Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 15. janúar 2005 | 11 Í sögu 20. aldar ber nafn Sir Winston Churchill hærra en flestra annarra. Hann lifði tvo þriðju hluta ald- arinnar, var einn svipmesti stjórnmálamaður hennar og í hugum þeirra er lifðu ár síðari heimsstyrjaldarinnar var hann hinn mikli leiðtogi Vesturlanda, stjórn- málaskörungurinn sem öðrum fremur forðaði vestrænni menningu frá villimennsku þýskra nasista. Í Bretlandi og öðrum enskumæl- andi löndum lifir minning Churchill enn góðu lífi og aðdáun á honum virð- ist reyndar fremur fara vaxandi með árunum. Um hann eru skrifaðar fleiri ævisögur en aðra menn og þegar Bretar völdu mann árþúsundsins, „The Greatest Briton“, árið 2000 varð hann fyrir valinu. Síðan eru komnar út a.m.k. þrjár nýjar ævisögur hans, aðrar eldri hafa verið endurútgefnar og enn fleiri munu væntanlegar á næstu misserum. Að auki hafa birst ýmsar ritsmíðar um tiltekna þætti í ævi og fari Churchill og fyrir skömmu út í Ameríku bók eftir unga banda- ríska fræðikonu og nefndist Forty Ways to Look at Winston Churchill (Winston Churchill frá fjörutíu sjón- arhornum), sýnir það gleggst hve margbrotinn maðurinn var. Þegar á allt er litið virðast Bandaríkjamenn og Kanadamen jafnvel dá Churchill enn meira en Bretar sjálfir, og er þá langt til jafnað. Þegar fjallað er um ævi Churchill verður mönnum jafnan fyrir að ræða mest um stjórnmálaferil hans, eink- um á árum síðari heimsstyrjaldar, og má það kallast eðlilegt. En Churchill var fleira til lista lagt. Hann var lið- tækur frístundamálari og afkasta- mikill rithöfundur og fræðaþulur. Ár- ið 1953 fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir rit sín um sagnfræði og hefur aðeins einn annar sagnfræðingur orð- ið þess heiðurs aðnjótandi, Þjóðverj- inn Theodor Mommsen árið 1902. Í þessari grein er ætlunin að hyggja stuttlega að sagnfræðingnum Winston S. Churchill og helstu verk- um hans á sviði sagnvísinda. Rætt verður um nokkur helstu verk hans og hugað að viðhorfum annarra, þ.á m. háskólamenntaðra sagnfræð- inga, til fræðimennsku hans. II Winston Churchill var afkastamikill á ritvellinum. Í fulla sex áratugi var hann sískrifandi, samdi jöfnum hönd- um bækur og greinar í blöð og tíma- rit. Allt var þetta þó unnið sem eins konar auka- eða hliðarstarf ásamt þingmennsku og ráðherradómi og hljóta allir sem verk hans skoða að dást að starfsorku hans og úthaldi. Langflestar ritsmíðar Churchill, aðrar en pólitískar deilugreinar, eru um söguleg efni og engum sem kynn- ir sér æviferil hans getur dulist, að hann átti sér mjög sterka sögulega vitund og virðist hafa verið haldinn söguástríðu frá unga aldri. Að loknu námi í herskóla var hann sendur til herþjónustu á Indlandi og þar notaði hann tímann til að lesa verk tveggja þekktustu sagnfræðinga breskra á þeim tíma, Edwards Gibbon og Ma- caulay, og varð fyrir miklum áhrifum af báðum. Hann var þá aðeins 21 árs að aldri og mun félögum hans í hern- um hafa þótt þessi tómstundaiðja nokkuð sérkennileg. En Churchill lét sér ekki nægja að lesa verk höfuðsnillinga. Hann hóf þegar á þessum árum að skrifa blaða- greinar, sem hann fékk greitt fyrir og fjölluðu flestar um söguleg efni. Á ár- unum 1898–1900 tók hann þátt í her- ferðum Breta í Afríku, fyrst í Súdan og síðan í Suður-Afríku (Búastr- íðinu), þar sem hann starfaði sem stríðsfréttaritari