Morgunblaðið - 04.12.1983, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 04.12.1983, Blaðsíða 25
24 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 4. DESEMBER 1983 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 4. DESEMBER 1983 25 Útgefandi tlWítfoÍAÍ* hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guðmundsson, Björn Jóhannsson. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Að- alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjaid 250 kr. á mánuöi innanlands. i lausasölu 20 kr. eintakiö. Frelsi í stað uppgjafar Boðskapurinn á hátíð stúd- enta 1. desember var skýr og ótvíræður. Allir sem þar tóku til máls töluðu í nafni frið- ar, frelsis og mannréttinda. „Þeir menn, sem á frelsið trúa, sjá að ekki er fagurt um að lit- ast í heiminum nú. Hvarvetna blasir við dauðkalin eyðimörk ófrelsis. í henni miðri býður dálítill gróðurteigur eyðingar- öflunum byrginn. Frelsið er sú lind, sem þessi tiltölulega litla gróðurvin á tilvéru sína að þakka. Sú lind er þess virði, að varin sé,“ sagði Davíð Oddsson, borgarstjóri, í hátíðarræðu dagsins. Og Ólafur Arnarson, tannlæknanemi, sagði í ræðu sinni á hátíðinni: „Hin eigin- lega friðarbarátta hlýtur að vera baráttan fyrir frelsi og mannréttindum öllum til handa, því að frelsið er öllu öðru dýrmætara." Kjarninn í þessum ræðum var í stuttu máli sá, að lýðræð- isþjóðirnar búi við þjóðskipulag sem ógnað sé af ófrelsisöflum og það sé þess virði að gera ráðstafanir til að verja frelsið. Þótt ótrúlegt sé stangast þetta viðhorf á við meginstefnu þeirra sem nú eru háværastir í kröfum um frið á Vesturlönd- um, þeir krefjast þess að lýð- ræðisþjóðirnar afvopnist ein- hliða og láta síðan orð fylgja um að þá muni einræðisríkin gera slíkt hið sama. „Það er frelsið, sem ögrar alræðisríkj- unum. Sú hreyfing, sem tæki það baráttumál upp á arma sína, að vestræn ríki förguðu frelsi sínu, gengi hreinna til verks en þeir aðilar, sem krefj- ast varnarleysis vestrænna ríkja og að alræðislöndum verði falið skömmtunarvald á þeim friði, sem þjóðir heims eigi að búa við,“ sagði Davíð Oddsson. Með aðild að Atlantshafs- bandalaginu gerðust Islend- ingar þátttakendur í sameigin- legu átaki vestrænna lýðræðis- þjóða til að verja frelsi og lýð- réttindi. Þessi varðstaða er enn hornsteinn samstarfs þjóð- anna. Undanfarin misseri hefur verið alið á því að hættan á kjarnorkuátökum sé svo mikil að láta verði af þessari varð- stöðu í þágu „friðar". Þessi hræðsluáróður hefur haft mikil áhrif víða um lönd og meðal þeirra sem hann stunda eru talsmenn Samtaka herstöðva- andstæðinga sem vilja varnar- laust ísland. í umræðum um þessi mál leggja einhliða af- vopnunarsinnar í raun ekki áherslu á frið heldur lýsa þeir því með óttafullum hætti hve hörmulegar afleiðingar stríð gæti haft brytist það út, þeir tala í raun um stríð en ekki frið. Enginn getur efast um að kjarnorkuátök hefðu hræðileg áhrif en ástæðulaust er að rugla saman lýsingum á stríðshörmungum og ráðstöf- unum sem gerðar eru til að tryggja frið með frelsi. Ekki er með neinum rökum unnt að sýna fram á nú séu meiri líkur á að gjöreyðingarstríð hefjist í okkar heimshluta en á þeim tæpu fjörutíu árum sem við höfum búið við frið. Ögranir Sovétmanna Sovétmenn ögra vestrænum lýðræðisríkjum með marg- víslegu móti. Nú hefur Gústav Arnar, yfirverkfræðingur Pósts og síma, til dæmis skýrt frá því að loftnetsskermurinn sem settur var upp á bústað sovéska sendiherrans að Túngötu 9 í Reykjavík án samþykkis bygg- inganefndar sé þannig úr garði gerður að með honum megi hlusta á öll símtöl sem