Morgunblaðið - 20.01.1984, Qupperneq 10
10
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 20. JANÚAR 1984
Magnús Jónsson frá Mel
Fæddur 7. september 1919.
Dáinn 13. janúar 1984.
Það var glaður og fríður hópur
fjörutíu ungmenna, sem þeysti út
um dyr Menntaskólans á Akureyri
snemma sumars árið 1940, að
loknu stúdentsprófi. I vesturhluta
Evrópu geysaði styrjöldin með
sínum ógnum og skelfingum. Her-
skarar Hitlers leggjandi undir
járnhæl sinn hvert lýðríkið af
öðru. Þessir atburðir vörpuðu
skugga á líðandi stund, en við
stúdentarnir frá MA fögnuðum
langþráðum áfanga og trúðum á
framtíðina.
Síðan þetta gerðist hafa árin
liðið hvert af öðru, skin og skúrir
skipst á. Öll höfum við átt okkar
heillastundir og mætt sorgum og
andstreymi. Maðurinn með ljáinn
hefir og barið á dyrnar. Nú síðast
hvarf Magnús Jónsson frá Mel á
braut. Hann andaðist að heimili
sínu aðfaranótt föstudagsins 13.
janúar síðastliðinn. Útför hans fer
í dag fram frá Dómkirkjunni.
Magnús Jónsson var fæddur á
Torfmýri, Blönduhlíð, í Skaga-
firði, þann 7. september 1919, son-
ur Jóns Eyþórs, bónda þar og síðar
á Mel, Jónassonar, Ólafssonar,
bónda á Barká. Móðir Jóns á Mel
var Guðrún Jóhannesdóttir, Guð-
mundssonar á Svalbarði og víðar.
Móðir Magnúsar Jónssonar var
Ingibjörg Magnúsdóttir á Torf-
mýri og síðar á Sauðárkróki,
Hannessonar, Þorlákssonar. En
móðir Magnúsar Hannessonar var
Ingibjörg Þorleifsdóttir, Þorleifs-
sonar frá Stóradal í Húnavatns-
sýslu og móðir hennar var Ingi-
björg Magnúsdóttir, prests í
Glaumbæ og Sigríðar Halldórs-
dóttur Vídalín frá Reynistað.
Móðir Ingibjargar frá Mel var
Jakobína Gísladóttir, hreppstjóra
í Hvammi í Laxárdal. í móðurætt
var Jakobína af Skíðastaðaætt. f
ættum þessum er margt þekktra
gáfumanna, sem ættfræðingar
vita. Ingibjörg og Jón á Mel eign-
uðust og tvo aðra syni: Baldur,
sem var rektor Kennaraháskóla
fslands og lézt á sl. ári og Halldór,
nú sýslumaður Skagfirðinga.
Magnús Jónsson var mikill
námsmaður, jafnvígur í flestum
greinum. Hann tók frá byrjun
skólavistar virkan þátt í félagslífi,
mestur ræðumaður á fundum og
Inspector Scolae. Mannvirðingar
og álit nemenda og kennara stigu
honum ekki til höfuðs. Það viðhorf
átti eigi eftir að breytast síðar á
lífsleiðinni. Öllum vildi hann
leiðbeina og hjálpa. Sú afstaða
entist honum til leiðarloka. Á
menntaskólaárunum vann hann á
sumrum við vegagerð, í síldar-
verksmiðju, sem þá var eftirsótt
staf vegna góðra tekna, og heima í
föðurgarði við búskapinn. f Há-
skóla fékkst hann við kennslu og
ritstörf. Eins og í MA var vina-
hópurinn í Háskólanum stór. Þó
var öllum þar ljóst, að norðan-
menn héldu saman. Meöal okkar
var Magnús fremstur í flokki. Á
góðum stundum var hann allra
manna kátastur, þótt ekki nyti
hann „guðaveiga" sem flestir
okkar. Að leita til hans, er á bját-
aði, var gott.
Við Magnús tókum embættis-
próf í lögfræði sama daginn árið
1946. Sá háttur var á hafður, að
tveir þreyttu munnlegt próf í einni
lotu, að loknum skriflegum próf-
um. Við gengum hnarreistir upp í
kjóli og hvítu, en klæðin höfðu
góðviljaðir menn lánað okkur.
