Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 15. janúar 2005 F rægasti töframaður heims fyrr og síðar var Ungverjinn Harry Houdini. Hann hét upphaflega Erich Weiss og fæddist 24. mars 1874 í Búdapest í Ungverjalandi. Sjálfur kvaðst hann hafa fæðst í smábænum Appleton í Wisconsin í mið-vesturríkjum Bandaríkjanna. En hafa ber það í huga að á hans tíð vildu flestir vera Ameríkanar. Hann var fjög- urra ára gamall þegar fjöl- skyldan flutti til Bandaríkj- anna. Nafn hans er órjúfanlega tengt hinum ótrúlegustu flóttabrögðum. Hann þróaði „listina að hverfa“ í þær hæðir að allir síðari tíma sjónhverfinga-, töfra- og hverfilistamenn bera sig saman við hann. Snemma fór að bera á undraverðum hæfileika hans til að einbeita sér, leysa þrautir sem eng- um öðrum hafði tekist. Hann var maðurinn sem gat allt, það héldu honum engin bönd, handjárn, brúsar, spennitreyjur né kistlar! Hann varð að goðsögn í lifanda lífi vegna þess að hann gat sigrast á öllum kringumstæðum. Undirstaða listar hans var þjálfun sálar og líkama en hann hafði líka þá snilligáfu að geta beitt óendanlegri elju og vandvirkni við öll sín verk. Þannig sýndi hann fólki fram á, að hið ómögulega væri mögu- legt. Lykillinn að töfraheiminum Sem ungur drengur gekk Houdini í íþróttafélag áhugamanna og gerðist hlaupagarpur og vann til verðlauna í ýmsum drengjaflokkum. En hann ætlaði sér ekki að verða íþróttamaður því í öllum tómstundum sínum æfði hann sig í töfra- brögðum og spilagöldrum og rannsakaði alls- konar læsingar og hnúta. Dag einn rakst hann á gamla bók sem hét: „Endurminningar Robert – Houdins, sendiherra, rithöfundar og töfra- manns, skráðar af honum sjálfum“. Þessi bók átti eftir að breyta lífi hins unga manns. Þarna fann hann lykilinn að ýmsum handfimi- og sjón- hverfingabrögðum og mörgum öðrum leynitöfr- um sem hann hafði ekki vitað um og höfðu verið honum ráðgáta árum saman. Í virðingarskyni við Róbert Houdin breytti hann nafni sínu úr Erich Weiss í Harry Houdini. Níu ára gamall kemur hann fyrst fram á leik- sviði í „fimm senta sirkús“ Hoeffleur í Wiscons- in þar sem hann var hengdur upp á fótunum og tíndi upp títuprjóna með augnlokunum. Þar kallaðist hann „Erich – prins háloftanna“. Hann varð snemma hugfanginn af lásum, var kattliðugur gat fljótlega komið sér úr hvaða prísund sem var. Hann þjálfaði sig í að leysa hnúta með tánum. Hann gat flestum öðrum ver- ið lengur í kafi. Þegar hann var nítján ára gam- all hitti hann Beatrice sem átti eftir að vera hans lífsförunautur og aðalsamstarfsmaður meðan hann lifði. Þau voru gefin saman tíu dög- um eftir að þau hittust, við litlar vinsældir fjöl- skyldna þeirra þar eð hún var kaþólsk en hann gyðingur. Árið 1899 verða hvörf í lífi hans sem skemmtikrafts er hann hittir sirkúsleikstjórann Martin Beck. Sá varð svo hrifinn af handjárna- snilli Houdinis að hann ráðlagði honum að ein- beita sér að handjárnunum og hverfilistinni. Beck þessi bókaði hann strax í Vaudeville- leikhús sín og ekki leið á löngu þar til Houdini og Bess kona hans þræddu hvert fimm-senta leikhúsið á fætur öðru. Þar öðluðust þau ómet- anlega reynslu sem átti eftir að nýtast þeim síð- ar. Hann slær þó eiginlega ekki í gegn í heima- landi sínu