Morgunblaðið - 13.05.1979, Side 27

Morgunblaðið - 13.05.1979, Side 27
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. MAÍ1979 27 Fólk er yfirleitt mjög elskulegt. — Einhverjum ævintýrum hef- urðu þó lent í? — Já, raunar lentum við í stór- kostlegu ævintýri, þegar skipið strandaði skammt frá Borneo og við lágum föst á kóralrifi í þrjár vikur, matarlítil og vatnslítil og sjóræningjar allt í kring. — Nútímasjóræningjar? — Óaldarflokkar eða sjóræn- ingjar, hvað sem maður vill kalla þá. Fólk trúir ekki að þeir séu til. En þeir eru þarna á hafinu í kring um Indónesíu á litlum bátum og neyta allra ráða til að komast um borð í stærri skip, einkum ef þeir halda að vopn séu um borð. Skipin sigla hægt og þeir eru þarna á sveimi í þessum frumstæðu og sakleysislegu bátum sínum. Allt í einu er kannski kominn um borð 50 manna flokkur og þá er ekki um annað að ræða en að láta af hendi allt eigulegt. Með það hverfa þeir á brott. Þeir villa gjarnan á sér heimildir. Þegar þeir komu að okkur, þóttust þeir fyrst vera úr lögreglunni og þegar það gekk ekki, þá tollverðir. Stundum eru þeir jafnvel sagðir stöðva skip á stolnum tollbátum. Þegar ekkert dugði, reiddust þeir og kváðust ætla að sækja hjálp. Þá sendi skipstjórinn skeyti til Filippseyja og bað um hervernd, því við vorum víst í strandhelgi Filippseyja. Eftir þeirri vernd biðum við í þrjá daga. Einn litli báturinn kom þá of nærri, og varðbátarnir skutu á hann. Þá fór í gang í þessum hrörlega báti fínasti mótor og þeir þeystu burt. Svo vel dulbúast þeir. — Voruð þið ekki hrædd? — Jú, við vorum auðvitað hrædd. Maður skilur þetta ekki fyrr en maður lendir í því, svarar Sigrún Edda. — Strax þegar skipið strandaði, greip um sig mikill ótti meðal Kínverjanna, sem kunnu ótal sögur um skip sem hefðu horfið þannig og fundist einhvers staðar með beinagrindur einar um borð. Breskt skip hafði nokkrum árum áður strandað einhvers staðar á þessum slóðum og sent út hjálparkall. Þegar hjálp barst, höfðu ræningjar drepið hluta áhafnarinnar. Nokkrar kon- ur voru um borð. Þær höfðu þeir á brott með sér og hefur ekkert til þeirra spurst. Við slíkar sögur setti að okkur óhug. — Hvernig stóð á því að þið voruð þarna á rifinu í 3 vikur. Var ekki strax send út hjálparbeiðni? — Jú, skipstjórinn tilkynnti um strandið. En við fengutn boð frá Noregi um að reyna að losna af rifinu sjálf. Skipið var ekki í hættu. Auk þess var norskur dráttarbátur af nýjustu gerð í Singapore og möguleikar á að fá hann til að ná okkur út. Þá mótmæltu yfirvöld í Filippseyjum, kváðust eiga rétt til björgunar. Þeir kröfðust vist óskaplegrar upphæðar, og samningar tókust ekki fyrr en eftir þrjár vikur. Á meðan sátum við þarna föst. Eftir viku komu tveir dráttarbátar, en þeir toguðu bara sinn í hvora áttina og þóttust vera að reyna. Tóku ekki almennilega i, til að ná okkur út, fyrr en búið var að semja. En þetta fór allt vel. • Sjómannakirkjan veitir góða þjónustu — Hvert hélduð þið þá? — Við lentum í slipp í Hong Kong eftir strandið. Það er stór- kostleg borg. Ég kom þar fjórum sinnum. Tók mér m.a. sumarleyfi í viku. Og ætla að koma þar við á leiðinni til Nýja Sjálands með vinkonu minni, Ellen Þórarins- dóttir hjúkrunarkonu. — Hvar finnst þér mest gaman að koma? Singapore og Kuala Lumpur í Malasíu eru fallegustu borgir sem ég þekki. Þangað áformum við líka að koma í ferðinni. Við ætlum að vera þrjá mánuði á leiðinni. Verð- um fyrst 10 daga í Noregi, fjóra daga í Karatchi í Pakistan, þar sem ég á finnska vinkonu. Síðan hálfan mánuð í Kína, komum til Shanghai, Kanton og Peking. Kína er eini staðurinn, þar sem við eigum pantað hótel. Þá tökum við lest frá Kanton til Hong Kong. Við spjöllum um þessar borgir og hvað þar er að sjá. Komum okkur saman um að maður þurfi að hafa einhver sambönd eða útgönguleið, til að komast út úr hinu skipulagða ferðamannalífi. — Ég hafði slíka