Morgunblaðið - 24.11.1983, Qupperneq 26

Morgunblaðið - 24.11.1983, Qupperneq 26
24 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. NÓVEMBER 1983 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. NÓVEMBER 1983 25 TÓMAS GUÐMUNDSSON SKÁLD Tómas Guðmundsson unni lífinu meira en aðrir menn. Ekki heitar, en meira. Þetta þel hans var engin ástríða, enginn eldur. Samt var það ást en ekki kærleikur. Mundum við hin kalla hana sanna ást ef hún væri okkur léð? Tómas kallaði hana aldrei því nafni. Ugglaust meðfram vegna þess að hann var meira skáld en svo að hann þyrfti að taka sér þvílík orð í munn. En kannski líka vegna þess að hann þekkti enga aðra. Þessi hugur Tómasar birtist með und- arlega áþreifanlegum hætti í öllu fasi hans: þegar hann heilsaði eða kvaddi ekki síður en í samræðu hans við vini sína og næstum guðdómlegri fyndni. Og hann ljómaði upp kvæði hans. Það breytti engu þótt hann kvæði um dauðann. Jafnvel dauðinn sjálfur var honum svo nákominn að hann gerði til hans bæn sína: 0, dauði, vertu vini mínum góður, og vek hann ekki framar en þér lízt. Þá hefnir sín að hafa margs að sakna, segir um dauðastundina í þessari bæn til dauðans. Og sá sem svo mjög unni lífinu kann um stund að virðast hafa misst óheyrilega mikið. En það glatast ekki, og það voru bænir hans sem gáfu því líf. Þorsteinn Gylfason En seinna, er dalinn þrýtur og sól og degi hallar, mér syngur annar strengur, þá niöa ég ei lengur, en fel mig niðri í hyljum og hlusta skelfd í giljum á hafið, sem mig kallar og tæmir lindir allar. Ög þung og köld er röddin, sem þaggar silfurljóðið, en það er alveg sama: Ég verð að renna á hljóðið. Hafíð hefur tæmt eina lindina enn. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr erum við tilneydd til að renna á hljóðið — hvert okkar og eitt — þegar kallið loksins kem- ur. Jafnvel lind skáldskaparins þrýtur um síðir. { lífi listamannsins, eins og í lífi okkar allra, kemur vorið fyrst og svo, þeg- ar sumri hallar, haustið og veturinn. En sjálf listin blífur þótt lindin tæmist, því hún varðveitist meðal þjóðarinnar og varir að eilífu eins og Fljótið helga ... eins og Sogið sem Tómasi var svo kært. En hver var Tómas Guðmundsson? Fyrst og síðast skáld sem öll hin íslenska þjóð stendur í ævarandi þakkarskuld við: fremstur meðal lærifeðra í lífsins skóla. Því listin er háskóli alþýðunnar, sá eini háskóli þar sem hvorki er krafist forprófa né undirbúningsmenntunar, æðsta stig þess skóla þar sem allir eru nemendur. Tómas Guðmundsson brúaði bilið milli rómantísku skáldanna á 19. öld og þeirra sem vonandi koma fram á þeirri 21. Fyrir það eitt megum við vera þakklát. En um leið var hann barn síns tíma og opnaði augu íslendinga fyrir gildi þver- stæðunnar, kenndi þeim að hið æðsta um- burðarlyndi felst i því að umbera mót- sagnir. Og einungis í gengum mótsögnina er unnt að skilja Tómas Guðmundsson sem skáld og sem mann og einmitt mótsögnin í hans eigin lífi gerir hann svo trúverðugan. Þannig var Tómas Guðmundsson til dæmis nútímalegastur í hugsun meðal skálda aldamótakynslóðarinnar og sá eini þeirra sem skildi borgir og borgarfóik. Þrátt fyrir það var hann, að því er virð- ist, ósnortinn af þeim framúrstefnu- straumum og allsherjarkenningum sem flestir menntamenn hans tíma voru hel- teknir af. Þá var Tómas e.t.v. mesti aristókratinn í þessum skáldahópi og einn þeirra fáu sem var frábitinn því að auglýsa eða upphefja sjálfan sig. Samt sem áður var það einmitt hann sem