Morgunblaðið - 06.03.1983, Qupperneq 22

Morgunblaðið - 06.03.1983, Qupperneq 22
22 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 6. MARZ 1983 ERNIRMEÐ ÞRASTARYÆNGI Rætt við Matthías Viðar Sæmundsson um ritgerð hans Mynd nútímamannsins, þar sem fjallað er um þrjú skáldverk Gunnars Gunnarssonar. MYND NÚTÍMAMANNSINS heitir fertugasta og fyrsta ritverkið í ritröðinni Studia Islandica, sem nýlega er komið út og ber hún undirtitilinn, Um tilvistarleg viðhorf í sögum Gunnars Gunnarssonar. Þar er einkum fjallað um þrjú verk Gunnars, sem út komu á árunum 1915 til 1920. Þessi verk eru Ströndin 1915, Vargur í Véum 1916 og Sælir eru einfaldir 1920. í ritinu er fjallað um bakgrunn og rætur þessara sagna og einkanlega þá lífskreppu sem þær bera vott um, orsakir hennar í manni og heimi. Höfundur þessa rits er Matthías Viðar Sæmundsson cand. mag. Verkið er hluti kandidatsritgerðar hans í íslenskum bókmenntum frá vorinu 1980, sem hefur allmikið verið breytt og aukin fyrir þessa útgáfu. Ritgerðin í heild fjallar um tilvistarleg viðhorf í verkum Gunnars Gunnarssonar, Geirs Kristjánssonar og Thors Vilhjálmssonar. Matthías Viðar er 28 ára gamall og hefur kennt undanfarin ár við fjölbrautarskólana í Keflavík og á Selfossi. Einnig hefur hann fengist við stundakennslu í Háskóla íslands. Á liðnu ári var hann lektor í íslensku við háskólann í Rómaborg. Að undanförnu hefur hann skrifað bókmenntagagnrýni í Dagblaðið Vísi. Morgunblaðið spurði Matthías út í ritið og ýmislegt er varðaði rithöfundarferil Gunnars Gunnars- sonar. Skáldskapurinn leið til að lifa af — Hvers vegna vard Gunnar Gunnarsson fyrir valinu, sem viö- fangsefni þessarar ritgerðar? „Steinn Steinar sagði einu sinni að menn yrðu ekki mikil skáld nema þeir kæmust í lífsháska og það eru ótal dæmi sem sýna rétt- mæti þeirra orða. Þórir Jökull var leiddur undir höggið og samdi ódauðlegt kvæði af því tilefni, Dost- ojevski var leiddur fyrir aftökusveit og síðan hafa heimsbókmenntirnar ekki verið samar, Gunnar Gunn- arsson var margoft nær soltinn í hel á leið sinni til skáldskapar, bæði i eiginlegum og óeiginlegum skiln- ingi. Ströndin og verkin sem á eftir komu, eru eins konar sjálfsuppgjör, þar sem skáld glímir við sjálft sig, fortíð sína sem nútíð, og heiminn. Skáldskapurinn er því leið til að lifa af og verða ekki innri upplausn að bráð. Ég hef einfaldlega áhuga á höfundum af þessu tagi. Ennfremur er Gunnar mjög gott dæmi um rit- höfund, sem tvinnar saman næma lífsvitund og góðan skáldskap og það er kannski hans helsta gildi. Hann skrifar upp á líf og dauða um málefni sem skipta miklu fyrir sérhvern mann, um málefni sem skipta kannski öllu og þá breytir engu hvort lesandinn tilheyrir ní- unda áratugnum eða þeim þriðja, erindið er alltaf jafn tímabært. Höfuðástæðan fyrir því að ég fór að athuga þessar bækur er kannski sú, að mér finnst Gunnar eiga er- indi til mín og þá jafnframt til sam- tíðarinnar vona ég, bækur hans eru ekki fornminjar, eins og svo mörg skáldverk, sem voru samin í upp- hafi aldarinnar. Nú það hafði ekki verið gerð nein ítarleg úttekt á þessum sögum, sem ég held þó að séu mjög mikilvægar fyrir höfund- arferil Gunnars, því það er í sögun- um fyrir 1920 sem sá mikli rithöf- undur mótast og verður til, sem við þekkjum í dag. Þar að auki á lífs- skoðun hans, eins og hún birtist í veigameiri skáldsögum, rót sína að rekja til þessara verka." Hvaóa ábyrgð manneskjan ber „Fleira kemur einnig til. Þegar ég valdi mér efni til kandidatsritgerð- ar, þá hafði ég fyrst í huga að skrifa um verk þeirra Geirs Kristjánsson- ar og Thors Vilhjálmssonar, en þeg- ar