Morgunblaðið - 27.02.1981, Síða 18
18
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 27. FEBRÚAR 1981
ingi bráðabirgðalaga þeirra, sem sett voru um hina
íslenzku utanríkisþjónustu. I öðru lagi var unnið að
samningu leiðbeiningarbókar fyrir starfsmenn utanríkis-
þjónustunnar og í þriðja lagi var tekin saman skrá um
gildandi samninga íslands við erlend ríki. Með þessari
starfsemi var lagður grundvöllur að hinni íslenzku
utanríkisþjónustu, og kom þar að góðu gagni hin mikla
reynsla sem Sveinn Björnsson hafði öðlast í sendiherra-
starfinu undanfarin tuttugu ár, enda býr utanríkisþjón-
usta okkar enn að því grundvallarstarfi, sem Sveinn
Björnsson vann á þeim tiltölulega stutta tíma sem hjer
var um að ræða.
Sveinn Björnsson tókst mikinn vanda á hendur, er
hann gerðist fyrsti sendiherra, sem íslendingar eignuðust
og hann átti allra manna mestan þátt í því að móta
utanríkisþjónustuna sjálfum sjer til mikils sóma og
þjóðinni til mikils gagns.
En nú var þess skammt að bíða að Sveini Björnssyni
væri falið miklu þýðingarmeira og virðulegra starf í þágu
lands og þjóðar og hefst með því þriðji og síðasti
þátturinn í hinu mikla og merka æfistarfi hans.
Þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillöguna vor-
ið 1940, sem getið er hjer á undan um meðferð
konungsvaldsins og fól það ríkisstjórninni allri, var hjer
um hreina bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Mönnum var
líka ljóst, að þetta var ekki heppilegt fyrirkomulag, sem
vel gat valdið erfiðleikum ekki sízt í sambandi við
stjórnarmyndanir, og því voru á Alþingi 1941 samþykkt
lög um ríkisstjóra íslands, er fara skyldi með konungs-
valdið fyrst um sinn. Lög þessi gengu í gildi hinn 17. júní
þetta sama ár og þann dag kaus Alþingi Svein Björnsson
í ríkisstjóraembættið. Ríkisstjóri var kjörinn til eins árs
í senn og var Sveinn Björnsson endurkjörinn bæði árin
1942 'og 1943. Þegar næst skyldi gengið til kjörs á
þjóðhöfðingja íslendinga var Alþingi búið að samþykkja
stjórnarskrárbreytinguna í sambandi við stofnun lýð-
veldisins hinn 17. júní 1944 og kaus þingið þá Svein
Björnsson samdægurs fyrsta forseta landsins, svo sem
kunnugt er.' Eftir það hefur forseti íslands verið
þjóðkjörinn, og var Sveinn Björnsson sjálfkjörinn þau tvö
skipti sem um það var að ræða á æfiskeiði hans, þ.e. árin
1945 og 1949. Það má af þessu glöggt sjá, að þjóðin stóð
einhuga um Svein Björnsson. Hann hafði á þessum árum
í raun og sannleika orðið sameiningartákn þjóðarinnar.
Þegar Sveinn Björnsson hafði verið kjörinn ríkisstjóri í
fyrsta sinn flutti hann á Alþingi ávarp til þjóðarinnar og
mælti þá m.a. á þessa leið.
„En framar öllu öðru lít jeg á starf mitt sem þjónustu
við heill og hag íslenzku þjóðarinnar, þjónustu við
málstað íslendinga, hvað sem fram undan kann að vera.
Það er því ásetningur minn að leggja fram alla krafta
mína, andlega og líkamlega, til þess að sú þjónusta megi
verða landi mínu og þjóð til sem mestra heilla.“
Þegar dr. Sigurður Nordal gaf út endurminningar
Sveins Björnssonar árið 1957 voru þessi orð sett framan
við útgáfuna, og má óhætt segja, að það hafi verið vel
ráðið. Sveinn Björnsson lagði oft á það áherzlu í ávörpum
sínum til þjóðarinnar, sem hann lagði mikla alúð við að
semja, að hann liti fyrst og fremst á starf sitt sem
þjónustu við hana, eins og hann hafði komizt að orði í
fyrsta ávarpinu.