fara á milli gervitungls og jarðstöðv- arinnar Skyggnis. Telur Gústav Arnar að sendiráðið eigi að fá formlegt leyfi frá íslenskum stjórnvöldum til að nýta þenn- an skerm og sé notkunin ein- skorðuð við sjónvarpssendingar frá sovésku gervitungli. En aft- an við þessa ábendingu bætir yfirverkfræðingurinn: „Það er svo annað mál, hvernig hægt er líta eftir að ákvæði leyfisbréfs- ins séu haldin." Þessi setning leiðir til einfaldrar niðurstöðu: Því aðeins er unnt að koma í veg fyrir að Sovétmenn noti þetta loftnet til símahlerana að það sé tekið niður. í þann sama mund sem sov- éski sendiherrann í Reykjavík fer í utanríkisráðuneyti íslands til að reyna að hindra að frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti íslands, ferðist í nafni íslensku þjóðarinnar til Vestur-Berlínar er verið að koma fyrir búnaði á bústað hans sem þannig er lýst af yfirverkfræðingi Pósts og síma: „Tíðnisvið það, sem loft- netið og móttökubúnaðurinn nær yfir, er eingöngu ætlað til símafjarskipta en ekki fyrir hljóðvarps- eða sjónvarpssend- ingar í almenningsþágu ... Búnaðinn má nota til að hlusta hvers konar símafjarskeyti, sem fara um gervitungl þau sem eru yfir Atlantshafi." Enginn vafi er á því að hvarvetna reyna Sovétmenn að ganga eins langt og frekast er kostur. Þeir hafa gengið út fyrir hæfileg mörk með upp- setningu loftnetsins eins og viðbrögð borgaryfirvalda og yf- irverkfræðings Pósts og síma sýna. Sovéski sendiherrann gekk einnig út fyrir hæfileg mörk þegar hann reyndi að hindra för forseta íslands til Vestur-Berlínar. I seinna til- vikinu var afskiptasemi sendi- herrans höfð að engu. í fyrra tilvikinu þarf að sýna Sovét- mönnum að þeir eigi að halda sig innan þeirra reglna sem gilda hér á landi. Eftir mót- mæli borgaryfirvalda og grein Gústavs Arnars, yfirverkfræð- ings, hér í blaðinu er ljóst að stjórnvöld geta ekki látið þar við sitja. — Ég vissi ekki að það væru svo margir gyðingar á íslandi, varð erlendum gesti á íslandi að orði um þetta leyti árs í fyrra. Hann var spurður af hverju hann héldi það og svarið var: — Af því að svo mörg heimili hafa kveikt á 7 arma gyðingaljósa- stikum. Ummælin rifjuðust upp sem Gáruhöfundur arkaði í snjónum á mánudagskvöldið og gjóaði augunum upp í gluggana með sjöljósastikunum, sem nú lýsa úr æ fleiri gluggum. En þar sem talan sjö kemur víða fyrir sem helg tala í Gamla testa- mentinu og það er hin helga bók gyðinga, varð það gyðinglegur siður að kveikja á ljósunum sjö og þessar sjö arma ljósastikur urðu til að sinna þeirra sérþörf- um. Eftir því sem þessi gestur sagði gera þeir það enn á sínum helgu stundum. Nú hefur þessi ágæti gyðinglegi siður haldið innreið sína á Islandi og ljósin sjö í gluggum húsanna lýsa upp skammdegismyrkrið í mörgum húsum í hverri götu. Hefur á sumum heimilum verið skipt á þessum og öðrum útlendum sið, sem barst okkur fyrir allmörg- um árum með dönsku aðventu- krönsunum. Og sumir bæta bara nýja gyðinglega siðnum við þann góða gamla danska og hafa bæði sjö arma ljósastikur og aðventu- kransa. Enda erum við heims- borgarar, ekki satt? Og ekki veitir af í skammdegismyrkrinu. Við getum alltaf á okkur blóm- um bætt. Ljósaskreytingar á helgum dögum í trjám og kirkju- görðum munu komnar úr aust- urlandatrú og ekki er svo langt síðan við innbirtum handa börn- um jólaskó hins gjafmilda heil- ags Nikulásar frá Litlu-Asíu, sem Hollendingar tóku að setja á morgnana á aðventunni fulla af sælgæti og gjöfum við arin- inn. Glöggt er gestsaugað, segir málshátturinn. Oft gaman að sjá hvernig við komum ókunnugum fyrir