mörg að þau fylla heila bók: Handbók bókmenntaverð- launa og -samkeppna á Spáni. Í sumum til- fellum eru slík verðlaun forsenda þess að skáldverk séu yfirleitt gefin út, einkum ljóðabækur. Spænsk verðlaun eru auðvit- að mismikið virt, eins og gengur, sum þeirra eru mjög virt, eins og Cervantes- arverðlaunin, sem raunar eru ekki aðeins fyrir spænska höfunda. Önnur eru býsna virt, Premio Planeta þykja nokkuð góð verðlaun, sá galli er að vísu á gjöf Njarðar að til þess að gera þessi samkeppn- isverðlaun enn virtari hefur forlaginu sem veitir þau, Planeta, þótt traustara að til þeirra ynnu virtir höfundar með vandaðar skáldsögur og því brugðið á það ráð að hringja í þessa virtu höfunda, helst innan vébanda forlagsins, og biðja þá vinsamleg- ast um að vinna verðlaunin. Fyrirfram. Þetta vita allir sem vilja vita, líka allt fólkið sem hefur sent inn handrit. Önnur verð- laun, eins og spænsku gagnrýnendaverð- launin, þykja hafa meiri trúverðugleika en eru þó einnig gagnrýnd. Síðan eru sérhæfð verðlaun á borð við „La Sonrisa Vertical“, fyrir erótískar bókmenntir, verðlaun sem ef til vill fara að renna sitt skeið núna en út úr samkeppninni sem hefur verið haldin í kringum þau hefur fjöldi góðra bóka kom- ið. Allt um það, blaðamaður á El País gerði ekki alls fyrir löngu úttekt á spænskum bókmenntaverðlaunum og komst að því að þau væru meira og minna fúsk og fals, rúin trúverðugleika og gætu gengið af bók- menntum dauðum – en jafnframt væru þau bráðnauðsynleg. Það getur verið. Portúgalski Nób- elsverðlaunahafinn José Saramago sagði á dögunum að eina fyrirbærið í samtím- anum sem enn virtist þiggja vald sitt frá Guði væru Nóbelsverðlaunin. Hér á landi hafa Íslensku bókmenntaverðlaunin kom- ist einna næst því að virðast þiggja vald sitt frá Guði en tilnefningar til þeirra hafa verið harkalega gagnrýndar. Þó verður því vart neitað að þau gegna ákveðnu hlut- verki, að vekja athygli á bókmenntum á markaði – enda þótt vel geti verið að bæði verðlaun og markaður séu andstæða bók- mennta – ýta áfram bókmenntaverkum sem kannski næðu aldrei til lesenda og sporna þannig gegn sívaxandi einhæfni í lestri, sem er fyrir nokkru orðin ískyggi- leg. Svo ekki sé minnst á verðlaunaféð, rit- höfundar verða að lifa á einhverju, og allt það. Hinsvegar þarf að fjölga íslenskum bókmenntaverðlaunum, stofna önnur og fleiri sem hafa skýrari kríteríur, eru laus- ari undan markaðnum, jafnvel tengdari akademískri hugsun eða bókmenntalegum viðmiðum, verðlaun sem búa til snobb, sem er eitt af því sem ekki rímar við bók- menntirnar sjálfar en er nauðsynleg for- senda bókmenntaáhuga, fjölbreytts fæðu- vals. Fleiri bókmenntaverðlaun. Ill nauðsyn? „Eitthvað hlýtur að fara að gerast. Þetta getur ekki haldið svona áfram,“ orti Óskar Árni Óskarsson. Einkennilegir tímar. Kannski verður einhver líka að fara að láta eitthvað gerast. Hver og hver og vill og verður? Ill nauðsyn? Eftir Hermann Stefánsson hermannstefansson- @yahoo.com Hermann Stefánsson er rithöfundur. Ein stærsta frétt vikunnar var ekki-fréttin sem birtist síðastliðinnmánudag í DV af leikkonunni KateWinslet sem samkvæmt fjölmörgum heimildarmönnum blaðsins skemmti sér kon- unglega á skemmtistaðnum Rex um helgina. Fréttin var staðfest af eiganda staðarins, Sverri Rafnssyni, og af viðmælanda sem sá Kate á djamminu. Kate kom til landsins í fylgd ónefnds vin- ar síns, dularfulls íslensks leikara sem búsettur er í Lundúnum, en sá neitar sakargiftum. Aftur á móti játar hvorki né