A það hefur verið minnzt, að Sveini Björnssyni hafi
verið mikill vandi á höndum, er hann tók við embættinu
sem fyrsti sendiherra íslands, en það átti ekki síður við,
er hann varð fyrstur íslendinga þjóðhöfðingi landsins.
Hann þurfti að byggja upp og móta alla starfsemina frá
grunni, og má þeim mönnum vera það ljóst, sem eitthvað
til slíkra mála þekkja, hversu vandasamt starf hjer var
um að ræða og hverso mikið var hjer í húfi. En það mun
flestra mál, að þetta vandaverk hafi Sveini Björnssyni
farið vel úr hendi og stendur þjóðin öll í mikilli
þakkarskuld við hann fyrir þetta brautryðjandastarf,
eins og svo margt annað, sem hann vann þjóð sinni á
hinum langa og gifturíka starfsferli.
Enginn getur þó gert svo öllum líki. Frá ríkisstjóra-
tímabilinu minnist sá sem> þetta ritar tveggja mála er
Sveinn Björnsson hafði afskipti af og ágreiningur varð
um og sem urðu orsök til nokkurs skoðanamunar.
Hið fyrra þessara mála var skipun utanþingsstjórnar-
innar í desember 1942. Eftir haustkosningarnar í október
kom Alþingi saman til funda hinn 14. nóvember og á
ríkisstjórnarfundi, sem haldinn var þennan dama dag,
baðst Ólafur Thors lausnar fyrir minnihlutastjórn sína,
eins og ráðgert hafði verið þegar lokið væri kosningum til
Alþingis samkvæmt breyttri kjördæmaskipun, sem
Alþingi hafði samþykkt fyrr á árinu. Ríkisstjóri veitti
ráðuneytinu lausn, en bað ráðherrana að gegna áfram
störfum þangað til ný stjórn hefði verið mynduð.
Rúmsins vegna er ekki hægt að rekja hjer þær
stjórnarmyndunartilraunir, sem nú hófust, nema í
stórum dráttum. Þess skal aðeins getið, að vegna hins
alvarlega ástands í efnahagsmálum var fyrst reynt að
mynda stjórn með stuðningi allra fjögurra þingflokk-
anna. Tilnefndi hver flokkur tvo menn til viðræðna í því
skyni. Hinn 7. desember tilkynnti þessi átta manna nefnd
ríkisstjóra, að hún teldi ekki möguleika á myndun
fjögurra flokka stjórnar. Ríkisstjóri fól þá Haraldi
Guðmundssyni, forseta sameinaðs Alþingis að reyna að
mynda stjórn og hann kannaði myndun þriggja flokka
stjórnar, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sósíalista-
flokk?, en það reyndist ógerningur. Þá kom upp
hugmyndin um embættismannastjórn til bráðabirgða eða
utanþingsstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki fallizt á
slíkt og taldi það vanvirðu fyrir Alþingi og þingflokkana
ef þessir aðilar gætu ekki uppfyllt þær skyldur sem
stjórnarskráin og þingræðisreglan leggðu þeim á herðar.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, undir forystu Ólafs
Thors, vildi nú gera lokatilraun til stjórnarmyndunar og
fjekk til þess stuttan frest, en allt kom fyrir ekki.
Ríkisstjóra Sveini Björnssyni þótti sem nú væri
þrautreynt af hálfu Alþingis og stjórnmálaflokkanna um
skipun þingræðisstjórnar, auk þess sem ástandið í
Frá sendiherra-
árunum. Myndin er tekin
i London 1933.
efnahagsmálunum væri þannig, að óforsvaranlegt væri
að láta myndun nýrrar ríkisstjórnar bíða öllu lengur og
ákvað því skipun hinnar svonefndu utanþingsstjórnar
hinn 16. dsember með dr. Björn Þórðarson sem
forsætisráðherra. Var þessi skipun tilkynnt Alþingi
samdægurs.
