Morgunblaðið - 03.01.1980, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 03.01.1980, Blaðsíða 14
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 3. JANÚAR 1980 14 Frcttaskýrinií Um áíorm Kremlverja í Aíghanistan í yfirliti sínu yfir þróun alþjóða- mála frá herfræðilegu sjónar- horni á árinu 1978 leggur Al- þjóðaherfræðistofnunin í Lond- on (International Institute for Strategic Studies) áherslu á, að Sovétríkin fari ekki leynt með hernaðarlega hagsmunagæslu sína á svæðum, sem þau telja sér mikilvæg, jafnvel þótt það kosti nokkrar fórnir. Hafi þetta komið greinilega fram í samskiptum sovésku ríkisstjórnarinnar við næstu nágranna sína: Noreg í vestri, Afghanistan í suðri og Japan í austri. Gagnvart þessum ríkjum hafi Sovétmenn sýnt nýjan þrótt í sókn sinni eftir að ná gömlu markmiði, þ.e.a.s. að mynda umhverfis sig ríkjabelti, sem virði og viðurkenni sovéskt vald. Þrýstingurinn hafi verið greinilegastur á Norðmenn og Japani, sem hafi yfirráð yfir siglingaleiðum frá tveimur stærstu sovésku flotahöfnunum, Murmansk og Vladivostok. í yfirlitinu segir, að á árinu 1978 hafi Sovétmenn virst staðráðnir í því að skapa fordæmi í Norð- ur-Evrópu, sem veiti þeim sér- réttindi á mjög hernaðarlega mikilvægu svæði — jafnvel þótt það kynni að spilla sambúðinni við Noreg. Hafi Sovétmenn árangurslaust krafist sérstakrar viðurkenningar á öryggishags- munum sínum, þegar sovésk flugvél fórst á Svalbarða í ágúst 1978. Á umdeilda svæðinu á Barentshafi, þar sem bæði ríkin hafa uppi kröfur um yfirráð, hafi Sovétmenn leitast við að móta sérreglur sér til handa til að fylgjast með búnaði skipa og ferðum þeirra, enda þótt hér væri um að ræða brot á sam- komulagi milli þjóðanna. Og á Svalbarða hafi Sovétmenn reist öfluga ratsjárstöð án samráðs við norsk yfirvöld, sem fara með stjórn eyjunnar, en samkvæmt alþjóðasamningi er bannað að reisa þar nokkur hernaðarmann- virki eða hafa her. Hernaðarlegur áhugi Sovétmanna á næsta nágrenni sínu og virð- ingarleysi fyrir pólitískum af- leiðingum hans, hafi þó jafnvel verið enn greinilegri við austur landamæri Sovétríkjanna. Stefna Sovétmanna hafi borið þess greinileg merki, að þeir ætluðu sér fremur að einangra Japani en friðmælast við þá. Hafi Sovétmenn krafist fisk- veiðasamnings um veiðar á Japanshafi, sem var Japönum mjög óhagstæður, þeir hafi í styttingi neitað að taka til athugunar tilmæli um breytta afstöðu til japönsku Kúrileyja, sem þeir hafa hersetið frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Og Sovétmenn hafi beitt Japani þungum þrýstingi í því skyni að koma í veg fyrir, að þeir undir- rituðu vináttu- og friðarsamning við Kínverja. Hernaðarlegir hagsmunir, sem byggðust á því að hafa svæði undir sovéskum yfirráðum umhverfis sovéskt land, hafi þannig virst vega þyngra en þeir víðtæku hags- munir, sem felast í því að halda góðum tengslum við land, er getur lagt mikið af mörkum til að byggja upp efnahag Sovét- ríkjanna. Jafnvel'sú hætta, að þetta land kynni að efla sam- skiptin við höfuðandstæðinginn Kína, hafi ekki haft sýnileg áhrif. Um aðgerðir Sovétmanna gagn- vart Afghanistan á árinu 1978, þegar þeir beittu nágranna sína í norðri og austri þessum þrýst- ingi, er það að segja, að í apríl var gerð stjórnarbylting í höfuð- borginni Kabúl að undirlagi Kremlverja. Eins og sést á korti því, sem þessari grein fylgir er Afghanistan (647 