neitar Sólveig Hákonardóttir, móttökustjóri 101 Hót- els, því að Kate hafi dvalið á hótelinu: „Við gef- um engar upplýsingar um viðskiptavini okkar“ segir hún. Fréttir af nektarfíkn Kate Winslet hafa á síðustu árum verið tíðar, upplýsir síðan fréttamaður DV lesendur sína, en ekki kemur fram hvernig þessar upplýsingar tengjast fram- ferði Kate á Rex um helgina. Fréttin af helgarheimsókn Kate er tekin upp af Fréttablaðinu á þriðjudeginum undir fyr- irsögninni „Titanic-stúlka tjúttar á Rex“, en þar ítrekar Sverrir að stórstjarnan hafi verið af- skaplega prúð og lítið farið fyrir henni og bætir við að íslenskar konur láti „verr innan um stjörnurnar“ en karlarnir gera og hagi „sér stundum eins og kjánar eða tíkur á lóðaríi“. Á miðvikudeginum kemur síðan reiðarslagið þeg- ar DV birtir á baksíðu fréttina: „Tvífari Kate á Rex: Winslet aldrei til Íslands komið“. Í frétt- inni kemur fram að leikkonan hafi verið í Los Angeles með fjölskyldu sinni kvöldið sem hún átti að hafa skemmt sér á Rex. Ekki-fréttin um Kate átti eftir að draga dilk á eftir sér. Í fimmtudagsblaði Fréttablaðsins er varpað fram þeirri spurningu hvort Kate eigi sér tvífara í Reykjavík, á meðan DV flytur tvær fréttir af málinu. Í annarri þeirra fær Sverrir Rafnsson að kenna á því en hann á víst reiði „femínista yf- ir höfði sér“ eftir þau ummæli sín að íslenskar konur séu eins og tíkur á lóðaríi þegar erlendar karlstjörnur eru í bænum. Yfirlýst lauslæti ís- lenskra kvenna er svo efni annarrar greinar í DV sama dag. Í Fréttablaðinu hefur verið lengt á „ekki- fréttinni“ um Kötu með því að auglýsa eftir dömunni sem baðaði sig í aðdáunarljóma stjör- nuglaðra samlanda sinna. Sá rökstuddi grunur hefur komið fram að þarna hafi ólíkindatólið Hermann Stefánsson rithöfundur verið á ferð- inni en hann hefur á síðustu misserum stundað þá ábatasömu iðju að villa á sér heimildir og koma fram í nafni ýmissa nafnkunnra persóna, m.a. Davíðs Oddssonar og Ólafs Jóhanns Ólafs- sonar. Einn viðmælenda minna segir að með þessu móti hafi Hermann nælt sér í nokkra fría drykki á barnum en rithöfundar eru drykkfelld stétt eins og þjóðin veit. Sólveig Hákonardóttir, móttökustjóri 101 Hótels, játar hvorki né neitar þeirri fullyrðingu að Hermann hafi gist á hót- elinu á laugardagsnóttina, en þar er hann sagð- ur hafa sést í fylgd eiginkonu sinnar sem hann kallar Helenu þótt hún heiti annað. Annars átti þessi pistill ekki að fjalla um Kate Winslet eða Hermann Stefánsson. Honum var ætlað að lofsyngja tíðar lýsingar DV af atburð- um sem gerast ekki og fréttir sem eru ógleym- anlegar fyrir þá sök hvað þær eru ófréttnæmar. Ég hafði líka ætlað mér að taka nokkur dæmi um fréttir sem snúa við í miðri málsgrein og fara að fjalla um eitthvað annað en lagt var upp með. Ekki svo að skilja að fréttamennirnir á DV dragi aldrei neitt bitastætt fram í dagsljósið í hefðbundnum fréttaskilningi orðsins. Mér þykja bara gúrkurnar á DV svo miklu bragð- betri enda eru þær gjarnan reiddar fram af mikilli hugkvæmni og djúpstæðum skilningi á því að gúrka er bara gúrka þegar rétta sjón- arhornið vantar. Á forsíðum DV birtast „gúrkur í skugga kynlífshneykslis“, og sérfræðingar ótt- ast að „agúrkuræktarlönd okkar geti hugs- anlega verið sýkt af miltisbrandi“. „Þetta liggur í skítnum“ segir Guðmundur Hlíðberg, ag- úrkuræktarbóndi, þegar hann útskýrir fyrir lesendum DV hvers vegna agúrkurnar hans eru allar í laginu eins og strípihneigðarfíkillinn Kate Winslet. Á DV er alltaf frámuna gúrkutíð eins og áskrifendur blaðsins vita. Í fyrstu var ég mjög krítískur á blaðið en nú er ég ekki viss um að ég geti hætt að lesa það. Hér verður að nægja að tína til þrjár safaríkar gúrkur af handahófi, en allar eru þær prýðisdæmi um óvenjulegan fréttaskilning blaðsins: „HÓFOLÍA VELDUR ÁTÖKUM Í ÚTIKLEFA Í ÁRBÆ“ (17.11. 