ég fór að lesa Gunnar ofan í kjöl- inn, þá sá ég ótrúlega margar hliðstæður með honum og fyrr- nefndum höfundum. Þessar hlið- stæður snerta fyrst og fremst lífs- vitundina, upplifun höfundarins á tilvist mannsins. Mér þóttu þessar hliðstæður það forvitnilegar, að ég ákvað að skoða þær í samhengi, skoða bókmenntir um lífsvanda frá ólíkum tímaskeiðum nútímabók- mennta." — Um hvað fjallar Gunnar í sögum sinum frá þessum tíma? „Gunnar fjallar þarna um mál- efni sem hafa verið mjög ofarlega á baugi í nútímabó.kmenntum. Hann skoðar einstaklinginn og stöðu hans í veröldinni, en sú staða er þegar allt kemur til alls ósköp svipuð í dag og hún var 1920. Hann leitar lausnar á lifsvanda, sem mætir hverju mannsbarni enn þann dag í dag, hver tilgangur lífsins sé, hvaða ábyrgð manneskjan beri gagnvart sjálfri sér, öðrum mönnum og lífinu sjálfu. En slík viðfangsefni eru enn áleitnari í dag, en þau voru á þess- um tíma, ef eitthvað er. Auk þess kryfur hann á nútímalegan hátt, vandkvæði sjálfsvitundar á okkar öld. Hann fjallar um ofvöxt vits- munalífs á kostnað tilfinningalífs og afleiðingar þess; túlkir þú lífið í stað þess að lifa því, þá rofna þessi beinu og milliliðalausu tengsl, sem eru nauðsynleg til lífsfyllingar. Þetta kemur vel fram í persónulýs- ingum hans, þessu ógæfufólki sem ekki getur komið heim og saman tilfinningum sínum og vitsmunum eða vilja og getu.“ Á rætur að rekja til norrænnar örlagahyggju — Kveður við nýjan tón í bókum Gunnars, miðað við það sem áður gerði í íslenskum bókmenntum? „Já það tel ég, en samt er um ákveðna tvídrægni að ræða. Gunnar er í senn nýstárlegur og fjarska hefðbundinn í samhengi íslenskra bókmennta. Hann ryður nýjum hugmyndum braut á öðrum áratug aldarinnar og gerir að vissu leyti uppreisn gegn þeirri heimsmynd sem þá réði ríkjum, en engu að síð- ur má rekja lífsskoðun hans aftur til norrænu örlagahyggjunnar, þannig að í verkum hans tvinnast saman forn lífsspeki og nútímalegt lífsviðhorf. Að vísu er örlagahyggja ekki fastmótuð í þessum kreppusög- um sem ég kalla svo, hún tekur á sig fastari mynd síðar. Samt sem áður má sjá hennar merki. Örlaga- hyggjan birtist sérlega í persónu- lýsingum Gunnars, en flestar hans söguhetjur eru reistar á þremur meginstoðum, sem að draga dám af örlaganornunum þremur, Urð, Verðandi og Skuld. Það er ekkert yfirnáttúrulegt í þessari örlaga- hugsun, enda litu heiðnir menn á örlaganornirnar fyrst óg fremst sem táknmyndir fyrir lærdóma, sem þeir drógu af lífinu sjálfu. Kjarni þessarar hugsunar var sá, að sérhver maður bæri ábyrgð á sjálfum sér og athafnir hans réðu því hvort hann gengi götu glötunar eða gæfu. Hver og einn yrði að taka afleið- ingum gerða sinna, gæti ekki hlaup- ist undan ábyrgð á sjálfum sér og lífi sínu, bak við bábyljur trúar- bragða, siðaboða eða einhvers ann- ars. Þessi forna lífsspeki fellur hjá Gunnari saman við nútímalegan þankagang og það er svolítið gaman að sjá þetta órofa samhengi í ís- lenskum bókmenntum." Sprottinn úr jarðvegi raunsæisstefnunnar — Hvað er frekar að segja um bókmenntalegan bakgrunn Gunnars Gunnarssonar? „Gunnar Gunnarsson er sprott- inn úr jarðvegi raunsæisstefnunn- ar, en flest verk hans eru samt í sterkri mótsögn við þá stefnu, sér- staklega natúralismann, sem hafði mikil áhrif á Norðurlöndum, eink- um á seinustu áratugum 19. aldar, en samkvæmt honum hafði um- hverfið afgerandi áhrif á einstakl- inginn. Gunnar Gunnarsson leggur hins vegar mikla áherslu á að mað- urinn geti valið í þess orðs fyllsta skilningi. Maðurinn geti ákveðið sína lífsbraut, vilji hann það. Þessi afstaða til möguleika einstaklings- ins