þús. ferkíló- metrar) við suður landamæri Sovétríkjanna. I vestri á Afghanistan land að íran, í austri að Kína og Pakistan og í suðri er héraðið Balúchistan í Pakistan á milli Afghanistan og Arabíuhafs. í syðsta hluta Afghanistan, suð- austur horni Irans og suðvestur hluta Pakistan búa Balúchistar,. sem eru fimm milljónir að tölu, í fjallahéruðum. Þessi þjóðflokkur er mjög herskár og eru margir höfðingjar við völd meðal hans og berjast þeir jafnt innbyrðis sem við aðra en um langt árabil hafa Balúchistar krafist sjálfs- forræðis. Á seinni hluta nítjándu aldar sýndu Rússar skilning á þessum kröfum með því að koma á fót ræðis- mannsskrifstofum í Balúchistan. Um árabil hefur stjórnin í Pak- istan beitt hervaldi gegn Balúch- istum til að hafa hemil á sjálf- ræði þeirra. Ekki er talið ólík- legt, að Balúchistar fái skjól innan landamæra Afghanistan undir sovéskum yfirráðum til að safna liði og kröftum til sóknar gegn stjórnvöldum í Pakistan. Sameinist Afghanistan og Balú- chistan með einhverjum hætti rætist gamall draumur valda- manna í Moskvu, því að þá fengju þeir höfn við suðurlanda- mæri ríkis síns, Gwadar við Arabíuhaf. Sovéski flotinn hefði þá fengið heimahöfn í heitu, suðrænu hafi, andspænis Arab- íuskaga og við mestu olíuflutn- ingaleið veraldar, þaðan sem loka mætti siglingaleiðinni til og frá Persaflóa. ★ Afghanistan er í norðurjaðri þess heimshluta utan Evrópu, þar sem bæði Vesturlönd og Sovét- ríkin hafa mestra hagsmuna að gæta. Þá eiga Kínverjar land að Afghanistan og þeir hafa látið málefni landsins til sín taka. Olíulindirnar við Persaflóa og aðgangur að þeim skipta sköpum fyrir Vesturlönd. Upplausnin í Iran hefur þegar valdið gífur- legri spennu á þessu svæði. Sovéskt hernám í Afghanistan getur bæði táknað, að Kreml- verjar hafi ákveðið að færa út kvíarnar og auka land sitt og að stjórn marxista í Afghanistan hafi skapað svo mikla ólgu meðal Múhameðstrúarmanna í landinu, að Rauði herinn hafi verið sendur á vettvang í því skyni að koma í veg fyrir að andstaðan næði til Múhameðs- trúarmanna innan landamæra Sovétríkjanna. Tugir þúsunda sovéskra hermanna eru nú í Kabúl höfuðborg Afghanistan. Jimmy Carter Bandaríkjaforseti hefur sagt í harðorðustu orðsendingu, sem hann hefur sent Leonid Brezh- nev leiðtoga Sovétríkjanna á stjórnarferli sínum, að herflutn- ingarnir til Afghanistan og her- taka landsins séu alvarleg ógnun við heimsfriðinn. Með þessum aðgerðum hafa Sovétmenn í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar sent her- afla til valdbeitingar í landi, sem ekki á aðild að Varsjárbandalag- inu. En 1956 bældu sovéskir hermenn niður uppreisnina í Ungverjalandi og 1968 voru þeir í fylkingarbrjósti herafla Var- sjárbandalagsins, sem réðist inn í bandalagsríkið Tékkóslóvakíu og bældi niður frjálsræðisöflin. Sambúð Pakistana og Bandaríkja- manna hefur verið stirð síðustu ár og dró bandaríska stjórnin úr efnahagsaðstoð við Pakistani á valdatíma Ali Bhutto. Trúareld- móður Múhameðstrúarmanna, sem ekki hefur síður komið fram í Pakistan en íran hefur beinst gegn Bandaríkjamönnum. Ekki er unnt að bera ástandið í Pakistan og íran á nokkurn hátt saman og ræður þar mestu, að Pakistanar aðhyllast ekki sömu grein Múhameðstrúar og meiri- hluti írana. Þá hefur Zia-ul Haque forseti Pakistan góða stjórn á landinu miðað við allar aðstæður. Hann hefur getað bætt sambúðina við Bandaríkin og vegna