höfðaði hvað mest til alþýðunnar á meðan þorri bókmenntafræðinga, gagn- rýnenda og menntamanna skellti skolla- eyrum við verkum hans. Síðast, en ekki síst, var Tómas það ís- lenska skáld sem átti auðveldast með að koma auga á kímnina í daglegu lífi og þar með að koma þessari skapþungu þjóð til að hlæja. Á sama tíma var hann e.t.v. sjálfur það skáld sem var hvað mest niðri fyrir og var hvað sannfærðastur um að eigin málstað- ur og eigin boðskapur væri hinn eini rétti. Og þannig mætti áfram telja, en eftir situr sú staðreynd að list hans hefur sigr- að og mun halda áfram að sigra. Hans nútími, hans gáski og hans tregi er okkar framtíð, okkar framtíðarvon. Jón Óttar Ragnarsson Ég var of ungur til þess að fylgjast náið með þeirri hrifningaröldu, sem ljóðabókin Fagra veröld vakti á sínum tíma, en þegar ég fékk hana að fermingargjöf nokkrum árum síðar eignaðist ég þann skáldvin, sem mér hefur orðið dýrmætastur föru- nautur um ævina. Þótt fyrsta aðdáun mín, eins og annarra reykvískra jafnaldra minna, hafi sprottið af því, hve náin yrkis- efni Tómasar voru umhverfi okkar og til- finningum, iærðum við brátt að skilja, hversu margræður skáldskapur hans er. Undir léttu yfirborði leikandi skops eða gleðilegra ástarljóða er ætíð þung undir- alda dýpri tilfinninga, skírskotun til þeirra örlaga, sem öllum jarðarbörnum eru búin. Og með hverri kvæðabók Tómas- ar bættust fleiri strengir í hörpu hans, stilltir af nýrri reynslu og þroska. í heild virðist mér það nú eitt einkenni skáld- verka Tómasar, að þau gefi samfelldari og heilsteyptari mynd af persónulegum til- finningum og hugsjónum manns allt frá æskudögum til æviloka en ljóð nokkurs annars íslenzks skálds. Fyrir okkur, sem hlýtt höfum á rödd hans og verið honum samtíða, endurspegla ljóð Tómasar reynslu okkar sjálfra á margvíslegan hátt. Við hófum ferðina með honum fyrst um hina fögru veröld æskuár- anna: Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn. Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar. Síðan fylgjumst við með þroska- og manndómsárunum, þegar vindar heims- styrjaldar og ofstækis næddu um sál skáldsins og kröfðust þátttöku og ábyrgð- ar hvers manns. Og vitund mín mun öðlast sjálfa sig er sérðu heiminn farast kringum þig og elfur blóðs um borgarstrætin renna. Því meðan til er böl, sem bætt þú gazt, og barizt var á meðan hjá þú sazt, er ólán heimsins einnig þér að kenna. Skelfingar umheimsins fóru þannig ekki hjá garði í skáldskaparheimi Tómasar, og hann hikaði ekki við að skipa sér þar í flokk, sem hann taldi frelsi og mannúð bezt borgið. Hins vegar bar barátta og málflutningur hans ætíð yfirbragð hins fágaða skálds, sem hryllti við ofstækisöfl- um samtímans og var sannfærður um, að bitrustu vopnin gegn þeim yrðu að lokum trúin á þann sannleik, fegurð og mann- helgi, sem hann leitaðist við að túlka í skáldskap sínum. Þess vegna var Tómas alltaf sjálfum sér samkvæmur, og þótt skáldskapur hans breyttist með árunum og fengi angurvær- ari blæ, einkenndist hann ævinlega af djúpum skilningi á vanda mannlegs lífs, þar sem gleði og sorg, efi og trú vegast sífellt á. í slíkum heimi er ábyrgðin öll hjá manninum sjálfum, að hann sé trúr hug- sjón sinni og hamingju. Og máske skilst oss farsæld vor þá fyrst til fulls, er hún er lífi voru misst. Og hvað fær sárar samvizkuna kvalið en svik við það, sem ábyrgð vorri er falið. Nú þegar Tómas Guðmundsson er kvaddur er margt að þakka. Af löngum kynnum og samstarfi á ég