Báðum gekk vel. Þessi prófdagur, í
glampandi sólskininu, var innsigli,
tákn, fyrir vináttu okkar á öllum
skólaárunum, og raunar byrjunin
á nánu og óvenjulegu samstarfi,
sem náði yfir nær þrjá áratugi.
Öllum kunnugum hlaut að vera
ljóst að Magnús Jónsson yrði fyrr
en síðar kallaður til starfa á vett-
vangi stjórnmálanna. Til þess
hafði hann alla hæfileika. Skarpar
gáfur, málsnilld, en um fram allt
atorku og gæddur sterkri rétt-
lætiskennd. Hann var fljótur að
kryfja mál til mergjar og eygja
leiðir til úrlausnar. Hamhleypa til
verka, er því var að skipta. Eftir
rækilega íhugun settist hann að
skrifborðinu og lauk ritverki á
skemmri tíma en flestir aðrir, sem
ég hefi kynnst. Rökfastur og ber-
sögull í málflutningi. Framkoma og
viðmót var með þeim hætti, að
hiklaust var til hans leitað. Við
nánari kynni spratt vinátta sem
entist.
Magnús Jónsson þurfti ekki að
bíða lengi. Sjálfstæðismenn á Ak-
ureyri leituðu til hans og báðu
hann um að taka við ritstjórn „ís-
lendings“. Að loknu lögfræðiprófi
átti hann án efa margra kosta völ.
En hann kaus að hefja starfið
norðan heiða í grennd bernsku-
byggða. Ritstjórastarf við viku-
blað á Akureyri var ekki arðvæn-
legt, en það setti Magnús Jónsson
ekki fyrir sig. Hann tók hugsjónir
fram yfir fjármuni. Innst inni hef-
ir hann fundið að til hans kasta
myndi koma í þjóðmálunum. Þá
væri það góð reynsla að hafa við
þröngan kost stýrt málgagni úti á
landsbyggðinni, einn og óháður.
„íslendingur“ efldist stórum þau
tvö árin, sem Magnús annaðist
blaðið.
Störf Magnúsar og forusta í
málum Sjálfstæðisflokksins leiddi
til þess, að hann tók sæti á Alþingi
árið 1951 sem varaþingmaður
Sjálfstæðisflokksins í Eyjafjarð-
arsýslu, en kjörinn var hann ann-
ar þingmaður Eyfirðinga í Alþing-
iskosningum 1953. Síðan var hann
þingmaður Norðurlandskjördæm-
is eystra frá 1959 til 1974.
Hann vann að ýmsum verkefn-
um í fjármálaráðuneytinu 1948 til
1953, en þá var hann ráðinn fram-
kvæmdastjóri Sjálfstæðisflokks-
ins. Allir eldri sjálfstæðismenn
hér í borg og úti um byggðir
landsins minnast Magnúsar í því
starfi með þakklæti.
Sama sumarið, eða árið 1946, og
Magnús Jónsson fór til Akureyrar,
hóf ég þar rekstur málflutn-
ingsskrifstofu. Jafnframt sinnti
ég erindrekstri fyrir Sjálfstæðis-
flokkinn á Norðurlandi og að
nokkru eystra. Samstarf okkar
varð því náið. Eftir að við gerð-
umst þingmenn í sama kjördæmi
má segja, að eitt og hið sama hafi
gengið yfir báða. Betri og kærari
samstarfsmann hefi ég ekki eign-
ast um ævidagana. Að ferðast með
Magnúsi um kjördæmið, mæta þar
á fundum, spjalla við fólkið yfir
kaffibolla eða úti undir vegg, var
unun, sem aldrei gleymist. Magn-
ús var mér fremri á fundum, en ég
reyndi að bæta það upp með öðru.
í þingmennskunni var með okkur
verkaskipting, sem reyndist vel.
En umfram allt ríkti með okkur
trúnaður og einlæg vinátta, sem
aldrei bar skugga á.
Magnús Jónsson varð þegar at-
kvæðamikill í þingsölunum og
einn af helztu málsvörum Sjálf-
stæðisflokksins. Hann átti sæti í
miðstjórn, og má segja, að hann
hafi látið öll meiriháttar flokks-
mál til sín taka. Hann var vara-
formaður Sjálfstæðisflokksins frá
því í nóvember 1973 til sama mán-
aðar 1974.
