Morgunblaðið - 09.03.1983, Side 8
40
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 9. MARZ 1983
Kvikmyndir
Ólafur M. Jóhannesson
VÍGAMENN
Nafn á frummáli: Raw Force.
Handrit: Adward Murphy.
Tónlist: Walter Murphy.
Myndatökustjóri: Frank John-
son.
Leikstjóri: Edward Murphy.
Tvær ungar og sætar bíða þess að
vera „grillaóar" af hinum helgu
mönnum.
Vígamenn
Stundum er nauðsynlegt að
skreppa í bíó og sjá dellumynd. í
það minnsta kann þetta að vera
sáluhjálparatriði fyrir þann
sem hefir það að atvinnu að
skrifa um bíó. Það er nefnilega
svo að menn geta orðið þreyttir
á að setja sig í gáfulegar stell-
ingar. Mannskepnan er ekki
fullkomin og því skyldum við
krefjast þess að öll hennar verk
nálgist fullkomnun? Ég held að
telja megi þá kvikmynd sem nú
er sýnd í Regnboganum og gegn-
ir nafninu „Vígamenn", dæmi-
gerða dellumynd er gefur góða
innsýn í hugarheim hluta þess
fólks sem byggir Suður-Kali-
forníu. Maður hefir nefnilega
séð gegnum tíðina slatta af svip-
uðum myndum framleiddum í
Suður-Kaliforníu.
En ekki er öll vitleysan eins
og þrátt fyrir að þessi dellu-
mynd líkist um margt öðrum á-
líka kvikmyndum þá er hún um
margt frábrugðin. Fyrst ber að
nefna að kvikmyndatakan er
greinilega í höndum manns sem
lítur á kvikmyndatökuvél ejns
og skammbyssu. í öðru lagi er
myndin klippt af handahófi —
þannig eru greinilega misheppn-
uð myndskeið numin brott án
þess að þau séu endurtekin.
Hvað varðar efnisþráðinn þá er
um að ræða hóp „vígaíþrótta-
garpa" sem leggja af stað ásamt
fríðu föruneyti í hriplekum dalli
frá Suður-Kaliforníu til Aust-
ur-Asíu.
Eins og vera ber dafnar ástin
í slíkri ferð. En þegar hæst
stendur kelerí er ráðist um borð
og kveikt í skipinu. Hrekst hóp-
ur farþega í gúmbát að eyju
nokkurri. Þar er fólkinu boðið
til veislu hjá hópi munka sem
eru gæddir ofurkrafti. En eins
og segir 1 prógrammi
„ ... v e r ð a þeir að gæta sér-
staks mataræðis" til að öðlast
þennan ofurkraft sem nægir til
að vekja til lífs afdankaða
„vígaíþróttagarpa" sem hafa
verið greftraðir á eyjunni. Um
hið sérstaka mataræði munk-
anna segir nánar í prógrammi:
„Þeir (munkarnir) leggja sér
nefnilega mannakjöt til munns,
en vilja þó ekki kjötið af hverj-
um sem er, því að kjöt ungra
kvenna er það eina rétta fyrir
hina helgu menn.“ Ég held að ég
hafi ekki fyrr tekið tilvitnun
beint upp úr prógrammi en einu
sinni er allt fyrst og ástæðan
fyrir því að ég vitna hér í pró-
grammið er á hve fyndinn hátt
er orðaður hinn snarsnúni efnis-
þráður — sem gerir þær kröfur
einar til áhorfandans að hann
nenni að brosa út í annað. Mikið
er annars gott að sjá einstaka
sinnum verk sem gera ekki
meiri kröfur til manns en popp-
kornið sem selt er í anddyri
bíósins. Hitt er svo aftur annað
mál að stundum er poppkornið
óætt — hér var það öfugt, popp-
ið frábært en myndin bragðlaus.
Leikhús brauðsins
Leíklist
Jóhann Hjálmarsson
Þjóðleikhúsió, gestaleikur:
Bread and Puppet Theater:
ÞRUMUVEÐUR YNGSTA
BARNSINS
Flytjendur: Ralph Denzer, Trudi
Cohen, Michael Romanyshyn,
Linda Below, John Beil, Cate
Peck, Peter Hamburger, Howard
Cantor, Andrea Mugnai, Barney
Carlson, Mark Dannenhaver, Amy
Trompeter og Susie Dennyson.