og var tekinn til fanga. Um þessa atburði skrifaði hann fimm bækur á fjórum árum: The Story of the Malakand Field Force (1898), The River War (sem kom út í tveimur bindum árið 1899), London to Ladysmith (1900), Ian Hamilton’s March (1900) og loks skáldsöguna Savrola (1900). Allar voru þessar bækur stuttar, byggðust að verulegu leyti á fréttaskrifum úr stríðinu og löngu síðar nýtti Churchill efni þeirra að nýju í bókina My Early Life: A Roving Commission, sem út kom árið 1930 og er að margra mati skemmtilegasta bók hans. Af þessum bókum og öðrum skrif- um um styrjaldirnar í Afríku varð Churchill þekktur maður í Bretlandi þótt enn væri hann ungur að árum (f. 1874). Vinsældir hans sem rithöf- undar áttu vafalaust mikinn þátt í því að hann var kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn árið 1900. En hann lét þingmennskuna ekki aftra sér frá frekari ritstörfum. Árið 1902 hófst hann handa við ritun ævisögu föður síns. Hún nefndist Lord Randolph Churchill og kom út í tveimur þykk- um bindum, alls liðlega eitt þúsund blaðsíður. Þetta verk vakti mikla at- hygli og var mikið rætt í Bretlandi á sínum tíma. Engum duldist að Churchill hugðist með því rétta hlut föður síns, sem var umdeildur stjórn- málamaður á ofanverðri 19. öld. Flestum bar þó saman um að það hefði honum ekki tekist. Nánast allir sem um bókina fjölluðu dáðust hins vegar að þekkingu og stílsnilld höf- undarins og margir töldu þessa miklu ævisögu með því besta er skrifað hafði verið um breska stjórn- málasögu 19. aldar. Löngu síðar samdi Churchill ræki- lega ævisögu annars forföður síns, Marlborough lávarðar, sem út kom í fjórum bindum á árunum 1933–1938. Hún nefndist einfaldlega Marlbor- ough og tilgangurinn var hinn sami, að rétta hlut forföður sem Churchill taldi hafa legið óbættan hjá garði. Á árum fyrri heimsstyrjaldar, og allt fram til 1922, gegndi Churchill ýmsum veigamiklum ráðherraemb- ættum. Þá gafst lítið tóm til ritstarfa en eftir ósigur í þingkosningum árið 1922 tók hann aftur upp pennann og samdi fjögurra binda verk um sögu fyrri heimsstyrjaldar. Það nefndist The World Crisis og kom út á ár- unum 1923–1927. Árið 1931 bætti hann svo við fimmta bindinu, The Eastern Front, sem fjallaði um styrj- öldina á austurvígstöðvunum og var jafnframt eins konar hugleiðing um ófriðinn mikla, orsakir hans og afleið- ingar, ekki síst í Austur-Evrópu. Um svipað leyti gaf Churchill út ritgerðasafn, Great Contemporaries, og hófst jafnframt handa við samn- ingu mikils verks um sögu enskumæl- andi þjóða frá upphafi og fram á 20. öld. Það verk hóf hann m.a. vegna erf- iðrar fjárhagsstöðu eftir hrunið mikla á Wall Street 1929 og hélt því áfram allt til þess er síðari heimsstyrjöldin braust út haustið 1939. Þá varð hann að gera hlé á skrifum, en tók aftur upp þráðinn um 1950 og á árunum 1953–1956 kom þetta mikla verk út í fjórum bindum og nefndist A History of the English-Speaking Peoples. Þá er komið að því ritverki Winst- on Churchill sem líkast til er kunnast nútímafólki. Hann var forsætisráð- herra Bretlands frá 1940 til 1945 og er hildarleiknum lauk og hann lét af embætti hófst hann handa um að rita sögu styrjaldarinnar. Hún kom út í sex bindum á árunum 1948–1953 og nefndist heildarverkið The Second World War – Síðari heimsstyrjöldin. Átti það verk mestan þátt í að afla höfundi sínum Nóbelsverðlaunanna. Auk