sjónir. Norðmaðurinn Björnebo, sá hinn sami sem myndskreytti bókina Geisla, gekk niður í miðbæ á föstu- dagskvöldi eftir klukkan sjö. Hann furðaði sig á því að varla var nokkur maður á ferli í miðbæ höfuðborgarinnar. Svo varð honum að orði: — Hvernig læt ég? íslendingarnir eru auð- vitað allir heima að skrifa bók- ina sína. Sumir hefðu kannski sagt að bókaþjóðin væri heima að skrifa æfisöguna sína. En ófáar þeirra eru nú að koma út. Haft er eftir Emerson karlinum, því spaka skáldi, að hver maður eigi sér stórkostlega æfisögu, ef hann geti aðeins skilið það sem er al- veg sérstætt fyrir hans eigin reynslu frá því sem allir aðrir hafa upplifað. Og það er víst kúnstin. Um bókina sem mann- inn langar til að skrifa en aldrei er skrifuð fjallar nú leikrit Jóns Laxdals í Þjóðleikhúsinu. Læðist að manni grunur um að ekki gerði til þótt bókarefni fengi kyrrt að liggja og verma hugann einann. Og að hugdettur um greinarefni í blöð mættu að ósekju leggjast til á sama stað, sbr. vísuna hans Hjálmars á Hofi um mælskuskáldið: Margt hefur þú skrifað á skáldabiað það skilst mér þó nokkurs vert En stærstu og hlýjustu þökk fyrir það sem þú hefur aldrei gert En þar sem maður lætur víst aldrei segjast og lærir ei af ann- arra reynslu hyggst Gáruhöf- undur nú ryðjast fram á ritvöll- inn með æfisögubrot. Einn dag- ur í lífi E.Pá. Sunnudagurinn 27. november sl. Fagur dagur og frostkaldur. Söguhetjan á leið í bíl sínum fyrir Hvalfjörð. Hafði ekki lagt af stað úr Borgarfirðin- um fyrr en eftir hádegi, til að geta innbyrt krásir þeirra kvennaskólastúlkna á Varma- landi bæði í morgunmat og há- degismat. Enda veður bjart. Mazdan skreið mjúklega eftir veginum. Hún hafði verið vel bú- in til ferðar, nýsmurð með nýj- um nagladekkjum, þyngd með sandpokum aftan í og ljós endur- stillt til öryggis þar sem bless- unin liggur öðru vísi sandpoka- þyngd á vetrardekkjum en á sumardekkjum. Við nutum báð- ar ferðarinnar. Vegir auðir í Borgarfirði. Norðan Hafnar- fjalls og á nokkrum stöðum norðanmegin Hvalfjarðar náði Kári sér þó í nægilega skafla til að reita úr þeim í strengi yfir veginn, svo að það var eins og að vera í flugvél í háloftunum og aka á skýjunum. Munur að veg- urinn er orðinn svona hár. Útsýn fögur til fjalla með nægilega litlu snjóföli í til að línur þeirra og form nytu sín. Utan Botnsúl- ur sem blöstu fannhvítar við beint á móti inn Hvalfjörðinn. Hvorugur veitingaskálinn opinn enda engin umferð. Dagurinn var svo fallegur og bílstjórinn svo sæll að hann söng við raust. Ekki þó eftir að áheyrendur voru komnir í bílinn, tvær rjúpna- skyttur og drengur með þeim úr biluðum bíl á veginum sunnan megin Hvalfjarðar. En þar þurfti að aka enn varlegar, því vegurinn var orðinn að einu svelli og glerháll. Ekki dugði það til. Úr beygj- unni rétt norðan við gömlu brúna á Laxá í Kjós sást að bíll var að koma sunnan að á brúnni. Vikið út í vegarbrún og stigið á bremsur til að stansa meðan hann æki af þessari mjóu brú, sem rétt tekur einn bíl. En bíll- inn rennur bara áfram, skautar á nöglunum á hálkunni. Aðstæð- ur þannig að vegurinn hefur ver- ið breikkaður norðan við brúna, svo að hak myndast við brúar- sporðinn og ekki svo mikið sem slá á brúninni. Blasir við 4—5 metra fall ofan í ána sem rennur undan brúnni með íshröngli. Þegar bíllinn stöðvast ekki, er ekkert annað að gera áður en hann fer fram af en að víkja honum snarlega inn á veginn, í von um að hinn bíllinn sé kom- inn það af brúnni að maður sleppi aftan við hann. En hann hefur hægt svo á sér til að aka niður af brúarsporðinum, svo sem vera ber, að Mazdan