Þessi ráðstöfun ríkisstjóra var mjög umdeild. Gagn-
rýnin hefur þó ekki byggzt á því, að ríkisstjóri hafi með
þessu gert eitthvað annað en það, sem löglegt var og hann
hafði fulla heimild til samkvæmt valdastöðu sinni, enda
er það óumdeilanlegt, að það vald hafði hann, heldur
hefur frekar verið deilt á ríkisstjóra út frá því sjónarmiði
hvort það hafi verið pólitískt rjett að skipa utanþings-
stjórnina. Því hefur t.d. verið haldið fram, að ekki hafi
verið búið að reyna til þrautar, hvort hægt hefði verið að
mynda þingræðisstjórn og að embættismannastjórn
hefði getað farið með völd um tíma, á meðan haldið hefði
verið áfram samningsumleitunum. Ennfremur hefði
verið hugsanlegt, að t.d. minnihlutastjórn hefði farið með
völdin um sinn, eins og oft hefur verið tíðkað í
nágrannalöndunum.
Um það má sjálfsagt lengi deila hvaða aðferð sje rjett
að viðhafa, þegar eins stendur á og hjer var um að ræða,
og hætt við, að sitt sýnist hverjum. Þáð hefur oft komið
fyrir, að lengi hefur dregist að mynda stjórn og lengur en
hjer var um að ræða, án þess að til skipunar
utanþingsstjórnar hafi komið. Hinsvegar virtist, þegar
utanþingsstjórnin var skipuð í desember 1942, að útilokað
væri að mynda þingræðisstjórh, og hinu má heldur ekki
gleyma, að knýjandi þörf var á því að stöðva verðbólguna
og gera tafarlaust ráðstafanir gegn hinni geigvænlegu
dýrtíð. Allt þetta mun Sveinn Björnsson vafalaust hafa
haft í huga og metið, er hann tók ákvörðun um skipun
utanþingsstjórnarinnar.
Hitt málið, sem hjer er um að ræða, var tillaga sem
ríkisstjóri sendi til forseta sameinaðs Alþingis með
brjefi, dags. 21. janúar 1944, um þjóðfund til afgreiðslu á
málinu um stofnun lýðveldisins. Á Alþingi höfðu verið
kjörnar sjerstakar nefndir til að athuga fyrirliggjandi
tillögur um niðurfellingu sambandssáttmálans við Dani
um frumvarp til lýðveldisstjórnarskrár. Taldi ríkisstjóri
sjer skylt að vekja athygli á því, hvort ekki mundi
heppilegt, að nefndir þessar athuguðu jafnframt hvort
tiltækilegt þætti, að Alþingi gerði ráðstafanir til þess, að
hvatt yrði til sjerstaks þjóðfundar um þessi mál. Færði
ríkisstjóri mörg rök fyrir tillögu sinni en aðaláherzluna
lagði hann á það, að einskis mætti láta ófreistað til þess
að skapa einhug meðal þjóðarinnar um lausn skilnaðar-
og lýðveldismálsins og til þess áleit hann þjóðfund vel til
fallinn. Þannig stóð þá á að nokkur skoðanamunur var
upp kominn um lausn þessara mála, þ.e. hvernig og
einkum hvenær leysa ætti þau með tilliti til hernáms
Danmerkur.
Þessi hugmynd um þjóðfund varðandi lýðveldismálið
var ekki ný. Hún kom fram árið 1942 og var þá nokkuð
rædd og hafnað. En brjef ríkisstjóra var hans eigið
persónulega álit eða tillaga, sem var borin fram án
samráðs við ráðuneytið eða einstaka ráðherra eftir því
sem dr. Björn Þórðarson hefur skýrt frá, enda er þess
getið í brjefinu sjálfu.