er hinn jákvæði kjarni í kreppu- sögunum. Þrátt fyrir allan böl- móðinn og vonleysið, þá fela þessar sögur í sér jákvæða hugmynd um manninn, sem ég held að eigi fullt erindi til samtíðarinnar. Gunnar hlaut á sínum tíma slæmar viðtökur hér á landi fyrir þessar sögur sínar. Til að mynda var hann gagnrýndur mjög harka- lega í Skírni af Jóni Helgasyni fyrir söguna Ströndina. Jóni fannst Gunnar vera Dölsýnn um of og að verk hans ættu lítið erindi til Is- lendinga. Málið er að Gunnar gerði uppreisn gegn hefðbundnum hug- myndum og storkaði sjálfskilningi manna. Hann hafnaði forsjá trú- arbragðanna, og því „lokaða" siða- kerfi, sem verið hafði bakhjarl manna fyrr á tíð, góðborgararnir hlutu að hneykslast. Tengslin við fortíðina sterk En uppreisnin er alls ekki einráð í hugmyndaheimi Gunnars þrátt fyrir þetta og við sjáum að í verkum hans á sér stað sífelld togstreita. Gunnar er vaxinn upp í íslenskri sveit, mótaður af hefðum hennar og siðfræði og þessi bakgrunnur skín í gegnum allt hans lífsverk. Erlendis uppgötvar hann nýjan heim, sem gefur honum aðra sýn á hlutina og við það verður eins konar sprenging í hugarheimi hans. Þessi togstreita speglast síðan í ákveðinni tví- drægni eða þversögn, sem oft á tíð- um klýfur verk hans og þar á ég ekki aðeins við þessar kreppusögur heldur höfundarverk hans í heild sinni. Annars vegar einkennast verkin af tilvistarlegri fánýtis- kennd, jafnvel vonleysi, en hins vegar skýtur oft upp kollinum rómantískur draumur um samræmi manns og náttúru, þar sem boðað er ákveðið merkingarfullt hlutverk manneskjunnar í eilífðarframrás- inni. Þetta tvennt, játun og neitun, tvinnast saman í verkum Gunnars, enda er forsenda þeirra hin sama; spurningin um dauðann." Getur maðurinn lifað án Guðs? — Svo við víkjum nánar að kreppu- sögunum, hvað er um þessi tilteknu verk aö segja og hvert er hlutverk þeirra í mótun Gunnars sem rithöf- undar? „Við getum sagt að Gunnar sé að leita að lífsskoðun í þessum verk- um, hann er milli vita. Það er ým- islegt sem þar kemur til, persónuleg reynsla hans, hræringar í samfé- Matthfas Viöar Sæmundsson laginu og fyrri heimsstyrjöldin, svo eitthvað sé nefnt. Gunnar er mjög næmur fyrir ytri áhrifum og upp- lausn heimsins endurspeglast mjög greinilega í sálarlífi hans. Viðfangsefni þessara verka er hið sama í rauninni, þó hann nálgist það frá ýmsum hliðum. Kannski má orða það svo að grundvallarspurn- ingin sem hann fæst við sé, hvort maðurinn geti lifað án Guðs. Hann lýsir í öllum verkunum þremur hugsjónamönnum, sem verða hart úti. Óskir þeirra stangast á við veruleikann og einmitt sá árekstur tortímir þeim. Hann lýsir mönnum sem leita staðfestingar á sjálfum sér og nýrra goða, sem komið geti í stað guðsins, sem kirkjan hafði kennt fó|ki að trúa á. Þeir leita víða, en hvar vetna rekast þeir á lokaðar dyr. Bækurnar einkennast allar af ákveðinni bölsýni og þján- ingarfullri lífsvitund um einmana- leik manneskjunnar." Fjarstæðan „Þessari leit að lífsskoðun lýkur með vissum hætti um 1920, því Fjallkirkjan, sem kemur út næst á eftir Sælir eru einfaldir, lýsir manni sem hefur fundið sjálfan sig og gefið lífi sínu ákveðinn tilgang. Þessari leit er þó vissulega ekki með öllu lokið, því að við sjáum að þessi vandamál skjóta upp kollinum í flestum verkum Gunnars síðar, þó svo hann hafi fundið ákveðna stað- festu í örlagahyggjunni. Vandamál guðsleysisins, sálarklofningsins í manneskjunni og merkingarleysis- ins fylgdu honum alla tíð.