þeirra meginverka, sem hér hafa verið talin, skrifaði Churchill fjölda blaða- og tímaritsgreina um sögulega efni. Á þeim vettvangi var hann ötulastur á yngri árum og á fyrstu árum 4. áratugarins er hann barðist í bökkum fjárhagslega. III Enginn dró ritleikni Churchill í efa og afköst hans á ritvellinum voru með ólíkindum þegar þess er gætt að hann gegndi lengst af ævinni öðrum og annasömum störfum jafnframt. En var hann sagnfræðingur, í eiginlegri merkingu þess orðs, eða er réttara að kalla hann rithöfund? Churchill var ekki háskólamennt- aður sagnfræðingur, en hann tileink- aði sér akademísk vinnubrögð og naut aðstoðar háskólamenntaðra sér- fræðinga. Það átti einkum við um síð- ustu tvö verkin, A History of the English-Speaking Peoples og The Second World War. Gagnrýnendur hans, sem voru margir í röðum há- skólamanna og pólitískra andstæð- inga, fundu einkum að því að hann væri hlutdrægur og sjálfhælinn, skrifaði helst um ættingja sína og at- burði sem hann hefði sjálfur tekið þátt í og væri ekki alltaf sanngjarn í garð andstæðinga sinna og forfeðr- anna. Þessi gagnrýni, sem beindist reyndar einkum að ævisögum Marl- borough og Randolph Churchill, sögu fyrri heimsstyrjaldar og fyrsta bindinu í sögu síðari styrjaldarinnar, átti vissulega nokkurn rétt á sér. Churchill fór hins vegar aldrei dult með það að ævisögurnar tvær skrif- aði hann öðru fremur í þeim tilgangi að rétta hlut forfeðra sinna og styrj- aldarsögurnar hlutu óhjákvæmilega að verða nokkuð litaðar af persónu- legum viðhorfum hans. Í þeim fjallaði hann um nýliðna atburði þar sem hann kom sjálfur mikið við sögu. Í síðari heimsstyrjöldinni gegndi hann lykilhlutverki og í hinni síðari hafði hann mikil áhrif, en var mjög um- deildur. Þarf engum að koma á óvart að hann reyndi að réttlæta gerðir sín- ar og einnig ber að hafa í huga, að er hann ritaði þessar bækur bjó hann yf- ir vitneskju sem þá var ekki á al- manna vitorði. Nú munu flestir þeirrar skoðunar að telja beri Churchill til sagnfræð- inga og reyndar hefur meira verið rætt og ritað um sagnfræði hans og söguritun en flestra háskólamennt- aðra fræðimanna. Rithöfundartitilinn ber hann einnig með sóma og fáir 20. aldar menn skrifuðu fallegri og myndrænni ensku en hann. Honum tókst flestum betur að sameina sagn- fræði og bókmenntir svo úr varð list- ræn frásögn af liðinni tíð.  Heimildir Ashley, M.: Churchill as Historian. New York 1968. Churchill, W.S.: A History of the English- Speaking Peoples 1–4. London 2003. Churchill, W.S.: The Eastern Front. London 1931. Churchill, W.S.: The Second World War 1–6. London 2000. Churchill, W.S.: The World Crisis 1–4. London 1923–1927. Jenkins, R.: Churchill. New York 2001. Lukacs, J.: Churchill. Visionary. Statesman. Historian. New Haven og London 2002. Rubin, G.: Forty Ways to Look at Winston Churchill. New York 2003. Sagnfræðingurinn Winston S. Churchill Um fáa menn hafa verið skrifaðar fleiri ævisögur en Winston S. Churchill, ein þeirra lýsir honum frá fjörutíu sjónarhornum. En sjálf- ur var hann ævisöguritari og raun- ar afkastamikill sagnfræðingur. Hér er fjallað um þennan þátt í ævi- starfi þessa stjórnmálaskörungs. Associated Press Eftirmáli heimsstyrjaldar Hér sést Winston Churchill ásamt Franklin Bandaríkjaforseta og Jósef Stalín, leiðtoga Sovétríkj- anna, á fundi sínum í Yalta á Krímskaga í Sovétríkjunum 