Á árunum 1%5 til 1971 gegndi
hann starfi fjármálaráðherra í
Viðreisnarstjórninni. Þar sýndi
hann röggsemi sem var annáluð
og oft hefir verið vitnað til síðan.
Áður en hann varð fjármálaráð-
herra hafði hann átt sæti í fjár-
veitinganefnd. Við afgreiðslu fjár-
lagafrumvarps hafði hann haft
framsögu fyrir áliti meirihluta
nefndarinnar þótt ekki væri for-
maður. Um tíma vorum við saman
í nefndinni og þótti ýmsum nóg
um, að tveir þingmenn í sama
flokki, úr sama kjördæmi, væru í
þeirri miklu valdastofnun. Var þó
látið kjurt liggja, og tel ég það
skemmtilega öruggan dóm um
réttsýni okkar Magnúsar.
Magnús Jónsson tók mikinn og
farsælan þátt I samstarfi þing-
manna Norðurlandanna. Þar var
hann enn í forustu. Hann var for-
maður stjórnar Atvinnubótasjóðs,
og síðar í stjórn Framkvæmda-
stofnunar ríkisins, formaður Raf-
orkuráðs, formaður stjórnar Kísil-
iðjunnar hf. við Mývatn, ein þrjú
ár í Flugráði og telja mætti upp
mörg önnur störf, er hann sinnti.
Á Alþingi hafði hann mest af-
skipti af atvinnu- og fjármálum.
Félagsmálin voru honum og hug-
leikin. Hann bar hag hinna
dreifðu byggðarlaga fyrir brjósti.
Magnús Jónsson var frjálslynd-
ur í skoðunum en vildi fara að öllu
með gát.
Magnús Jónsson var ráðinn
bankastjóri í Búnaðarbanka ís-
lands frá 1. janúar 1961 og gegndi
því starfi til dauðadags, nema þau
árin, er hann var fjármálaráð-
herra. Undir hans stjórn hefir
Búnaðarbanki íslands blómgast.
í árslokin 1973 varð vinur minn,
Magnús, fyrir þungu áfalli. Heils-
an bilaði skyndilega með þeim af-
leiðingum að hann hlaut að hætta
afskiptum af stjórnmálum.
Með kjarki og óvenjulegu vilja-
þreki, frábærri karlmennsku, náði
hann þeim árangri, að hann gat
haldið áfram sínu vandasama
starfi í Búnaðarbankanum. Þá
naut hann umhyggju sinnar góðu
konu, Ingibjargar, sem reyndist
honum bjargvættur í veikinda-
stríðinu.
Magnús Jónsson var gæfumaður
í einkalífi.
Þann 28. október 1950 kvæntist
hann Ingibjörgu Magnúsdóttur,
bónda í Miklaholti á Snæfellsnesi,
Sigurðssonar og Ásdísar Sigurð-
ardóttur, hinni mikilhæfustu
konu. Þau eignuðust tvö börn:
Kristín, kennari, gift Torfa Stef-
ánssyni, presti á Þingeyri, og Jón,
fulltrúi, sem er kvæntur Erlu
Sveinsdóttur, bankaritara. Barna-
börnin voru öll augasteinar afa
síns og hjá þeim, börnum sínum
og Ingibjörgu var hann sælastur.
Með Magnúsi Jónssyni er geng-
inn einn af beztu sonum okkar
kynslóðar. Hann er í fylkingunni,
sem mótaði öldina.
Ég, kona mín og ættmenni, vott-
um Ingibjörgu og öllum ástvinum
Magnúsar Jónssonar innilegustu
samúð.
Ástúðar- og saknaðarkveðju flyt
ég þeim frá fólkinu í Norður-
landskjördæmi eystra.
Vini mínum þakka ég samfylgd-
ina.
Jónas G. Rafnar
Við kvöddumst gjarnan á gang-
inum fyrir framan skrifstofur
okkar að loknu dagsverki með
nokkrum gamanyrðum og glettni.