hernáms Afghanistan hefur stjórnin í Washington ákveðið að hraða flutningum á hergögnum og öðrum nauðsynj- um til Pakistan. Milli Pakistana og Kínverja hefur jafnan verið góð vinátta. Studdu Kínverjar Pakistani í styrjaldarátökum þeirra við Indverja 1965 og 1971. Talið er víst, að Zia forseti hafi leitað til Kínverja í viðleitni sinni til að komast yfir kjarn- orkuvopn, eftir að Frakkar féllu frá áformum sínum um að selja Pakistönum kjarnaofna. Ekki hefur ávallt verið friðsamt milli Afghana og Pakistana. Hafa þeir deilt um yfirráð yfir Pakhtuistan, þar sem íbúar eru um tvær og hálf milljón, en héraðið er á norður landamær- um ríkjanna. Pakhtunar eða Pathanar, sem flestir eru Mú- hameðstrúar, samþykktu 1947, að land þeirra yrði innlimað í Pakistan. í þessari landamæra- deilu hafa Sovétmenn og Ind- verjar stutt málstað Afghanist- an en Kínverjar veita Pakistön- um lið. ★ Afghanistan er mjög frumstætt land. 60% af 17 milljón íbúum landsins draga fram lífið á landbúnaði. íbúar höfuðborgar- innar Kabúl eru um 700 þúsund. Þjóðfélagsskipanin er stöðnuð og lénsherrar ráða lögum og lofum á landsbyggðinni, þar sem al- múginn er ólæs og hjátrúarfull- ur. Um miðjan sjötta áratug þessarar aldar komust Sovét- menn til verulegra ánrifa á stjórn landsins, þegar þeir tóku að sér að láta Afghönum í té vopn, eftir að Bandaríkjamenn höfðu hafnað tilmælum þeirra vegna landamæradeilu við Pakistani. Liðsforingjar í her Afghanistan voru sendir til að læra hernað í Sovétríkjunum og dvöldu sumir þar í mörg ár. Síðustu 20 til 25 ár hafa Sovét- menn veitt landinu meiri efna- hagsaðstoð en nokkur annar. Samhliða því hafa sovéskir ráðgjafar verið sendir til starfa í ráðuneytum og stjórnarstofnun- um í Kabúl. Múhameð Daoud forseti Afghan- istan ,sem var af Múhameð Zai ættbálknum, er stjórnað hafði landinu í meira en 200 ár, var Sovétmönnum leiðitamur og stóð ekki í vegi fyrir tilraunum til að umbreyta þjóðfélaginu með aukinni iðnvæðingu. En Sovétmenn réðu ekki stjórnar- stefnunni í einu og öllu. Á síðustu stjórnarárum Daouds leitaðist hann við að ná friði við nágrannarikin. Ilann féll frá landakröfum á hendur Pakistön- um og þáði aðstoð frá íranskeis- ara. Utanríkisstefna Daouds ein- kenndist af einlægum vilja hans til þátttöku í samstarfi þeirra þjóða, sem standa utan hernað- arbandalaga við risaveldin. í miklum götubardögum í Kabúl 27.-28. april 1978 tóku komm- únistaflokkarnir tveir í Afghan- istan, Percham og Khalq, völdin í sínar hendur. Daoud og fjöl- skylda hans voru myrt. Sovét- menn neituðu allri aðild að byltingunni en viðurkenndu nýju stjórnina strax og sendu við- skiptanefndir og ráðgjafa í stór- um hópum til landsins. Við embætti forseta tók Noor Mú- hameð Tarakki, skáld og fyrrum blaðafulltrúi við sendiráð Afghani-stan í Washington. Utanríkisráðherra nýju stjórn- arinnar var Hafizullah Amin, og var hann talinn hinn raunveru- legi foringi byltingarmanna. Tarakki og Amin voru í Khalq flokknum og sögðu það markmið sitt að skapa nútímalegt sósí- alískt þjóðfélag í landinu. 