möguleika, segir Sigrún Edda. Við komum alltaf til norsku sjómannakirkjunnar, þar sem maður fær sér kaffi og getur lesið blöðin. Og ég tek það fram, að það er engin helgislepja jrfir henni. Svo eru sjómanna- klúbbarnir alveg ágætir, en klúbburinn í Hong Kong er fín- asta hótel. Að vísu er ekki mikið um kvenfólk þar. Ég var sett í herbergi í sérálmu, þegar ég gisti í sjómannaheimilinu í Hong Kong, segir Sigrún Edda og hlær. Auðvitað er mikið öryggi í að dvelja á slíkum stöðum. Við víkjum talinu að hugsanlegum hættum, og Sigrún segir: — Ef maður heldur sig frá vitleysu, svo sem eiturlyfjum og greinilega slæmum félagsskap og gætir peninganna sinna vel, þá er manni óhætt. • í fangelsi í Indónesíu Þó kom það eitt sinn fyrir Sigrúnu Eddu, meðan hún var á norska skipinu, að lenda fyrir hreina tilviljun í fangelsi í Indó- nesíu og sitja þar í hálfa nótt. — Raunar var það líka fyrir svipaða tilviljun að ég slapp út, segir hún. Þegar hún er búin að minnast á þetta, sleppur hún ekki við að segja alla söguna: — Þegar skipið lagðist að kom alltaf á þessum stöðum straumur af tötralegum körlum um borð og þeir bjóða manni upp á eitthvað í landi. Það gerðist þarna, en auðvitað hafnar maður slíkum boðum. Seinna fór ég svo í land ein, og einn þessara karla var þar fyrir. Hann endur- tók boð sitt. Þegar ég hafnaði, reiddist hann og klagaði mig fyrir verðinum. Heimtaði að væri gerð leit á mér, sem ég neitaði, nema ef sú leit væri gerð af konu. En ég varð að tæma alla vasa. Þá vildi svo til að ég fann einn dollara í vasanum. í rauninni er bannað að flytja dollara í land, þótt enginn fari eftir því. Ég var drifin upp í bíl og ekið meö mig í fangelsi. — Var það ekki vond vistar- vera? — Hræðileg hola! Hitinn var óskaplegur og veggirnir blautir. Enginn kom. Og ég fékk engin svör, þegar ég var að reyna að spyrja fyrir hvað ég væri ákærð. Mér vildi það til að einhver smástrákur hafði horft á það sem gerðist á hafnarbakkanum. Hann fór til skipstjórans og bauðst til að segja honum það fyrir borgun. Og um miðja nótt komu umboðs- maður skipsins og skipstjórinn, og mér var sleppt. Ég var að reyna að spyrja fyrir hvað ég hefði verið tekin. Það var fátt um svör. Einhver sagði fyrir mótmæli eða uppreisn. Maður stendur uppi alveg bjargarlaus þegar svona kemur fyrir. Staðirnir eru þó misjafnir. Mér er sagt að hvergi sé fólk eins illa varið fyrir slíku sem á Taiwan. Einhver prestur hafði gert gangskör að því að leita að fólki, sem horfið hafði þar og rakst á menn í fangelsi, sem setið höfðu inni lengi fyrir nær ekkert. — Það kemur ekki í veg fýrir að þú leggir aftur land undir fót? Og ekki á sjó í þetta skipti? Hvað varstu lengi á skipinu? — í átta mánuði. Mér fannst það alveg stórkostlegt og hefði viljað fara aftur á sjó. En ástandið er enn verra nú en áður og ég veigra mér við að bíða eftir skips- rúmi. Enda sitja Norðmennirnir fyrir. • Útþrá og eirðarleysi — Af hverju komstu heim fyrir tveimur árum? — Ég ætlaði að læra líffræði í Noregi, en það eru betri atvinnu- möguleikar hér fyrir meinatækna, svo að ég fór í það nám og var að ljúka því eftir tvö ár. — Svo þú gerir þá ráð fyrir að koma heim til starfa á endanum? Af hverju • viltu fara til Nýja Sjálands? — Já, það er að minnsta kosti á dagskrá að koma heim til íslands. Enn er þó í mér útþrá og eirðar- leysi. Og Norðurlönd freista mín ekki lengur. Mig langar til að komast eitthvað langt í burtu. Kynnast einhverju nýju. Við vin- konurnar höfðum skrifað til ýmissa landa og leitað fyrir okkur. Og sýndist einna álitlegast að fá atvinnuleyfi á Nýja Sjálandi. Við ætlum að vera hálfan mánuð í Hong Kong, og fara svo til Bang- kok í Thailandi og þaðan til Penang í Malasíu. Við hyggjumst eyða hálfum mánuði í Malasíu og ferðast niður til Singapore, vera þar í viku og hafa síðan þriggja vikna viðdvöl í Indónesíu. Fara loks um Ástralíu til Nýja Sjálands, þar sem við