Áður en sýning Þrumuveðurs
yngsta barnsins hófst sýndi
Brauð- og brúðuleikhúsið banda-
ríska smáþætti í dæmisagna-
formi og með myndskýringum,
en þeim var öllum sameiginlegt
að vara við hverskyns ógnum
sem steðja að mannkyninu. Fólk
var hvatt til að mótmæla til þess
að halda lífi.
Brauð- og brúðuleikhúsið er
þekkt fyrir leiklist sem felur í
sér mótmæli, er virk og tekur
afstöðu, en gætir hófs í boðun
sinni, vill ekki eingöngu vera
predikun. Þó má skilja það á
stjórnandanum, Peter Schu-
mann, að hann sé ekkert á móti
því að predika:
„Við viljum að þið skiljið að
leikhúsið er ekki ennþá komið I
neitt endanlegt form, það er ekki
sú verslun sem þið álítið það
vera, þar sem þið fáið eitthvað
gegn gjaldi. Leikhús er ekki
þannig. Það er skyldara brauði.
Skyldara nauðsyn. Leiklistin er
e.k. trúarbrögð. Hún er
skemmtileg. Hún predikar og
framkvæmir helgiathöfn þar
sem leikararnir reyna að upp-
hefja líf sitt í átt til hreinleika
og alsælu leiksins sem þeir taka
þátt í.“
Því verður ekki neitað að leik-
arar Brauðs- og brúðuleikhúss-
ins eru snjallir áróðursmenn,
slyngir í þeirri íþrótt að koma
skoðunum sínum til skila f list-
rænu formi. Stuttu þættirnir
voru að vísu í einfaldara lagi, að
því er virtist gerðir fyrir börn.
En kannski er þetta leiðin til að
ná til fólks, oft á götum úti eins
og leikflokkurinn stundar. Máli
skiptir að vera ekki of torskilinn,
segja hlutina þannig að allir
skilji. En þrátt fyrir hugmynda-
ríka uppsetningu, blöndu manna
og brúða, voru þetta mótmæla-
aðgerðir af venjulegasta tagi.
Því var mótmælt sem allir geta
verið sammála um að mótmæla:
stríði, glæpum.
Þrumuveður yngsta barnsins
er líka mótmælaleikur sem felur
í sér von um að yngsta barn sið-
menningarinnar sem elst upp
meðal dæmdra líkama endalok-
anna rísi upp og neiti að halda
áfram á sömu braut, þ.e.a.s leið
nútímamannsins til heljar. Það
verður stormur og síðan blása
allir menn í sameiningu svo að
úr verður þrumuveður sem
hreinsar andrúmsloftið og skap-
ar friðaröld. Þetta frelsandi veð-
ur er þrUmuveður yngsta barns-
ins.
Eins og vænta mátti af rómuð-
um leikflokki voru tæknileg at-
riði vel unnin, brúður í senn
óhugnanlegar og gæddar mikl-
um þokka. Sum atriði voru
hryssingsleg, önnur fögur. Það
var óvenjuleg reynsla að kynnast
Þrumuveðri yngsta barnsins og
einkennilegt hve mikið er hægt
að segja á einfaldan hátt. Brauð-
og brúðuleikhúsið er ekkert
venjulegt brúðuleikhús, flokkur-
inn styðst að vísu við brúður, en
ekki síður við önnur form listar
eins og til dæmis tónlist. Talað
mál er sömuleiðis ríkur þáttur,
áberandi er skýr framsögn.
Gaman var að tilraunum leik-
flokksins til að tjá sig á íslensku,
en tilvalið hefði verið að hafa öll
spjöld með íslenskum áletrun-
um, en ekki sum.
Því miður urðu sýningar
Brauð- og brúðuleikhússins ekki
nema tvær. Slíkar heimsóknir
geta auðgað íslenska leikstarf-
semi og eru oftast af hinu góða.
Bread and Puppet-leikhópurinn.
Við erum öll manneskjur
Kvíkmyndir
Ólafur M. Jóhannesson
Regnboginn:
EINFALDI MORÐINGINN
(„Den enfaldige mördaren")
Leikstjórn og handrit:
Hans Alfredson, byggt á eigin
skáldsögu.
Kvikmyndataka: Jörgen Persson.
Aöalhlutverk: Stellan Skarsgárd,
Hans Alfredson, Maria Johanson,
Per Myrberg, Lena Pia Anderson.
Sænsk, gerð 1982.
Sýningartími 109 mín.