“ — Þú minnist víða á fjarstæðuna í im mannsins í bókinni. Hver er fjar- stæðan? „Að mati Gunnars getur maður- inn ekki verið til án tilgangs, hann verður að hafa tilgang til að geta skapað og verið til, til að geta lifað. En nú bregður svo við að þessa til- gangs er vant. Menn leita logandi Ijósi, með þeim eina árangri að myrkrið þéttist um sál þeirra. Samt halda þeir áfram eins og Sisyfos, sem velti sínum eilífa steini upp á hæðarbrún, til þess eins að sjá hann sveiflast að nýju í djúpið. Fjarstæða Gunnars kristallast í ákveðinni þverstæðu sem klýfur hugmyndaheim hans. Hún er fólgin I tveimur andstæðum staðhæfing- um. 1 fyrsta lagi krefst rithöfund- urinn þess að maðurinn sé trúr vitsmunum sínum og ljúgi sig ekki frá vandanum með neinu móti. Reisn mannsins er fólgin í að vita og virða sín takmörk. í öðru lagi kemst rithöfundurinn að þeirri niðurstöðu að skynsemin geri lífið óbærilegt. Einungis trú geti sætt manninn við tilveruna. Ergo: mann- eskjan lifir ómögulegu lífi, hún er til án þess að geta það. Þessa þvers- ögn reynir skáldið að leysa í hverju verkinu á fætur öðru, enda er hún kjarni þess lífsvanda sem það á í. Söguhetjur Gunnars bregðast allar við vanda sínum með flótta eða sjálfseyðingu, hver á sinn hátt, þær geta einfaldlega ekki lifað í því víti, sem lífið er þeim án guðs, „sjálfs- morðið" er þeirra eini valkostur. Fjarstæðan á sér náttúrlega fyrst og fremst upptök í meðvitund þeirra, lífsvitundinni. Þær jafnvel elska lífið, en vitund þeirra gerir þeim ókleift að halda áfram að lifa og finna til. í þessu fjarstæðuhug- taki þykir mér Gunnar vera mjög nútímalegur og svipaðar hugmynd- ir birtast síðar á öldinni í verkum manna á borð við Camus og Sartre." Dostojevsky og Gunnar „Annars er það athyglisvert að bera saman Gunnar og stórmeist- ara bókmenntanna, Dostojevsky. Söguhetjur Gunnars í kreppusög- unum eru hver á sína vísu hliðstæð- ur við trúleysingjana í verkum Dostojevskys. Þeirra innri maður er skiptur og rótlaus, sál þeirra er þversagnakennd og klofin á milli ástríðna og göfugra hugsjóna, milli guðsdómsneista og helvítisloga. Þær eru á valdi andstæðnanna, búa yfir fórnfýsi og sérgæsku, auðmýkt og drambi, göfgi og lágkúru. Allt gerjast þetta í þeim í senn og veldur því að þær finna sér ekki stað og geta því síður virkjað vilja sinn til jákvæðra verka. Kjarninn í verkum Gunnars og Dostojevskys er þannig hinn sami. Báðir segja að samræmisleysið í manninum sé afsprengi þess, að hann hafi misst sjónar af hinu al- gilda, að hann hafi týnt „guði“. Þetta neikvæða ástand, þessi vönt- un, leiðir að dómi beggja höfund- anna til sjálfseyðingar. Við getum tekið dæmi um persónur í verkum höfundanna; séra Sturla, Úlfur og Grímur Elliðagrímur annars vegar og Kirilov, Stavrogin og Karamazov hins vegar, fremja allir sjálfsmorð eða verða geðveiki að bráð.“ Upplausnin — Hvað er að segja um ástandið í íslenskum bókmenntum á þessum tíma? „Á fyrstu tveim áratugum þess- arar aldar voru miklar hræringar í íslenskum bókmenntum, nýr tími var að ryðja sér til rúms og fram fór allsherjar endurmat á lífsskoð- un kynslóðarinnar. Hvort sem við lítum til Gests Pálssonar eða Ein- ars Kvaran, þá má greina að ákveð- ið heildarsjónarmið ræður þeirra lífsskynjun. Maðurinn er liður í storri heild og hann hefur sínu ákveðna hlutverki að gegna, hann á sér ákveðinn stað innan samhengis, sem þeir síðan skýra ólíkum nöfn- um. Upp úr aldamótum molnar heimsmyndin og jafnframt brotnar satphengið upp. Við sjáum þessar breytingar hjá ýmsum höfundum þessa tíma, Sigurði Nordal, Jóhanni Sigurjónssyni, Halldóri Laxness og fleirum. Allir þessir menn eru hver með sínum hætti að reyna að fella brotin saman í nýja mynd, skapa

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.