fyrr en hann er búinn að hleypa heimdraganum og slá í gegn í Bretlandi um aldamótin 1900. Evrópuför sumarið 1900 Eins og áður hefur komið fram verður Houdini ekki stjarna í Ameríku fyrr en hann kemur til baka frá Evrópu árið 1904. Aldamótasumarið tóku Houdini hjónin sér far á 2. farrými á litlu farþegaskipi og héldu yfir hafið án þess að eiga nokkra atvinnu vísa. Stefnan var sett á London og þar ætlaði hann að sýna hvernig hann kæm- ist úr handjárnum. Eftir að hann hafði gengið milli manna í borginni án þess að fá vinnu við list sína var sagt við hann í Alhambra leikhúsinu í London. „Ef þú kemst úr járnum í Scotland Yard, skal ég ráða þig.“ Þau þóttu langörugg- ustu fjötrar sem hægt væri að búa til. Að sjálf- sögðu komst hann úr handjárnunum þar. Að skilnaði sagði Melville lögregluforingi við Houdini: „Scotland Yard mun ekki gleyma þér, ungi maður.“ Eftir þetta lék hann listir sínar fyrir fullu Alhambra-leikhúsinu í tvo mánuði. Þaðan fer hann til Þýskalands í ágúst þar sem hann fyllir Wintergarden-leikhúsið í Berlín vik- um saman. Við hverja sýningu óx áhugi manna, því að Houdini var ögrun við verði laganna og ekki síður við glæpasnuðrara meðal blaða- manna. Margir komu með handjárn og aðra fjötra í leikhúsið til þess að reyna þolrifin í handjárnakónginum. Ferill Houdini var um þessar mundir líkari draumi en veruleika. Í hverri nýrri borg vann hann nýja sigra. Hvar sem hann kom þyrptust menn til þess að horfa á hann og var meiri aðsókn að leikhúsunum en nokkru sinni áður. Á leiksviðinu vakti hann furðu manna með nýjum og nýjum snillibrögð- um. Í London vakti hann fögnuð manna með því að gleypa nálabréf og nokkra metra af tvinna síðan rakti hann þráðinn með hægð út úr sér og voru þá allar nálarnar þræddar uppá hann með ákveðnu millibili. En hann hafði ekki hreyft sig úr stað á meðan. Eitt af frægari atriðum hans var þegar hann lét fíl hverfa af sviði Hippo- drome-hringleikahússins í London, en undir sviðinu var sundlaug. Hvernig tókst Houdini að gera það sem hann gerði? Hann segir svo frá. „Aðalviðfangsefni mitt hef- ur verið að sigrast á óttanum. Þegar ég er flett- ur klæðum og fjötraður, lokaður niðri í harð- negldum kassa og fleygt í sjóinn eða þegar ég er grafinn lifandi undir sex fetum af mold, þá er nauðsynlegt að vera algerlega rólegur. Ég verð að vinna af mestu nákvæmni og vera fljótur eins og elding. Ef fát kemur á mig, þá er ég glat- aður.“ Þarna sést hversu tvíþætt færnin þarf að vera; hverfilistamaðurinn þarf að vera nákvæm- ur og þolinmóður eina stundina en þá næstu að geta verið fljótur sem elding. Og áfram heldur Houdini. „Hitt leyndarmál mitt er það að ég hef þjálfað mig með hörðum sjálfsaga svo að ég geti gert merkilega hluti með líkama mínum, get lát- ið ekki einn vöðva eða vöðvakerfi, heldur sér- hvern vöðva hlýða boði mínu skjótt og örugg- lega. Ég hef þjálfað fingurna svo að þeir hafa náð ótrúlegri mýkt og leikni og tærnar til þess að vinna eins og flugur.