lendir á afturhurð og bretti og skemmir báða bíla. Ferðin sem betur fer svo hæg að enginn hreyfist í bíl- um. Við þökkum okkar sæla fyrir að lenda ekki í ánni ofan við háan bakkann. Það kemur í ljós þegar farið er að ræða málið við trygginga- menn og bílstjóra, að allir kann- ast við þessar hættulegu aðstæð- ur við Laxárbrúna og ófáir þekkja dæmi um árekstra þar og slys. Komið fyrir að bíll hefur snúist svo við álíka aðstæður að hann rann þvert á brúna, á báða brúarstöpla þessarar mjóu brúar og brotnaði í tvennt. Og því er hér nú þetta æfisögubrot með góðum endi, því blikk má bæta þótt það kosti fé. Þrátt fyrir al- kunnugt auraleysi þjóðarinnar er kannski einhvers staðar hægt að spara fyrir svo sem eins og einum metra af varnargirðingu úr járni á blákantinn við brú- arsporðinn til að spyrna við bíl sem er að síga á svelli fram af svo háum kanti í ána, að ekki sé talað um nýja brú eða betri að- komu. Eða hvað? Og það er ástæðan fyrir því að Gáruhöfundur gengur nú eftir götunum og telur aðventuljós í gluggum húsanna eða ekur í strætó. Hittir þar fólk sem ekki hefur lengi náðst í nema til að veifa út um bílglugga. En fjári getur orðið napurt að arka um götur eða bíða þess að komast í slík kostafarartæki í vetrarveðr- um á Islandi. Þegar hugsað var til feigðar- flansins og rétt sí svona sagt við sjálfan sig að betur hefði Akra- borgin verið tekin með bílinn í bæinn eins og á leiðinni upp í Borgarfjörðinn og sloppið við Laxárbrúna, kom fram í hugann vísan hans Káins: Af langri reynslu lært ég þetta hef: að láta drottin ráða meðan ég sef. En þegar ég vaki, þá vil ég sjálfur ráða ♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ t i Reykjavíkurbréf i......... Laugardagur 3. desember ........... Að sigla þjóðarskútunni Ráðstefna Bandalags háskóla- manna um framhaldsskólamennt- un hér á landi var athyglisverð á margan hátt. Þar fluttu erindi forystumenn í skólamálum. Þeir hafa sumir áratugareynslu af þeim málum og ættu því að geta bent á leiðir, sem færar eru, þegar skóla- og fræðslumálin verða tek- in til gagngerrar endurskoðunar. Síðustu grundvallarbreytingar á skólakerfinu hér á landi voru gerðar fyrir einum til hálfum öðr- um áratug og er því kominn tími til að endurskoða margt af því, sem þá var upp tekið og taldist til nýjunga. Nú hefur komið þó nokk- ur reynsla á þessar nýjungar og ættu menn því að vera vel í stakk búnir til að marka framtíðarstefn- una með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Enginn vafi er á því, að síðasta breyting varð til góðs, þótt ýmis- legt megi út á hana setja. Lands- prófið hafði gengið sér til húðar. Gagnfræðaskólarnir gátu ekki annað þeirri starfsemi, sem af þeim var ætlazt, og nauðsynlegt var að breyta kerfinu með það fyrir augum að koma sem flestum nemendum til nokkurs þroska og veita þeim tækifæri til að afla sér eins mikillar þekkingar og unnt er. Nú er það þó engan veginn svo, að nýja kerfið hafi gengið sér til húðar eins og landsprófið á sinum tíma, heldur er ástæða til að hyggja að ýmsu innan þess og laga það sem betur má fara. Náttúran ætlast örugglega ekki til, að allir unglingar á fslandi ljúki stúd- entsprófi, hvað þá að allir íslend- ingar verði háskólamenntaðir. Mörgu öðru er að sinna. En nauð- synlegt er, að allir eigi kost á og fái þá mestu menntun, sem þroski þeirra og upplag leyfir, enda er hver einstaklingur hér á landi meira virði vegna fámennis en í milljónaþjóðfélögum. Við þurf- um á hverjum einasta manni að halda og þá ekki síður, að sem flestir einstaklingar þjóðfélagsins geti skipað sér þar í