ætlum að reyna að vinna um hríð. Þá höfum við hug á að vinna kannski síðar í Ástralíu. Stóri draumurinn minn er að komast til Suður-Ameríku. En ég er enn mállaus á spænsk- una. — Sigldirðu ekki þangað? — Nei, við sigldum til Mið-Ameríkuríkjanna, komum m.a. við í Panama og Nicaragua. — Hefur Ellen Þórðardóttir vinkona þín hug á að gera það sama? Hafið þið áður ferðast saman? — Já, við fórum saman til Tyrklands í fyrrasumar og vorum þar í mánuð. Ferðuðumst víðs vegar um landið í rútubílum með bakpokana okkar. Við héldum frá Istambúl suður yfir Litlu-Asíu og dvöldum lengst í þorpum á suður- ströndinni. Þarna er ákaflega gott og greiðvikið fólk og mjög gestris- ið. Lítið er um ferðamenn. Maður hefur ströndina fyrir sig og sjórinn er tær og hreinn. Þeir eru að byrja að reyna að laða að sér ferðamenn þarna á suðurströnd- inni, en kunna ekki undirstöðu- atriði í þrifnaði. • Borðaði steiktan hund — Hefurðu aldrei veikst í þess- um ferðum þínum, þar sem maður er óvanur matnum og heimagerl- unum? — Aldrei veikst nema í Tyrk- landi, þar sem ég fékk maga- krampa, og var veik í 3 daga. Samt borða ég allt, sem mér er boðið. Borðaði meira að segja einu sinni steiktan hund í Manilla. Ég vissi að vísu ekki fyrr en ég var hálfnuð með máltíðina að þetta var hund- ur. En þá var þetta svo góður matur og allir borðuðu hann, svo ég lét mig hafa það. Og varð ekki meint af. Þetta var á einni knæp- unni niðri við höfnina, þar sem sjómenn fá sér gjarnan einn bjór, áður en þeir halda upp í borgina. Það er annað sem plagar mig hvar sem ég fer. Það eru moskitó- flugurnar, sem komast í feitt þar sem ég er. Þegar komið er af sjó, fer þeirra að gæta er skipið nálgast land. Ég var farin að fá moskitóbit sólarhring áður en við komum að landi, þótt enginn annar yrði þeirra var. — Mín reynsla er sú að víða fari landinn og maður rekst oft á Islendinga á ferðum sínum. Hefur þú ekki hitt Islendinga? — Nei, það hefi ég ekki gert. Hefi ég þó alltaf spurt um þá, þegar ^g hefi komið í sjómanna- heimilin og til sjómannakirkjunn- ar. Einu sinni rakst ég á Græn- lending, sem verið hafði á Islandi, og færeyska stelpu hitti ég í Hong Kong. En til íslendinga spurði ég ekki. Aftur á móti sá ég margar greinar um Island í blöðum. Til dæmis man ég eftir því að hafa lesið um íslenzka kvennaárið í japönsku blaði og einnig i blaði í Hong Kong. Þótt blöð víðs vegar að liggi frammi í sjómannaheimil- unum, finnast þar aldrei íslenzk blöð. Ég saknaði þess. Það væri gaman að fá send í sjómanna- heimilin íslenzkt blað, þó ekki væri nema eitt í mánuði. Þegar ég kom til New York, fór ég í íslenzku ræðismannsskrifstofuna og fékk að líta í blöðin og hafði mjög gaman af því. Að lokum spjöllum við svolítið um fyrirhugað ferðalag, sem þær Sigrún og Ellen eru að búa sig undir. Þetta er löng og dýr ferð. Farið eitt kostar um það bil hálfa milljón héðan og suður til Nýja Sjálands, enda hinum megin á hnettinum. — Mér finnst óréttlátt hvernig farið er með ferðafólk, sem þarf á gjaldeyri að halda hér á íslandi, segir Sigrún Edda. Fólk getur flutt inn hvað sem er fyrir erlendan gjaldeyri og engin tak- mörk fyrir því. En ef maður vill ferðast og sjá sig um, er eins og maður sé að sníkja gjaldeyri að gjöf. Þó eru lagðar stórar upphæð- ir ofan á verð gjaldmiðilsins. Ég er t.d. látin greiða 50 þús. ofan á 400 þúsund kr. yfirfærslu. Það þykir mér nokkuð mikið! — Áður en við skiljum, segðu mér þá Sigrún hvar þér hefur þótt fallegast í heimihum. Hvaða stund heillaði þig mest? — Þegar við sigldum í heilan sólarhring milli Filippseyjanna. Þær eru eldbrunnar, en skógi vaxnar niður í fjöru. Það var stórkostlegt! Væntanlega eiga þær Sigrún og Ellen nú fyrir höndum stórkost- legar stundir og kannski heillandi ævintýri. Við óskum þeim góðrar ferðar — og heilladrjúgrar heim- komu einhvern tímann. — E.Pá.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.