dýrmætar minningar, því hver stund með Tómasi var hátíð, þar sem leiftri brá af hverju and- svari. Á sama hátt og í kvæðum sínum var orðræða hans öll margslunginn vefur gáska og alvöru, ádeilu og umburðarlynd- is. Þegar slíkur maður er burtu kvaddur, finnum við sárt, hve miklu fátækari við erum eftir, og hugurinn staldrar við hverf- ulleik lífsins, sem Tómasi varð svo oft að yrkisefni: Æ, hversu sjaldan gefum við þvígaum, hve gæfu vorrar ævitíð er naum. Og flestum aðeins verður hún að vana, unz vér í greipar dauðans missum hana. Jóhannes Nordal „Og geri margir menntaskólar betur: Ég minnist sextán skálda í fjórða bekk.“ Tómas bíður eftir grænu Ijósi við Lækjar- götu. Menntaskólinn í Reykjavík er á miðri myndinni, en þar stundaði hann nám á yngri árum. Tómas Guðmundsson var barn vorsins. Hann sagðist alltaf hlakka til vorsins, líka síðasta veturinn sem hann lifði þó að hann ætti þess naumast kost lengur að njóta þess sjálfur. En það var ekki til sólar og hlýinda vorsins sem hann hlakkaði, heldur til lífsins sem vaknar á vorin, til blómanna og dýranna. Hann var svo mikill náttúru- unnandi. Raunar var „dauð náttúra" ekki til í hans innra heimi, hann skynjaði náttúr- una sem órofa lifandi heild — landið með fjöllum sínum, blómum, dýrum og mönnum. Ungur gerði hann sér far um að umgangast allt úti í náttúrunni af engu minni tillitssemi en hann umgekkst „ann- að fólk“, eins og hann sjálfur skrifaði í eftirmála við bókina Á meðal skáldfugla. En það er naumast unnt að unna öllu jafnt. Ég held að Tómas hafi unnað fugl- unum meira en flestu öðru, enda var sam- band hans við fugla öðruvísi en ég hef vitað til annars staðar. Það samband minnti mig alltaf á heilagan Frans frá Assisí. Jafnvel kríurnar austur við Sog sýndu honum virðingu og þakklæti fyrir umhyggju með því að sækja til hans og setjast á axlir hans, að ég nú ekki tali um mófuglana. Og þrestirnir kringum heimili hans á Egilsgötunni sem hann annaðist reglulega hvern vetur meðan hann kom því við launuðu honum með því að hópast í kringum hann tugum saman þegar hann lét sjá sig utan dyra. í þeim félagsskap leið skáldinu vel. í bréfi sem Tómas Guðmundsson skrif- aði systur sinni á menntaskólaárunum segir hann eitthvað á þá leið að sig hafi lengi langað til að verða skáld og hafa góð áhrif á þjóð sína. Þetta festist mér í minni þegar ég las það fyrir nokkrum árum því að það vakti hjá mér gleði — hrifningu yfir því hve lífið getur stundum verið gott og látið fagra unglingsdrauma rætast. Skáld varð Tómas, þjóðskáld — í þeirri merkingu sem ég held að almennt sé lögð í það orð, þ.e. skáld sem almenningur dáir og ann og hópast um ef von er á að það láti einhvers staðar til sín heyra. Og um góð áhrif Tómasar á þjóð sína efast enginn þótt þau verði hvorki sýnd með tölum né tölvum. Margir halda því fram, ekki sízt þeir sem ungir voru milli 1930 og 1940, að hann hafi kennt þeim að sjá fegurð Reykjavíkur sem þeir hefðu alls ekki kom- ið auga á áður, og er það nokkuð eitt út af fyrir sig, og þó að ég ætli ekki nema brot af þeim góðu áhrifum sem Tómas hefur haft. Skyldi hann ekki hafa komið ýmsum til að skynja fegurð í sjálfu mannlífinu sem þeir höfðu ekki haft veður af áður, og þannig mætti halda áfram að telja. Ég hef þekkt Tómas Guðmundsson náið í um aldarfjórðung og játa fúslega að mér hefur þótt meira til um hann en aðra sem ég hef kynnzt, að öllum öðrum mikilhæf- um vinum mínum ólöstuðum. Ekki fyrir það að hann reyndi að bera einhvern