Svo var einnig fimmtudaginn 12.
janúar, ekki sízt vegna þess að við
áttum framundan daginn eftir
hinn árlega fagnað okkar með
starfsfólki bankans undir forsæti
Magnúsar. Dagurinn skyldi vera
meiri fyrir það, að vígja átti nýjan
vinnusal í afgreiðslu bankans og
þó miklu fremur vegna þess, að nú
átti að kveðja með nokkurri við-
höfn félaga okkar, Þórhall
Tryggvason, sem hætti störfum
fyrir fáeinum dögum og þakka
honum langa samvinnu okkar
þriggja og annarra, og meira en
hálfrar aldar farsælt starf fyrir
Búnaðarbanka íslands.
Allra sízt óraði mig fyrir þvi á
þeirri stundu, að feigðin kallaði nú
að Magnúsi og þessi væri okkar
Kveðja frá
Sjálfstœðisflokknum
Fráfall Magnúsar Jónssonar frá
Mel snertir óneitanlega strengi í
brjóstum sjálfstæðismanna. Með
honum er genginn mikilhæfur og
traustur forystumaður. Hann
helgaði hugsjónum og baráttu-
málum sjálfstæðismanna
drýgstan hluta starfsævi sinnar.
Þjóðin sér að baki heilsteyptum
stjórnmálamanni, sem vann
henni af einurð, festu og rétt-
sýni.
Það er almælt, að Magnús
Jónsson ávann sér strax á unga
aldri hylli umbjóðenda sinna.
Hann naut mikils trausts sam-
herja og virðingar mótherja. Þar
hefur komið til heiðarleg og
markviss framganga í hverju því
máli, er hann kom að.
Magnús Jónsson hófst upp af
verðleikum sínum. Hann var
ekki borinn til metorða eða
mannvirðinga. Þvert á móti
þurfti hann að vinna til trausts-
ins. Sjálfstæðismenn völdu
Magnús Jónsson til margra og
mikilla trúnaðarstarfa. Ungir
sjálfstæðismenn kusu hann til
forystu í samtökum sínum. Um
árabil gegndi hann því vanda-
sama starfi að veita forstöðu
skrifstofu Sjálfstæðisflokksins.
Þar hélt hann um innviði
flokksstarfsins. Hann var fyrst
kjörinn til setu á Alþingi fyrir
Eyfirðinga og síðar fyrir Norð-
urlandskjördæmi eystra.
Síðari hluta viðreisnartíma-
bilsins var Magnús Jónsson fjár-
málaráðherra I ráðuneytum
þeirra Bjarna Benediktssonar og
Jóhanns Hafsteins. Samherjar
Magnúsar Jónssonar mátu festu
hans og aðhaldssemi við stjórn
ríkisfjármálanna. Hitt sýnir þó
miklu fremur yfirburði hans í
þessu erfiða og ábyrgðarmikla
starfi að almennt er vísað til
starfa hans þar til fyrirmyndar
og eftirbreytni. Á erfiðum tím-
um hefur örugglega reynt á
þrautseigju og æðruleysi í fjár-
málaráðuneytinu. Árangur
starfsins á þessum árum sýnir,
að hann hefur ráðið yfir þessum
eiginleikum.
Eftir að Geir Hallgrímsson
tók við formennsku í Sjálfstæð-
isfiokknum kusu sjálfstæðis-
menn Magnús Jónsson til þess
að gegna starfi varaformanns.
Það var óumdeild ákvörðun og
rökrétt framhald þess, sem á
undan var gengið. Sjálfstæðis-
menn væntu áfram mikils af
Magnúsi Jónssyni. Áður en varði
gripu örlögin þó í taumana. í
einni svipan var heilsu hans
þannig komið, að hann gat ekki
deilt starfskröftum sínum og
varð því að hverfa frá störfum á
vettvangi stjórnmálanna. Það
var áfall fyrir Sjálfstæðisflokk-
inn.
Störf Magnúsar Jónssonar
marka djúp spor I sögu Sjálf-
stæðisflokksins og hann áorkaði
miklu í þágu þjóðar sinnar. Um
langan tíma var helstu málum
þessa lands ekki ráðið án þess að
hann kæmi við sögu. Sjálfstæð-
ismenn sakna þessa mæta og
merka forystumanns. Hinsta
kveðja er helguð minningu um
gifturíka starfsævi og góðan
dreng.
Á þessum degi er hugur og
samúð sjálfstæðismanna hjá frú
Ingibjörgu, börnum þeirra og
fjölskyldu.
Þorsteinn Pálsson