“ Houdini æfði sig við öll tækifæri, stundum tók hann spotta upp úr vasa sínum, hnýtti á hann ótal hnúta og lét hann detta á gólfið. Svo smeygði Houdini sér úr skóm og sokkum og tók til við að leysa hnútana og hnýta þá aftur með tánum, án þess að líta nokk- urn tímann á aðfarirnar. Houdini þjálfaði sig í margvíslegum kaf- brögðum, svo sem að vera niðri í vatni í hálfa aðra klukkustund í lokuðum kassa. Mánuðum saman og oft á dag æfði hann sig á því að vera í kafi í baðkeri sínu og hafði skeiðklukku til að mæla þol sitt. Þannig náði hann því að geta lengst verið í kafi í 4 mín. og 16 sek. í votta við- urvist. Í Detroit árið 1906 skall hurð eitt sinn nærri hælum. Hann sýndi oft almenningi ókeypis eitt- hvert æsandi snillibragð til þess að vekja at- hygli á sýningu sinni. Þarna má sjá framsýni hans og sérstöðu; hann er einn hinna fyrstu markaðsmanna sem kunna að ná athygli fjöl- miðlanna og þannig til fólksins. Í þetta skipti hafði hann boðist til að láta handjárna sig og hrinda sér út af brú í Detroit-ána. Þennan morgun kom leikhússtjórinn til hans og tjáði honum að áin væri lögð og því gæti ekkert orðið úr hættuatriði hans. „Hvað er þetta,“ sagði Houdini „Geturðu ekki fengið einhvern til að saga vök á ísinn undir brúnni? Það er mér nóg.“ Nú var gerð stór vök undir brúnni og á til- settum tíma tróð Houdini sér gegnum mann- fjöldann sem hafði safnast saman í norðannepj- unni á brúnni. Á brúnni var Houdini færður úr öllum fötunum nema sundskýlu, handjárnaður vandlega af lögregluþjónum, síðan hvarf hann með gusugangi ofan ískalt vatnið. Þegar Houd- ini lék þessa list kom hann venjulega úr kafi eft- ir eina mínútu. Í þetta skipti liðu tvær mínútur síðan þrjár. Tíminn leið. Eftir fjórar mínútur sögðu lög- reglulæknirinn og aðrir læknar sem boðið hafði verið að horfa á, að nú hefði Houdini leikið síð- asta hættuleikinn. En allt í einu rak Houdini handlegginn upp úr vatninu. Hann hafði verið átta mínútur í kafi! Straumurinn hafði verið meiri en Houdini gerði ráð fyrir og hafði hann rekið vel af leið og hafði þurft að synda langa leið undir ísnum þangað til hann fann vökina. Þetta leikur enginn eftir nema sá sem hefur þjálfað sig í að halda stillingu sinni! Houdini og spíritisminn Þau ótrúlegu og oft ómennsku atriði sem Houd- ini sýndi á sínum ferli vöktu mikil viðbrögð. Hann og hans athafnir þóttu nánast ójarð- neskar. Enski rithöfundurinn Sir Arthur Conan Doyle sá sem skapaði hinn ódauðlega Sherlock Holmes sagði eitt sinn í bréfi til Houdinis: „Góði vinur, hvers vegna skyldu menn fara umhverfis hnöttinn í leit að dularfullum fyr- irbrigðum þegar þér eruð alltaf að sýna þau?“ Og J. Hewat McKenzie, forseti breska sálar- rannsóknarskólans tók eins djúpt í árinni í bók sinni „Samband við anda.“ „Houdini neytir sálræns afls, þótt hann haldi því ekki á lofti, til þess að opna hvaða læsingu, handjárn eða slagbrand sem hann er látinn fást við. Hann hefur verið lokaður inni í fangaklef- um með gildum járngrindum, tví- og þrílæstum og hann hefur auðveldlega komist útúr þeim öll- um. Þessi máttur hans að opna læstar dyr staf- ar eflaust af miðilsgáfu hans...