Morgunblaðið - 07.11.1982, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 07.11.1982, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 7. NÓVEMBER 1982 51 Eigendur bréfanna, Helga Jóna Ásbjarnardóttir og Birna Torfadóttir (Lilla Hegga óg Bidda systir), ásamt Hirti Pálssyni, sem bjó bréfin til birtingar í bók Vöku. Ljósm.: Jóhannes Long. Það er leiðinlegt, ef hann skyldi verða dáinn, áður en seinna bindið af Sálminum kemur út í haust. Það er svo mikið talað um búðina hans, að hann mundi líklega senda þér stóra súkkulaðsköku ef hann lifði. Ess! Þinn sögusegjari og þjóð- sagnalesari og ævisöguskrifari Sobbeggi afi. Þú skrifar mér uððitað. „Ljótu sveitirnar“ bar oft á góma í „Sálminum um blómið", en þær voru þeir dvalarstaðir annars heims, þar sem bréfritarinn áleit, að framliðnir þráagemlingar yrðu að dveljast mislengi á leiðinni til þroskans. Skýringin á myndastríðinu var sú, að Katla Ólafsdóttir lækna- rannsóknakona var dóttir Mar- grétar, en kjördóttir Ólafs Ólafs- sonar, síðast yfirlæknis á Sólvangi í Hafnarfirði. Þegar bréfið var skrifað, var Katla nýgift Ragnari Björnssyni tónlistarmanni. Eldri dóttir þeirra, Sigrún, hafði fæðst 31. maí. Mammagagga og Sobb- eggi voru ekki á eitt sátt um það, hvort myndin af Kötlu eða Lillu Heggu ætti að skipa. heiðurssæti í stofunni. Lillu Heggu var það töluvert alvörumál, þegar hún var lítil, hvað hún ætti að erfa eftir Mömmugöggu. Hún hafði lofað Lillu Heggu fallegum hring, en Sobbeggi afa grunaði, að Katla gæti af augljósum ástæðum orðið litlu manneskjunni skeinuhætt í erfðamálunum og spaugaði oft með það. Sögnina „rykkrussa" notaði Lilla Hegga um það, sem aðrir kölluðu að ryksuga, og heimilis- tækið, sem til þess var notað, nefndi hún „rykkrussu". Öll skip og bátar hétu „lassfossar" á henn- ar máli, en umbasyst" var mjólk. Glausa og hennar fólk kemur talsvert við sögu í bréfunum. Hún var vandabundin fjölskyldu Helgu, hafði átt heima í Mela- hverfinu, en var flutt í Austur- bæinn, þegar bréfið var skrifað. Helga hafði oft séð hana með slaufu í hárinu, en slaufu kallaði hún einmitt „glausu", og af því er nafnið dregið. Fyrra bindi „Sálmsins um blóm- ið“ hafði komið út árið áður en þetta bréf var skrifað. Aidís Dollsdóttir var Herdís Pálsdóttir. Hún er frænka Helgu, dóttir Ölmu systur hennar og fyrri manns hennar, Páls Magnússonar flugmanns, sem fórst á leið heim frá Bretlandi ásamt öðrum Islend- ingi, þegar þeir voru að sækja þangað flugvél vorið 1951. Þegar bréfið var skrifað, var verið að undirbúa byggingu „Vegamóta" á Laugavegi 18. Skáldkonurnar voru Halldóra B. Björnsson og dóttir hennar, Þóra Elfa Björnsson. Þeim, sem fræðast vilja um stytturnar, sem voru Sobbeggi afa mikið tilfinningamál og víða er talað um í bréfunum hér á eftir, má benda á nokkra staði í „Sálm- inum um blómið". Eins og þar kemur fram, varð það snemma siður Lillu Heggu að gefa Þórbergi litlar skrautstyttur eða líkneski í afmælisgjöf og á jólunum. Þær voru með ýmsu móti, og þegar hann dó, var þetta orðið mikið safn. Hann talar um 18 í ársbyrj- un 1961. Líklega hefur hann þó tekið mestu ástfóstri við stelpuna á