Eins og við mátti búast vakti þetta brjef ríkisstjóra
töluvert míkla athygli og kom hik á marga við það. Eins
og fram var tekið gekk honum fyrst og fremst til að skapa
samstöðu um lausn þessa þýðingarmikla máls og það var
líka sannarlega mikilsvert atriði. Á hinn bóginn var
Alþingi búið að marka þá stefnu sem-fylgja skyldi og auk
þess var ríkisstjórnin búin að lýsa því yfir, að hún myndi
framfylgja vilja Alþingis og ákvörðunum að svo miklu
leyti sem málið og framkvæmd þess kæmi til hennar
kasta. Yfirgnæfandi meirihluti Alþingis vildi ekki kvika
frá þeirri stefnu í málinu sem þegar hafði verið ákveðin.
og þá var einmitt verið að fjalla um í þinginu þessa
dagana. Lýðveldisnefnd Alþingis samdi samkvæmt þess-
ari stefnu ítarlega greinargerð um afstöðu þingsins til
brjefs ríkisstjóra og var hún síðan afhent honum hinn 29.
janúar. Þetta mál um þjóðfund kom ekki til frekari
umræðu eða meðferðar á Álþingi.
Að öðru leyti minnist sá sem þetta ritar ekki annarra
mála á valdatímabili Sveins Björnssonar, sem vakið hafi
nokkurn ágreining. Þvert á móti varð hann fljótt til þess
að sameina þjóðina um mörg þau mál sem deilum og
sundrungu ollu, og kom það hugarfar og sá vilji ekki sízt
fram í ræðum og ávörpum sem forseti flutti við ýmis
tækifæri, eins og áður hefur verið vikið að.
Sveinn Björnsson var ekki síður sem forseti en hann
hafði verið sem sendiherra mikilsvirtur ráðunautur
ríkisstjórna og einstakra ráðherra. Oft var leitað til hans
ef vandasöm mál komu upp, ekki sízt í sambandi við
öryggismál landsins. Var alltaf hlustað á það með
athygli, sem hann hafði til málanna að leggja og þótti
hann hollráður í betra lagi engu síður en áður fyrr er
hann á málaflutningsárum sínum gaf viðskiptavinum
sínum álit sitt á málum þeirra.
Á þessum árum ferðaðist Sveinn Björnsson töluvert,
bæði heimsótti hann flest hjeröð landsins og fór nokkrum
sinnum til útlanda. Á ferðum sínum um landið kom enn í
ljós hversu auðvelt hann átti með að umgangast fólk og
laða það að sjer. Vinsældir hans urðu því meiri sem hann
heimsótti fleiri staði, og væntanlega hefðu ferðir hans
um landið orðið ennþá fleiri, ef hann hefði þá ekki verið
farinn að finna töluvert til þess sjúkdóms sem olli
vanheilsu hans síðustu árin sem hann lifði, en hann var
þá oft meira þjáður en margan grunaði.
Á eitt ferðalag Sveins Björnssonar til útlanda langar
mig að minnast lítilsháttar, því mjer var falið að fara
með honum, þar sem utanríkisráðherra Bjarni Bene-
diktsson átti ekki heimangengt eins og á stóð vegna
stjórnmálaástandsins. í april 1947 andaðist Kristján
konungur tíundi. Hann var sem kunnugt er síðasti
konungur íslands og þegar frjettin um lát hans barst
hingaö til lands fannst Sveini Björnssyni það vera skylda
sín sem forseta íslands að vera við útför konungs.
Ríkisstórnin var dálítið hikandi við slíkt ferðalag sem
þetta svo stuttu eftir viðskilnaðinn við Dani og stofnun
lýðveldisins, og var áhyggjufull út af því hvers konar
viðtökur forseti íslands kynni að fá í Danmörku. En
Sveinn Björnsson ljet engan bilug á sjer finna. Þetta var
ferð sem hann sem forseti varð að fara.