“ Svar Houdinis við þessu var skýrt og skor- inort: „Ég held því fram að ég geti leyst mig úr fjötrum og komist út, þótt ég sé lokaður inni. En ég staðhæfi ákveðið að ég geri þetta ein- göngu með líkamlegum hætti en ekki and- legum. Aðferðir mínar eru að öllu leyti nátt- úrulegar og samkvæmt eðlislögum náttúrunnar. Ég hvorki afholdga né holdga nokkurn hlut. Ég stýri einfaldlega og hagræði hlutunum með þeim hætti sem ég skil sjálfur vel og get gert skiljanlegan hverjum þeim manni sem ég kynni að vilja trúa fyrir launung- armálum mínum. En það er ekki víst að sá gæti leikið eftir mér. En ég vona að ég geti tekið leyndarmál mín með mér í gröfina, af því að þau koma mannkyninu að engu gagni og ef óheið- arlegir menn beittu þeim, gætu ískyggileg vandræði hlotist af.“ Töfrastjarnan Houdini Árið 1913 kom hann fram með sitt frægasta at- riði, Kínverska pyntingaklefann. Þar nýttist honum þvílíkt kafþjálfunin því þetta var læst glerbúr og hann á hvolfi inni í því fullu af vatni. Og að sjálfsögðu tókst honum að sleppa úr þess- ari prísundinni eins og öllum hinum! Hann ferð- aðist um Bandaríkin þver og endilöng með öll sín frægustu atriði; að komast út úr mjólk- urbrúsanum, að losa sig úr spennitreyju hand- járnaður á höndum og fótum, að ganga gegnum vegginn, að láta fíl hverfa, að komast útúr harð- læstri líkkistu, metamorphosis svo fátt eitt sé nefnt – á árunum 1904 og til dauðadags árið 1926. Sjá má hér til hliðar viðtal við hann sem birtist í tímariti töframanna í London árið 1909. Árið 1920 útskýrði Houdini hluta atvinnu- leyndarmála sinna í bók sem hann gaf út. Þá taldi hann að sín yrði helst minnst fyrir þessa bók. En sú varð nú ekki raunin, heldur eru það hin ótrúlegu ofurmannlegu flóttaatriði hans og sjónhverfingar sem hafa gert hann ódauðlegan. Harry Houdini lést eftir bylmingshögg í magann sem aðdáandi hans veitti honum í Montreal á allraheilagramessu (31.október) ár- ið 1926. Houdini lék gjarnan þá list að leyfa áhorfendum að kýla sig, en þá undirbjó hann sig áður, var viðbúinn. Í þetta örlagaskipti kýldi aðdáandi hann þar sem hann lá óviðbúinn á legubekk baksviðs í leikhúsinu. Houdini hné niður á leiksviði í Detroit tveimur vikum seinna af innvortis blæðingum. Þá var hann 52 ára gamall. Ár hvert á allraheilagramessu heldur „Society of American Magicians“ athöfn við gröf Houdinis í Machpelah-kirkjugarðinum í Queens í New York. Athöfn þessi nefnist: „Minningarathöfn um brotna stafinn“ sem vísar í tákn töframanna, stafinn. Stafur Houdini brotnaði alltof fljótt… og þess er minnst ár hvert! Listin að hverfa Sýningin „The Return of Houdini“ eða End- urkoma Houdinis verður sýnd hér á landi 23. mars næstkomandi. Af því tilefni er ástæða til að rifja upp sögu þessa manns sem er einn af mestu töframönnum sem uppi hafa verið og þróaði þá list að hverfa. Eftir Vilborgu Halldórsdóttur vilborgh@simnet.is Harry Houdini Hann þróaði „listina að hverfa“ í þær hæðir að allir síðari tíma sjónhverfinga- töfra- og hverfilistamenn bera sig saman við hann. Hvernig slapp hann úr brúsanum? Höfundur er leikkona. „ÉG ÓLST upp í bænum Appleton í Wisc- onsin-fylki. Pabbi minn var rabbíni þar en dag einn stóð hann á götunni atvinnulaus og fyrirvinna sjö barna vegna þess að sóknarnefndin vildi yngri prest! Þá flutt- um við til Milwaukee og þar fengum við fyrst í alvörunni að kenna á hungri. Hinn 28. október 1883 kem ég fram á sviði í fyrsta sinn. Níu ára gamall er ég orðinn loftfimleikamaður og auglýstur sem: „Er- ich – prins háloftanna.