rúm, sem þeim hentar. Á skútunum í gamla daga voru misjafnar áhafnir. Ekki gátu allir setið á formannsþóftu aftur í skut og stjórnað skipinu. En samt þurfti að vera valinn maður í hverju rúmi. Sumir voru fisknari en aðrir og enn aðrir betri ræðar- ar og þekktu sjólag betur en aðrir, veður og vinda, af langri reynslu. Sumum var skipað á andófsþóftu, öðrum í fyrirrúm (sem var ekki eins mikilvæg staða á skipinu þótt undarlegt sé), og enn öðrum sem næst barka eða á miðskipsþóftu eða austurrúmsþóftu, og fór þá allt eftir upplagi hvers og eins, reynslu hans og þekkingu. En öll voru þessi rúm mikilvæg og áherzla lögð á að skipa þau vel. Þannig eigum við einnig að skipa rúm í þessu litla þjóðfélagi okkar. Og þá er ekki sízt nauðsynlegt að nemendur stundi það nám sem þeim hentar bezt. Fyrir sumum liggur að leggja stund á hugvís- indi, öðrum á raunvísindi, enn öðrum er í lófa lagið að ljúka námi í tækni og iðnaði o.s.frv. Þjóðfé- lagið á að kappkosta að hver og einn geti setið á þeirri þóftu, sem honum hentar bezt og þjóðarskút- unni er fyrir mestu. Slagsíöa á skútunni Áður en breytingin var gerð fyrir hálfum öðrum áratug á grunnskólakerfinu, blöstu blind- götur við nemendum og voru þær óæskilegar og drógu kjark úr þeim. Slíkar blindgötur eiga ekki að vera í skólakerfinu og það var mikil framför, þegar þær voru af- lagðar, svo að ekki sé nú talað um að láta ekki unglinga þurfa að taka endanlega ákvörðun um framtíð sína í landsprófinu, en þá voru þeir einmitt á viðkvæmum gelgjuskeiðsaldri, eins og margoft var bent á í heitum umræðum. Morgunblaðið tók mikinn þátt í þeim umræðum, sem fram fóru um breytingar á skólakerfinu þá og hefur ávallt haft áhuga á því, hvernig fræðslu- og skólamálum er háttað. Hafði blaðið raunar for- ystu um breytingarnar á sínum tíma ásamt örfáum áhrifa- mönnum um skólamál, en flestir voru íhaldssamir í þeim efnum. í barna- og unglingaskólum eru hornsteinarnir lagðir. Þar getur framtíð þjóðarinnar verið mörkuð. Við gerum okkur öll grein fyrir því, að á breytingartímum eins og nú er hætta á, að menn fari úr einum öfgum í aðrar, þannig að slagsíða geti orðið. Sumir halda því fram, að nú sé komin slagsíða á nýja skólakerfið og þá meðal annars með þeim hætti, að mennt- un ungmenna sé útvötnuð, ekki náist nógu góður árangur í kennslu, til að mynda kennslu í móðurmálinu, og jafnvel sé ekki örgrannt um, að nemendur, sem hlotið hafa framhaldsskólamennt- un í fjölbrauta- og menntaskólum, séu svo slakir í móðurmálinu, að það hái þeim jafnvel þegar í há- skóla kemur. Slíkt er að sjálfsögðu gjörsamlega óviðunandi. Því miður er það nú æ sjaldgæf- ara, að gamla fólkið sé á heimilun- um og kenni æskunni fallegt tungutak, eins og var áður fyrr. Með þeim hætti hlaut æskan bezta veganesti, sem hún getur hiotið, þ.e. litríkt móðurmál. Á þessu er nú því miður mikill misbrestur. Beztu kennararnir eru flestir komnir á elliheimilin, áður en til þeirra kasta kemur, að þeir hefji uppeldi yngstu kynslóðarinnar. Æ meiri ábyrgð hvílir því á skólun- um. Og ef rétt er að slagsíðan sé nú með þeim hætti, að íslenzku- nám sé víða útvatnað og illa að því staðið, hvað grundvallaratriði snertir, þá er nauðsynlegt að tekið sé til hendi og reynt að handlása sig fyrir þann hamar sem íslenzku þjóðinni getur orðið skeinuhætt- astur, en það er ef hún glatar tungu sinni, því að þá yrði hún útlend þjóð í landi sínu. Arflaus, án samhengis við fortíð sína og við blasandi rótlaus framtíð, sem engu eða litlu máli skiptir. Virð- ingarlaus þjóð meðal þjóða. Merkur maður hefur sagt, og má á það minna, að