koppnum, en fyrstu styttuna fékk hann, þegar hann varð 59 ára. Hún er af strák, sem situr með stóra bók á hnjánum og er að lesa. I opnuna hefur Ásbjörn skrifað fyrir dóttur sína: „12/3 ’48 — Til Sobbeggi afa frá Helgu“. Hún segir það stöku sinnum hafa getað brugðist, að Þórbergur fengi styttu í afmælisgjöf eftir þetta, en það brást aldrei á jólunum. Ein af verslunum „Silla og Valda" var í viðbyggingu við ann- að sambýlishúsið við Hringbraut- ina. Og frá þessu cfni i fyrri hluta bók- arinnar víkur sögunni aftur undir lok hennar, allt til ársins 1971. Þar er birt bréf til Biddu systur frá Sobbeggi afa, en á undan því eru þessi aðfaraorð Hjartar Pálssonar: Það var 12. mars 1971, sem Þórbergur byrjaði á lengsta bréfi sínu til Biddu systur, þó að hann lyki því ekki fyrr en nokkuð var komið fram á vor. Hann átti þá meira en þrjú ár ólifuð, en reynd- ist sannspár um, að þetta gæti orðið síðasta bréfið, sem hún fengi frá honum. Hann byrjaði skriftirnar daginn sem hann varð áttatíu og tveggja ára. Þess vegna var ekki nema eðlilegt, að honum yrði hugsað til fæðingar sinnar, en frá henni hef- ur hann sagt í fyrstu minninga- bókinni um Suðursveit. Sjálf- menntáða yfirsetukonan var Oddný Sveinsdóttir á Gerði. Hin var Lússia Þorsteinsdóttir á Reynivöllum, sem lært hafði Ijósmóðurfræði hjá Fritz Zeuthen, lækni á Eskifirði. Hómópatinn var Eyjólfur hreppstjóri á Reynivöll- um, en lærði læknirinn Þorgrímur Þórðarson, sem sat í Borgum í Nesjum. Annars skipa tíminn, dauðinn og einkennileg fyrirbæri tilver- unnar mest rúm í þessu bréfi. Það er eins og hugsunin um eilífðar- málin gerist sífellt ásæknari ásamt afstæðu eðli tímans og hlutanna. Út frá þessu lætur Þórbergur hugann reika í gamni og alvöru. Hann segist hálft í hvoru vera farinn að hlakka til vistaskiptanna og óttast ekki mest að koma til eilífðarlandsins, þar sem hann hefur vafalaust talið sig eiga vísa vist á Bláu eyjunni. En sannindin um endurholdgunina, sem honum höfðu opinberast fyrir meira en fimmtíu árum og hann leit á sem hluta af hringrás nátt- úrunnar, ollu því, að honum var afturhvarfið til jarðarinnar og óvissan um nýtt hlutskipti þar þyrnir í augum. Öll þessi óvissa hafði hins vegar þann kost fyrir lesandann, að spaugarinn í Þór- bergi gat leikið sér í framtíðar- löndunum og ímyndað sér eitt og annað eins og vel sést í bréfinu. Reykjavík, 12. marz 1971. Háæruverðuga Bidda, Bidda systir! I dag er afmælisdagur minn. Þennan mánaðardag, á messu hins heilaga Gregóríusar, er ég með fullri vissu borinn í þennan heim að Hala í Suðursveit. Þessi bær stendur á sérlega fögru og lysti- legu túni, undir háu, rismiklu og myndauðugu fjalli, en til hinnar handar þenur sig breitt lón, sem silungur býr í, af hverjum bæirnir í túninu, Hali, Breiðabólsstaður og Gerði fá góða næringu og heilsu- samlega forfrískun. Fæðing mín gekk hroðalega. Yf- ir móður minni sátu tvær yfir- setukonur, önnur gömul og sjálf- menntuð og spekingur að vitsmun- um, hin lærð hjá dönskum lækni á Eskifirði. Auk þess hómópati. Ennfremur var sóttur lærður læknir, en honum var snúið aftur á miðri leið, því að þá var ég fædd- ur. Það var