“ Seinna átti ég eftir að vinna sem lásasmiður, bormaður, ljósmyndari og ótal mörg önnur störf. En mig langar til að segja ykkur frá því þeg- ar ég fór að fikta við handjárn, því það voru þau sem gerðu mig frægan. Dag einn þegar ég var að vinna hjá lásasmiðnum en verkstæðið hans var við hliðina á löggustöðinni, var komið með ungling nokkurn sem handtekinn hafði verið fyrir smávægilegt afbrot. Hann hafði reynt að opna handjárnin með sín- um eigin lykli sem við það hafði brotnað í skránni. Við vorum fengnir til að reyna að leysa málið ella þyrfti að höggva járn- in af honum á hendinni. Þetta atvik átti eftir að breyta lífi mínu. Meðan lásasmiðurinn var að reyna við lásinn var hringt í mat. Kannski var hann venju fremur svangur nema hann segir við mig: „Náðu í öxi og höggðu járnin af honum“ – og með það var hann farinn í mat. Ég reyndi að höggva þau burtu en það bara gekk ekki neitt og þegar ég var búinn að eyðileggja nokkur axarblöð, hugkvæmdist mér að dýrka upp lásinn. Mér tókst það og hvernig ég gerði það átti eftir að verða atvinnuleyndarmál mitt. Lykill minn að heimsfrægðinni. Mér tókst þetta en ekki með því að gera af- steypu af upprunalega lyklinum, eins og svo margir áttu eftir að reyna sem eru að stæla mig. Fyrsta flóttaatriði mitt Árið 1893 þegar ég var 19 ára gamall var ég orðinn leikari. Það var einmitt meðan ég var að leika í St. Louis að ég bjó til fyrsta flóttaatriðið mitt þar sem mér tekst að komast útúr læstu ferðakofforti. Veturinn hafði verið hræðilega kaldur og ég átti engan pening til eldiviðarkaupa til að kynda með herbergið mitt. Sé ég þá ekki dag einn stóran trékassa sem átti bersýnilega að fleygja, standa fyrir utan vöruhús nokkurt. Ég vissi að ég yrði lit- inn grunsemdaraugum ef ég reyndi að fara með svona stóran kassa gangandi í mannmergðinni. Löggan myndi taka mig og líka ef ég reyndi að brjóta hann í spað á staðnum. Svo ég fann út aðferð sem ég gat notað til að taka kassann hljóðlega í sundur á staðnum og þetta varð aðferðin sem ég notaði í atriðið „Að komast útúr vörukassanum“. Þetta sýndi ég í fyrsta sinn á sýningu í Essen í Þýskalandi. Þetta bragð varð eiginlega til í gríni úti í Þýskalandi. Ég var þar að tala við mann í vefnaðarverksmiðju þar sem verið var að pakka niður líni í stóra trékassa, sem síð- an átti að flytja til Ameríku. Einn pökk- unarmannanna sá mig og vissi að ég var nýbúinn að sýna hvernig maður sleppur útúr fangelsi. Því segir hann í gríni: Þú myndir nú samt ekki komast útúr þessum kassa þegar við erum búnir að negla hann aftur. Ég svaraði að bragði: „Iss, ekki málið“ – og svo hófst ég bara handa og hélt þar með að málið væri úr sögunni. Svo bara opna ég blöðin daginn eftir og les þar að pökkunarmennirnir séu búnir að skora á mig, ætli að binda mig, láta mig oní kassann og negla hann svo aftur. Kassinn sem ég notaði í eldivið- inn forðum daga kom upp í hugann. Því ákvað ég að taka áskoruninni og nota til flóttans aðferð sem ég hafði notað þegar ég var að safna eldiviði um alla borg. Þetta atriði sló alveg í gegn og lagði grunninn að ferli mínum. Úr „Harry Houdini við Harry Houdini“, grein sem birtist í The Magician Annual. London 1909–1910. Houdini við Houdini

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.