ættjarðariaus maður sé lík án grafar. Vonandi tekst okkur að efla þau menning- arverðmæti, sem gera okkur að þjóð. En það verður ekki gert nema með öflugri kennslu og eld- heitum hugsjónum, sem varða eiga leiðina. Þá munu unglingarn- ir ganga upp í námi sinu og starfi og ná þeim mesta árangri sem þroski og þekkingarmöguleiki hvers og eins býður upp á. Góð áhöfn gulls ígildi Þegar síðasta breytingin var gerð á skólakerfinu, var reynt að rétta þeim hjálparhönd, sem áttu undir högg að sækja. Nú er svo komið, að ýmsir hafa af því óhyggjur að beztu nemendurnir þurfi að líða fyrir hina slakari, vegna þess þeir tefji allt nám og séu að basla við það, sem hvorki hugurinn stendur til, né hæfileik- arnir standa undir. Ef svo er, má ætla, að slagsíðan gæti komið okkur í koll. Við þurfum að geta menntað beztu nemendurna eins og kostur er, svo mikilvægir sem þeir eru íslenzku þjóðfélagi nú og um alla framtíð. Það á ekki að draga úr þekk- ingarkröfum, til að mynda í menntaskólum og háskóla, þó að reynt hafi verið að lyfta undir þá, sem minna mega sín í námi. Og það væri náttúrlega fráleitt að miða háskólakennslu við minnk- andi þekkingu nemenda f fram- haldsskólum og þá einnig vegna þess að helzt þurfi allir að ljúka háskólaprófi. Það er mikill mis- skilningur. Á sama hátt og al- menn menntun er hverjum manni og þjóðfélaginu í heild mikilvæg og uppörvandi, þannig á einnig að gera strangar kröfur til þeirra, sem stunda háskólanám og miða þar við gæði en ekki magn. Á það hefur verið lögð áherzla í Háskóla íslands. Sem betur fer hefur sumum skólum tekizt að undirbúa nem- endur sína svo undir háskólanám, að til fyrirmyndar er og er gleði- legt til þess að vita, að aldursfor- setinn virðulegi, gamli Mennta- skólinn í Reykjavík, hefur verið þar í forystu. Almennari þátttaka nemenda í mennta- og fjölbrauta- skólum hefur ekki orðið til þess að minnka kröfurnar í MR, svo að dæmi sé tekið. En hitt er jafn gleðilegt, að á síðustu árum hafa verið gerðar kerfisbreytingar í þessum gamla skóla, sem eru með þeim hætti, að nemendur hafa miklu skemmtilegra val til náms nú en áður var. Raunvísinda- kennsla skólans er til að mynda til fyrirmyndar, svo og fjölbreytt námsaðstaða, þó að skólinn hafi ekki gengið jafn langt í breyting- um og ýmsir skólar aðrir, enda ekki ástæða til. Enginn vafi er á því, að aukning fjölbrauta- og menntaskóla í land- inu hefur orðið til góðs og veitt fjölda nemenda, sem annars hefðu ekki komizt til þess þroska, sem efni og aðstæður leyfa, tækifæri til að finna kröftum sínum við- nám. Beztu nemendur þessara skóla eiga vafalaust auðvelt með strangt háskólanám, enda ástæðu- laust að breyta Háskóla íslands í einhvers konar framhaldsskóla með almennri miðlungsþekkingu sem frumkröfu. Nágrannaþjóðir okkar hafa haft áhyggjur af skólakerfi sínu, ekki sízt Bandaríkjamenn. Þeir telja, að betri árangri sé unnt að ná en verið hefur og fullyrða, að þess séu nú merki, að undan hafi verið látið síga. Margt er gott í bandarísku skólakerfi, en annað íhugunarefni, segja víðfrægir skólamenn þar í landi. Raunvísindakennsla í Bandaríkjunum t.a.m. er ekki með þeim hætti að strangir skólamenn telji ástæðu til að lofsyngja hana sérstaklega, enda mun það vera svo í flestum háskólum Bandaríkj- anna, að fyrstu 3—4 árin fara í almennt þekkingarnám, sem lýkur með BA-prófi. Má ætla að mikið af þeirri kennslu sé með svipuðum hætti og námið í síðustu bekkjum menntaskólanna hér, enda eru bandarískir stúdentar að jafnaði einu ári yngri en okkar stúdentar og þurfa því e.t.v. á betri undir- stöðu að