Eining - 01.03.1945, Blaðsíða 14

Eining - 01.03.1945, Blaðsíða 14
14 E I N I N G Orðlaus starir maðurinn út í víðátt- una og verður eitt með eilífðinni. Engin tunga getur lýst dýrð lífsins, engin orð komast að, fremur en þá, er tveir ó- snortnir elskendur fallast í faðma í fyrsta sinni. Ef einhver spyr þá: hvernig lýst þér á heiminn? verður okkur svarafátt, því að þá lifum við hið ólýsanlega. — Við flettum blaði. Þar er önnur mynd., Biksvört skammdegisnótt. Hryllilegt veður. Eins og öll myrkra- völd undirdjúpsins seiddu sinn ferleg- asta galdur. Frostið ætlar allt að nísta í hel, glata öllu lífi, hríðin og fannkyng- ið grafa allt lifandi og dautt, afmá öll spor lífsins og hverja minningu þess. Heiftin í veðrinu hristir allt, lemur og skekur, jafnvel gegnfrosna og hálf- gróna torfbæi. Það orgar í giljum og fjallaskörðum. Alls staðar heyrast vein og ámátleg hljóð. Allir vegir eru týnd- ir, hvergi Ijósglæta á himni eða jörðu, ekkert nema heift og hríð, myrkur og kuldi, ógurlegt myrkur. Hve ólíkt er þetta ekki myndinni á hinni blaðsíðunni. Þar er: Hið lognmjúka, skínandi haf. Sakleysi, sakleysi! Ekkert nema sak- leysi! Reginvídd af flekklausu sakleysi. Engilbjört ásjóna, sem ekki hefur blett né hrukku, hvergi hörkulegan drátt, ekki minnsta vott af hrekkvísi. Hvergi er hin minnsta bára á spegilsléttum og skínandi björtum haffletinum himins- endanna á milli. — Lokkandi, ögrandi fegurð og sakleysi, líkt og faðmur bjartrar yngismeyjar. Hverju mundi þá sjómaðurinn svara, ef hann væri spurður: Hvernig lízt þér á heiminn? Mannskaða veðrið. önnur mynd í hinni miklu bók: Him- inninn er biksvartur, hafið eins og foss, öldurnar fjallháar, rokið hamslaust. I fjörunni stendur hópur gamal- menna og kvenna. Konurnar leggja hönd á hjartastað, halda niðri í sér andanum og stara ógnum lostnar út í brimgarðinn. Börnin hanga í pylsum þeirra, en stormurinn tætir hár og föt kvenna og barna. Nú hugsar enginn um að halda sér til. Úti í brimgarðinum eru tveir bátar, sextán vaskir menn undir árum og tveir við stýri. Þar eru synir og eiginmenn kvennanna, sem bíða í fjörunni í ang- istarfullri og skelfilegri eftirvæntingu. Holskelfan kemur æðandi af hafi, hefur upp sinn ógnarlega hramm og steypir sér með fossafalli og brimgný yfir hetj- urnar í bátunum, þeytir skipum þeirra á klettana í skerjagarðinum og brýtur þau í spón, en dustar til líkin innan um þaraflækjurnar í brimlöðrinu. Konurnar í fjörunni fá eins og hníf- stungu í hjartastað. Þær ganga heim- leiðis lotnari en áður og hníga niður á rúmin sín harmilostnar. — Spyrjið þær ekki, hvernig þeim lítizt á heiminn. Slíkar myndir mála heimsöflin miklu í bók lífsins. Fallegar og ljótar, eða svo köllum við þær. Þar er ein mynd marg- lit og litarsterk. Við köllum hana. Nútíma siðmenningu. Auglýsingar og áróður, æsingar og ákafi, vélaskrölt og hávaði, útvarp og glýmskratti, flaustur og flýtir, tauga- bilað og blóðlaust fólk með máluð and- lit en duftöskjur og fjörefnatöflur í vösunum; friðlausir stjórnmálamenn, og kaupsýslumenn hjartabilaðir af á- hyggjum, ofáti offitu og ofraun, dýrð- legar veizlur, óhóf og ofdrykkja, lúks- ús, sællífi og munaður, eymd fátækt og volæði; tæringarveikir fátæklingar og taugabilaðir svallarar, skrauthallir, stórhýsi, leiguhjallar og saggafullar kjallaraíbúðir, auðmannaslot og skuggahverfi, kauphallir og kúgarar, bankahrun og braskarar, fjárhættu- spil, lúksusbílar og sjóðþurrðir, mútur og málaflækjur, fagurmæli og svik- semi, pressuð föt, landeyður og let- ingjar, lærdómskák og leikaraháttur, glitrandi danssalir, jazz, dans, drykkja og reykjarbræla, gyllingar og glitklæði, montprik og pípuhattar, ístruvambir og vindlingar, loðkápur og