Einfaldi morðinginn kemur á
óvart. Hreinmálaðar persónurn-
ar, hvítar og svartar, eru orðnar
næsta fátíðar í kvikmyndagerð
síðustu ára og það rómantíska,
einfaldaða raunsæi sem ein-
kennir myndina og uppreisn lít-
ilmagnans rifjar upp fyrir
manni smásögur Einars H.
Kvaran og fleiri skáldverk hans
samtíðarmanna. En yfir öllu
drottnar afburðaleikur Stellan
Skarsgárd.
Söguþráðurinn er ekki marg-
brotinn. Ungur maður (Stellan)
er hornreka í sinni heimasveit,
fátækur, munaðarlaus en hans
höfuðglæpur er að fæðast hol-
góma. Af þeim sökum er hann
álitinn og kallaður bjáni. Er
hann missir móður sína er Stell-
an settur niður hjá ríkasta
manni sveitarinnar, stórbóndan-
um og verksmiðjueigandanum
(Hans Alfredson).
Mannfjandi þessi gerir öllum
illt og á Stellan auma vist í stíu í
útihúsi með búpeningi bónda,
þrælandi myrkranna á milli,
kauplaus.
Það verður Stellan til happs
að hann kynnist vænum ná-
grönnum sem ofbýður meðferðin
á hinum bæklaða niðursetningi.
Þau taka hann upp á arma sína
og hjálpa að komast til manns.
Þessi manneskjulega framkoma
verður til þess að kynda hat-
ursbál hjá Alfredson sem hefnir
sín, en Stellan á síðasta orðið.
Hér eru persónurnar skýrt
dregnar. Anderson er djöfull i
mannsmynd sem lætur eingöngu
illt af sér leiða, enda minna höf-
uðstöðvar hans, verksmiðja með
sínum hvæsandi, rauðglóandi
múrsteinsbrennsluofnum óneit-
anlega á helvíti. Stellan hefur
hins vegar hreina og fagra sál.
Má ekkert aumt sjá, blíður og
góður. Uppreisn hans gegn kúg-
ara sínum er hin eilífa barátta
góðs og ills. Því er ekki að neita
að atburðarásin er full-einfölduð
á köflum og á einstaka stað er
gengið heldur langt, t.d. þegar
Alfredson brennir peningana
sem hann hefur innheimt af fá-
tæklingum. Nirflar kasta ekki
verðmætum á glæ. Þá eru engl-
arnir og hlutverk þeirra nokkuð
þokukenndur þáttur.
Leikstjórinn, Hans Alfredson,
er kunnastur fyrir gamanleik í
sínu heimalandi enda bólar oft,
blessunarlega, á góðu skopskyni
í þessari annars átakanlegu
mynd. Og þrátt fyrir að Alfred-
son hafi litla reynslu á bak við
myndavélina er leikstjórn hans
röggsöm og ákveðin og einkan-
lega er stjórn hans á leikurunum
góð. Stellan Skarsgárd skarar
framúr einvala leikhóp, túlkun
hans á vandmeðförnu hlutverki
hins holgóma lítilmagna á eftir
að sitja lengi í minningunni. Allt
látæði og tal er trúverðugt.
Hræddur er ég um að einhver
hafi minna haft fyrir Silf-
urbirninum en Stellan
Skarsgárd.
Hans Alfredson leikstýrði og skrif-
aði handritið eftir eigin skáldsögu
að Einfalda morðingjanum, auk
þess sem hann fer með annað að-
alhlutverk myndarinnar.
Annars er vel skipað í öll hlut-
verk og týpurnar góðar. Leik-
stjórinn, Álfredson, fer með
hlutverk hins miskunnarlausa
harðstjóra og ferst það vel. Þá er
einnig ástæða að minnast sér-
staklega á aðlaðandi leik Mariu
Johanson í hlutverki lömuðu
stúlkunnar.
Einfaldi morðinginn er vand-
virknislega gerð og eftirminnileg
Stellan Skarsgird er minnisstæður
í hlutverki hins holgóma niður-
setnings í Einfalda morðingjanum.
mynd um ýmsa bresti mann-
skepnunnar og eilífa baráttu
þeirra sem minna mega sín. Á
vissan hátt minnir hún okkur —
sem sögð erum fullfrísk — líka á
það skilningsleysi, sem enn í dag
er alltof útbreytt, á kjörum
þeirra sem hafa ekki af fullri
heilsu að státa og kunna ekki að
bera hönd fyrir höfuð sér. Því á
hún þarft erindi til allra.