æg- ishjálm yfir umhverfi sitt, öðru nær, en í viðkynningu var hann þannig að maður hlakkaði ávallt til komu hans og umhverf- is hann ríkti einlæg og hæversk tillitssemi samfara örvandi kímnj. Og alltaf var um svo mikið að tala, svo mörg umræðuefni sem maður hafði áhuga á — eða vakti Tómas ef til vill áhuga manns á þessum efnum? Svo mun að minnsta kosti oft hafa verið. Ég vann með Tómasi að mörgum verk- efnum sem flest voru tengd ritstörfum, og er ég afar þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Þó að hann í skáldskap sínum gerði kannski örlítið gys að mönnum sem ekki hefðu frið fyrir vinnu- gleði, var hann sjálfur mikill starfsmaður og afkastamikill. Ég hef engan þekkt eins fljótan að sjá ef einhverju var ábótavant í máli og stíl og engan eins fljótan að bæta úr ef um slíkt var að ræða, enda veit eng- inn tölu þeirra handrita sem hann var bú- inn að lagfæra fyrir aðra. Ég vildi ein- hvern tíma ræða við hann um hans óskeik- ula málsmekk, en hann lét lífið yfir, sagði eitthvað á þá leið að sýsl við lýrísk, rímuð ljóð væri holl þjálfun í notkun móðurmáls- ins, en eyddi annars slíku tali. Ég vissi Tómas aldrei afundinn eða óþægilegan — honum fannst ekki taka því að vera í vondu skapi, svo að notað sé hans eigið orðalag, og svo var hann of tillits- samur við umhverfi sitt til að leyfa sér slíkt. Það merkir þó ekki að hann hafi ekki getað sagt mönnum til syndanna, yfirleitt fannst mér hann aldrei liggja á slíku ef honum þótti við þurfa, en það var ævinlega gert með kurteisu orðalagi, þó þannig að vel skildist. Og dapur var hann stundum, ótíðindi og erfiðleikar annarra lögðust þungt á hann. Vanheilsa síðustu ára var honum og örðug ekki sízt fyrir það að hún svipti hann úthaldi til starfa. Én þó held ég að við Tómas höfum aldrei hitzt svo, að ekki væri sagt eitthvað skemmtilegt, jafnvel um hin óskemmti- legustu mál. Tómas var maður lífsins og fjarlægur dauðanum, enda hafði hann lýst yfir eins og frægt er „að það skyldi þó verða sitt síðasta að deyja". Samt barst dauðinn stundum í tal okkar í milli. Seint í fyrravetur eða vor spurði ég hann hvort hann óttaðist dauðann. Hann svaraði: „Það væri lítið vit í slíku, það hafa svo margir lent í þessu á undan mér.“ Svarið var Tómasi líkt. En það er engin afneitun dauðageigsins. Við minnumst þess að Tómas hafði áður látið frá sér fara orð um þetta atriði: Vér skelfumst það stríð, sem öllum ber [hinzt að heyja. Morgunblaðið/ól.K.M. En hvað er við því að segja, ef dauðinn einn læknar ótta manns við [að deyja. Ætli það séu ekki sannleiksorð, jafnt um hann sem flest okkar hinna. Og spurning mín var fávísleg. Síðasta skiptið sem við hittumst verður mér þó lengi íhugunarefni. Hann var lagztur banaleguna í Borgarspítalanum, og þó að honum liði illa fagnaði hann mér og við tókum tal saman. Hann bað mig að rétta sér tóbaksdósir sínar, þungar og fal- legar gulldósir, og í því sambandi sagði hann mér skemmtilega sögu af því þegar hann tók í nefið í fyrsta sinn, lítill patti austur á Efri-Brú. En hann þreyttist fljótt og þegar við kvöddumst sagði hann: „Þetta er nú líklega í síðasta skiptið." Og þar hafði hann rétt fyrir sér eins og endranær. Að endingu sendi ég Berthu konu hans og sonunum tveimur, Tómasi og Guð- mundi, mínar einlægu samúðarkveðjur og þakka þeim hve vel þau önnuðust skáldið góða í veikindum þess. Skáldið er horfið, en ljóðin lifa. Eiríkur Hreinn Finnbogason

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.