5. desember 1978 undirritaði Tar- akki 25 ára vináttu- og samvinn- usamning við Sovétríkin við há- tíðlega athöfn í Mosvku ásamt Leonid Brezhnev. í samningnum er meðal annars ákvæði um samvinnu á sviði hermála og hefur hann almennt verið túlk- aður, sem enn eitt skrefið í átt til undirgefni Afghana undir Sovétríkin. Nýja stjórnin reyndi að halda frið við leiðtoga Múhameðstrúar- manna og Khalq-flokkurinn hef- ur ekki kennt sig við marxisma- lenínísma af ótta við að æsa með því til frekari mótþróa meðal trúarleiðtoga. Hins vegar tók nýja stjórnin upp rauðan fána sem flagg Afghanistan tveimur vikum eftir valdatöku sína og þurrkaði út græna litinn, sem er hefðbundinn hjá Múhameðstrú- armönnum. Þá voru foringjar hins kommúnistaflokksins Percham sendir úr landi og og sumir gerðir af sendiherrum, þótt þeim væri fljótlega vísað úr embætti. Meðal þeirra var Babrak Karmal fyrrum foringi Percham flokksins. Noor Múhameð Tarakki forseti var sviptur völdum 16. septem- ber 1979 og lést hann skömmu síðar. Hafa fregnir ekki verið samhljóða um það, hvernig dauða hans bar að en við völdum tók Hafizullah Amin utanríkis- ráðherra í stjórn Tarakkis og flokksbróðir hans. Þótt Tarakki hafi verið hampað mjög sem vini Sovétríkjanna í fjölmiðlum þar á valdatíma hans, skýrðu þeir aldrei frá dauða hans. Hafizullah Amin var við völd til 27. desember s.l., þegar honum var steypt af stóli og myrtur ásamt fjölskyldu sinni. Samhliða valdaráninu hófu Sovétmenn gífurlega liðsflutninga sína til landsins og er talið fullvíst, að Amin hafi samþykkt þá áður en honum var rutt úr vegi. í stað Amins skipuðu Kremlverjar Babrak Karmai forseta Afghan- istan. Samkvæmt fregnum breska útvarpsins um helgina veit enginn hvar Karmal er niðurkominn og er jafnvel talið líklegt, að útvarpsávarp það sem hann flutti við valdatöku sína, hafi verið sent frá Sovétríkjun- um. Karmal hefur ekki sést í Kabúl að sögn vestrænna sendi- ráðsmanna og enginn úr stjórn hans hefur komið fram opinber- lega. Á þessu stigi er ógjörningur að sjá fyrir hvaða afleiðingar hernám Sovétríkjanna á Afghanistan hefur. Leiðtogar Múhameðstrú- armanna, sem stofnað hafa leynihreyfingu er berst með vopnum gegn útbreiðslu sósíal- ismans í landinu, hafa ekki verið kúgaðir fram til þessa. Tugir þúsunda sovéskra hermanna hefðu ekki verið fluttir til Kabúl nema ætlunin sé að láta vopnin tala. Láta Kremlverjar sér nægja að brjóta á bak andstöðu innan landamæra Afghanistan? Eða ætla þeir sér stærri hlut? Verður gamla þrætan við Pak- istani endurvakin? Hvað með Balúchista og sóknina suður að Arabíuhafi? Upplausnin í íran freistar valdhafanna í Moskvu. Þeir eiga landamæri að Azer- baijan-héraði í íran, þar sem andstaðan gegn Khomeini er áköfust. Nú geta þeir auðveld- lega beitt tangarsókn gegn íran. Samhliða hernaðaríhlutuninni í Afghanistan hafa Sovétmenn að sjálfsögðu hafið mikla áróðurs- sókn. Frá fréttaþjónustunni Novosti á íslandi barst Morgun- blaðinu í gær grein, sem ber yfirskriftina: Afghanistan: Framtíð byltingarinnar í hönd- um fólksins. Greinin hefst á þessum orðum: „Hin nýju stjórnvöld í Afghanist- an bera umhyggju fyrir mann- eskjunni, að vernda líf hennar og frelsi og sigra byltingarinnar fyrir utanaðkomandi íhlutun. Næsta daga eftir að hinni ólýð- ræðislegu stjórn Hafizuallah Amin var steypt af stóli voru dyr fangelsanna opnaðar fyrir póli- tískum föngum...“ Sovétmenn líta sem sé á sig eins og nýja herra í Afghanistan en ekki utanaðkomandi aðila, er hlutast til um málefni landsins. I því efni bera þeir fyrir sig öryggishagsmuni Afghanistan og eigið öryggi eins og það er skilgreint í vináttusamningi ríkjanna, sem undirritaður var í desember 1978. Bj.Bj.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.