mellulíf, silki- sokkar og syfilis, rauðmálaðir munnar daðurdrósa, lakkeraðar negraneglur á langfingruðum sígarettusugum, rík- mannlegar stássstofur, yfirfylitar af gljáfægðum og rándýrum húsgögnum, silkisvæflum og skrautmunum; yfirfull elliheimili, afræktir foreldrar og gam- almenni, troðfull tugthús, hálftómar kirkjur, þéttsetin leikhús og bíó, mann- fá og mannlaus heimili, vinnukonur með krakkagrey, hefðarfrúr með kjölturakka, klámrit og reifarar; — skáldskapargutl og fyllirí, skæðadrífa af dagblöðum og tímaritum, kreppa og kjaftæði, blóðböð og byltingar, stétta- rígur, kynþáttahatur, atvinnuleysi, flokkadráttur, landráðabrugg og Kvisl- ingar, vígbúnaðarbrjálæði og stríð — stríð, sem hæfir getu og kunnáttu þess- arar nútímasiðmenningar: djöfladans í nafni réttlætisins, eldspúandi bryn- vagnar og vítisvélar, loftið svart af fljúgandi finngálknum og vígdrekum, sem ausa sprenguregni, eldi og brenni- steini yfir vegsemd nútímasiðmenning- arinnar — stórborgirnar. Hallir hrynja, jörðin springur og tætist sund- ur, skothvellir og sprengingar, helvít- iseldur á himni og jörðu. Allt er malað í einni kvörn; járnslár, múrsteinar, bjálkar og borð, lifandi og dautt, hús og búslóðir manna, silkimjúkir hvít- voðungakroppar og ellihrumir líkamar, skrautmeyjar og hefðarfrúr, höfðingj- ar og betlarar, allt mulið og sundur- tætt, konungshallir, kirkjur og dýr- gripasöfn þjóðanna, aldingörðum breytt í eyðimörk og skrúðgörðum í grafreiti. 1 baksýn þessarar myndar er fjall eitt og frumskógur mikill. Þar situr kafloðinn og alls nakinn maður og nag- ar kjöttætlur af lærbeini úr kven- mannskroppi. Til þess að auka á tign sína og mikinn svip hefur hann stung- ið löngu og fægðu beini í gegnum mið- nesið á sér. Þetta er frumaðurinn —- villimaðurinn, sem fæddi af sér sið- menntaða manninn, sem hættur er að éta menn og orðinn leikinn í öllum töfrum siðmenningarinnar, og á að fæða af sér ofurmennið —hinn rétt- skapaða mann. — Miklar eru framfar- irnar. —o— Nei, heimurinn er ekki fljótskoðað- ur né auðskilinn. Hann er ráðgátan milda. Heimurinn er stór. Við erum litlir menn. Og svo ætlast menn til þess af mér, að ég svari því í eins kon- ar hnappagatsprédikun úti á strætum og gatnamótum í snarkasti, hvernig mér lítizt á heiminn. Mér lízt á hann allt eftir því, hvort hann brosir til mín eða yglir sig. En yfirleitt lízt mér heldur vel á hann. Hvað elskar sér líkt. Heimurinn er eins og þú og ég. — Þjáning og sæla, heift og blíða, hatur og elska, guð og djöfull, líf og dauði. Hann er eitt log- andi sindur af glóðarteini hinnar miklu eilífu verundar, sem endurfæð- ist eilíflega í dauðanum. Pétur Sigurðsson. Pappírinn í blaðinu Útgefendur blaðsins verða að af- saka það við kaupendur blaðsins, hve illa hefur tekizt að geta fengið blaðið prentað alltaf á sama pappír. Við þetta hefur ekki verið hægt að ráða. Um það þýðir ekki að orðlengja, en á stríðs- tímum verða menn að sætta sig við margt. Þetta er búið að valda ritstjóra blaðsins miklum leiðindum, og verður reynt í nánustu framtíð að koma í veg fyrir þennan óstöðugleik með ein- hverjum ráðum. Skipum er sökkt, og með þeim alls konar vörum, einnig pappir. Og hvarvetna finna menn ti! hinna sorglegu og illu afleiðinga. ,,Sá unir bezt hlýju fleti, er sefur lengi í leti“. „Væna konu, hver hlýtur hana? Hún er mikils meira virði en perlur. Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist. Hún gerir honum gott og ekkert illt alla æfi- daga sína“. Tóbaksneyzlan: er ólioll, hún er kostnaðarsöm, hún er óþrifaleg, hún er ónauðsynleg.

x

Eining

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Eining
https://timarit.is/publication/833

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.