2004) segir í einni fyrirsögninni en fréttin, sem tekur bróðurpartinn úr síðu, fjallar um deilur sem sprottið hafa í útiklefanum í Árbæjarlaug- inni, þar sem einn gestanna hefur þann sið að bera á sig daunilla olíu. Svipað vægi fær fréttin „SKIPVERJI MARINN Á PUNG EFTIR LEIK ÁHAFNARINNAR“ (2.11. 2004), en hún segir frá þeirri einkennilegu íþrótt skip- verja Vestmannaeyjar VE-54 að hjóla hver í annars pung „í glannaskap og græskulausu gríni“. Í viðtali við DV um atburðinn segir Birg- ir Þór Sverrisson skipstjóri gassaganginn í strákunum hafa endað með slysi, en að sögn blaðsins ætla „skipverjar í Vestmannaey að láta þetta sér að kenningu verða og afleggja pung- grip með öllu“. Eftirlætisfrétt mín frá árinu 2004 er (rétt eins og fréttin af pungmeiðslunum) ættuð frá Vestmannaeyjum. Hún er skemmtilegt dæmi um það hvernig fréttamaður getur skipt um skoðun í miðri málsgrein og leiðrétt það sem fyrr kom fram í fréttinni. Fyrstu tvær setning- arnar hljóða svona: „Guðni Hjörleifsson, neta- gerðarmaður í Vestmannaeyjum, er miður sín vegna þess að Ásta Björk, 18 ára dóttir hans, týndi lyklunum að bíl sínum. Reyndar týndi hún þeim ekki því þeim var stolið um leið og veskinu hennar með kortum og síma á veitingastaðnum Lundanum í Eyjum um daginn“ (26.2. 2004). Það var ekki síst í ljósi þessarar setningar að ég gerðist á sínum tíma áskrifandi að DV. Gúrkurnar á DV ’Annars átti þessi pistill ekki að fjalla um Kate Winsleteða Hermann Stefánsson. Honum var ætlað að lof- syngja tíðar lýsingar DV af atburðum sem gerast ekki og fréttir sem eru ógleymanlegar fyrir þá sök hvað þær eru ófréttnæmar. ‘Fjölmiðlar Eftir Guðna Elísson gudnieli@hi.is Þessi hefð, að endurskapa verk fyrir svið eða aðra miðla (ekki aðeins á Íslandi heldur víðar),jaðrar við áráttu sem gerir íslenskum leikhúsum ekki mikið gagn. Fyrir því eru nokkrarástæður. Í fyrsta lagi taka slíkar uppfærslur rými frá frumsömdum leikverkum sem þó fer fjölgandi og er mikið gleðiefni fyrir leikhúsgesti. Aðlaganir eru máski auðveldari í kynningu og trekkja betur að en „óþekkt“ nöfn og titlar en á móti kemur að þá koma áhorfendur uppá- klæddir á öðrum forsendum. Kannski búnir að velja kunnugleikann fram yfir forvitnina, aðlögun fram yfir frumsamið verk. Aðlögunarhefðin veldur því að samanburður á leikverkum og einstaka uppfærslum er örðugri en ella. Þó ekki sé hlaupið að því að ætla að gæta fullkominnar sanngirni þegar listaverk eru veg- in og metin eða borin saman, skapa aðlaganir sérstakan vanda. Sviðssetningar á skáldsögum, sér í lagi íslenskum nútímaskáldsögum, er erfitt að bera saman við frumsamin leikrit, þau eru því oft- ast borin saman við aðrar aðlaganir eða við frumtexta sinn. Samanburður er nauðsynlegur til þess að við getum sett verk í samhengi, skapað einhvern umræðugrundvöll um gildi þeirra og auðgað það sem á hátíðarstundum er kallað „menningarsaga“. [...] Ég tel að það sé einkennileg blanda hugrekkis og hugleysis sem fær fólk til þess að ákveða fremur að aðlaga þekkt verk að nýjum miðlum en að gefa nýjum verkum tækifæri. Það þarf hug- rekki til þess að takast á við stór dramatísk verk og ætla sér að hrófla við fyrri upplifunum