12. febrúar 1945 þar sem þeir lögðu grunn að þeirri skiptingu heimsins sem átti eftir að setja mark sitt á næstu áratugi kalda stríðsins. Eftir Jón Þ. Þór Höfundur er sagnfræðingur. Bók Egyptans Sayyid QutbsMa’alim fi-l Tariq, sem lýst hef- ur verið sem „biblíu“ öfgasinnaðra múslima kom nýlega út í Noregi, en bókina skrifaði Qutb er hann sat í egypsku fangelsi fyrir tengsl sín við Múslímska bræðralagið, samtök sem rekja má stofnun margra öfgakennd- ustu hryðjuverka- samtaka samtímans til. Var bókin notuð sem vitnisburður gegn Qutb sjálfum við réttarhöldin yfir honum og hann í framhaldi dæmdur til dauða og svo líflátinn árið 1966. Á norsku hefur Ma’alim fi-l Tariq hlot- ið heitið Milepæler og lýsir ísl- amfræðingur, Kari Vogt, sem ritar inngang norsku útgáfunnar, bókinni sem óþægilegum en engu að síður mikilvægum texta tengdum fram- gangi og þróun íslamstrúar á 20. öld- inni.    Hinn afkastamikli bandaríski rit-höfundur John Grisham sendi nýlega frá sér skáldsöguna The Broker eða Miðl- arinn eins og heiti hennar gæti út- lagst á íslensku. Að þessu sinni er andhetjan valda- mikill verð- bréfasali og meistari þrýsti- hópanna við Cap- itol Hill sem setið hefur í fangelsi fyrir skuggalegar tilraunir á verð- bréfasviðinu. Að mati gagnrýnanda New York Times býr bókin ekki yfir sama styrk og fyrstu lögfræði- spennusögur Grisham, þó engu að síður megi hafa gaman af þessari pólitísku njósnasögu og leynimakk- inu sem hún lýsir.    Öllu nöturlegri lýsingu er að finnaí bók þeirra Jim Dwyer og Kev- in Flynn, 102 Minutes: The Untold Story of the Flight to Survive Inside the Twin Towers eða 102 mínútur: Sagan sem ekki var sögð af flótt- anum til að lifa af af inni í Tvíbura- turnunum. Í bókinni er atburðarásin innan World Trade Center eftir árekstur flugvélanna þann 11. sept- ember 2001 rakin mínútu fyrir mín- útu allt þar til turnarnir féllu. Dwyer, sem er blaðamaður hjá New York Times, og Flynn, sem er sérverk- efnaritstjóri hjá blaðinu, þykja með skrifum sínum ná að staðsetja les- andann innan byggingarinnar á með- an allt gerist og ná að framkalla í huga hans svo óþægilega spennu- þrungna stund að illmögulegt sé ann- að en að lesa bókina í einni setu.    Ritgerðasafn ítalska fræðimanns-ins Umberto Eco, On Literat- ure eða Um bókmenntir, býr yfir helstu kostum og göllum þessa vin- sæla höfundar að sögn gagnrýn- anda breska dag- blaðsins Guard- ian. Þannig vísar Eco að venju í þemu á borð við gullgerð, texta Dantes og þróun tungumála, en nýtur sín að mati gagnrýnandans engu að síður best er hann segir skil- ið við þurra þeoríu og fræði og bregð- ur sér þess í stað í hlutverk skemmti- lega gáfumennisins þar sem frásagnagleði hans hreinlega neistar.    Það er sumarlegur blær yfir nýj-ustu skáldsögu danska rithöf- undarins Lars R. Stadils, svo mjög að gagnrýnandi Information segir bókina gefna út á röngum árstíma. Sagan sem fjallar um langt og einkar danskt sumarfrí nefnist Almindelig dødelig eða Venjulega dauðlegur eins gróflega mætti þýða heiti henn- ar á íslensku. Að mati gagnrýnand- ans er bókin fulllöng og stíllinn of einhliða þó léttleikinn sem einkenni persónusköpunina, örlög söguper- sónanna og atburðarásina alla veki engu að síður áhugaverðar spurn- ingar hjá lesandanum. John Grisham Umberto Eco Erlendar bækur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.