að áliðnum degi. Sú gamla, sjálfmenntaða, náði mér úr móðurlífi, og tel ég, að ég eigi henni líf mitt að launa. Henni var alltaf boðið heim til okkar á af- mælisdaginn minn og gaf mér þá kringlu og kandísmola og sagði sögur og þuldi margs konar fróð- leik fram á nótt og fór með söngva. Ó að maður ætti slík út- varpskvöld! Hún andaðist 96 ára, á skemmtiferð. Þú skalt eki láta þér koma ókunnuglega fyrir, þó að þetta yrði síðasta bréfið, sem þú færð frá mér hér í heimi. Það gæti svo farið, að ég yrði kominn yfir í ann- an heim fyrir næsta afmælisdag minn. Annars er það dálítið fávís- legt af mér að tala um „annan heim“. Heimurinn er aðeins einn, og lífið er aðeins eitt og óslitið. Dauðinn er fataskipti, kannski jakkaföt í staðinn fyrir duggara- peysu, gæti líka verið duggara- peysa í stað jakkafata, svona í bili. Það liggur við ég sé byrjaður að hlakka til að fara úr duggarapeys- unni. Eg á ýmsum góðum kunn- ingjum að fagna hinumegin, svo sem Árna prófasti Þórarinssyni, Árna Hallgrímssyni, hér í heimi ritstjóra Iðunnar, Jóni Thor- oddsen, sem þýddi með mér tvær bækur og dó af slysi í Kaup- mannahöfn árið 1924, dr. Zamen- hoff, höfundi Esperantos o.fl. Svo líður nú þar ekki langt um, þangað til ég fer að spyrjast fyrir um hana Biddu systur. En þar kann- ast enginn við hana. Hvernig vík- ur þessu við? Kannizt þið ekki við hana Biddu, hana Biddu systur? Nei, þar kannast enginn við hana. Þá fara þeir að leita í manntals- skýrslunum sínum, því að þar hafa þeir manntalsskýrslur eins og hér, þó að þær séu ekki notaðar til að síga yfirvöldunum eins og rökkum á skattþrælana. Þeir fletta doðröntunum. „Engin Bidda systir!" „Guð . í hæstum hæðum! Finnið þið ekki hana Biddu? Hvernig má það vera? Hefur hún hrokkið upp fyrir einhvers staðar á leiðinni til eilífðarlandsins ykk- ar? Eða lent milli þils og veggjar? Ég hef lesið það í áreiðanlegum bókum, frétt það af spíritistafund- um og borizt það úr draumum, að sumt fólk lendi eins og milli þils og veggjar, þegar það fer yfir um, nái hvorki sambandi við fólk hér á jörð né hinumegin, einangrist, og gerir þá boð til fólks hérnamegin, að það biðji fyrir því. Þetta uppá- fellur einkum manneskjur, sem hafa verið „jarðbundnar" hérna- megin grafar og óvanar að sjá Heilagan anda“. Þeir halda áfram að fletta doð- röntunum. „Bidda systir? Bidda systir? Nei, hún finnst ekki hér“. „Jesús minn! Hefur hún virki- SJÁ NÆSTU SÍÐU. Nýjungamar komafrá „ISGRIP" Bridgestone radial snjódekkin eru framleidd úr sérstakri gúmmíblöndu, sem viö nefnum „ÍSGRIP“. „ÍSGRIP" hefur þá eiginleika aö harðna ekki í kuldum, heldur helst þaö mjúkt og gefur þannig sérstaklega góöa spyrnu í snjó og hálku. „ISGRIP“ dekkin eru ennfremur meö sérstyrktum hliöum (Superfiller) sem veitir aukiö öryggi viö akstur á malarveg- um. Vegna þessa henta nýju BRIDGESTONE radial snjódekkin sérstaklega vel á misjöfnum vegum og í umhleypingasamri veöráttu eins og á fslandi. Öryggiö í fyrirrúmi meö BRIDGESTONE undir bílnum 25 ára reynsla á íslandi. (IDOESTONEá Islandi BÍLABORG HF. Smiöshöföa 23, sími 812 99.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.