Það er skemmst frá því að segja, að forseta íslands var
ákaflega vel tekið af öllum sem hann hitti, fyrst og
fremst af Alexandrine drottningu og hinum nýju
konungshjónum, Friðriki konungi og Ingiríði drottningu.
Það var greinilegt að þau voru mjög þakklát og hrærð
yfir þeirri hugulsemi sem forseti íslands sýndi minningu
hins látna konungs, en hjer má líka nefna það, að Sveinn
Björnsson var í vináttutengslum við konungsfjölskylduna
frá sendiherraárunum. Þarna var sannarlega engan kala
að finna til þjóðhöfðingja íslands eða íslenzku þjóðarinn-
ar. Sama er mjer óhætt að segja um dönsku ráðherrana,
að þeir tóku forseta jafn alúðlega og konungsfjölskyldan
og sýndu honum fyllilega þann sóma og virðingu sem
þjóðhöfðingja bar.
Jeg vil aðeins geta þess til viðbótar, að kvöldið sem
Sveinn Björnsson fór frá Danmörku var ferð hans heitið
til Stokkhólms með næturlest, en þar ætlaði hann að leita
sjer læknishjálpar við sjúkdómi sínum, en þá buðu
konungshjónin honum til kvöldverðar þar sem hann var
eini gesturinn auk mín. Konungur fylgdist með því hvað
tímanum leið og þegar kom að brottfarartíma lestarinnar
fylgdi hann forseta á stöðina þar sem þeir kvöddust
innilega og með miklum virktum. Þetta var falleg
framkoma af konungs hálfu sem Sveini Björnssyni þótti
mjög vænt um.
XXX
Ekki verður skilizt svo við minningu Sveins Björnsson-
ar að ekki sje getið hinnar mikilhæfu konu hans frú
Georgíu Björnsson. Hún stóð við hlið manns síns í hinu
umsvifamikla starfi hans og hjelt uppi risnu heimilis
þeirra af miklum dugnaði og myndarskap, hvort sem það
var í Kaupmannahöfn eða á Bessastöðum. Hún var
indælis kona, skörungur og elskuleg í senn. Á Kaup-
mannahafnarárunum voru þeir ófáir sem leituðu til
hennar ef þeir þurftu á einhverri aðstoð að halda. Áttu
margir hauk í horni þar sem sendiherrafrúin var. Frú
Georgía er og verður þeim ógleymanleg sem kynntust
henni.
í október 1951 kom Sveinn Björnsson til London til að
leita lækninga við sjúkdómi sínum, sem þá var farin að
þjá hann allmikið. Hann gekk þar undir uppskurð, sem
þótti takast vel og dvaldi þarna síðan um tíma til að ná
sjer. Jeg var þá starfandi í London og heimsótti hann svo
til daglega á sjúkrahúsið og varð ekki annars vart en
hann smá hresstist og þegar jeg kvaddi hann í Leith um
miðjan desember, er hann hjelt heim til íslands með
Gullfossi var ekki annað að sjá en hann ætti eftir að
starfa lengi og vel fyrir þjóðina. En það átti ekki svo að
fara. Rúmum mánuði síðar var hann dáinn. Andlát hans
bar að aðfaranótt hins 26. janúar 1952.
Á þessum degi þegar liðin eru hundrað ár frá fæðingu
Sveins Björnssonar munu íslendingar minnast eins hins
mikilhæfasta sonar íslands á þessari öld, hins fyrsta
forseta lýðveldisins. Hann vann alla æfi ósleitilega að
málefnum þjóðar sinnar, þeim sem til framfara horfðu.
Hann hafði það eitt fyrir leiðarstjörnu að vinna landi
sínu og þjóð, sem hann unni svo heitt, allt það sem hann
gat og með öllum þeim krafti og atgerfi sem hann átti til.
Ágnar Kl. Jónsson.