áhorf- enda og skapa nýtt sjálfstætt listaverk. Hugleysið sem felst í því að hafa ávallt „bókina á bak við“, hvort sem það er í markaðssetningu eða túlkun, skemmir hins vegar fyrir bæði áhorfendum og leikhúsum. Ég held að öllum væri greiði gerður ef fólk tæki sig saman um að stuðla frekar að ný- sköpun en endurvinnslu, bæði leikhúsfólk og áhorfendur. Kristrún Hauksdóttir Kistan www.kistan.is Morgunblaðið/Jón Svavarsson Borgarhundur! Nýsköpun, ekki endurvinnslu I Um daginn keypti neðanmálsritari sérMcDonaldshamborgara í bílalúgunni við Suð- urlandsbraut. Hann fékk sér BigMac-stjörnu- máltíð með stækkun, súperstækkun enda hafði hungurpúkinn feiti nagað allt bitastætt innan úr maganum. Vanalega gerir ritari þetta ekki, hann borðar varla nokk- urntíma McDonalds- hamborgara og hann hafði aldrei súpersæsað áður en nú lá mikið við og enginn tími til að hugsa eða elda. Hann lagði bílnum í stæði á planinu fyrir framan veitingastaðinn og hóf átið. II Fljótlega tók hann eftir því að nokkur hóp-ur af akfeitum smáfuglum hafði safnast saman á malbikinu við hlið bílsins. Þeir spíg- sporuðu fram og til baka eins og þessir fuglar gera og ritari sá ekki betur en þeir gjóuðu aug- unum öðru hverju til hans. Líklega voru þeir að bíða eftir því að hann henti til þeirra bita. Ritari veitti því ekki frekari athygli og hélt áfram að gæða sér á hamborgaranum með risaskammt- inum af frönskum og kók. Mínútur liðu og ritara þótti maturinn allgóður. Áður en langt var liðið flaug feitasti þrösturinn upp af malbikinu og settist með þó nokkrum fyrirgangi á hliðar- spegilinn á bíl ritara. Og nú var ekki um að vill- ast lengur, þrösturinn vildi fá að éta hamborg- arann með ritara. Fuglinn horfði inn um rúðuna með augnaráði sem ritari hélt að söngfuglar ættu ekki til. Hann fékk gæsahúð, hann hafði heldur aldrei séð svo stóran og feitan þröst. Eft- ir að þeir tveir höfðu horfst í augu um stund rétti ritari eina franska kartöflu upp að rúðunni þar sem dýrið sat til að athuga hvort það myndi bera sig eftir fæðunni. Fuglinn goggaði fast í rúðuna, tikk tikk, tikk tikk. Ritari fann hvernig kaldur hlátur hreiðraði um sig í maga hans og þrýsti sér upp í gegnum kokið, hoh. Síðan varð hann reiður. Fjandans frekja er þetta! Og hvað eru þessir fuglar að hugsa! Hnöttóttir af fitu! Þeir drepast úr hjartaáfalli! Ritari hélt áfram að éta og hunsaði þröstinn á speglinum. Hann kláraði hamborgarann fljótt en það var enn langt til botns í kartöfluöskjunni. Þegar síðasti bitinn hvarf upp í ritara stökk fuglinn eldsnöggt yfir á húdd bílsins beint fyrir framan hann, sneri sér þar í einn hring og skeit. Það kom tí- kallsstór hvítur kúkur á svart lakkið. Síðan flaug kvikindið upp og allir fuglarnir með að bíl sem viðskiptavinur hamborgarabúllunnar hafði rétt í því lagt skammt frá. III Þessi saga af matargrimmd borgarfuglaer ekki einsdæmi. Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá gæsum sem réðust að konu og barni, sem hugðust gefa fuglunum brauð, og gleyptu á endanum bíllykla konunnar. Haft var eftir starfsmanni borgarinnar að gæsirnar séu aðgangsharðar á þeim stöðum sem þær eru fóðraðar. Þetta er fremur svæsin hegðun og óhugnanleg en kannski speglast í henni hvaða áhrif óhófið hefur. Einu sinni sungu þrestir á grein, gæsir görguðu eða flugu tignarlegar yfir, börn léku sér og fólk hafði tíma til að hugsa og elda. Neðanmáls Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Umsjón Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.