halda, meiri almennri kennslu í háskólanum, þegar þangað kemur. En það er varhuga- vert að setja alla nemendur undir sama hatt. Það virðist a.m.k. í fljótu bragði fáránlegt, að nem- endur í raunvísindum þurfi að taka kínverska listasögu, ensku, eða almenna mannkynssögu fyrstu árin í háskóla, svo að dæmi séu tekin. íslenzkir nemendur mundu áreiðanlega telja, að margt af því, sem þeir þyrftu að læra í þeim efnum, áður en þeir gætu hafið nám sitt í raunvísindum, væri til lítils eða jafnvel sóun á dýrmæt- um tíma. Hér ganga stúdentar beint inn í læknisfræði eða verk- fræði, svo að dæmi séu tekin, en í Bandaríkjunum þurfa þeir að sýsla við almenn menntaskólafög fyrstu árin undir BA-próf. Þá fyrst velja þeir sér læknaskóla og hafa þá eytt dýrmætum tíma í al- mennan undirbúning, sem miðar ekki einvörðungu að raunvísinda- legu námi. Það getur verið gott og blessað að afla sér almennrar aukamenntunar í háskóla, en það gera menn einkum í góðum menntaskólum, eins og boðið er upp á hér á landi, en síðan tekur sérnámið við í háskólanum og verður ekki séð í fljótu bragði, að nauðsynlegt sé að taka upp banda- rískt eða franskt fyrirkomulag vegna lækkandi meðalárangurs sí- aukins fjölda, sem stúdentspróf tekur. Það þarf að fara varlega í þess- ar sakir. Föstu tökin í raunvís- indanámi þegar í upphafi háskóla- ferils eru áreiðanlega sá vegvísir, sem til heilla horfir við svo mikið nám, fjölbreytt og erfitt, sem raunvísindi bjóða upp á nú á dög- um. Það getur varla verið hugsjón Iiáskóla íslands, að allir taki BA- próf áður en þeir hefja raunveru- legt nám sitt. Nær virðist vera að efla framhaldsskólana og herða kröfur þar. Land fyrir stafni? Hitt er annað mál, að vel gæti verið hyggilegast, að við helguðum okkur það sem hagkvæmast hefur reynzt í skólastarfi bæði vestan- hafs og austan. En við verðum að gæta þess, að íslenzkt þjóðfélag er sérstætt, og það sem öðrum þjóð- um hentar, þarf ekki endilega að vera eftirsóknarvert hér á landi. Sumarvinna íslenzkra náms- manna, tengsl þeirra við atvinnu- lífið, er mikilvægur þáttur í upp- eldi og menntun. En ýmsu mætti breyta, eins og fyrr segir, og þá vafalaust einnig í Háskóla íslands. En þó telja margir vafasamt, að allar breyt- ingar, sem þar hafa verið gerðar, séu til bóta. — Eða hvérnig er með íslenzkukennsluna í Háskóla ís- lands? Hafa breytingarnar skilað sterkari nemendum? Hafa þeir aflað sér þeirrar haldgóðu mennt- unar, sem nauðsyn krefur? Hvers vegna virðist það nú orðið undan- tekning, að nemendur í íslenzkum fræðum taki cand.mag.-próf? Og hvað um cand.mag.-próf í öðrum greinum? Tekur eðlilegur fjöldi stúdenta slík próf? Við spyrjum, en vitum ekki. Væri ekki miklu frekar ástæða til að kennarar leiddu nemendur sína til meiri af- reka á þessu sviði en minni til að mynda með handleiðslu undir doktorspróf, en slík próf eru miklu aðgengilegri og eðlilegri þáttur í námsferli bandarískra stúdenta en til að mynda hér, svo að dæmi sé enn tekið að vestan. Jafnvel virðist svo sem doktorspróf séu heilagar kýr hérlendis — án þess að unnt sé að koma auga á heilag- leikann. Hér hefur verið varpað fram ýmsum spurningum. Hugmyndir eru til alls fyrst. Hugleiðingar ættu ekki að saka. Hér hefur ekki verið reynt að efna til illdeilna, heldur skoðanaskipta í tilefni af ágætu framtaki Bandalags há- skólamanna, þar sem er ráðstefna þess um skóla- og fræðslumál. Þau mega aldrei liggja í láginni. Kerfið má aldrei verða eins og blýmót, sem framleiðir ekki annað en sömu tindátana áratug eftir ára- tug.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.